ESB-aðild, evra og atvinnuleysi

Það kemur við viðkvæma taug hjá áróðursmönnum ESB-aðildar hérlendis að minnst sé á krónískt og hátt atvinnuleysisstig innan Evrópusambandsins. Okkur Íslendingum þykir ógnvænlegt þegar atvinnuleysishlutfall hérlendis er komið upp í 4-5% eftir að hafa legið kringum 2-2,5% um langa hríð. Í Evrópusambandinu væru menn þó hæstánægðir með atvinnuleysi á þessum slóðum eftir að hafa búið við 7-9% atvinnuleysi að meðaltali mörg undanfarin ár. Áður en efnahagskreppan skall á sl. haust var atvinnuleysi í ESB rétt um 7% að meðaltali en fer nú hraðvaxandi. Á evrusvæðinu var atvinnuleysið enn hærra en meðaltalið í aðildarríkjunum 27.

Um 17 milljónir atvinnuleysingja
Samkvæmt tölum hagstofnunar ESB, Eurostat, nam tala atvinnulausra í ESB samtals 16,7 milljónum manna í september 2008, þar af voru 11,7 milljónir á evrusvæðinu. Í hagsveiflu síðustu ára hafði nokkur árangur náðst í að draga úr atvinnuleysi, m.a. í Þýskalandi, en bent er á að talsvert sé þar um falið atvinnuleysi. Jafnframt liggur fyrir samkvæmt tölum Eurostat að atvinnuleysi meðal kvenna er að jafnaði nokkru meira en hjá körlum. Vissulega er mikill munur á hversu alvarlegt ástandið er í einstökum ríkjum ESB, staðan skást í löndum eins og Danmörku, Hollandi og Austurríki en yfir meðaltali m.a. í Þýskalandi, Frakklandi, á Spáni og í Portúgal. Sérstaka athygli vekur tiltölulega hátt atvinnuleysisstig í Svíþjóð og Finnlandi, á bilinu 5,2-6,1% þegar best lét á fyrrihluta árs 2008. Alvarlegust af öllu er þó staða ungs fólks á vinnumarkaði innan ESB þar sem 17-18% fólks yngra en 25 ára eða hátt í fimm milljónir voru án atvinnu fyrir kreppuna og höfðu tilraunir til úrbóta á því ástandi litlu skilað undanfarið.

Spennitreyja evrusvæðisins
Aukinn þrýstingur á að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu er fyrst og fremst tilkominn vegna gjaldmiðilsmála, þ.e. meintrar nauðsynjar að leggja af krónuna og taka upp evru. Öllum ætti þó vera ljóst að innganga í myntbandalag ESB, sem aðeins 15 af ríkjunum 27 eiga aðild að, er háð ströngum skilyrðum Maastricht-sáttmálans og mörg ár myndu líða áður en Ísland hugsanlega yrði gjaldgengt í þann klúbb útvalinna. Nú sem fyrr blasir það líka við að efnahagskerfi okkar Íslendinga er af annarri gerð en hjá þeim þjóðum sem eru á evrusvæðinu og afar óhagstætt gæti reynst fyrir Ísland með evru sem mynt að búa við Maastricht-skilyrðin. Þrautalendingin til að fullnægja þeim skilyrðum yrði aukið atvinnuleysi langt yfir þau mörk sem hér hafa ríkt eða talist ásættanleg undanfarna áratugi.

Hvert stefnir ASÍ-forystan?
Það sætir furðu að forysta ASÍ hefur nú um skeið fyrirvaralaust krafist aðildar Íslands að ESB og sótti sér umboð fyrir þá stefnu á ársfundi sambandsins sl. haust. Tálbeitan sem launafólki er boðið upp á er evra eftir að Ísland hefði fengið aðild að myntbandalagi ESB. Í því efni leggjast þessi samtök launafólks á sömu sveif og atvinnurekendur, að því er virðist án þess að skeyta nokkru um þann gapastokk sem íslenskt launafólk yrði sett í með Maastricht-skilmálunum um svonefndan „efnahagslegan stöðugleika“. Atvinnurekendur hefðu með því tryggt sér tögl og hagldir í kjarasamningum, þar sem verkalýðshreyfingunni er í orði ætlað að velja á milli mikils atvinnuleysis eða „hóflegra kjarasamninga“. Eftir stæði á borði viðvarandi atvinnuleysi í líkingu við það sem menn nú eru að byrja að kynnast undir handarjaðri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í ESB yrði húsbóndinn hins vegar Seðlabanki Evrópu og hann kæmi ekki til með að hlusta á neitt kvak norðan af Íslandi, hversu hart sem hér yrði í ári.

