Hvað hyggst ný ríkisstjórn fyrir í Evrópumálum?

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, efnir til opins fundar nk. sunnudag kl 16:00 á Kaffi Rót í Hafnarstræti 17, 101 Reykjavík, þar sem umræðuefnið verður hvað ný ríkisstjórn kunni að aðhafast í Evrópumálunum.

Framsögur flytja Brynja Björg Halldórsdóttir, formaður ungra vinstri grænna á Höfuðborgarsvæðinu, og Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna.

Leitast verður við að svara spurningum sem varða hina nýju ríkisstjórn:

 • Er umsókn um inngöngu í ESB í farvatninu eins og víða hefur verið fullyrt í erlendum blöðum undanfarna daga?
 • Eða er ESB-blaðran sprungin?
 • Hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á stjórnarskrá og hvernig líst mönnum á áfrom um stjórnlagaþing?

Fundurinn er öllum opinn. Frjálsar umræður og fyrirspurnum svarað.

Heimssýn

Sjálfstæðisbaráttunni lýkur aldrei

Fyrst eftir bankahrunið var fjöldi Íslendinga fullur örvæntingar og fyrir vikið sýndu skoðanakannanir mikinn og vaxandi stuðning við að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið. Eftirspurn var eftir öryggi, hvort sem það væri ímyndað eða raunverulegt. Hérlendum Evrópusambandssinnum lá því lífið á að hamra járnið á meðan það væri heitt og hraða í gegn umsókn um inngöngu í Evrópusambandið ef þess væri nokkur kostur. Gert var óspart út á ótta fólks og óöryggi, eins geðslegt og það nú er.

Klappstýrum Evrópusambandsins lá raunar svo á að þær gátu alls ekki beðið eftir landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem halda átti í lok janúar þar sem taka átti fyrir stefnu flokksins í Evrópumálum. Þannig var t.a.m. hafinn undirbúningur að umsókn um inngöngu í utanríkisráðuneytinu undir forystu formanns Samfylkingarinnar þegar í nóvember ef ekki fyrr og forystumenn í flokknum gátu ekki leynt óþolinmæði sinni í málinu í samtölum við fjölmiðla.

En nú hefur það gerzt sem Evrópusambandssinnarnir óttuðust og vissu vafalaust að gerðist á einhverjum tímapunkti; orðinn hefur viðsnúningur í afstöðu Íslendinga til Evrópumálanna ef marka má nýjustu skoðanakannanir. Meirihluti er nú gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Blaðran er sprungin. Í bili allavega. En sjálfstæðisbaráttan heldur áfram enda lýkur henni aldrei.

Hjörtur J. Guðmundsson,
stjórnarmaður í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)

Framkvæmdastjóri AGS óttast um afdrif evrusvæðisins

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS), óttast að vaxandi munur milli hagkerfa þeirra sextán Evrópusambandsríkja sem mynda evrusvæðið geti sundrað myntbandalaginu. Þetta kemur fram í viðtali við Srauss-Khan í þýska vikuritinu Die Zeit í gær 29. janúar.

Srauss-Khan segir ennfremur í viðtalinu að auka verði samræmingu stefnu evruríkjanna í efnahagsmálum annars verði mismunur milli ríkjanna of mikill og stöðugleika myntbandalagsins þar með ógnað. Hann hvatti Seðlabanka Evrópusambandsins til þess að auka aðgerðir sínar í efnahagsmálum. Til að mynda með því að lækka stýrivexti enn frekar. 

Undanfarin ár hafa vaxandi áhyggjur komið fram hjá fræðimönnum, fjármálastofnunum og stjórnmálamönnum um framtíð evrusvæðisins og því að svæðið kunni hreinlega að liðast í sundur. Sú fjármálakreppa sem ríkir í heiminum um þessar mundir hafa aukið verulega á þær áhyggjur.

