Sérstakt stjórnasýslusvæði algerlega óraunhæf hugmynd að sögn Fischlers

Íslendingar geta ekki gert ráð fyrir því að fá að stjórna áfram fiskveiðum við Ísland gangi þeir í Evrópusambandið og sama gildir um Norðmenn. Þetta sagði Franz Fischler, fyrrverandi sjávarútvegsstjóri sambandsins, í viðtali við norska blaðið Nationen stuttu áður en hann lét af embætti fyrir síðustu jól. Að sögn blaðsins gerði Fischler þar með að litlu vonir íslenskra og norskra jafnaðarmanna um að fá það í gegn að löndin gætu fengið einhvers konar sérstakt stjórnsýslusvæði viðurkennt í lögsögum sínum kæmi til aðildar þeirra að Evrópusambandinu.

Fischler sagði að það yrði einfaldlega órökrétt af hálfu Evrópusambandsins að samþykkja að Íslendingar héldu yfirráðum sínum yfir miðunum við Íslands, og að Norðmenn héldu yfirráðum yfir sinni lögsögu, kæmi til aðildar landanna að sambandinu. „Svo lengi sem við höfum sameiginlega sjávarútvegsstefnu [innan Evrópusambandsins] verða allir að virða sömu reglurnar,“ sagði Fischler að lokum. Einungis yrði hugsanlega í boði ákveðinn tímabundinn aðlögunartími.

Hér er að vitanlega ekki neitt nýtt á ferðinni heldur ítrekun á því sem hver forystumaðurinn innan Evrópusambandsins á fætur öðrum hefur haldið fram á undanförnum árum. Nægir þar að nefna Franz Fischler og Ben Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Breta.

Heimild:
Får ikke forvalte fisken (Nrk.no 27/09/04)