Íslendingar yrðu bundnir af sjávarútvegsstefnu ESB við aðild

Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ef Ísland gengi í Evrópusambandið yrði það bundið af lagareglum þess hvað varðar stjórnun fiskveiða nema um yrði að ræða beinar undanþágur sem Ísland fengi í aðildarsamningum. Þá kynni einnig í aðildarviðræðum að koma fram kröfur um skaðabætur vegna tapaðra veiða frá þeim ríkjum sem stunduðu veiðar innan íslensku lögsögunnar fyrir útfærslu hennar á sínum tíma.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir skömmu að ráðgjafi sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins segði að reglan um hlutfallslegan stöðugleika ætti að tryggja að Íslendingar myndu sjálfir ákveða hverjir veiddu í lögsögunni ef Ísland gengi í Evrópusambandið. “Ef við göngum inn í Evrópusambandið og ef við fáum ekki beinar undanþágur í aðildarsamningum erum við bundin af lagareglum þess og getum engu breytt um það.”

Stefán Már sagði að það væri út af fyrir sig rétt að það væru teknar meirihlutaákvarðanir í ráðherraráðinu um hvað mætti veiða mikið og því væri síðan úthlutað til aðildarríkjanna. Það væri gert á grundvelli reglunnar um hlutfallslegar stöðugar veiðar. Hins vegar hefði ekki komið fram hjá aðstoðarmanninum að reglan um hlutfallslegar stöðugar veiðar væri mjög laus í reipunum og að stofnanir bandslagsins hefðu mjög víðtækt mat um það hvað teldist hlutfallslegar stöðugar veiðar og gætu hvernær sem er breytt því með lögjöf. Auk þess hefði framkvæmdastjórnin gefið til kynna í svonefndri Grænbók um fiskveiðar frá árinu 2001 að tekið yrði hugsanlega upp allt annað kerfi í framtíðinni.

“Aðalatriðið er að ef við göngum inn í Evrópusambandið og fáum ekki beinar undanþágur í aðildarsamningum þá erum við bundnir af þessu regluverki, sem er háð meirihlutaákvörðunum,” sagði Stefán Már. Hann sagði aðspurður að reglan um hlutfallslegar stöðugar veiðar kæmi fram í reglugerð frá árinu 2003 og hefði verið með einum eða öðrum hætti í eldri reglugerðum. Reglugerðum mætti hins vegar breyta með meirihlutaákvörðunum og því ekki á vísan að róa í þeim efnum. Við yrðum að hlíta slíkum ákvörðunum nema við fengjum beinar undanþágur í aðildarviðræðum.

Stefán Már sagði að einnig væri vert að hafa í huga að ef til aðildarviðræðna kæmi gætu komið fram kröfur um fiskveiðikvóta frá öðrum þjóðum, þar á meðal þeim þjóðum sem töpuðu rétti til fiskveiða á sínum tíma þegar fiskveiðilögsagan var færð út í þorskastríðunum.

Heimild:
Verðum bundin af lagareglum ESB (Morgunblaðið 15/02/07)