Heimild:
Strauss-Kahn: Óttast um afdrif evru-svæðisins (Mbl.is 28/01/09)

Meirihluti lagasetningar ríkja ESB kemur frá sambandinu

Þátttaka í kosningum til þings Evrópusambandsins hefur dregist hratt saman á liðnum árum og var aðeins um 40% þegar þær fóru síðast fram árið 2004. Af þessu hafa ráðamenn sambandsins haft miklar áhyggjur og hefur ýmislegt verið reynt til þess að þessari þróun. Á heimasíðu þingsins er t.a.m. að finna lista þar sem teknar eru saman tíu ástæður fyrir því hvers vegna fólk ætti að taka þátt í kosningum til þess. Sjötta ástæðan hljómar svo:

“Í flestum tilfellum hafa þingmenn Evrópusambandsþingsins jafn mikinn þátt í ákvörðunum og ríki Evrópusambandsins sjálf. Flest lög sem snerta daglegt líf okkar eru samin í samvinnu af þingmönnum þingsins og ráðherrumríkja sambandsins á vettvangi þess. Mörg, sennilega flest, lög sem taka gildi í þínu heimalandi eiga uppruna sinn í lagagerðum sem samþykktar hafa verið af þingmönnum Evrópusambandsþingsins – þínum fulltrúum.”

Þarna er s.s. komin fram staðfesting frá Evrópusambandinu sjálfu á því sem lengi hefur verið vitað að meirihluti lagasetningar ríkja sambandsins kemur ekki frá þjóðþingum þeirra heldur frá Brussel.

Heimildir:
We have ways, or rather don’t have ways, of making you vote! (Blog.ft.com 29/01/09)
10 good reasons to vote (Euparl.eu)

Evrópusambandið, Ísland og umhverfismálin

mÞað er mikil einföldun þegar umhverfisráðherra og fulltrúi hans í Brussel (sjá Mbl. 9. og 12. janúar sl.) leitast við að gylla Evrópusambandið sem sérstakt forystuafl í umhverfismálum. Framganga ESB á þessu sviði er misjöfn eftir því hvar borið er niður og efnahagsstefna sambandsins vinnur gegn markmiðinu um sjálfbæra þróun. Samanburðurinn við stöðu umhverfismála hérlendis segir fyrst og fremst sína sögu um tregðu og skammsýni íslenskra stjórnvalda í umhverfismálum um langa hríð. Baráttan fyrir umhverfisvernd á sér fremur rætur í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og baráttu umhverfissamtaka víða um heim en innan framkvæmdastjórnar ESB þar sem flest annað en umhverfisvernd hefur forgang.

Alþjóðleg samvinna á umhverfissviði
Síðustu fjóra áratugina hefur alþjóðleg samvinna í umhverfismálum aukist stig af stigi og haldist að nokkru í hendur við vaxandi skilning á þeim vanda sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna fjölþættra áhrifa af iðnvæðingu og fólksfjölgun. Sameinuðu þjóðirnar hafa með stofnunum sínum, alþjóðaþingum og sáttmálum verið kveikjan að þessari samvinnu og frjáls umhverfisverndarsamtök rekið á eftir úrbótum og unnið ómetanlegt starf. Gildir það jafnt innan þjóðríkja og á alþjóðavettvangi. Þetta víðtæka alþjóðlega samstarf vill stundum gleymast þegar kemur að svæðisbundinni samvinnu, sem hvað Ísland varðar er einkum á vettvangi Norðurlandaráðs, Evrópska efnahagssvæðisins og Norðurheimskautsráðsins. Á Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1992 voru samþykkt mikilvæg stefnumið og sáttmálar á umhverfissviði. Evrópusambandið hefur síðan á mörgum sviðum lagt sig fram um að móta reglur og viðmiðanir sem einnig hafa verið teknar upp í löggjöf hérlendis innan ramma EES-samningsins. Enn hefur þó ekki tekist að fá lögfest hér á landi meginmarkmið umhverfisréttar.

Umhverfisáhrif innri markaðar ESB
Innri markaður Evrópusambandsins sem stofnað var til 1992 var aðferð evrópskra auðhringa til að ná frumkvæði í harðnandi samkeppni á alþjóðamörkuðum. Fjórfrelsið svonefnda, þ.e. frjálst streymi af vörum, þjónustu, fjármagni og vinnuafli óháð landamærum þjóðríkja var þar burðarásinn og varð kjarninn í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði þess samnings um óheftar fjármagnshreyfingar og tilskipanir um bankastarfsemi eru bakgrunnur bankahrunsins hér á landi sl. haust og þeirrar þróunar sem til þess leiddi. Frá upphafi var ljóst að vaxtarhagfræðin að baki innri markaðarins samræmdist illa hugmyndunum um sjálfbæra þróun. Þetta mátti lesa í „Taskforce skýrslu“ framkvæmdastjórnar ESB 1990 þar sem m.a. var bent á að flutningastarfsemi innan svæðisins myndi aukast um 30-50%. Síðasta heildarúttekt Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) frá árinu 2005 ber vott um að þrátt fyrir jákvæðan árangur á ýmsum sviðum séu vistfræðileg fótspor (ecological footprints) Evrópusambandsins margföld umfram það sem sjálfbært geti talist, þ.e. 5 hektarar á mann í stað 1-2 ha. Orkunotkun og losun gróðurhúsalofts fer vaxandi á ESB-svæðinu og sýnilegir erfiðleikar eru í vegi að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og á mörgum öðrum sviðum.

