Bolkestein lýsir efasemdum um að evran eigi framtíð fyrir sér

Frits Bolkestein, fyrrverandi yfirmaður innri markaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, lýsti efasemdum sínum um að evran ætti framtíð fyrir sér til lengri tíma litið í ræðu sem hann hélt á fundi í London með hollenskum fyrirtækjastjórnendum sl. miðvikudag (26. janúar). Sagðist hann telja að evran myndi standa frammi fyrir mikilli prófraun eftir um áratug þegar líklegt væri að ýmsar aðildarþjóðir Evrópusambandsins stæðu frammi fyrir því að þurfa að standa undir langtum meiri lífeyrisskuldbindingum en til þessa vegna hækkandi meðalaldurs þeirra.

Að mati Bolkestein munu þau ríki sem þannig er ástatt um neyðast vegna pólitísks þrýstings til að taka fleiri lán og auka fjárlagahalla sinn sem aftur leiði til alvarlegra afleiðinga fyrir vexti og verðbólgu. Ekki bætti úr skák að aðildarríki evrusvæðisins, aðallega þau stærri, virtu að vettugi reglur svæðisins um lágmarksfjárlagahalla.

Heimild:
Ex-commissioner questions survival of euro (EUobserver.com 26/01/06)

Merkel kvartar yfir reglugerðafargani Evrópusambandsins

Í ræðu á fundi World Economic Forum sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að það yrði forgangsverkefni þýskra stjórnvalda að skera niður reglugerðafargan Evrópusambandsins þegar þau tækju við forsætinu innan sambandsins 2007. Benti hún í því sambandi m.a. á að um 6% af veltu minni og meðalstórra fyrirtækja í Þýskalandi færi í kostnað vegna skriffinsku.

Í sjálfu sér eru þetta þó ekki ný tíðindi enda hefur hvert aðildarríki Evrópusambandsins á fætur öðru haft það sem eitt aðalmarkmið sitt á undanförnum árum að koma böndum á reglugerðafargan sambandsins þegar þau hafa haft forsætið innan þess. En þrátt fyrir það hefur ekki annað gerst en að reglugerðafarganið hefur aukist jafnt og þétt með hverju árinu. Sama er að segja um framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en allt fyrir ekki. Svo virðist sem um einhvers konar vítahring sé að ræða.

Stjórnmálaskýrendur hafa sagt að þetta sé út af fyrir sig ekkert einkennilegt því svo virðist sem eina ráðið sem embættismenn Evrópusambandsins hafi til að leysa hvers kyns vandamál sem upp koma sé að setja fleiri reglugerðir. Þetta síaukna reglugerðafargan er síðan að kosta aðildarríki sambandsins stjarnfræðilegar upphæðir á ári hverju. Talið er að þau gætu sparað sér að meðaltali allt að 12% af landframleiðslu á ári ef reglugerðafarganið væri sambærilegt við það sem gerist í Bandaríkjunum.

Það merkilega er síðan að forystumenn íslenskra Evrópusambandssinna þræta enn fyrir það að Evrópusambandið sé skriffinskubákn þó forystumenn sambandsins sjálfs séu löngu farnir að viðurkenna það.

Heimild:
German EU presidency to fight red tape, says Merkel (EUobserver.com 26/01/06)

Fjárfesta í auknum mæli í ríkjum utan ESB vegna reglugerðafargans

Framsæknustu fyrirtækin í löndum Evrópusambandsins eru í auknum mæli að snúa baki við innri markaði sambandsins og beina fjárfestingum sínum til annarra landa og markaðssvæða, einkum til Bandaríkjanna og Asíuríkja, vegna reglugerðafargans. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og birt sl. fimmtudag (20. janúar).

Þetta er kannski ekki síst athyglisvert í ljósi þess að íslenskir Evrópusambandssinnar hafa ítrekað harðneitað því að Evrópusambandið væri reglugerðabákn. Það er þó talsvert síðan forystumenn sambandsins fóru að gangast við þeirri staðreynd.

Heimildir:
Red tape ‘turning best firms away from Europe’ (Telegraph.co.uk 21/01/06)
Evrópsk fyrirtæki farin að forðast fjárfestingar í Evrópu (Mbl.is 25/01/06)

Jack Straw segir Ísland ekki hafa neinn hag af ESB-aðild

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, hitti starfsbróður sinn, Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, í breska utanríkisráðuneytinu í dag. Á fundinum ræddu þeir um samskipti Íslands og Bretlands, Evrópusambandið, auk almennrar umræðu um alþjóðleg málefni.

Geir sagði það hafa vakið athygli sína að Straw telur að Íslendingar muni ekki bera neinn sérstakan hag af því að ganga í Evrópusambandið. „Það fannst mér athyglisvert að hann hafi hugsað eitthvað um það,“ segir Geir og vísaði til orða Straws um að „okkur gengi bara það vel utan bandalagsins að það væri engin nauðsyn á því. Fyrir utan allan þann kostnað og þá byrði sem fylgja aðildinni.“

Heimild:
Vel fór á með utanríkisráðherrum Íslands og Bretlands (Mbl.is 18/01/06)