Meiri efnahagssamdráttur á evrusvæðinu en í Bandaríkjunum

Efnahagssamdráttur var meiri á evrusvæðinu (þeim ríkjum Evrópusambandsins sem nota evru sem gjaldmiðil) en í Bandaríkjunum á síðasta fjórðungi ársins sem leið. Þetta kemur fram í gögnum sem Eurostat, hagstofa sambandsins, gaf út í gær. Samdrátturinn nam hálfu öðru prósenti á evrusvæðinu á þessum tíma, en einu prósenti vestan hafs. Þessar tölur eru taldar hnekkja staðhæfingum forystumanna í Evrópusambandsríkjunum um að efnahagserfiðleikar séu ekki eins alvarlegir í evruríkjunum og í Bandaríkjunum.

Heimild:
Samdráttur meiri í Evrópu en BNA (Rúv.is 14/02/09)

Sífellt færri Danir vilja skipta dönsku krónunni út fyrir evru

Leita þarf aftur til ársins 2001 til að finna jafn lítinn stuðning á meðal Dana við að skipta dönsku krónunni út fyrir evruna og í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Gallup fyrir danska dagblaðið Berlingske Tidende sem birtar voru í blaðinu í gær. Ef marka má þær skiptast Danir nú í tvær jafn stórar fylkingar með og á móti upptöku evrunnar. 42% vilja halda í krónuna á meðan 42% vilja taka upp evru.

Í sambærilegri skoðanakönnun Gallup í nóvember á síðasta ári vildu 51% aðspurðra skipta krónunni út fyrir evru. Stuðningur við evruna hefur sífellt farið minnkandi að undanförnu ef marka má kannanir. Í lok janúar voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar fyrir Danske Bank þar sem kom fram að 41,1% studdu upptöku evrunnar en 38,8% voru því andvíg.

Dönsk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til þess að halda nýtt þjóðaratkvæði um evruna í Danmörku og hefur verið talað um að það gæti farið fram annað hvort á næsta ári eða 2011. Minnkandi stuðningur við evruna á meðal Dana gæti þó sett stórt strik í reikninginn í þeim áætlunum. Danir höfnuðu evrunni í þjóðaratkvæði árið 2000 og þar áður ásamt Maastricht-sáttmálanum árið 1993.

Heimildir:
Vil du skifte kronen ud med euro? (Bt.dk 11/02/09)
Evruáhugi Dana minnkar (Amx.is 21/01/09)
Danish euro referendum, 2000 (Wikipedia.org skoðað 12/02/09)

Evrópusambandið kemur evrunni til varnar

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, og forseti bankastjórnar Seðlabanka Evrópusambandsins, Jean-Claude Trichet, sá sig nýverið knúna til þess að koma evrunni til varnar eftir að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), Dominique Strauss-Kahn, lýsti nýverið yfir áhyggjum af framtíð evrusvæðisins. Fullyrtu þeir að engar líkur væru á að evrusvæðið liðaðist í sundur en sífellt fleiri stjórnmálamenn, fræðimenn og fjármálastofnanir hafa á undanförnum vikum og mánuðum lýst vaxandi áhyggjum af svæðinu og að eitt eða fleiri ríki þess kunni að segja skilið við það. Yfirlýsingar Barroso og Trichet eru taldar til marks um hversu alvarlegt ástandið raunverulega er en svo virðist sem þeim hafi ekki tekist að slá á áhyggjur manna af afdrifum evrusvæðisins.

Var EES-samningurinn heillaskref?

Var samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið heillaskref? Hvort skrifast frjálst flæði afbrotamanna á milli Evrópulanda á reikning Schengen eða fjórfrelsisins? Er fullveldishugtakinu misbeitt í Evrópuumræðunni? Þetta og margt fleira var meðal þess sem bar á góma í líflegum umræðum á fundi Heimssýnar á Kaffi Rót síðastliðinn sunnudag.

Umræðuefni dagsins var nýútkomin bók Björns Bjarnasonar,alþingismanns og fyrrv. ráðherra, um Ísland og Evrópusamabndið. Meðal framsögumanna voru auk Björns þeir Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur sem jafnframt er talsmaður inngöngu í Evrópusambandið, og Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingar og stjórnarmaður í Heimssýn.

Stefán varpaði þeirri spurningu meðal annars að bókarhöfundi hvort hann teldi enn, þrátt fyrir bankahrunið, að EES-samningurinn hefði orðið Íslandi til góðs. Björn tók að nokkru undir þá túlkun Stefáns að EES-samningurinn hefði skapað þær aðstæður sem leiddu af sér þenslu bankakerfisins. Þess vegna hlyti samningurinn og gildi hans að koma til skoðunar þegar menn gerðu ástæður bankahrunsins upp en sjálfur kvaðst hann enn telja að gerð samningsins hafi verið gæfuskref fyrir íslenskt samfélag.

