Viðræður um inngöngu í ESB hefjast ekki fyrr en í júní

Haft var eftir ráðherra stækkunarmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Štefan Füle, á vefsíðu Ríkisútvarpsins í gær að hann gerði ráð fyrir því að viðræður um inngöngu Íslands í sambandið (sem eru hluti yfirstandandi aðlögunarferlis að því) hæfust í fyrsta lagi í júní í sumar. Vonir ríkisstjórnarinnar voru að viðræðurnar gætu hafist í þessum mánuði á fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins en ekki verður af því þar sem þýska þingið þarf lengri tíma til þess að fara yfir umsókn íslenskra stjórnvalda.

Miklar áhyggjur eru til staðar hjá ráðamönnum innan ESB af andstöðu Íslendinga við inngöngu í sambandið og botna ýmsir ekkert í því hvers vegna íslensk stjórnvöld voru að sækja um inngöngu þegar stuðningur við hana er ekki til staðar. Skiljanlega er sambandið sett í erfiða stöðu í þessum efnum enda lítur það ekki vel út á alþjóðavettvangi að hefja viðræður um inngöngu ríkis sem öllum má vera ljóst a hefur ekki áhuga á henni.

Heimildir:
Gerir ráð fyrir aðildarviðræðum (Rúv.is 25/03/10)