Bretar vilja laustengdara samband við Evrópusambandið

Bretar eru hlynntir því að bresk stjórnvöld taki upp samningaviðræður um laustengdara samband við Evrópusambandið samkvæmt skoðanakönnun sem birt var fyrr í þessum mánuði í The Sunday Telegraph. Könnunin var framkvæmd af fyrirtækinu ICM fyrir bresku samtökin Global Vision og var spurt í henni hvaða fyrirkomulag fólk vildi hafa á sambandi Bretlands og Evrópusambandsins. 41% aðspurðra sögðu að þeir vildu að tengslin við Evrópusambandið væru aðeins byggð á viðskiptum og samvinnu, 27% vildu að Bretar væru fullir meðlimir í sambandinu og álíka margir, eða 26%, vildu að Bretar segðu sig alfarið frá því.

Þegar spurt var hvað fólk myndi kjósa, ef haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort tengsl Breta við Evrópusambandið ættu eingöngu að byggjast á viðskiptum, sögðust 64% aðspurðra styðja það. Þá var spurt hvernig ætti að bregðast við því ef önnur aðildarríki Evrópusambandsins kæmu í veg fyrir að Bretar gætu samið um lausari tengsl við sambandið. 57% sögðu að Bretar ættu þá að segja skilið við Evrópusambandið en 33% að þeir ættu að vera þar áfram innanborðs.

Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem skoðanakannanir í Bretlandi hafa bent til þess að Bretum sé frekari samruni innan Evrópusambandsins þvert um geð og vilji frekar ganga úr sambandinu en sætta sig við slíkt. Þannig var t.a.m. niðurstaða skoðanakönnunar fyrir breska dagblaðið The Mail on Sunday í júni 2003 sú að 51% Breta vildu frekar ganga úr Evrópusambandinu en að frekari völd yrðu framseld til sambandsins á móti 29% sem vildu áframhaldandi aðild þrátt fyrir aukið framsal á fullveldi.

Ef horft er til þessara tveggja skoðanakannana er óneitanlega mjög athyglisvert að svo virðist sem aðeins um þriðjungur Breta sé hlynntur aðild að Evrópusambandinu eins og það hefur verið að þróast. Þess má geta að kannanir um afstöðu Breta til fyrirhugaðrar Stjórnarskrár Evrópusambandsins (einnig kölluð Lissabon-sáttmálinn) og upptöku evrunnar hafa bent til þess sama.

Heimildir:
Britons want looser ties with EU (The Sunday Telegraph 09/06/08)
Blair relishes ‘big battle’ over EU (BBC 02/06/03)