Fjórfrelsið á kostnað umhverfisins
Innan Evrópusambandsins má segja að umhverfisþættir séu á þriðja farrými, þar eð tilskipanir sem gera ráð fyrir óheftri samkeppni á vöru- og þjónustusviði hafi forgang. Í þessu sambandi hefur verið bent á svonefnda umhverfistryggingu eða „miljøgaranti“ í grein 100 A í Rómarsamningnum sem heimili aðildarríkjum að setja eða viðhalda strangari reglum en almennt gildi innan ESB. Þetta hefur reynst haldlítið eftir að ESB-dómstóllinn hefur ítrekað dregið úr vægi slíkrar tryggingar. Á þetta reyndi m.a. í svonefndum PCP-dómi ESB-dómstólsins árið 1994 sem féll á þann veg að ekki mætti banna umrætt efni sem við bruna getur breyst í díoxín. Jafnframt var kveðið svo á að ekki megi beita þessu ákvæði nema fyrirfram liggi fyrir heimild frá framkvæmdastjórn ESB og sérstakur rökstuðningur verði að fylgja til að heimila undanþágur frá sameiginlegum reglum vegna umhverfissjónarmiða.

Þjóðríkin svipt samningsumboði
Meðal afdrifaríkustu afleiðinga af ESB-aðild er sú staðreynd að aðildarríkin eru svipt samningsumboði á umhverfissviði og í öðrum samningum við þriðju aðila. Þetta birtist m.a. á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, í undirstofnunum þeirra og á stefnumarkandi þingum eins og glöggt kom í ljós á ráðstefnunni um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg árið 2002. Þar eins og í Ríó og víðar notuðu fulltrúar Noregs málfrelsi sitt og tillögurétt sem ríkis utan ESB til að ná fram ávinningum á umhverfissviði og koma í veg fyrir undanhald. Í drögum að lokaályktun ráðstefnunnar var setning þess efnis að sáttmálar á umhverfissviði verði framvegis að falla að viðskiptareglum WTO. Á þetta hafði ESB og Bandaríkin fallist en Noregur og Eþíópía andmæltu og söfnuðu liði sem nægði til að ákvæðið var fellt út. Á hliðstæðan hátt gæti Ísland utan Evrópusambandsins tekið málstað umhverfisins ef vilji stæði til.

Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur

(Birtist áður í Morgunblaðinu 28. janúar 2009)

Mikill meirihluti Íslendinga andvígur því að sótt verði um inngöngu í ESB

Meirihluti Íslendinga er andvígur því að Ísland sæki um inngöngu í Evrópusambandið. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem Fréttablaðið birtir í dag. Alls segjast um 59,8% vera andvíg því að sótt verði um inngöngu eða nær jafnmargir og sögðust fylgjandi því að það skref væri tekið í nóvember síðastliðnum. Andstæðingar inngöngu eru í meirihluta bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni þó andstaðan sé talsvert meiri á meðal íbúa landsbyggðarinnar.

Einungis er meirihluti fyrir inngöngu hjá þeim sem segjast styðja Samfylkinguna eða 73%. Andstaða meðal kjósenda annarra flokka er verulega. Um 60% stuðningsmanna Framsóknarflokksins er andvíg inngöngu, 75% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, liðlega 83% þeirra sem segjast styðja Frjálslynda flokkinn og 71% stuðningsmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Könnunin var gerð 22. janúar sl. og var úrtakið 800 manns. Spurt var “Á Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu?” og tóku liðlega 73% afstöðu til spurningarinnar.

Heimildir:
Meirihluti landsmanna á móti aðild að Evrópusambandinu (Amx.is 26/01/09)
Meirihluti andvígur ESB (Vísir.is 26/01/09)
Meirihluti vill ekki aðild að ESB (Mbl.is 26/01/09)

Sjálfstæðisflokkurinn og ESB – hvað er framundan?

