“Við gleymum því stundum að fullveldið er fjöreggið okkar” – segir Þórhallur Heimisson

Í pistli sínum á pressan.is segir Þórhallur meðal annars:

“Sigur Íslands í deilunni við Breta, Hollendinga og Efnahagsbandalagið um Icesave- reikningana, minnir okkur á hversu litlu getur oft munað að við glötum frelsi okkar og fullveldi. Í þessu tilviki var það einn maður sem stòð á mòti kröfunni um fullveldisafsal, forsetinn, og gaf þannig þjòðinni tækifæri til að rísa gegn misvitrum stjòrnmálamönnum og erlendu valdi. Því ef Icesave- samningarnir hefðu verið keyrðir í gegn, hefðum við glatað fjárhagslegu fullveldi.

Við gleymum því stundum að fullveldið er fjöreggið okkar. Fullveldið glataðist fyrst á Þingvöllum árið 1262 eftir upplausnarár. Þá fólum við erlendu valdi að gæti fjöreggsins. Eftir það dróg hægt og bítandi úr okkur lífskraftinn, öld eftir öld. Auðvitað var einnig um að kenna erfiðri náttúru, hörðum vetrum, eldgosum og pestum. En af því að fjöreggið var var ekki á okkar eigin hendi vorum við varnarlítil og úrræðalaus. Og lífskraftinn skorti.

Það var ekki fyrr en á 19. öld að menn fóru almennilega að gera sér grein fyrir þessu. Þá var gangan löng og erfið enda við orðin hluti af danska ríkinu að mati þeirra sem fólu fjöreggið í höndum hins erlenda valds. En þegar okkur tókst að fá það á ný í hendur óx okkur afl, fyrst árið 1918, jafnvel í kreppunni 1930 og með lýðveldinu árið 1944. Auðvitað gekk á ýmsu, sigrum og ósigrum, en grunndvöllur framfara alla tuttugustu öldina var fjöreggið okkar sem við höfðum endurheimt, fullveldið og frelsið til að stýra eigin málum. Með fullveldið að vopni færðum við út landhelgina gegn herveldum Evrópu gömlu, beisluðum orkulindirnar, efldum fræðslu og skóla, heilbrigði og atvinnu.”

Pistilinn í heild sinni má finna hér.