„Krónan er ykkar styrkur“

„Ég veit að það hljómar ekki vel á Íslandi þessa dagana en krónan er engu að síður ykkar styrkur í efnahagsástandi eins og nú ríkir. Danska krónan hjálpaði okkur ekki í kreppunni á sínum tíma,” sagði Hermann Oskarsson, hagstofustjóri Færeyja, á morgunverðarfundi sem fram fór á Grand Hótel í gær. „Hvað getum við lært af Færeyingum?“ var yfirskrift fundarins, þar sem Hermann og Gunvör Balle, aðalræðismaður Færeyja á Íslandi, ræddu opinskátt um kreppuna sem skall á Færeyjum upp úr 1990. Í henni dróst þjóðarframleiðsla saman um þriðjung, 12% íbúanna flutti á brott og atvinnuleysi fór yfir 30% þegar mest var.

Bæði Hermann og Gunvör voru sammála í greiningu sinni á orsökum kreppunnar í Færeyjum; Langvarandi ofneysla almennings, pólitísk óstjórn og inngrip í efnahagsmál og andvaraleysi eftirlitsaðila. Hermann sagði fólksflóttann hafa verið dýrasta gjaldið sem eyjarnar hefðu greitt. Hann sagði einnig að ef það væri eitthvað eitt sem Íslendingar gætu af færeysku kreppunni lært væri það að sporna gegn því með öllum ráðum að fólk flyttist úr landi.

Heimild:
„Krónan er ykkar styrkur“ (Líú.is 18/11/09)