Getum við rekið þá?

Krafan um að Ísland verði innlimað í Evrópusambandið er í raun krafa um að lýðræðislega kjörnum fulltrúum íslenzku þjóðarinnar verði skipt út fyrir embættismenn sambandsins sem enginn hefur nokkurn tímann kosið og sem hafa fyrir vikið hvorki lýðræðislegt aðhald né umboð frá einum eða neinum. Og það umboð hefðu þeir allra sízt frá okkur Íslendingum enda grunnreglan innan Evrópusambandsins að vægi einstakra aðildarríkja innan þess, og þar með allir möguleikar þeirra á áhrifum, fari fyrst og síðast eftir því hversu fjölmenn þau eru. Sá mælikvarði hentaði hagsmunum okkar Íslendinga eðli málsins samkvæmt seint. Lýsandi dæmi um stöðu okkar innan stjórnkerfis Evrópusambandsins, yrði af aðild einhvern tímann, er sú staðreynd að við fengjum í besta falli fimm fulltrúa á þing sambandsins en þar sitja í dag 785 fulltrúar. Vægi okkar yrði m.ö.o. lítið sem ekkert.

Mér er til mikils efs að þetta sé eitthvað sem einlægir lýðræðissinnar geta stutt. Kjörnir fulltrúar okkar kunna að fara vel eða illa með það vald sem við treystum þeim fyrir en spurningin er þessi: Getum við rekið þá sem fara með þetta vald? Getum við rekið þá sem stjórna landinu okkar? Þetta er alger grundvallarspurning þegar rætt er um lýðræðið. Í dag getum við það þótt það séu vafalaust skiptar skoðanir um það fyrirkomulag sem til staðar er í þeim efnum. En ef við hins vegar yrðum innlimuð í Evrópusambandið gætum við það ekki. Hvað ætluðum við að gera ef okkur líkaði ekki einhver ákvörðun sem einhver t.a.m. í framkvæmdastjórn sambandsins tæki? Það væri ekki hægt að láta þann einstakling taka pokann sinn í samræmi við leikreglur lýðræðisins. Við hefðum einfaldlega ekkert yfir honum að segja.

Litlaus kosningabarátta og áhrifalaust þing
Fyrir nokkrum árum upplifði ég gott dæmi um þessa þróun þegar ég var staddur í Danmörku á sama tíma og þar fóru fram þingkosningar. Ég var mjög hissa á því hversu litlaus mér þótti kosningabaráttan og lítt spennandi miðað við það sem ég þekkti heima á Íslandi. Eftir að kosningunum var lokið spurði ég þarlendan fjölmiðlamann, sem er mjög vel að sér um dönsk stjórnmál, hvort þessi upplifun mín ætti við rök að styðjast. Hann staðfesti að þetta væri alveg rétt og að ástæðan fyrir þessu væri mjög einföld. Svo gríðarlegt vald hefði í gegnum árin verið flutt frá Danmörku til stofnana Evrópusambandsins að mjög lítið væri einfaldlega eftir fyrir danska stjórnmálamenn að takast á um. Og það vald sem þó væri eftir í Danmörku minnkaði stöðugt rétt eins og í öðrum aðildarríkjum sambandsins.

Danska þjóðþingið lét einmitt vinna ítarlega rannsókn fyrir sig fyrir fáeinum árum vegna áhyggja þess af því að það væri að verða meira eða minna áhrifalaust vegna aðildar Danmerkur að Evrópusambandinu. Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar árið 2003 og hafði hún þá staðið yfir í sex ár með þátttöku 150 fræðimanna. Meðal þess sem kom fram í niðurstöðunum er að aðildin að Evrópusambandinu hafi sett gríðarlegan þrýsting á fullveldi þingsins. Fá svið dansks þjóðlífs væru orðið undanþegin lagasetningu frá sambandinu og sífellt væri erfiðara fyrir þingið að hafa einhver áhrif á hana. Traust dansks almennings á Evrópusambandinu væri lítið og stjórnkerfi þess þætti ekki mjög lýðræðislegt. Ekki sízt þar sem danskir kjósendur hefðu afskaplega litla möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar væru af embættismönnum sambandsins.

Fyrirlitning á lýðræðinu
Ekki bætir úr skák að innan Evrópusambandsins hefur gætt vaxandi lítilsvirðingar gagnvart lýðræðinu á undanförnum árum. Bezta birtingarmynd þessa eru viðbrögð sambandsins við því þegar þjóðaratkvæðagreiðslur um samrunaskref innan þess hafa ekki skilað þeim niðurstöðum sem hugnast hafa ráðamönnum í Brussel. Nýjasta dæmið um slíkt er höfnun írskra kjósenda á stjórnarskrá Evrópusambandsins sem síðar var gefið nafnið Lissabon-sáttmálinn í misheppnaðri tilraun til þess að telja fólki trú um að eitthvað nýtt væri á ferðinni. Nú eiga Írarnir að kjósa aftur um málið á næsta ári samkvæmt nýjustu fréttum í samræmi við þá vinnureglu Evrópusambandsins að kosið sé aftur og aftur um sömu hlutina þar til niðurstaða fæst sem er ráðamönnum sambandsins að skapi. Og þá er aldrei kosið aftur.

Það hefur nefnilega komið berlega í ljós að frá sjónarhóli Evrópusambandsins er vilji kjósenda í slíkum atkvæðagreiðslum aðeins gjaldgengur ef hann er í samræmi við vilja ráðamanna í Brussel. Ef meirihluti kjósenda tekur upp á því að komast að annarri niðurstöðu er hún höfð að engu og allt reynt til þess að komast í kringum hana. Nokkuð sem óneitanlega minnir á þá tilhneigingu ófárra íslenzkra Evrópusambandssinna að telja þá, sem ekki komast að sömu niðurstöðu og þeir sjálfir í Evrópumálunum, bara alls ekkert vera að ræða málin og að skoðanir þeirra séu þar með engan veginn gjaldgengar í umræðunni.

Það er því deginum ljósara að ofan á allt annað væri aðild að Evrópusambandinu ekki skref fram á við í lýðræðislegu tilliti heldur þvert á móti stórt skref aftur á bak. Evrópusambandsaðild þýddi í reynd endalok íslenzks lýðræðis.

Hjörtur J. Guðmundsson,
stjórnarmaður í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 3. janúar 2009)