ESB: Varanlegar undanþágur í sjávarútvegi ekki í boði

Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála hjá Evrópusambandinu, staðfesti í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld að Íslendinga gætu ekki átt von á verulegum tilslökunum frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins kæmi til þess að Ísland sækti um Evrópusambandsaðild. Rehn sagði að einhverjar tilslakanir á stefnunni væru hugsanlega mögulegar en þó gætu Íslendingar ekki búist við því að fá meiriháttar undanþágur frá henni.
 
Ljóst er að ummæli Rehn eru í fullu samræmi við málflutning sjálfstæðissinna til þessa. Varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eru ekki í boði í neinu sem máli skiptir enda engin fordæmi fyrir slíku, nokkuð sem Rehn staðfesti í samtali við Fréttablaðið 8. nóvember sl. Rétt er þó að halda því til haga að ráðamenn Evrópusambandsins hafa áður ítrekað staðfest þetta á undanförnum árum.

Í frétt Ríkissjónvarpsins var einnig rætt við Hans Martens hjá hugveitunni European Policy Centre sem sagðist hvetja Íslendinga til að reyna að breyta sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins innan frá. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að Bretar hafa reynt í meira en 30 ár að ná fram breytingum á sjávarútvegsstefnu sambandsins en án alls árangurs.
 
Heimild:
ESB: Tilslakanir í veiði ólíklegar (Rúv.is 20/11/08)

„Krónan er ykkar styrkur“

„Ég veit að það hljómar ekki vel á Íslandi þessa dagana en krónan er engu að síður ykkar styrkur í efnahagsástandi eins og nú ríkir. Danska krónan hjálpaði okkur ekki í kreppunni á sínum tíma,” sagði Hermann Oskarsson, hagstofustjóri Færeyja, á morgunverðarfundi sem fram fór á Grand Hótel í gær. „Hvað getum við lært af Færeyingum?“ var yfirskrift fundarins, þar sem Hermann og Gunvör Balle, aðalræðismaður Færeyja á Íslandi, ræddu opinskátt um kreppuna sem skall á Færeyjum upp úr 1990. Í henni dróst þjóðarframleiðsla saman um þriðjung, 12% íbúanna flutti á brott og atvinnuleysi fór yfir 30% þegar mest var.

Bæði Hermann og Gunvör voru sammála í greiningu sinni á orsökum kreppunnar í Færeyjum; Langvarandi ofneysla almennings, pólitísk óstjórn og inngrip í efnahagsmál og andvaraleysi eftirlitsaðila. Hermann sagði fólksflóttann hafa verið dýrasta gjaldið sem eyjarnar hefðu greitt. Hann sagði einnig að ef það væri eitthvað eitt sem Íslendingar gætu af færeysku kreppunni lært væri það að sporna gegn því með öllum ráðum að fólk flyttist úr landi.

Heimild:
„Krónan er ykkar styrkur“ (Líú.is 18/11/09)

ESB og evra – óskhyggja og raunveruleiki

Þann 31. október skrifaði ég grein hér í blaðið þar sem ég lagði til að bæði stuðningsmenn og andstæðingar aðildar Íslands að ESB og myntbandalagi Evrópu sameinuðust um það markmið að Ísland uppfyllti hin svokölluðu Maastricht-skilyrði um efnahagslegan stöðugleika og hæfust handa við að móta og skilgreina leiðir að því markmiði. Benti ég á að þótt menn greindi á um afstöðuna í Evrópumálum væri öllum ljóst að það væri lífsspursmál fyrir íslenskt efnahagslíf að ná stöðugleika og Maastricht-skilyrðin fælu í sér skynsamlegar viðmiðanir í því sambandi. Sjálfsagt væri og nauðsynlegt að Evrópuumræðan héldi áfram, kostir og gallar væru ræddir fordómalaust, en meira vit væri í að hefja þegar vinnu við að ná þeim markmiðum sem við ættum sameiginleg heldur en að knýja fram á næstunni niðurstöðu í þeim málum sem sundra okkur.

