Segist ekki geta mælt með aðild að ESB eða upptöku evrunnar

Brian Prime, forseti Evrópusamtaka smáfyrirtækja, hitti Davíð Oddsson seðlabankastjóra og fv. forsætisráðherra að máli í heimsókn sinni til Íslands í síðustu viku. Prime sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki geta mælt með því við Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Skriffinnskan innan sambandsins væri orðin slík og pólitíkin allsráðandi að ekkert bólaði á framförum fyrirtækjum til hagsbóta.

Prime sagði að t.a.m. gengi ekkert hjá Evrópusambandinu að framfylgja Lissabon-áætluninni sem sett var í gang árið 2000 og var ætlað að gera sambandið að samkeppnishæfasta umhverfi heimsins fyrir árið 2010. Nú væru sex ár liðin en menn kæmust ekkert áfram fyrir reglugerðarfargani. Við þær aðstæður gætu fyrirtæki innan Evrópusambandsins ekki keppt við önnur markaðssvæði í heiminum.

Spurður hvort Íslendingar ættu að taka upp evruna sagði Prime það algjöran óþarfa. Á meðan flest virtist ganga Íslandi í hag væri hvorki ástæða til að taka upp evruna né óska eftir aðild hjá Evrópusambandinu. Það væri svipað og að senda íslenskan skíðagöngumann á vetrarólympíuleika með sandpoka á bakinu.

“Ef þið gangið í Evrópusambandið þá munu íslensk fyrirtæki fá yfir sig haug af reglugerðum sem erfitt er að komast upp úr, ekki síst fyrir smáfyrirtækin. Í Evrópu er sú stefna við lýði að ef þú ert með fótbrotna manneskju þá verður að brjóta leggina á hinum svo allir búi við sömu fötlunina,” sagði Prime.

Hann sagði íslenskan sjávarútveg standa vel að vígi í samanburði við önnur lönd og hið sama mætti ekki gerast hér og hefði gerst í Bretlandi. Þar væri sjávarútvegurinn í rúst vegna fiskveiðistefnu Evrópusambandsins.

Heimild:
ESB ætti að framfylgja stefnu Íslendinga (Mbl.is 27/02/06)

Íbúar Álandseyja orðnir langþreyttir á yfirgangi og afskiptasemi ESB

Íbúar Álandseyja, sem eru sjálfstjórnarsvæði innan Finnlands, eru orðnir langþreyttir á endalausum yfirgangi og afskiptasemi Evrópusambandsins af málum sem þeir áttu að fá að ráða sjálfir þegar þeir gengu í sambandið ásamt Finnlandi árið 1994. Sama er að segja um miðstýringaráráttu Evrópusambandsins og tilraunir til að samræma ótrúlegustu hluti innan þess, eitthvað sem íbúum eyjanna þykir engan veginn henta sínum hagsmunum. Roger Norlund, forsætisráðherra Álandseyja, segir eyjarnar finna staðbundnar lausnir við vandamálum sínum, en Evrópusambandið sé byggt á heildarlausnum og samræmingu fyrir öll aðildarríki sambandsins. Telja sumir að svo geti jafnvel farið að íbúar Álandseyja ákveði á endanum að segja skilið við Evrópusambandið af þessum sökum.

Heimildir:
Crushed by EU powers (Telegraph 15/02/06)
Tiny island that’s ready to stop Europe in its tracks (Telegraph 15/02/06)