Mun evran lifa af alþjóðlegu efnahagskrísuna?

Daniel Hannan, þingmaður á Evrópusambandsþinginu, velti fyrir sér framtíðarmöguleikum evrunnar á bloggsíðu sinni fyrir helgi. Hann segist ekki hafa verið tilbúinn að taka undir spár um að evrusvæðið kynni að líða undir lok til þessa, þá aðallega vegna þess að hann teldi að forystumenn Evrópusambandsins myndu ekki leyfa því að gerast. Þeir væru búnir að fjárfesta of mikið í evrunni pólitískt. En nú væru farnar að renna á hann tvær grímur. Ekki síst þegar menn eins og Karl Otto Pöhl, fyrrum formaður bankastjórnar þýska seðlabankans, væru farnir að spá því að eitt af minni evruríkjunum kunni að þurfa að lýsa sig gjaldþrota.

Pöhl sagði í samtali við Sky fréttastofuna að hætta væri á að evruríki eins og Írland og Grikkland yrðu gjaldþrota og að svo gæti farið að mjög skuldsett ríki yrðu að yfirgefa evrusvæðið. Hann sagðist telja að einhver evruríki væru að íhuga þann möguleika. Hannan minnir á að Pöhl sé ekki hver sem er. Hann hafi verið formaður bankastjórnar þýska seðlabankans frá 1980-1991 og sé gjarnan nefndur sem einn af höfundum evrusvæðisins. Með styrkri peningamálastjórn við stjórnvölinn á þýska seðlabankanum hafi hann skapað forsendurnar fyrir tilurð svæðisins. Stuðningur aðila eins og hans við evruna sé afar mikilvægur og gagnrýni frá honum að sama skapi mjög alvarleg.

Heimildir:
Will the euro survive? (Hannan.co.uk 26/02/09)
Ex-Bundesbank Boss Warns Of Euro Threat (Sky.com 25/02/09)

Hoppað á ESB-vagninn

Bjarni Harðarson fjallaði á bloggsíðu sinni á dögunum um misvísandi skilaboð frá aðilum innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um Evrópumál og hvort sækjast eigi eftir inngöngu í Evrópusambandið eða ekki. Vitnaði hann þar til eftirfarandi ummæla Lilju Mósesdóttur, hagfræðings og frambjóðanda hjá VG, í Speglinum í Ríkisútvarpinu:

“Vinstri græn hafa rætt þann möguleika að ganga inn í ESB og taka upp evruna en hafa ákveðið að það þyrfti fyrst að fara fram málefnaleg umræða um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu og síðan þá upptöku evrunnar og að slíkt ákvörðunarferli þurfi að vera lýðræðislegt þannig að á þessari stundu er ekki alveg ljóst hvert flokkurinn muni stefna varðandi aðild að Evrópusambandinu þar sem flokkurinn er í raun og veru að leggja þessa ákvörðun í hendurnar á þjóðinni.”

Heimild:
Allir hoppa á ESB vagninn – VG stefnulaus! (Bjarnihardar.blog.is 22/02/09)

Evran einn versti gjaldmiðill heimsins?

Greiningardeild breska stórbankans HSBC segir í nýrri skýrslu að norska krónan sé sennilega besti gjaldmiðill heims um þessar mundir. Frá þessu var greint á norska viðskiptavefnum E24 í dag. Þar segir að miðað sé við vöxt vergrar þjóðarframleiðslu, verðbólgu, lánshæfismat, afkomu ríkissjóðs og utanríkisviðskiptastefnu. Norska krónan hafi í öllum þessum flokkum verið í einu af þremur efstu sætunum. Verstu einkunnina fá hins vegar helstu gjaldmiðlar heimsins: dalur, evra, jen og pund.

Heimildir:
Norska krónan besti gjaldmiðill heims? (Mbl.is 26/02/09)
Kronen er best i verden (E24.no 26/02/09)

Evran gerir efnahagskrísuna erfiðari viðfangs

Wilhelm Hankel, hagfræðiprófessor við Háskólann í Frankfurt, sagði í viðtali við þýska dagblaðið Frankfurter Rundschau nýverið að hann teldi evruna standa í vegi fyrir því að hægt væri að takast á við efnahagskísuna sem geysar um þessar mundir. Evran væri hindrun í vegi þess að koma mætti böndum á hana og koma hlutunum í réttan farveg á ný. Miðstýrð peningamálastefna Seðlabanka Evrópusambandsins tæki ekki mið af hagsmunum einstakra evruríkja heldur væri aðeins ein stefna fyrir allt evrusvæðið.