Í Reykjavíkurbréfi blaðsins frá 1. nóvember er vikið að þessum sjónarmiðum mínum og þrenns konar rök færð fram gegn þeim. Í fyrsta er fullyrt, án frekari skýringa, að tími biðleikja á þessu sviði sé liðinn eftir fjármálahrunið nú á haustdögum. Í öðru lagi er nefnt að aðildarumsókn myndi fela í sér sterkari skuldbindingu til að ná Maastricht-skilyrðunum en ella og að með aðild að ESB fengi Ísland stuðning ESB og Seðlabanka Evrópu til að halda genginu stöðugu en utan sambandsins sé slíkan stuðning ekki að hafa. Í þriðja lagi er nefnt í Reykjavíkurbréfinu að þar sem mikill stuðningur sé við upptöku evru í skoðanakönnunum sé í sjálfu sér ekki ástæða til að hafa áhyggjur af klofningi þjóðarinnar í andstæðar fylkingar í þessum efnum.

Evra í fyrsta lagi eftir 4 til 6 ár
Um öll þessi atriði má auðvitað hafa langt mál. Höfundi Reykjavíkurbréfs er að sjálfsögðu velkomið að kalla tillögu mína biðleik. Hún mótast hins vegar af þeirri staðreynd að hvorki innganga í ESB né upptaka evrunnar sem gjaldmiðils verður að veruleika án verulegs aðdraganda – þar er um að ræða ferli sem óhjákvæmilega tekur nokkur ár. Hér innanlands þarf auðvitað fyrst að útkljá margvíslegar pólitískar og stjórnskipulegar spurningar. Það þarf að ákveða hvernig staðið yrði að aðildarumsókn – ætti það að vera ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar eða ætti að fara fram um það sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla eins og margir hafa lagt til að undanförnu? Hvernig þyrfti að breyta stjórnarskránni til að ESB-aðild yrði möguleg? Hver ættu samningsmarkmið okkar að vera, svo það helsta sé nefnt. Þá þyrfti auðvitað líka að klára sjálfa samningana við ESB, sem óhjákvæmilega tæki líka nokkurn tíma. Þann tíma má auðvitað stytta með því að ganga skilmálalítið eða skilmálalaust að kröfum sambandsins, en ólíklegt verður að teljast að um slíka nálgun næðist mikil samstaða hér innanlands. Þá eru allir sammála um að um ESB-aðild verði ekki tekin endanleg ákvörðun fyrr en lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. En jafnvel að samningum samþykktum og undirrituðum væri eftir formlegt ferli innan ESB, sem líka tæki tíma, ekki síst vegna þess að aðildarsamningur þyrfti staðfestingu á þjóðþingum allra aðildarríkjanna áður en hann tæki gildi. Og þá fyrst, að öllu þessu loknu, tæki við formlegur aðlögunartími að myntbandalaginu, sem í stysta lagi tekur tvö ár miðað við regluverk ESB, en hætt er við að verði lengri í ljósi þess hversu langt við eigum í land með að uppfylla hin margnefndu Maastricht-skilyrði miðað við stöðu efnahagsmála í dag.

Ég get ekki frekar en aðrir fullyrt hvenær við gætum í fyrsta lagi tekið upp evruna í ljósi allra þessara staðreynda. Ýmsir hafa nefnt 4 til 6 ár og verður það að teljast frekar bjartsýnt mat, sem byggir á því að engir sérstakir hnökrar verði á ferlinu. Það má auðvitað kalla tillögu mína biðleik, en með sama hætti mætti kalla flesta leiki biðleiki í ljósi þess hversu langt er þar til upptaka evrunnar væri möguleg.