Krónan munaðarlausa
Stærsta mótsögnin í málflutningi ríkisstjórnarinnar, með Samfylkinguna í fararbroddi og Sjálfstæðisflokkinn á flótta, er að úthrópa krónuna sem gjaldmiðil á sama tíma og við blasir að þjóðin geti þurft að búa við hana um ófyrirséða framtíð. Krónan var ekki vandamálið sem framkallaði bankahrunið, heldur tilskipanir Evrópusambandsins sem hér voru lögleiddar fyrirvaralaust með EES-samningnum. Vangaveltur um einhliða upptöku evru eða annarrar myntar auka ekki á tiltrú almennings, enda afar áhættusöm leið, ekki síst við núverandi aðstæður. Við hvaða gengi á krónunni ætla menn að miða ef nýr gjaldmiðill væri upp tekinn? Hér er á ferðinni hringavitleysa sem er viðhaldið af þeim sem gefa vilja sig Evrópusambandinu á vald hvað sem það kostar. Það gengur ekki upp að stjórnvöld iðki það helst að tala niður gjaldmiðilinn í stað þess að hlúa að honum svo að Íslendingar komist af stað með það endurreisnarstarf sem framundan er.

Einhliða og þröng ESB-umræða
Sjálft Evrópusambandið er í kreppu sem ekki sér fyrir endann á. Þeir sem hugsa um framtíð Íslands í ólgusjó heimskreppu eiga ekki að láta bjóða sér þá einsýnu umræðu þar sem spurningin um gjaldmiðilinn er gerð að upphafi og endi alls. Aðild að ESB varðar flest annað meira en peninga, þ.e. fjölmarga þætti sem í meginatriðum snúast um sjálfstæði til ákvarðana og lýðræðislega stjórnarhætti. Hvorttveggja skerðist með afdrifaríkum hætti gerist Ísland aðili að Evrópusambandinu.

Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur

(Birtist áður í Morgunblaðinu 30. desember 2008)

ESB-stefna Samfylkingar?

Í huga margra er Samfylkingin eini flokkurinn sem hefur það skýrt á stefnuskrá sinni að Íslendingar skuli ganga í Evrópusambandið. Þannig er að minnsta kosti málflutningur margra forystumanna flokksins. En hver er sú stefna sem flokkurinn sjálfur hefur markað? Stefnan felst í póstkosningu flokksins árið 2002 og landsfundarsamþykktum eftir það sem segja meðal annars að samningsmarkmið skuli skilgreind áður en til umsóknar kemur. Því verki hefur ekki verið sinnt í hálfan áratug. Öfugt við það sem ýmsir forystumenn halda fram er Samfylkingin því ekki í stakk búin til að styðja umsókn um aðild að ESB ef hún ætlar að virða sínar eigin lýðræðislegu samþykktir.

 
Þrískilyrt kosning meðal flokksmanna
Í þessu sambandi er rétt að rifja upp víðtækasta lýðræðislega umboð sem flokkurinn hefur gefið forystunni í þessu máli. Það var þegar öllum flokksfélögum gafst kostur á að taka afstöðu til málsins í póstkosningu haustið 2002. Að vísu tóku aðeins um 20-30% flokksfólks þátt (eftir því hvernig flokksskráin var metin), en eigi að síður var þessi kosning einstök á ýmsa lund. Um hvað var kosið? Kosningin var þrískilyrt, eins og þáverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar lýsti. Spurt var: „Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.“ 81,5% þeirra sem tóku þátt í kosningunni sögðu já við þessu, 15,6% voru á móti og um 3% skiluðu auðu eða ógildu atkvæði.
 
