Viðurkennir að yfirráðin yfir fiskimiðunum töpuðust

Hjörtur J. Guðmundsson vakti athygli á því á bloggsíðu sinni í gær að Össur Skarphéðinsson hefði séð sérstaka ástæðu til þess að taka það skýrt fram í Stokkhólmi þegar hann afhenti umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið að Íslendingar væru ekki tilbúnir að deila fiskistofnum ef af inngöngu í sambandið yrði. Sömuleiðis að hann teldi það verða erfiðast að ræða um sjávarútvegsmálin í viðræðum við ráðamenn í Brussel.

Síðan segir Hjörtur: „En hvers vegna þurfti Össur eiginlega að taka þetta sérstaklega fram? Hann hefur verið talsmaður þess um árabil ásamt öðrum Evrópusambandssinnum að við þyrftum engar áhyggjur að hafa af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, hún hentaði okkur vel og við héldum öllum aflaheimildum við Ísland vegna svokallaðrar sögulegrar reynslu. Þetta væri alveg kristaltært.“

Hjörtur bendir því næst á að raunveruleikinn sé auðvitað allt annar og það hafi Össur og félagar alltaf vitað. En það hafi hins vegar ekki hentað þeim að viðurkenna það fyrr af pólitískum ástæðum.

Heimildir:
Össur viðurkennir að innganga í ESB þýddi að yfirráðin yfir fiskimiðunum töpuðust (Sveiflan.blog.is 28/07/09)
Iceland ‘unwilling to share fishing resources’ in EU (Euobserver.com 23/07/09)