Forseti Tékklands segir Stjórnarskrá ESB vera ógn við lýðræði í Evrópu

Vaclav Klaus, forseti Tékklands, lét þau orð falla þann 2. desember sl. að fyrirhuguð Stjórnarskrá Evrópusambandsins væri ógn við lýðræði í Evrópu og gagnrýndi hann tékknesk stjórnvöld harðlega fyrir að hafa lýst yfir stuðningi við stjórnarskrána án þess að búið hafi verið að ræða málið í þaula. Hefur Klaus ítrekað gagnrýnt stjórnarskrána svo og tékknesk stjórnvöld fyrir að lýsa stuðningi við hana án nokkurrar umræðu.

„Ég hef á tilfinningunni að skref á borð við stjórnarskrána séu ógn við lýðræði, frelsi og grósku í Evrópu,“ sagði Klaus í viðtali við tékkneska útvarpið. „Þetta veldur mér miklum áhyggjum vegna þess að okkur hefur í gegnum tíðina stafað hætta af allskonar ismum og nú ógnar okkur það sem ég myndi nefna Evrópuisma sem birtist í stjórnarskránni.“

Hann sagði að með því að færa vald í mörgum efnum til miðstöðvar fjarri almenningi og með „óhóflegri samræmingu og stöðlun“ væri kjarnanum í því sem væri evrópskt ógnað.

Heimild:
Forseti Tékklands segir stjórnarskrá ESB vera ógn við lýðræði í álfunni (Mbl.is 02/12/04)