Hvað svo? Landsfundir flokksins hafa ályktað á svipuðum nótum. En hefur eitthvað gerst frekar? Hefur umræðunni verið þokað áfram, t.d. um samningsmarkmiðin, sem var fyrsta skilyrðið? Nei. Á landsfundinum árið 2003 var ætlunin að fylgja eftir þeim undirbúningi sem átt hafði sér stað með póstkosningunni árinu áður, en landsfundurinn túlkaði póstkosninguna með þessum hætti: „Á grunni víðtækra upplýsinga tók síðan almennur flokksfélagi í Samfylkingunni ákvörðun í sögulegri kosningu haustið 2002 um að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá flokksins á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða.“ Og ennfremur: „Samfylkingin mun því stofna sérstakan 9 manna málefnahóp um Evrópumál sem m.a. skoði ávinning Íslands af aðild að Evrópusambandinu, skilgreini hver helstu samningsmarkmið eigi að vera við aðildarumsókn, meti stöðu EFTA og EES- samningsins og greini áhrif evrunnar á íslenskt efnahagslíf. “

Um hvað vilja menn semja?
Sem sagt: Setja skyldi aðildarumsókn á stefnuskrá á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða og stofna skyldi sérstakan starfshóp til að vinna að þessum samningsmarkmiðum. Framkvæmdastjórn flokksins kom því síðan í verk að skipa starfshóp um samningsmarkmiðin stuttu síðar. Undirritaður var beðinn að taka sæti í þessum hópi. Óskað var ítrekað eftir því að hann kæmi saman, en af því varð aldrei og því hefur ekkert starf farið fram svo vitað sé. Þess vegna verður ekki séð að Samfylkingin hafi fylgt því eftir sem samþykkt var í póstkosningunni og samþykkt á landsfundi árið 2003, þ.e. að skilgreina svokölluð samningsmarkmið sem væru forsenda umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir það hefur nú mátt skilja á ýmsum þingmönnum og forystumönnum Samfylkingar að nú sé rétt að sækja um aðild. Þar með yrði póstkosningin og samþykkt landsfundar virtar að vettugi.
 
Ætla mætti að í svo stóru máli yrðu lýðræðislegar samþykktir virtar. Enn hefur engin sjáanleg vinna farið fram um samningsmarkmiðin meðal flokksmanna með þeim hætti sem samþykkt var í póstkosningunni 2002 og áréttað í landsfundarsamþykktum eftir það. Þjóðin veit því enn ekkert um hvað Samfylkingin vill semja, þ.e. hver stefna hennar sem flokks er þegar kæmi að því að semja. Í hálfan áratug hefur það verið látið hjá líða að skilgreina samningsmarkmiðin. Það eina sem þjóðin veit er að sumir forystumenn Samfylkingarinnar þrá það heitast að koma landinu inn í Evrópusambandið. Og nú vilja hinir áköfustu stuðningsmenn aðildar gera það með hraði. Það er auðvelt á tyllidögum að hvetja til opinnar, lýðræðislegrar og ígrundaðrar samræðu. Það getur verið erfitt að fylgja slíkri hvatningu eftir, ekki hvað síst þegar álíka ólga er í samfélaginu og nú má upplifa. En ætti það ekki að vera lágmarkskrafa í svo stóru máli að það sé undirbúið vandlega í samræmi við lýðræðislegar samþykktir?
 
Stefán Jóhann Stefánsson
varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar
 
(Birtist áður í Morgunblaðinu 23. desember 2008)

Húsfyllir á fundi um íslenskan landbúnað og ESB

Fjölmenni var á fundi Bændasamtaka Íslands um Evrópumál sem haldinn var í Sunnusal Hótels Sögu 10. desember sl. Gestur fundarins var Christian Anton Smedshaug frá norsku bændasamtökunum en hann skýrði frá baráttu gegn aðild Noregs að Evrópusambandinu sem háð hefur verið með góðum árangri allt frá árinu 1972. Vakti málflutningur hans athygli og ýmsar spurningar.

