Mikill meirihluti danskrar lagasetningar kemur frá Evrópusambandinu

Rannsóknir Marlene Wind, lektors við Kaupmannahafnar-háskóla, benda til þess að mikill meirihluti danskrar lagasetningar komi frá Evrópusambandinu og eigi þannig ekki uppruna sinn á danska þjóðþinginu. 80% nýrra lagagerða um fjármál og efnahagsmál á árunum 2000-2001 voru settar fyrir tilstuðlan reglugerða frá Evrópusambandinu og sama á við um 77% lagagerða um umhverfis- og orkumál, viðskipti og rannsóknir og helmingur allra lagagerða um heilbrigðismál svo fáein dæmi séu tekin. Niðurstöður rannsóknarinnar er að finna í nýrri bók Wind sem heitir á frummálinu Den europæiske forfatningskamp.

Haustið 2003 var gefin út ítarleg skýrsla 150 virtra danskra fræðimanna sem unnin var fyrir danska þjóðþingið um stöðu þess með tilliti til aðildar Danmerkur að Evrópusambandinu. Tilefnið voru áhyggjur þingsins af því að völd þess færðust í stöðugt meira mæli til stofnana sambandsins sem gæti endað með nær algeru áhrifaleysi þess. Rannsókn fræðimannanna tók sex ár og niðurstöðurnar renna styrkum stoðum undir áhyggjur þingsins, en þar segir m.a. að aðeins fá svið þjóðlífsins séu nú undanþegin reglugerðum frá Evrópusambandinu og að aðild Dana að sambandinu setji mikinn þrýsting á fullveldi danska þingsins.

Niðurstöður Marlene Wind eru í samræmi við hliðstæðar úttektir í öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins eins og t.a.m. Þýskalandi, en upplýst var á þýska sambandsþinginu sl. haust að rúmlega 80% allra lagagerða sem tóku gildi í landinu á árunum 1998 til 2004 hefðu ekki átt uppruna sinn þar heldur hjá Evrópusambandinu. Á sama tíma hefur verið upplýst að Norðmenn hafi aðeins tekið upp um 18,5% lagagerða sambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) á árunum 1997-2003 og að Íslendingar hafi aðeins tekið upp um 6,5% lagagerða þess síðan Ísland gerðist aðili að samningnum.

Heimildir:
Danmarks lover kommer fra EU (Nationen 20/03/06)
Norge lager lovene selv (Nationen 28/09/05)

Mikill meirihluti Norðmanna enn andvígur aðild að Evrópusambandinu

Fleiri Norðmenn eru nú á móti Evrópusambandsaðild en voru þegar aðild var síðast hafnað í Noregi árið 1994 samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem gerð var fyrir norska dagblaðið Aftenposten. Af þeim sem taka afstöðu eru 55% Norðmanna andvíg aðild samkvæmt könnuninni en 45% henni hlynnt. Í þjóðaratkvæðinu 1994 höfnuðu 52,2% aðild en 47,8% samþykktu hana. Meirihluti Norðmanna hefur nú verið andsnúinn Evrópusambandsaðild allar götur síðan Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins í byrjun sl. sumars.

Heimild:
Fortsatt flertall mot EU (Nationen 15/03/06)