Stoltenberg: Norðmenn ánægðir utan Evrópusambandsins

Breska dagblaðið Daily Telegraph ræddi við Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, 25. mars sl. um afstöðu Norðmanna til Evrópusambandsins. Þar segir í upphafi að á síðasta ári hafi tvö Evrópulönd verið í fyrsta og öðru sæti yfir þau lönd þar sem væri best að búa samkvæmt úttekt Sameinuðu þjóðanna; Noregur í fyrsta sæti og Ísland í öðru. Þetta hefði án efa verið ástæða til mikilla fagnaðarláta hjá ráðamönnum Evrópusambandsins ef ekki væri fyrir þá staðreynd að bæði löndin standa utan sambandsins.

Haft er eftir Stoltenberg að Norðmenn væru nú að uppskera árangur þess að hafa hafnað Evrópusambandsaðild tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu. “Efnahagur okkar er sterkur, atvinnuleysi lítið og hagvöxtur mikill,” sagði Stoltenberg. Ennfremur bætti hann við að með því að standa utan Evrópusambandsins hefðu Norðmenn bjargað norskum sjávarútveg.

“Fólkið í strandhéruðunum óttast sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna. Norðmönnum hefur tekist að stjórna fiskveiðum sínum skynsamlega. Við höfum ekki upplifað það sem gerst hefur hjá mörgum öðrum löndum þar sem fiskistofnar hafa verið eyðilagðir,” sagði norski forsætisráðherrann og Evrópusambandssinninn og bætti við að sjálfstæðið væri Norðmönnum mjög mikilvægt.

Sjálfur dró Stoltenberg ekki dul á það að hann vildi að Noregur gengi í Evrópusambandið, en það væri einfaldlega ekki á dagskrá. “Norska þjóðin hefur hafnað aðild tvisvar og ég sé ekki fram á að hún verði á dagskrá aftur. Málið hefur verið afgreitt,” sagði Stoltenberg að endingu.

Heimild:
Norwegians ‘content’ with life outside EU (Telegraph.co.uk 24/03/07)

ESB viðurkennir að evran hafi ekki aukið viðskipti innan sambandsins

The Wall Street Journal greindi frá því 15. mars sl. að Joaquin Almunia, yfirmaður peningamála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hafi viðurkennt að tilkoma evrunnar hefði ekki leitt til aukinna viðskipta innan sambandsins. Hann sagði: “Viðskipti innan Evrópusambandsins sem hlutfall af landsframleiðslu hafa staðið í stað síðan árið 2000.”