Umboðslaus ríkisstjórn sækir um inngöngu í ESB

Ríkisstjórn Íslands sótti um inngöngu í Evrópusambandið í morgun í kjölfar þess að Alþingi samþykkti í gær með naumum meirihluta að heimila slíka umsókn. Ljóst er að stjórnarflokkarnir standa ekki heilir á bak við málið eins og fyrirfram var vitað og þurfti að leita til stjórnarandstöðunnar til þess að koma því í gegnum þingið. Ennfremur er fyrirliggjandi að flestir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem kusu með umsókninni eru sem fyrr andvígir inngöngu í sambandið en létu undan hótunum um stjórnarslit ef málið yrði fellt.

Ljóst er að ríkisstjórnin er umboðslaus í málinu. Ólíkt forystu Samfylkingarinnar hafa forystumenn vinstri-grænna enga heimild frá kjósendum flokksins eða úr stefnu hans til þess að beita sér fyrir umsókn um inngöngu í Evrópusambandið. Stjórnin hefði getað öðlast umboð til þeirrar vegferðar ef hún hefði verið reiðubúin að styðja þingsályktunartillögu um að þjóðin fengi að kjósa um það hvort sótt yrði um inngöngu í sambandið. Þ.e. ef umsókn hefði hlotið samþykki. Ríkisstjórnin kaus þvert á móti að berjast af krafti gegn tillögunni.

Ríkisstjórnin kaus einnig að beita sér gegn tillögu þess efnis að þjóðaratkvæði um hugsanlegan samning um inngöngu í Evrópusambandið yrði bindandi. Þ.e. að þjóðin ætti síðasta orðið í málinu og þingið og ríkisstjórnin væru bundin af niðurstöðu hennar. Niðurstaðan er sú að aðeins verður haldið svokallað ráðgefandi þjóðaratkvæði ef til þess kemur sem í raun er ekki annað en skoðanakönnun. Þingið og ríkisstjórnin munu hafa síðasta orðið um það hvort gengið verður í sambandið eða ekki en ekki þjóðin.