Hankel sagði að ríki sem hefðu sinn eigin gjaldmiðil væru að koma mun betur út úr efnahagskrísunni en evruríkin sem væru bundin af evrunni og gætu því ekki aðlagað sig að breyttum aðstæðum og aukið samkeppnishæfni sína. Ennfremur sagði hann að fjármálamarkaðir gerðu ráð fyrir því að evrusvæðið ætti eftir að liðast í sundur, miklar líkur væru á að það gerðist og að það skynsamlegasta í stöðunni fyrir Þjóðverja væri að segja skilið við evruna og taka upp þýska markið á nýjan leik.

Heimild:
“Euro blockiert Kampf gegen die Krise” (Fr-online.de 11/02/09)

Evrópusambandið getur breytt löggjöf sinni um sjávarútvegsmál að vild

Stefán Már Stefánsson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í Evrópurétti, segir að Evrópusambandið geti hvenær sem er breytt löggjöf sinni á sviði sjávarútvegsmála að vild með auknum meirihluta. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi Stefáns á hádegisverðarfundi á vegum Lögfræðingafélags Íslands á Grand Hóteli 18. febrúar sl.

Í erindi sínu rakti Stefán Már grunnþætti hinnar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, benti á ýmsar mótsagnir í reglugerðarverkinu og vakti jafnframt athygli á því að í afleiddri löggjöf sambandsins fælust mjög víðækar heimildir. Ennfremur kom hann inn á svokallað kvótahopp, sem Bretar urðu t.d. illa fyrir barðinu á, og sagði í senn erfitt og óljóst hvernig girða mætti fyrir slíkar uppákomur.

Stefán fór yfir reynslu Norðmanna í viðræðum þeirra um inngöngu í Evrópusambandið árið 1994 og sagði þá hvorki hafa komist lönd eða strönd með sínar kröfur. Færi svo að Ísland sækti um inngöngu sagði Stefán Már það grundvallaratriði að samningsmarkmið væru skýr frá upphafi. Annars væri hætta á að samningamenn sneru heim með loðnar yfirlýsingar á borð, rétt eins og gerðist í Noregi. Þar höfnuðu Norðmenn aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Heimildir:
„Evrópusambandið getur breytt löggjöf á sviði fiskimála að vild“ (Líú.is 20/02/09)
Evrópusambandið getur breytt löggjöf á sviði fiskimála (Vísir.is 20/02/09)

Evrópusamband í uppnámi ekki fýsilegt fyrir Ísland

Hver höndin er upp á móti annarri innan ESB eins og fram kemur nú í aðdraganda leiðtogafundar þess. Efnahagskreppan í einstöku aðildarríkjum dýpkar dag frá degi. Í gær þyrptust 100-200 þúsund Írar út á götur í kröfugöngu gegn ástandinu. Á Írlandi er gjaldmiðillinn evra og gerir það stjórnvöldum ókleift að grípa til sértækra aðgerða. Í Lettlandi hafa geisað götubardagar undanfarið þar sem krafist er afsagnar ríkisstjórnar landsins sem tengt hefur gjaldmiðilinn lati við evru en sú ráðstöfun bindur hendur stjórnvalda. Þetta er þó sú leið sem ýmsir ESB-sinnar hérlendis hafa lagt til með krónuna.

Svipað ástand og í Lettlandi getur skapast fyrr en varir í öðrum Eystrasaltsríkjum og víðar innan sambandsins, m.a. í Búlgaríu. Í Grikklandi hefur allt verið í uppnámi mánuðum saman. Í kjarnaríkum ESB, Frakklandi og Þýskalandi grefur óánægja almennings um sig og skýrir það m.a. orðaflaum Sarkosys Frakklandsforseta um siðbættan kapítalisma. Hann hefur ástæðu til að óttast að franskur almenningur rísi upp þegar ástandið versnar.

Hvernig í ósköpunum dettur Samfylkingunni og Framsóknarflokknum í hug að krefjast við þessar aðstæður að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu?

Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur

Maastricht-skilyrðin koma fyrst og síðan ERM II

Ferenc Karvalits, aðstoðarseðlabankastjóri Ungverjalands, sagði á ráðstefnu um efnahagsmál í vikunni að Ungverjar ættu aðeins að gerast aðilar að ERM II, undirbúningsferlinu fyrir upptöku evrunnar, þegar það væri alveg ljóst að þeir væru við það að uppfylla skilyrðin sem sett eru fyrir upptöku hennar og kennd hafa verið við Maastricht. Seðlabanki Póllands sendi frá sér skýrslu sl. þriðjudag þar sem m.a. kemur fram að bankinn mæli ekki með inngöngu Póllands í ERM II á meðan núverandi efnahagsástand er til staðar. Frá þessu var greint á ungverska viðskiptafréttavefnum Portfolio.hu í gær.