Aðspurður um það hvort Schengen samstarfið hefði gert erlendum glæpamönnum léttara fyrir við störf á Íslandi sagðist Björn ekki telja það rétt mat. Schengen samstarfið hefði þvert á móti gert íslenskum lögregluyfirvöldum léttara í samvinnu við lögreglu annarsstaðar á Schengen samstarfinu. Aftur á móti hefði hin frjálsa för fólks samkvæmt EES-samningnum þau áhrif að hún veitti öllum íbúum á svæðinu rétt til að dvelja á Íslandi og það hefði haft áhrif á þessa mynd.

Eiríkur Bergmann ræddi í sínu andsvari við bók Björns nokkuð um fullveldishugtakið og taldi þar að ekki lægi ljóst fyrir hvað átt væri við með hugtaki þessu. Þannig væri Ísland áfram fullvalda þó svo að það gengi í Evrópusambandið sem aftur á móti Kalifornía og Bæjaraland væru ekki þar sem þau ríki gætu ekki gert alþjóðlega samninga. Ragnar Arnalds formaður Heimssýnar benti í þessu samhengi á að ríki sambandsins gætu t.a.m. ekki gert fríverslunarsamninga við lönd utan Evrópu sem hlyti að teljast veruleg skerðing á fullveldi.

Um þessi atriði og mörg fleiri má lesa frekar í bók Björns Hvað er Íslandi fyrir bestu? sem fæst í bókaverslunum og á skrifstofu Heimssýnar. Sjá ennfremur fyrirlestur Stefáns Jóhanns Stefánssonar í heild sinni.

Efnahagsástandið alvarlegt í ESB-ríkinu Lettlandi

Staða efnahagsmála er mjög alvarleg í Lettlandi. Ríkisstjórn landsins hefur lagt áherslu á að viðhalda tengingu gjaldmiðils landsins við evruna með því að grípa til óvinsælla efnahagsráðstafana eins og launalækkana, skattahækkana og mikils niðurskurðar hjá hinu opinbera í samræmi við lánasamkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Búist er við löngum og djúpum samdrætti í Lettlandi ef marka má spá sænska bankans Swedbank sem er umsvifamesti banki í Eystrasaltsríkjunum. Atvinnuleysi verði 13,5% á þessu ári að meðaltali og allt að 16% á næsta ári.

Heimild:
Latvia reports record economic contraction (Eubusiness.com 09/02/09)

Misjöfn afstaða ESB til þjóðaratkvæða í Sviss og á Írlandi

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, fagnaði í dag niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss þar sem kosið var um það hvort leyfa ætti frjálsa för verkafólks frá tveimur nýjustu ríkjum sambandsins, Búlgaríu og Rúmeníu, til landsins. Tæplega 60% þeirra Svisslendinga sem afstöðu tóku með eða á móti voru því hlynntir en rúm 40% á móti. Sagði Barroso að um „frábæra niðurstöðu“ væri að ræða og að hún myndi hafa jákvæð áhrif á samskipti Sviss og Evrópusambandsins.

Engum sögum hefur hins vegar farið af því að Barroso eða aðrir forystumenn Evrópusambandsins hafi viðrað þá skoðun að Svisslendingar þyrftu að kjósa aftur um málið eða lýst efasemdum um að svissneskir kjósendur hafi raunverulega verið að kjósa um þetta tiltekna mál en ekki eitthvað allt annað. Sú hefur þó verið raunin t.a.m. í tilfelli þjóðaratkvæðisins sem haldið var á Írlandi sl. sumar um fyrirhugaða Stjórnarskrá Evrópusambandsins (einnig kölluð Lissabon-sáttmálinn) sem Írar höfnuðu og raunar í hverri einustu þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin hefur verið um aukna samrunaþróun í Evrópu en hefur ekki skilað þeim niðurstöðum sem ráðamenn í Brussel hafa viljað sjá.

„Í þau fáu skipti sem kjósendum í ríkjum Evrópusambandsins hefur verið leyft að tjá skoðun sína á einhverjum samrunaskrefum innan sambandsins í þjóðaratkvæði hefur niðurstaðan oftar en ekki verið vonbrigði fyrir ráðamenn í Brussel. Vinnureglan hefur þá verið sú að endurtaka þjóðaratkvæðið aftur og aftur þar til fengist hefur niðurstaða sem þeim hefur líkað – og síðan hefur aldrei verið kosið aftur,“ segir Hjörtur J. Guðmundsson, stjórnarmaður í Heimssýn hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. 