Mun ESB-aðild sem slík stuðla að stöðugleika?
Vissulega má færa ákveðin rök fyrir því að aðildin sem slík og formlegt aðlögunarferli að stöðugleikaskilyrðum myntbandalagins myndi auka aðhald að stjórnvöldum. Á hitt ber að líta, að reynsla annarra þjóða er mjög misjöfn í þessu sambandi. Þar má benda á að Ungverjaland og Eystrasaltsríkin eru enn mjög langt frá því að uppfylla þessi skilyrði, þrátt fyrir að þau hafi verið aðilar að ESB í fjögur ár og allan þann tíma stefnt að því að taka upp evruna. Í opinberum gögnum frá Ungverjalandi kemur fram að þarlend stjórnvöld telji að enn geti liðið 4 til 6 ár áður en af gjaldmiðilsbreytingunni geti orðið. Og benda má á að staða þeirra innan ESB megnaði ekki að forða þeim frá fjármálakreppu, ekki ólíkri þeirri sem við búum við, og stuðningur Seðlabanka Evrópu við Ungverja kom ekki til sögunnar fyrr en nú fyrir fáeinum dögum, eða um sama leyti og þeir voru að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um stuðning með sama hætti og við erum að vinna að þessa dagana. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það er hæpið að fullyrða, eins og margir ESB-sinnar gera, að ESB-aðild, eða jafnvel bara yfirlýsing um að sækja um ESB-aðild, fæli í sér einhverja sérstaka vörn fyrir íslenskt efnahagslíf. Ég er hræddur um að slík viðhorf mótist meira af óskhyggju en raunsæi.

Óhjákvæmileg átök
Þriðja atriðið, sem höfundur Reykjavíkurbréfs víkur að í skrifum sínum, er að engin ástæða sé til að hafa áhyggjur af klofningi þjóðarinnar í þessum málum ef mikill meirihluti þjóðarinnar vilji aðild að ESB og upptöku evru. Meirihlutinn eigi auðvitað að ráða og minnihlutinn verði að sætta sig við þá niðurstöðu. Þetta er auðvitað rétt svo langt sem það nær. Bréfritari horfir hins vegar fram hjá því að á leiðinni til aðildar og evru þarf að taka margar ákvarðanir, sem óhjákvæmilega verða umdeildar og munu skipta þjóðinni í andstæðar fylkingar. Það þarf engan sérstakan spámann til að sjá fyrir þær deilur, sem munu verða um ákvörðun um aðildarumsókn, ákvörðun um samningsmarkmið, breytingu á stjórnarskránni til að heimila fullveldisframsal og hvað þá hina endanlegu ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Engin skref verða tekin á þessari leið nema að undangengnum miklum umræðum og átökum.

Það er áreiðanlega rétt mat að við Íslendingar getum ekki vikist undan því að fara í gegnum þessar umræður á næstu árum. Hér er um að ræða stórmál, sem auðvitað verður að leiða til lykta fyrr eða síðar. Þegar kemur að því að útkljá ágreininginn munu þessi átök yfirskyggja öll önnur viðfangsefni á vettvangi stjórnmálanna. Ekki er við öðru að búast enda er um að ræða ákvarðanir sem verða afdrifaríkar fyrir allt þjóðfélagið um langa framtíð. Verði tekin ákvörðun um ESB-aðild er ljóst að þar er ekki um að ræða neina bráðabirgðaákvörðun til að mæta tilteknum erfiðleikum eða tímabundnum vanda. Slíkri ákvörðun er ætlað að standa um áratugaskeið. Spurningin sem ég velti fyrir mér er sú, hvort þessar deilur séu brýnasta verkefnið í dag og á næstu mánuðum eða hvort ekki væri nær að við reyndum að sameinast um þau viðfangsefni, sem við blasa í efnahagslífi þjóðarinnar og krefjast úrlausnar þegar í stað. Ég taldi – og tel enn – að það geti verið raunhæft fyrir okkur að ná breiðri samstöðu um að vinna að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin, enda miða þau óumdeilanlega að þeim efnahagslega stöðugleika, sem enginn getur efast um að við þurfum sárlega á að halda.