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, boðar til opins fundar á Kaffi Rót Hafnarstræti 17, sunnudaginn 25. janúar nk. kl. 14:00 þar sem Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins, og Óli Björn Kárason, ritstjóri fréttavefsins AMX, ræða afstöðu Sjálfstæðisflokksins til inngöngu í Evrópusambandsins. Styrmir og Óli Björn, sem báðir hafa um árabil skrifað mikið um stjórnmál á Íslandi og þekkja vel til í Sjálfstæðisflokknum, munu á fundinum fara yfir stöðuna eins og hún er og leita svara við spurningunni um hvað sé framundan.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Stjórn Heimssýnar

Naumur meirihluti Íslendinga andvígur inngöngu í ESB

Naumur meirihluti Íslendinga er andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins sem er mikil breyting frá fyrri könnunum. 37,7% aðspurðra sögðust hlynntir inngöngu í sambandið en 38,3% sögðust henni andvíg. Í sambærilegri skoðanakönnun fyrirtækisins í október voru 51,7% hlynnt inngöngu en 27,1% andvíg.

Stuðningur við viðræður við Evrópusambandið um inngöngu hefur einnig dregist verulega saman. Samkvæmt könnun Capacent Gallup nú eru 56,4% hlynnt slíkum viðræðum samanborið við 65,5% í desember. 25,4% eru andvíg viðræðum við sambandið samanborið við 19,7% í síðasta mánuði.

Ljóst er að um er að ræða mikinn umsnúning í afstöðu fólks til inngöngu í Evrópusambandið.

Heimild:
Færri fylgjandi ESB-aðild (23/01/09)

Stóraukin andstaða við upptöku evru í Danmörku

Dregið hefur saman með þeim Dönum sem vilja evru og þeim sem vilja halda dönsku krónunni. Könnun Danske Bank sýnir að 41,1% vilja evru en 39,8% vilja halda krónunni. Aðrir eru í vafa. Af þeim hópi segja 9,6% að líklegra sé að þeir halli sér að evru en 7,3% óákveðinna segjast sennilega halla sér frekar að krónunni. Dönsk stjórnvöld hafa boðað nýtt þjóðaratkvæði um evruna og leita nú breiðrar pólitískrar samstöðu um málið. Þjóðaratkvæðið gæti farið fram á næsta ári ef af verður. Danir hafa tvisvar hafnað evrunni í þjóðaratkvæðagreiðlu, fyrst með höfnun Maastricht-sáttmálans árið 1992 og síðan með höfnun evrunnar sem slíkrar árið 2000.

Heimild:
Evruáhugi Dana minnkar (Amx.is 21/01/09)

Hvers vegna sögðu Norðmenn nei?

mFrændur okkar Norðmenn hafa tvívegis efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu, ESB, (áður Evrópubandalaginu), árin 1972 og 1992. Raunar má rekja samskiptasögu Norðmanna við bandalagið aftur til upphafs sjöunda áratugar en þá var talsverð umræða í Noregi um aðild, en aldrei var þó látið á hana reyna þá, líklega vegna andstöðu innan bandalagsins sjálfs, þótt pólitískar aðstæður í Noregi hafi líka haft sitt að segja.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð stóð fyrir málþingi um Ísland og Evrópu þann 10. janúar sl. Var þar margt ágætra erinda og umræða góð og málefnaleg. Frá Noregi kom Dag Seierstad, landsþekktur baráttumaður gegn aðild Noregs að ESB og forystumaður í SV (Sosialistisk Venstreparti), flokks Kristinar Halvorsen fjármálaráðherra Noregs. Eftir Dag liggur fjöldi greina, bóka og bæklinga, einkum um Evrópumálefni (sumt af því má nálgast á vefsíðunni www.neitileu.no og einnig beint http://neitileu.no/kunnskapsbank/publikasjoner/kronikker_av_dag_seierstad

Í erindi sínu fjallaði Dag Seierstad um umræðuna í Noregi um ESB-aðild og helstu ástæður þess að Noregur hefur tvívegis hafnað aðild, enda þótt meirihlutinn í stjórnmálalífi, atvinnulífi og fjölmiðlum hafi stutt aðild (það er reyndar sama mynstur og við höfum séð í öðrum löndum þar sem fram hafa farið þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök málefni ESB, t.d á Írlandi, í Danmörku, Frakklandi og Hollandi).