Afnám tolla of stórt högg fyrir norska bændur
Í máli hans kom fram að Norges bondelag hefur alla tíð verið í forystu þeirra sem barist hafa gegn aðild að Evrópusambandinu og byggist afstaða samtakanna á því að aðild fylgi of mikið valdaafsal til framkvæmdastjórnarinnar í Brussel og að afnám tolla á viðskiptum með búvörur innan Evrópu muni ganga svo nærri norskum landbúnaði að hann beri ekki sitt barr eftir inngöngu. Vitnaði hann þar um í reynslu Svía þar sem innflutningur búvara hefur aukist verulega en útflutningur ekki. Er nú svo komið að rekstur afurðastöðva í sænskum landbúnaði gengur illa og þær stærstu komnar í eigu Finna og Dana.

Afurðaverð er hærra í Noregi en Svíþjóð
Samanburður á afkomu sænskra og norskra bænda er þeim síðarnefndu mjög í hag. Afurðaverð til norskra bænda er í flestum tilvikum um eða yfir 50% hærra en í Svíþjóð. Það sé eðlilegt þar sem framleiðslukostnaður er af náttúrulegum ástæðum hærri í Noregi, en stór hluti landbúnaðar í Svíþjóð er stundaður sunnan við syðsta odda Noregs. Léleg afkoma og breytingar á styrkjakerfi ESB valdi því að dregið hafi úr kornrækt og annarri framleiðslu sænskra bænda eftir aðild.

Fyrsta spurningin sem Smedshaug var spurður var á þá leið hvað aðildarsamningar þyrftu að innihalda svo norskir bændur gætu fallist á þá. Svar hans var á þá leið að afnám tollverndar væri svo mikið högg fyrir norskan landbúnað að engir styrkir gætu bætt það upp. Eina leiðin til að laða norska bændur að ESB væri að leggja niður sameiginlegu landbúnaðarstefnuna.

Látum ekki tímabundna erfiðleika villa okkur sýn
Fundurinn á Hótel Sögu var lokahnykkurinn í fundaferð forystumanna Bændasamtakanna um landið en þar hafa þeir hitt um 700 bændur. Haraldur Benediktsson formaður hélt einnig ræðu á fundinum og skýrði frá því helsta sem þar hefur komið fram. Síðan gerði hann grein fyrir afstöðu BÍ til aðildar að ESB sem er afdráttarlaust nei. Benti hann á í því sambandi að afleiðingar frjáls flæðis búvöru frá ESB-löndunum þýddu hrun fyrir svína- og alifuglarækt í landinu. Þá sagði Haraldur að hagkvæmni sláturiðnaðarins yrði þurrkuð út og uppsagnir verkafólks kæmu strax til framkvæmda. Hann ítrekaði að það ætti að vera þjóðinni metnaðarmál að framleiða eigin matvæli og að ekki mætti fórna landbúnaðinum og láta tímabundna erfiðleika villa mönnum sýn. Að sögn Haraldar er vaxandi áhugi á umræðum um ESB meðal bænda en fæstir þeirra sjá tækifæri sín þar innandyra.

Líflegar umræður urðu eftir framsöguerindin og mörgum fyrirspurnum beint til framsögumanna. Á fundinum voru þingmenn allra flokka, auk landbúnaðarráðherrans, en einnig var þar nokkur hópur bænda úr nágrannabyggðum höfuðborgarinnar og annað áhugafólk um landbúnaðarmál.

Heimild:
Húsfyllir á fundi um íslenskan landbúnað og ESB (Bondi.is 11/12/08)