Birgir Ármannsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

(Birtist áður í Morgunblaðinu 12. nóvember 2008)

Efnahagsmál, Evrópusamband og galdratrú

Það væri skemmtilegt að geta galdrað burt efnahagsvandamál, bara látið þau hverfa með því að setja réttu töfraformúluna í lög. Mér dettur stundum í hug að þeir sem hæst láta um að stjórnvöld eigi að leysa efnahagsvanda geri ráð fyrir því að þau séu göldrótt og sumir sem láta hæst um að vandinn hverfi við inngöngu í Evrópusambandið virðast ætla að það búi yfir meiri fjölkynngi en finna má dæmi um í ævintýrum, sé jafnvel næstum almáttugt.

Um hvort innganga í Evrópusambandið er skynsamleg eða óskynsamleg hafa mörg orð verið skrifuð. Ég held þó að raunverulegar ástæður þeirra sem telja annað hvort mjög mikilvægt að fara þar inn eða eru því mjög mótfallnir séu sjaldnast orðaðar með opinskáum og heiðarlegum hætti. Satt að segja held ég að flestir sem vilja ganga í Sambandið vilji það vegna þess að þeim finnst rétt að vera með af mórölskum og pólitískum ástæðum og þeir væru jafnákafir að mæla fyrir inngöngu þótt sýnt yrði pottþéttum rökum að hún bætti í engu efnahag landsmanna. Það sama held ég gildi um þá sem vilja standa fyrir utan Evrópusambandið. Þeim líkar illa hvað það er ólýðræðislegt og íhlutunarsamt um alls konar mál og vildu ekki þar inn þótt sýnt yrði fram á að inngangan skaðaði ekki efnalegan hag þjóðarinnar.

En vegna þess að það er hálfgert feimnismál að tala um pólitískar og siðferðilegar hugsjónir hvort sem þær snúast um gildi samvinnu milli þjóða eða um fullveldi og lýðræði reyna þeir sem bera slíkar hugsjónir fyrir brjósti að verja þær með óbeinum hætti og segja til dæmis að það sem þeir vilja fá fram auki hagvöxt, greiði fyrir viðskiptum eða treysti undirstöður atvinnulífsins. Úr þessu verður stórundarleg „rökræða“ þar sem raunverulegu ástæðurnar eru ósagðar en reynt að skáka andstæðingnum með stóroðrum, og oft mjög ósennilegum, yfirlýsingum um áhrif Evrópusambandsaðildar á efnahag landsmanna.

Þeir sem tala fyrir aðild segja stundum að við eigum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru eins og það sé nánast sjálfgefið að um leið og við erum komin þar inn getum við leyst vandamál sem fylgja smáum gjaldmiðli. En sannleikurinn er líkast til sá að þó Íslendingar séu velkomnir í Evrópusambandið og geti vafalaust náð samningum um inngöngu á nokkrum mánuðum eru trúlega mörg ár eða áratugir þar til tekst að uppfylla skilyrði þess að taka upp evru. Valið stendur því ekki milli þess að vera fyrir utan og nota krónu eða vera fyrir innan og nota evru. Evrópusambandsaðild töfrar ekki fram hallalausan ríkisrekstur, lága verðbólgu og önnur skilyrði þess að komast inn í myntbandalagið. Óbreytt staða gagnvart sambandinu útilokar heldur ekki að tekinn sé upp annar gjaldmiðill en króna.

Stundum er látið að því liggja að við getum komist út úr kreppunni með inngöngu í Evrópusambandið fyrst Finnar gátu komist út úr sambærilegri kreppu með því að ganga í sambandið árið 1995. Gallinn við þessa rökfærslu er sá að Finnar voru lengi að vinna sig út úr  kreppunni sem þeir lentu í um og upp úr 1990 og eru það kannski enn. Innganga þeirra í Evrópusambandið var engin töfralausn. Kannski hjálpaði hún eitthvað (um það veit ég þó ekki) en samkvæmt tölum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var atvinnuleysi þar heilan áratug (frá 1996 til 2005) að mjakast úr um þ. b. 15% í um þ. b. 8%. Það er sem betur fer enn að minnka en hefur enn ekki komist niður í þau 4% til 5% sem það var áður en kreppan hófst 1990.