Það er fróðlegt fyrir okkur að skoða hvaða rök hafa vegið þyngst í Noregi. Ekki vegna þess að aðstæður séu að öllu leyti sambærilegar eða að við Íslendingar metum málin á nákvæmlega sama hátt og Norðmenn. Miklu fremur vegna þess að við eigum þrátt fyrir allt margt sameiginlegt, atvinnulíf hér og í Noregi er miklu sambærilegra heldur en innan Evrópusambandsins að jafnaði, bæði löndin eru aðilar að samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið og hafa þannig sömu stöðu gagnvart ESB, bæði löndin liggja í útjaðri Evrópu og hafa langa strandlengju og eru þannig langtum háðari sjávarútvegi en nokkurt land innan ESB (reyndar má segja að þar sé himinn og haf á milli og ESB er afar háð viðskiptum við þessi tvö lönd með sjávarafurðir). Af þessum og fleiri ástæðum er gagnlegt að skoða reynslu Norðmanna. Helstu ástæður þess að segja nei við aðild að ESB eru m.a. að mati Dags Seierstad:

 1. Frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og vinnuafls yfir svo stórt landfræðilegt svæði sem ESB er, býr til miðstýringu í stórum stíl: miðstýringu atvinnulífs og valds.
 2. ESB eykur fjarlægðina milli þess sem stjórnar og þess sem er stjórnað. Pólitískt kerfi ESB einkennist af meira skrifræði, minna lýðræði en ríkir í einstökum aðildarlöndum. Það er sérstaklega umhugsunarvert við þær aðstæður að almenningur í flestum löndum er í æ minna mæli virkur í stjórnmálastarfi. Flokkar missa félaga og það verður æ erfiðara að fá fólk til að taka að sér pólitísk trúnaðarstörf í sveitarfélögunum.
 3. Innan Evrópusambandsins munu stéttarfélög og önnur grasrótarsamtök mæta öflugri mótherjum og það verður lengri leið að þeim sem taka ákvarðanir. Ef Noregur fer inní ESB mun vald flytjast til, einnig innan samfélagsins í Noregi, frá jaðarbyggðum til miðsvæða, frá grasrótinni til elítunnar. Það eru elíturnar sem eru miðsvæðis sem eiga auðveldastan aðgang að valdakjarnanum í Brussel.
 4. Evrópusambandið steypir allt í sama mót. Lausnir sem henta meirihlutanum í ESB, verða að gilda fyrir alla. Noregur mun t.a.m. ekki getað rekið byggðastefnu sem hentar legu og lögun landsins og byggðamynstri. ESB-kerfið er því miklu meira en samstarf um þau viðfangsefni sem verður að sameinast um. ESB gerir samfélagsþróunina í Evrópu einsleita með því að krefjast þess að sömu reglur gildi alls staðar án tillits til þess hvort þær henti jafn vel alls staðar.
 5. Innri markaðurinn byggir á hefðbundinni vaxtarhagfræði, þar sem hin harða samkeppni milli jafnstæðra fyrirtækja á að leiða til eins skjótfengins hagvaxtar og unnt er. Þessi vaxtarhagfræði eykur umhverfisvandamálin, auk þess sem ýmsar aðgerðir í umhverfismálum verða að víkja af því að þær eru taldar samkeppnishindrandi og koma í veg fyrir flæði vöru yfir landamæri.
 6. Væri Noregur aðili að Evrópusambandinu væri landið skuldbundið til að gerast aðili að myntbandalaginu. En Noregur er það land í Vestur-Evrópu sem fellur verst að þessu myntbandalagi. Hátt verð á olíu og gasi þjónar hagsmunum Noregs en er skaðlegt fyrir önnur lönd í Evrópu. Þegar ESB hefur þörf fyrir hagstjórn sem eykur kaupmátt í samfélaginu, þarf Noregur að standa á bremsunni og öfugt. Þegar olíuverð hækkar þurfa flest ríki ESB að lækka vexti til að hleypa lífi í atvinnustarfsemina, en Noregur þarf á háum vöxtum að halda til að koma í veg fyrir ofþenslu. Og þegar olíuverðið lækkar er þessu öfugt farið. Flest ríki ESB þurfa þá að hækka vexti en Noregur þarf lága vexti. En í myndbandalaginu er vaxtastigið hið sama alls staðar. Við þurfum sem sagt stöðugt á að halda efnahagspólitík sem er í andstöðu við það sem ESB þarf á að halda.
 7. Í reiptoginu á alþjóðavettvangi hefur ESB oftast hvatt til hnattvæðingar sem dregur úr valdi þjóðríkja og einstakra samfélaga til að ráða eigin þróun. Noregur hefur stutt þá hnattvæðingu sem á sér stað innan ramma Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. En fyrir Norðmenn er mun einfaldara að breyta norskri pólitík en það væri að breyta pólitík ESB ef landið væri þar aðili. ESB er þannig byggt upp að barátta fyrir breyttri pólitík krefst miklu stærri og stöðugri pólitísks meirihluta en þarf til að breyta pólitíkinni í landi eins og Noregi.
 8. Utan ESB hefur Noregur tillögu- og málfrelsi í alþjóðasamfélaginu sem bæði Danmörk og Svíþjóð misstu þegar þau gengu í sambandið. Það á við um öll svið þar sem Evrópusambandið hefur tekið yfir ákvörðunarvald frá aðildarríkjunum. Þar semur framkvæmdastjórn ESB fyrir hönd aðildarríkjanna í öllum alþjóðlegum samningum. Í nokkrum tilfellum á sviði alþjóðlegra umhverfismála hafa síðustu ríkisstjórnir Noregs nýtt tillögu- og málfrelsið á fyrirmyndar hátt.
 9. Þessi tillögu- og málfrelsisréttur á alþjóðlegum ráðstefnum er ómetanlegur hluti af athafnafrelsinu utan ESB. Það gefur hinni pólitísku baráttu í Noregi þýðingu fyrir miklu stærri hluta þjóðarinnar en ef ríkisstjórnirnar kannski, kannski ekki væru að takast á pólitískt langt inni í völundarhúsi ESB-kerfisins.
 10. Yfirþjóðlegt fyrirkomulag er nauðsynlegt, en ef það á að samrýmast lýðræðislegri samfélagsskipan má hið yfirþjóðlega aðeins ná til þess sem er allra nauðsynlegast. Hið yfirþjóðlega vald ESB nær til miklu fleiri málasviða og það takmarkar athafnafrelsi þjóða á röngum sviðum.
 11. Utan ESB getum við áfram rekið okkar eigin stefnu í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Það þýðir að við getum byggt upp landbúnað sem styðst í meira mæli við lífræna ræktun og sem krefst mikils vinnuafls. Ennfremur að við getum haldið við betra jafnvægi milli strandveiða og úthafsveiða og þannig tryggt hærra atvinnustig í sjávarútveginum.
 12. Utan ESB afhendum við bandalaginu ekki umboð til að móta stefnu okkar í viðskiptum við þróunarlönd.
 13. Og utan sambandsins höldum við málfrelsinu í mikilvægum alþjóðlegum samningaviðræðum á öllum sviðum þar sem ESB semur fyrir hönd aðildarríkja sinna.

