Ungir framsóknarmenn vilja að ESB-umsóknin verði dregin til baka

Tvö félög ungra framsóknarmanna, Eysteinn félag ungra framsóknarmanna á Austurlandi og Félag ungra framsóknarmanna í Skagafirði, sendu nýverið frá sér ályktanir þar sem skorað er á ríkisstjórn Íslands að draga þegar til baka umsókn hennar um inngöngu í Evrópusambandið. Þá eru þingmenn og aðrir forystumenn Framsóknarflokksins hvattir til þess að berjast af einurð gegn inngöngu í sambandið. Ályktanirnar fara hér á eftir.

Stjórn Eysteins – Félags ungra framsóknarmanna á Austurlandi skorar á ríkisstjórn Íslands að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og draga umsókn Íslands jafnframt tilbaka.

Greinagerð:
Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið eru ótímabærar og engar forsendur fyrir viðræðunum. Aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi hafa gífurleg áhrif á sjávarútveg og landbúnað og þar af leiðandi landsbyggðina alla í heild sinni. Einnig má benda á að vægi Íslands innan Evrópusambandsins yrði mjög lítið vegna smæðar Íslands gagnvart stærri þjóðum innan Evrópusambandsins. Eins og fram hefur komið eru ekki miklar líkur á að einhverskonar sérsamningar náist fyrir Íslendinga frekar en fyrir aðrar þjóðir og þar af leiðandi eru allar forsendur er komu fram í ályktun Framsóknarflokksins um Evrópusambandsaðild á síðasta flokksþingi brostnar. Hvetur því Eysteinn þingmenn flokksins til að sýna samstöðu og einurð í andstöðu sinni við aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Eysteinn hvetur en fremur unga framsóknarmenn til að einbeita sér að þeim brýnu verkefnum sem krefjast úrlausnar á Íslandi í dag.

Stjórn félags ungra framsóknarmanna í skagafirði skorar á ríkistjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna að draga umsókn Íslands um aðild að ESB til baka strax og lágmarka með því þann mikla kostnað og tíma sem samningaferlið fer. Það er öllum ljóst að þær undanþágur sem ESB myndi veita Íslandi eru eingöngu tímabundnar. Við hvetjum því ríkistjórnina til þess að nota þessa miklu fjármuni  til að standa vörð um mennta- og heilbrigðismál. Ríkistjórnin ætti að einbeita sér að skuldavanda heimila  og fyrirtækja á Íslandi frekar en að einblína á þessar viðræður sem munu engu skila Íslenskri þjóð.