Ég held að umræða um Evrópusambandsmál haldi áfram að vera óttalegur vaðall meðan deilt er um hvort aðild töfri burt hagstjórnarvanda. Það þarf að ræða önnur rök með og á móti aðild heldur en þau efnahagslegu og sú rökræða þarf að horfa til miklu lengri tíma en líklegt er að núverandi kreppa standi.

Atli Harðarson,
heimspekingur

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)

Sjálfskipaðir ESB leiðtogar

Forystumenn í samtökum atvinnulífs, iðnrekenda og verkalýðshreyfingar hafa að undanförnu tekið sér forystu í að leiða íslenska þjóð inn í Evrópusambandið. Vissulega er öllum þessum mætu mönnum frjálst að hafa skoðanir á þessu máli en ég dreg stórlega í efa umboð þeirra til að tala hér fyrir munn sinna aðildarsamtaka og aðildarfélaga. Fulltrúar og  stjórnir í þeim samtökum sem hér um ræðir eru í fæstum tilvikum kjörnir til starfa út frá afstöðu til almennra þjóðmála. Hér er um að ræða hagsmunasamtök sem ætlað er að verja hag viðkomandi hópa innan þess ramma sem Alþingi og ríkisstjórn skapa. Um almenna afstöðu til þjóðmála er aðeins kosið í Alþingiskosningum.

Mikill minnihluti almennra launþega kemur að  kjöri forystumanna stóru heildarsamtaka launamanna og sama á reyndar við í hópi okkar atvinnurekenda í landinu. Því fer fjarri að hagsmunir okkar og skoðanir séu einsleitar í þessum efnum og staðreyndin er sú að umrædd félög hafa sum hver, fyrst og fremst tengsl við sína aðildarmenn í gegnum skattheimtu félagsgjalda. Einu almennu kosningarnir þar sem tekist er á um þessi mál eru kosningar til Alþingis. Og það er engin tilviljun að mikill meirihluti Alþingismanna vill  líkt og þjóðin sjálf standa vörð um fullveldi og frelsi landsins. Mál þetta er mun stærra en svo að hægt sé að horfa á það í þröngu samhengi og út frá stundarhagsmunum. Mjög margt bendir til þess að Evrópusambandið sé sökkvandi skip þó svo að vissulega valdi stærðin því að það sökkvi heldur hægar en okkar ágæta land. Að sama skapi er mjög líklegt að stærðin geri það verkum að Evrópusambandið verði mjög lengi að ná sér á strik á nýjan leik en smæðin og sveiganleikinn er okkar styrkleiki. Það er einnig umhugsunarvert að þau Evrópulönd sem best standa eru löndin sem eru utan ESB, Noregur og Sviss. Þar er atvinnuleysi til muna minna en almennt gerist á ESB svæðinu og hagvöxtur meiri.

Tækifæri  okkar  liggja ekki hvað síst í samningum og viðskiptum við þjóðir utan  ESB t.d. við Kína, Indland og Rússland. Sem sjálfstæð þjóð höfum við mikið  meira aðdráttarafl og sveiganleika t.d. í fríverslunarsamningum. Slíkir samningar eru á döfinni m.a. við Kína og geta þeir opnað alveg nýjar dyr fyrir land og þjóð svo fremi sem við höfum burði til að hugsa út fyrir rammann og vilja til að bjarga okkur á eigin forsendum. Að vonast til þess að til að mynda Bretar og Danir séu betri kostur til að gæta hagsmuna Íslendinga við samningaborð í Brussel  heldur en landsmenn einir og sér lýsir  mikilli minnimáttarkennd. Að vonast til að Íslendingar muni hafa afgerandi áhrif í kokteilboðum í Brussel þannig að hagmunir okkar vegi þyngra en annara þjóða, lýsir hins vegar vafasömu mikilmennskubrjálæði. Greinarhöfundur er m.a. atvinnurekandi með evrulán, stundarhagsmunir hans félaga réttlæta hins vegar ekki að fórna heilli þjóð á altari ESB.

Benedikt G. Guðmundsson,
framkvæmdastjóri

(Birtist áður í Morgunblaðinu 9. nóvember 2008)