M.ö.o. mæla hvorki Seðlabankar Ungverjalands né Póllands með því að ríkin tvö fari inn í ERM II fyrr en ljóst sé að skilyrðum þess að taka upp evruna verði mætt. Hér á landi hefur því verði haldið fram af mörgum stuðningsmönnum inngöngu í Evrópusambandið að sækja þyrfti um slíka inngöngu sem fyrst svo komast mætti í ERM II sem myndi stuðla að því að Ísland næði sér á strik aftur efnahagslega. Ljóst er að sá málflutningur kemur engan veginn heim og saman við afstöðu seðlabanka Póllands og Ungverjalands.

Heimild:
Hungary should not rush into anteroom for euro zone – rate-setter Karvalits (Portfolio.hu 18/02/09)

Evran skelfur

Ágúst Þórhallsson, lögfræðingur og fjármálaráðgjafi, ritaði áhugaverða grein á fréttavefinn Amx.is í gær þar sem hann fjallar um stöðu efnahagsmála innan evrusvæðisins og þær blikur sem framundan eru fyrir svæðið og sameiginlegan gjaldmiðil þess, evruna. Í greininni segir m.a.:

“Fjárfestar eru nú að átta sig á því að evran er í djúpum skít út af gríðarlegum skuldbindingum evrópskra banka í Austur–Evrópu sem er eins og sviðin jörð þessa dagana. Sérstaklega eru bankar frá Austurríki og Svíþjóð nefndir til sögunnar. Til að mynda liggur fyrir að austurrískir bankar hafa lánað til Austur-evrópskra ríkja (fyrrum Sovétríkjunum) fjárhæðir sem nema um 70% af þjóðarframleiðslu Austurríkis. Í austurrískum fjölmiðlum er talið að 10% afskriftir af þessum lánum leiði til þess að fjármálakerfið muni hrynja þar í landi. Evrópski þróunarbankinn hefur á öðrum stað talið líklegt að 10-20% af þessum lánum þurfi að afskrifa. Sænska krónan hefur fallið eins og spilaborg á þessu ári og líklegt að mikil vandamál komi upp þar í kjölfarið.”

Og síðan:

“Það er komið að dómsdegi fyrir evruna og það myntbandalag sem byggir á henni. Á næstu vikum og mánuðum mun reyna á hvort bandalagið er nógu sterkt til að takast á við björgun evrópska bankakerfisins.”

Heimild:
Evran skelfur (Amx.is 17/02/09)

Eignarhald í sjávarútvegi færðist úr landi með inngöngu í ESB

Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, sagði í viðtali við skoska blaðið The Scotsman 9. febrúar sl. að með inngöngu í Evrópusambandið „myndi eignarhald í sjávarútvegi smám saman færast í hendur útlendinga.“ Í frétt blaðsins kemur fram að íslenskur sjávarútvegur og örlög hans yrði úrslitavaldur kæmi til viðræðna á milli Íslands og Evrópusambandsins um inngöngu í sambandið.

Á heimasíðu Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að frétt skoska blaðsins sé enn eitt dæmið um mikinn áhuga Skota á umræðunni hérlendis um Ísland og Evrópusambandið. Þeirra eigin reynsla af hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins er bitur. Sú reynsla sé rakin í mjög ítarlegri grein Dr. James Wilkie, sem finna má á Evrópusambandstengli á vefsíðu LÍÚ.

Heimildir:
Eyewitness: Ingrid Melander in Brussels (The Scotsman 09/02/09)
„Eignarhald í sjávarútvegi myndi líklega færast í hendur útlendinga“ (Líú.is 17/02/09)
Segir ESB aðild þýða eignatilfærslu í sjávarútvegi úr landinu (Vísir.is 17/02/09)

Glærur Peters Ørebech frá fyrirlestri hans í janúar

Peter Ørebech, þjóðréttarfræðingur við háskólann í Tromsö í Noregi, hélt fyrirlestur um sjávarútveginn og Evrópusambandið á fjölmennu málþingi sem Heimssýn stóð fyrir þann 11. janúar sl. Um eitt hundrað manns sóttu málþingið en þar héldu einnig erindi auk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fulltrúar frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva. Fyrirlestur Ørebech var á norsku og er nú hægt að nálgast glærur hans bæði á norsku og íslensku undir tenglinum “Gagnasafn” hér á síðunni. Þar er einnig hægt að nálgast hljóðupptöku af honum.