Ég rek þessi atriði úr erindi Dags Seierstad hér vegna þess að mörg þeirra eiga vel við um aðstæður hér á Íslandi. Ekki öll og sum misvel, en engu að síður er margt sem við eigum sameiginlegt með Norðmönnum hvað varðar sambandið við ESB. Hagstjórnarrökin, rökin um málefni sjávarútvegs og landbúnaðar og byggðamál eiga vel við, og svo að sjálfsögðu allt sem sagt er um lýðræði og sjálfstæða rödd í alþjóðasamfélaginu. 

Í Noregi fór fram ítarleg umræða um ESB-málin, bæði í kringum atkvæðagreiðsluna 1972 og eins 1992. Þar var ekki hrapað að ákvörðun heldur stóð umræðan og upplýsingaöflun í mörg ár og síðan aðildarviðræður sem skiluðu Norðmönnum einungis 3ja ára aðlögunartíma hvað varðaði sjávarútveginn. Það reyndist þeim óaðgengilegt og eitthvað í þá veru væri okkur enn frekar óaðgengilegt.

Það er mikilvægt að við Íslendingar förum ekki fram úr sjálfum okkur í þessu máli. Við búum að skelfilegri reynslu af því að hafa hlaupið of hratt í kapphlaupinu um að græða mest og eiga mest. Við skulum því anda rólega og takast á við þau viðfangsefni sem eru hvað brýnust nú um stundir. Hitt hleypur ekki frá okkur ef svo skyldi fara að þjóðin vilji að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Og hún á sjálf að taka þá ákvörðun.

Árni Þór Sigurðsson,
þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

(Birtist áður í Morgunblaðinu 21. janúar 2009)