ESB-aðild ávísun á atvinnuleysi og launalækkun

Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, hélt því fram í þættinum Okkar á milli á Rás 1 í morgun, að innganga í Evrópusambandið væri ávísun á viðvarandi atvinnuleysi og launalækkun, að því er segir á heimasíðu LÍÚ. Þar kemur fram að Adolf lagði áherslu á að lítið hefði farið fyrir göllunum við ESB-aðild í umræðunni. Kostirnir hefðu hins vegar óspart verið tíundaðir. Adolf sagði að samkvæmt tölum fyrir mánuði væri 17,7% fólks undir 25 ára innan ESB án atvinnu.
Þegar hann var spurður út í afstöðu útvegsmanna til ESB svaraði Adolf: „Það er alveg skýr afstaða LÍÚ að inn í Evrópusambandið viljum við ekki fara því þá þurfum við að afsala okkur yfirráðarétti yfir auðlindinni og það kemur bara ekki til greina.“ Hann sagði sjávarútveg flokkaðan með landbúnaði í Evrópusambandinu og félli þar af leiðandi ekki undir frumrétt
„Ef það verður ákveðið að fara inn í Evrópusambandið og ef ekki nást samningar þá föllum við undir svokallaðan afleiddan rétt og þá er hægt að breyta fiskveiðistjórnun með einfaldri ákvörðun í ráðherraráðinu. En auðvitað gengur samningur lengra ef menn ná einhverri sátt en við höfum miklar efasemdir um það,“ sagði Adolf í fyrrgreindum útvarpsþætti, að því er greint er frá á síðu LÍÚ.

Heimild:

Ekki rétti tíminn fyrir ESB-umsókn

Lausnarorðið á Íslandi þessa dagana virðist fyrir mörgum vera aðeins eitt; Evran. Það á jafnt við seka og saklausa, þá fáu sem orsökuðu hrunið og hina mörgu sem eru fórnarlömbin. Hinir seku kenna evruleysi landsins um ófarnir eigin fyrirtækja og fela eigin vanhæfni í leiðinni, hinir saklausu eru margir tilbúnir að grípa hvaða hálmstrá sem býðst ef það leiðir okkur út úr ógöngunum. Það virðist stafa af þessu lausnarorði ljómi sem birgir mönnum sýn á annað. Þar sem forsenda upptöku evrunnar er að Ísland gangi í Evrópusambandið þá virðist samkvæmt sömu nauðhyggju óhjákvæmilegt að sækja um inngöngu. Það auðveldar þeim lífið sem gera sér pólistískan mat úr þessu ástandi, ala á Evru-trúnni öllum stundum og hafa fram að þessu fitnað eins og púkinn á fjósbitanum.

Forsenda viðræðna er upplýst umræða
En látum liggja milli hluta hversu sérkennilegt það væri ef Ísland ætti eftir að ganga í ESB út af Evrumálinu  einu og sér, því vissulega ersvo fjölda margt annað sem fylgir ESB-aðild fyrir land og þjóð. Ef að landsmenn vilja ganga í ESB út frá þeim fjölbreyttu forsendum þarf mun víðsýnni, dýpri og efnismeiri umræðu en hingað til, svo hver og einn geti tekið upplýsta ákvörðun um aðild. Til þess þarf tíma sem þýðir að umsókn er ekki á dagskrá næstu mánuði eða ár.

ESB mun ekki bjóða upp á einhverjar millistigs könnunarviðræður,  sem gefa almenningu kost á að skoða hvað er í pokanum og ákveða síðan hvort við ætlum að hefja alvöru viðræður og sækja um af alvöru. Verði farið í viðræður á annað borð er það fyrir alvöru og valkostir almennings verða þeir einir að kjósa með eða á móti umsömdum pakka. Og umræðan um almenna kosti og galla ESB hefur einfaldlega ekki farið fram enn þá. Því er allt tal umumsókn nú byggt á ósjálfráða viðbrögðum þess sem verður fyrir höggi. Fyrir utan þá auðvitað sem hafa inngöngu á pólitískri stefnuskrá sinniog nýta sér ástandið nú sjálfum sér í flokkspólitískum tilgangi.

Því er rétt að skoða hvort æskilegt er að sækja um inngöngu í ESB í dag eða næstu mánuðum, með upptöku Evrunnar sem helsta markmið.

Afleit samningsstaða
Ég tel umsókn nú ekki vera tímabæra og fyrir því eru eftirfarandi ástæður: Í fyrsta lagi er að nefna að Ísland er að semja úr afleitri stöðu og hefur nánast engin spil á hendi. 

