Matvælaverð hækkar í Póllandi í kjölfar inngöngu í ESB

Matvælaverð hefur hækkað verulega í Póllandi eftir að landið varð aðili að Evrópusambandinu þann 1. maí sl. Þar með er ótti margra Pólverja, sem höfðu efasemdir um aðild að sambandinu, að verða að veruleika. Kjúklinga- og nautakjöt hefur hækkað um meira en fimmtung síðan aðildin tók gildi, smjör um tæp 14%, bananar um 18%, hrísgrjón um 27% og svínakjöt um tæp tíu prósent á sama tíma svo dæmi séu tekin. Hækkanirnar hafa aukið verulega á verðbólguna í Póllandi og hefur pólski seðlabankinn brugðist við með því að hækka vexti um hálft prósentustig.

Verðhækkanirnar hafa komið verst niður á þeim sem minnstar tekjur hafa á milli handanna, svo sem öryrkjum og öldruðum, enda hafa tekjur ekki hækkað til samræmis við matvælaverðið. „Áður keypti ég alltaf kjúkling og við fengum okkur nautakjöt einu sinni í viku. Nú er ég hætt að kaupa nautakjöt,“ sagði eftirlaunaþeginn Elzbieta Sulimierska í viðtali við blaðamann Associated Press fréttastofunnar.

Ástæður verðhækkananna eru einkum tvær. Í fyrsta lagi auknir innflutningstollar sem tóku gildi í Póllandi við aðildina að Evrópusambandinu og hafa hækkað verðlag verulega á innfluttum vörum frá löndum utan sambandsins, s.s. banönum og hrísgrjónum, og í annan stað aukin eftirspurn frá öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins eftir ódýrum vörum í Póllandi, þá einkum frá Þýskalandi.

Hækkanirnar hafa komið hagfræðingum í Póllandi í opna skjöldu. „Við gerðum ekki ráð fyrir þessari auknu eftirspurn, þeirri staðreynd að slík eftirspurn yrði frá Þjóðverjum,“ sagði Leszek Balcerowicz, bankastjóri pólska seðlabankans. Margir Pólverjar höfðu áhyggjur af því að aðild að Evrópusambandinu myndi hafa í för með sér miklar verðhækkanir en stuðningsmenn aðildar sögðu slíkt af og frá.

Heimildir:
Fréttablaðið 10/07/04
EUobserver 12/07/04