„Viðvörunarljósin gegn aðild Íslands að ESB loga skært“

„Viðvörunarljósin gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu loga skært. Ímyndið ykkur stöðu ykkar innan ESB ef sambandið ákvæði einn daginn að nýta fiskistofnana ykkar í þágu aðildarríkjanna allra. Hugmyndir ykkar um fullveldisrétt myndu þá reynast léttvægar. Þar er reynsla Íra frá því í síðustu viku gott dæmi,“ segir Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, í samtali við Útveginn.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi fyrir helgina út rökstudda álitsgerð þar sem Írum er skipað að breyta löggjöf sinni þannig að hægt sé að nýta  olíuauðlindir þeirra í þágu aðildarríkjanna ef nauðsyn krefur til. Írsk stjórnvöld hafa tvo mánuði til að bregðast við, að öðrum kosti verður þeim stefnt fyrir dómstól Evrópusambandsins. Stjórn sambandsins er mikið í mun að tryggja öryggi þess í orkumálum, ekki síst í ljósi þess hve óþægilega háð það er orðið Rússlandi, sem sér því fyrir fjórðungi af gasþörf aðildarríkjanna.

Daily Express birti fyrir nokkrum vikum frétt um það sem blaðið kallaði „leynilega valdheimild“ í Lissabonsáttmálanum til að komast yfir olíu- og gaslindir Breta og Hollendinga. Fréttinni, sem m.a.  birtist m.a. á Stöð 2 og visir.is, var harðlega mótmælt sem rangri af Percy Westerlund, sendiherra og yfirmanni fastanefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Noregi og Íslandi.

Daniel Hannan segir það fullkomlega ljóst í sínum huga, að samkvæmt Lissabonsáttmálanum hafi Evrópusambandið lagasetningarvald sem geri því kleift að yfirtaka orkuauðlindir einstakra aðildarríkja til að tryggja heildarhagsmuni.  Í sáttmálanum er ákvæði 176a, (194. gr. TFEU) sem kveður á um að hlutverk sambandsins sé m.a. að tryggja framboð orku (e. „ensure security of energy supply in the Union.“)

„Evrópusambandið hefur þennan rétt og lög þess eru æðri lögum einstakra aðildarríkja eins og dæmið frá Írlandi sýnir vel. Íslendingar, sem eiga svo mikið undir fiskveiðiauðlindum sínum, ættu að hugleiða þetta alvarlega. Ef þið gerist aðilar að ESB er valdið úr ykkar höndum,“ segir Hannan.

Heimild:
„Viðvörunarljósin gegn aðild Íslands að ESB loga skært“ (Líú.is 04/02/09)