Vaxandi andstaða í Noregi við inngöngu í ESB

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun fyrir norsku sjónvarpsstöðina TV2 hefur andstaða við inngöngu Noregs í Evrópusambandið aukist mjög síðan í febrúar. Samkvæmt könnuninni nú eru 55,8% andvíg inngöngu í sambandið og hefur andstaðan aukist um 6,5% síðan í síðasta mánuði. Stuðningur við inngöngu er nú 30,6% en var 39,1% í febrúar.

“Þetta snýst ekki um það hvað við græðum eða töpum á inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Fólk sér að sambandið býr við gríðarlegan lýðræðishalla og að litlu ríkin verða þar undir. Elítustýrt Evrópusamband er hreint ekki lausnin á þeim vandamálum sem venjulegt fólk í Evrópu glímir við – varðandi atvinnumál, efnahagsmál og framtíðarsýn fyrir sig og börnin sín,” er haft eftir Heming Olausen, leiðtoga norsku hreyfingarinnar Nei til EU.

Heimildir:
EU-motstanderne i vekst (Tv2nyhetene.no 23/03/10)
Andstaða við ESB vex í Noregi (Mbl.is 23/03/10)
Norðmenn vilja ekki aðild að ESB (Rúv.is 23/03/10)