ESB er búið að dusta Ísland við hjarn í Icesave-málinu og finnst eflaust að það hafi verið mátulegt á þessa sjálfsmiðuðu örþjóð. Ísland hafði ekki einu sinni burði til að láta reyna á löggjöf Evrópusambandsins sjálfs í deilunni. Í öllu falli má gefa sér að það mál hafi ekki aukið álit Íslendinga innan ESB né aukið á velvilja í okkar garð. Icesave-málið hefur því eitt og sér veikt samningsstöðu okkar sem er þó nógu slæm fyrir, með allt í kaldakoli hér heima hvort sem er í efnahagsmálum eða stjórnmálum.

Framkoma bankanna og íslenskra bissnissmanna í löndum eins og Danmörku og Bretlandi hefur heldur ekki orðið okkur til framdráttar í dag. Sendiferðir Ingibjargar Sólrúnar og Geirs (og Ólafs Ragnars forseta) á vegum íslenskra banka og viðskiptalífs, þar sem þau hafa haldið fram málflutningi sem augljóslega virðist kolrangur í dag, hafa heldur ekki aukið virðingu eða traust á þessum leiðtogum Íslands, sem sumir hverjir a.m.k. ætla sér að ná samningum við ESB um inngöngu. Erlendir ráðamenn og þar með leiðtogar ESB hljóta að draga þá ályktun að annað hvort hafi þetta fólk farið með visvítandi blekkingar eða verið ótrúlega illa upplýst um stöðu mála í eigin heimalandi.

Mannaskipti og kosningar nauðsynlegar
Þannig að það er augljóst að það væri afleikur í annars mjög slæmri samningsstöðu að tefla odddvitum stjórnarflokkanna, nú eða fjármálaráðherra eða bankamálaráðherra, fram fyrir Íslands hönd. Geir færi þar að auki í samningaferlið tilneyddur og með hundshaus, meðan að Ingibjörg Sólrún verður með glýju í augum og gerir flest til að fá að vera með. Það er búið að gefa það út fyrirfram að “við” teljum inngöngu í ESB vera eina bjargráðið fyrir þjóðina í dag og því ljóst að ESB sér í hendi sér að ekki þurfa að borga innkomu Íslands neinu dýru verði. Evrópusambandið veit eins og er, að ef Ísland kemur nú með betliskjal íh endi og á ekki einu sinni inni fyrir því að geta litið í augun á viðsemjendum sínum sökum þrælsótta og sektarkenndar, að þá fær bandalagið allt það sem það hefur áhuga fyrir á silfurfati. Þar meðtalið hagstætt gengi á íslensku krónunni við gjaldmiðilsskiptin yfir í evruna.

Það er því ljóst að þó ekki væri nema til að skapa Íslandi lágmarkssamningsstöðu er, nauðsynlegt að kjósa sem fyrst og aðs tjórnmálamenn sem hafa umboð þjóðarinnar, ræði við ESB. Hafi þeir á annað borð áhuga á slíku. 

Noregur í húfi
Þar fyrir utan hefur alltaf verið ljóst, jafnvel þegar góðæri ríkti á Íslandi, að ESB þarf ekkert á Íslandi að halda – og ef að Ísland telur sig þurfa á ESB að halda, þá er augljóst hver hefur undirtökin frá upphafi. Ef að ESB vill semja við Ísland núna, þá gerir það af því að það telur sig hafa feitari gölt að flá annars staðar, nefnilega Noreg. Sú “velvild ogáhugi” sem ESB sýnir umsókn Íslands núna stafar ekki síst af því að sambandið veit að það getur fengið það sem það vill hvort sem er í fiskveiðimálum, orkumálum  eða hverju sem er. Og að það veikir samningsstöðu Noregs. Og fyrir því hefur ESB áhuga. Noregur mun standa mun veikar að vígi, bara við það eitt að Ísland sækir um. Það að Ísland mun ganga að hvaða afar kostum sem er, semji núverandi stjórnvöld við ESB, veikir stöðu þeirra enn frekar. Samningar landanna um Evrópska efnahagssvæðið er fyrir bí með Noreg og Lichtenstein ein eftir. Og því mun umsókn og innganga Íslands neyða Noreg til samninga við ESB.

