Úrslit kosninganna enginn sigur fyrir Evrópusambandssinna

Ljóst er að niðurstöður kosninganna sem fram fóru í gær eru enginn sigur fyrir málstað Evrópusambandssinna eins og sumir hafa viljað meina og þ.m.t. ýmsir fjölmiðlamenn. Eini flokkurinn sem gerði út á inngöngu í Evrópusambandið og helgaði henni að auki nánast alla sína kosningabaráttu, Samfylkingin, fékk aðeins 29,8% fylgi sem er minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2003. Það er ennfremur minna en Samfylkingin fékk í kosningunum fyrir tveimur árum ef tekið er inn í myndina fylgi við Íslandshreyfingarinnar þá, en hún varð sem kunnugt er hluti af Samfylkingunni fyrr á þessu ári.

Stærsti sigurvegari kosninganna er tvímælalaust Vinstrihreyfingin – grænt framboð eins og búast mátti við. Sá flokkur er eins og þekkt er andvígur inngöngu í Evrópusambandið. Sjálfstæðisflokkurinn, sem einnig hafnar inngöngu, tapaði hins vegar miklu fylgi en ljóst er að ástæður þess eru síst stefna flokksins í Evrópumálum. Það er því ljóst að mikinn vilja og ímyndunarafl þarf til þess að túlka úrslit kosninganna sem sigur fyrir þá sem vilja Ísland inn í Evrópusambandið sem allra fyrst. Miklu nær væri að túlka þau sem sigur andstæðinga inngöngu í sambandið ef eitthvað.