Umsókn Íslands gerir Noregi grikk
Nú er það svo að Noregur hefur á undangengnum áratugum unnið heimavinnuna sína varðandi ESB mun betur en Ísland. Hagsmunasamtök eins og stjórnvöld hafa haldið úti föstum nefndum og skrifstofum í Brussel og eru öllum hnútum mun kunnugri en Íslendingar. Þegar norskir ráðherrar mæta heim eftir að hafa setið EFTA-fundi eða fundi er tengjast ESB á einhvernhátt, er þeim mætt af norskum fjölmiðlum sem spyrja ítarlega um hvað hafi nú verið á seyði. Almenn umræða og þekking um ESB er því mun meiri meðal stjórnmálamanna, fjölmiðla og almennings í Noregi en nokkru sinni hér heima, þar sem umræðan hefur verið rykkjótt, klisjukennd og yfirborðsleg. Og þessi upplýsta umræða Norðmanna um ESB hefur skilað afdráttarlausri niðurstöðu; meirhlutinn er á móti inngöngu í ESB og fer andstaðan vaxandi.

Umsókn Íslands að ESB setur strik í innanlandsmál í Noregi og gerir annað tveggja: neyðir norsku þjóðina til samninga um inngöngu í ESB þvert á vilja meirihluta landsmanna, eða neyðir þá til að semja á ný með einhverjum hætti um aðgang að mörkuðum ESB. Og þá út frá verri samningsstöðu en var uppi þegar þeir sömdu í samfloti með öðrum þjóðum og út frá sterkri stöðu um EES-samninginn á sínum tíma. Þau kjör sem Íslendingar gangast að, verða á matseðlinum fyrir Noreg. Ekki er örgrannt um að mörgum Norðmanninum  þætti Íslendingar launa þeim hjálpsemina með sérkennilegum hætti, fari svo. Og spurning hvort Íslendingum dugi að vísa til frændsemi þjóðanna og aldagamallar vináttu, næst þegar við þurfum á greiðasemi þeirra að halda.

Evran er sýnd veiði en ekki gefin
Bjargráðið evran er hvort sem utan seilingar a.m.k. næstu fjögur til fimm árin. Og það er skemmsti mögulegi tíminn sem það tekur að fá að gera evruna að íslenskum gjaldmiðli – að því gefnu að við uppfyllum þau skilyrði sem fyrir því eru sett. Og við erum sennilega fjarri þvi nú en nokkru sinni sl. 10 ár að uppfylla slík skilyrði. Fyrst yrðum við hvort sem er sett á “reynslutíma” í ERM II (European Exchange Rate Mechanism) þar sem gengi krónunnar fær svigrúm til að sveiflast 15% upp og niður fyrir meðalgengi evrunnar. Takist okkur ekki að uppfylla öll skilyrði fyrirupptöku evrunnar, þá getum við verið í því limbói árum saman eða svo lengi sem þolinmæði ESB þrýtur ekki. Það má nefna að Bretland gekk inn í upphaflegt  ERM árið 1990 en hraktist út aftur 1992, eftir að spekúlantar á borð við Georg Soros gerðu áhlaup á breska pundið. Svo ekki er alveg víst hversu mikil vörn felst í því skjóli.

Þegar og ef Íslandi tekst loksins að uppfylla öll þau skilyrði sem krafist er fyrir upptöku evru, verður Ísland í allt annari stöðu efnahagslega en nú er og spurning hvort nokkur þörf sé á upptöku evrunnar. Íslendingum er það að sjálfsögðu í sjálfsvald sett að setja sjálfum sér þann ramma sem upptaka evrunnar krefst, ef að menn telja að það megi verða til bjargar í efnahagsmálunum. Og við getum auðvitað tengt krónuna evrunni og látið eins og við séum með hana, en það verður þá án frekara skjóls frá ESB. En við getum ekki tekið evruna upp einhliða eins og Svartfjallaland hefur gert, án þess að gera það í óþökk ESB.

Valdaafsal
Þá má ekki gleyma að forsenda upptöku Evrunnar er innganga í ESB og vegna þess hversu mikið valdaframsal er í því falið, krefst það breytinga ástjórnarskrá Íslands sem þarf að samþykkjast á tveimur þingum. Ætla mætti að landsmenn séu búnir að fá sig fullsadda af leyndarsamningum fyrir sína hönd. Þeim nauðarsamningi sem gerður var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF, og Alþingi og landsmönnum var fyrst kynntur eftir að hann var undirritaður, fylgdu vissulega slæm kjör og valdaafsal. Þó er það valdaafsal aðeins til skemmri tíma, meðan að innganga í ESB þýðir valdaafsal til ófyrirséðar framtíðar. Forsenda umsóknar í ESB er því upplýst umræða.

Önum ekki úr öskunni í eldinn
Íslendingum er því sennilega hollast að bíða með allar hugleiðingar um aðild að ESB að sinni. Það byggist á ofangreindum ástæðum, ekki á þeirri skoðun að Ísland eigi alla tíð að standa utan ESB. Hyggilegt er að ráða ráðum sínum með Noregi áður en lengra er haldið. Löndin eiga fleiri sameiginlega hagsmuni en þá sem sundra. Það er Noregi í hag að hafa Ísland með í ráðum og það verður ekki sagt um mörg önnur lönd í dag.

Hvort það sé Íslandi hollast að ganga inn í ESB síðar, er annað mál. Það þurfa landsmenn að ræða út frá fleiri forsendum en þeim að við eigum ekki annarra kosta völ. Mun fleiri álitamál þarf að skoða en evruna eina, fiskinn eða hið goðsagnakennda “evrópska matarverð”. Til þess þarf tíma, opna umræðu meðal almennings, betri fjölmiðla og víðsýnni og upplýstari stjórnmálamenn.

Páll Helgi Hannesson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)

Bændasamtökin alfarið andvíg aðild að ESB

Stjórn Bændasamtaka Íslands ætlar að berjast gegn hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu, meðal annars á vettvangi stjórnmálaflokkanna. Stjórn Bændasamtakanna heimsækir bændur víðs vegar um landið þessa dagana og ræðir við þá um ýmis mál, svo sem miklar hækkanir á aðföngum, hærri fjármagnskostnað, væntanlegt matvælafrumvarp, og síðast en ekki síst efnahagsþrengingar. Slíkur fundur var haldinn í Skagafirði í dag, og þar var hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu sérstaklega rædd. Stjórn Bændasamtakanna hefur tekið afstöðu, hún er á móti aðild.

Svana Halldórsdóttir, sem er í stjórn Bændasamtaka Íslands, segir að með Evrópusambandsaðild færist yfirstjórnin úr landi, tildæmis verðlagsmál. Og hún bendir á að kjör bænda í mörgum löndum sem gengu í sambandið hafi versnað í kjölfarið. Í kjölfar aðildar legðist búskapur af sumsstaðar.

Heimild:
Bændasamtökin gegn aðild að ESB (Rúv.is 25/11/08)

Glimrandi góð Fullveldishátíð!

Fullveldishátíðin 2008, sem Heimssýn stóð fyrir á 90 ára afmæli fullveldis Íslands í gær 1. desember, tókst vonum framar. Vel yfir 150 manns mættu í Salinn í Kópavogi þar sem hátíðin fór fram til þess að fagna fullveldinu og sýna því stuðning sinn í verki.

Á hátíðinni söng Sigrún Hjáltýsdóttir nokkur valin lög við undirleik Jónasar Ingimundarsonar og Eydís Fransdótti, óbóleikari, flutti Egófóníu III eftir Svein Lúðvík Björnsson. Erindi fluttu Katrín Jakobsdóttir, þingmaður og varaformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, og Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, forfallaðist hins vegar.

Stjórn Heimssýnar vill þakka öllu því góða fólki sem mætti á staðinn og ennfremur þeim fjölda fólks sem ekki gat mætt en sendi okkur skeyti með baráttukveðjum.