Heimild:
EU’s Barroso hails ‘excellent’ Swiss vote (Eubusiness.com 08/02/09)

Segir að Þjóðverjar komi ekki evrusvæðinu til bjargar

Wolfgang Münchau, aðstoðarritstjóri Financial Times, ritar fróðlega pistla um Evrópumál í blaðið í viku hverri. Í pistli þann 4. febrúar sl. skrifaði hann m.a. að það væri erfitt að spá fyrir um það hvort evrusvæðið myndi liðast í sundur eða ekki. Hins vegar væri afar ólíklegt að Þjóðverjar væru reiðubúnir að koma svæðinu til bjargar ef á þyrfti að halda.

„Ég get ímyndað mér að ef Merkel [kanslari Þýskalands] eða Steinbrück [þýski fjármálaráðherrann] þyrftu að bjarga evrunni þá væru líkurnar á því litlar sem engar. Fjármálamarkaðirnir eru sömu skoðunar,“  skrifaði Münchau.

Heimild:
Wolfgang Münchau – Das nächste Spekulationsopfer (Ftd.de 04/02/09)

Ekki tímabært að huga að frekari stækkun ESB

Forseti þings Evrópusambandsins, Hans-Gert Pöttering, vísaði því á bug fyrr í vikunni í viðtali við finnska dagblaðið Aamulehti að Ísland gæti gengið hratt inn í Evrópusambandið. Benti hann ennfremur á að nú væri ekki rétti tíminn til þess að huga að frekari stækkun sambandsins. Lissabon-sáttmálinn (fyrirhuguð Stjórnarskrá Evrópusambandsins) hefði enn ekki verið endanlega staðfestur og væri málið í biðstöðu eftir að Írar höfnuðu sáttmálanum í þjóðaratkvæði sl. sumar.

Með skírskotun sinni í Lissabon-sáttmálann var Pöttering væntanlega að undirstrika að Evrópusambandið getur ekki tekið við fleiri ríkjum í sínar raðið fyrr en sáttmálinn hefur náð fram að ganga þar sem núgildandi sáttmálar sambandsins gera ekki ráð fyrir fleiri en þeim 27 ríkjum sem þegar tilheyra því.

Heimild:
Segir ekki tímabært að Ísland fái inngöngu í ESB (Mbl.is 04/02/09)

Hvað varð um ESB-stefnu Samfylkingarinnar?

Allt frá því bankahrunið átti sér stað í byrjun október hafa ráðherrar, þingmenn og aðrir talsmenn Samfylkingarinnar stöðugt haldið því fram, að helsta – ef ekki eina – bjargráð okkar Íslendinga út úr efnahagskreppunni væri að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Þegar bent var á að slíkt ferli tæki mörg ár stóð ekki á svörunum – bara það að hefja aðildarviðræður þýddi að traust á íslensku efnahagslífi myndi þegar í stað  vaxa og engan tíma mætti missa til að Íslendingar kæmust sem fyrst í skjól sambandsins og gjaldmiðils þess.

Ákafinn var mikill í desember…
Í desember færðist aukinn kraftur í umræður af þessu tagi. Þann 11. desember sagði t.d. þáverandi viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar í samtali við Viðskiptablaðið að ESB-umsókn væri „kjarninn í endurreisn íslensks efnahagslífs“ og flokkurinn vildi hefja „hraðferð í sambandið“ snemma á árinu 2009. Sömu sjónarmið komu fram hjá formanni flokksins í Vikulokum Rásar 1 þann 13. desember, en enginn gat velkst í vafa um að hún teldi stjórnarslit augljósa niðurstöðu færi svo að Sjálfstæðisflokkurinn tæki ekki upp stuðning við ESB-aðild á landsfundi sínum, sem halda átti í lok janúar. Og ekki voru Ungir jafnaðarmenn í vafa um hvað þeir vildu; þeir sögðu í ályktun þann 16. desember að ekki kæmi til greina að Samfylkingin sæti í ríkisstjórn sem ekki stefndi á aðildarviðræður við ESB.

…en jókst upp úr öllu valdi í janúar
Fyrstu þrjár vikurnar í janúar leið varla sá dagur að ekki birtist fjölmiðlaviðtal eða blaðagrein eftir einhvern af forystumönnum Samfylkingarinnar þar sem því var ítrekað hótað – bæði leynt og ljóst – að stjórnarsamstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokkinn yrði slitið ef sjálfstæðismenn tækju ekki upp stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum á landsfundinum. Ef ekki reyndist samstaða um að hefja aðildarviðræður strax – ekki síðar en í febrúar – væru ekki forsendur fyrir áframhaldandi samstarfi. Svo mikil var óþolinmæðin og æsingurinn að öllu öðru uppbyggingarstarfi þeirrar ríkisstjórnar var fórnandi til að ná þessu brýna máli fram.

En hvað gerðist í stjórnarmyndunarviðræðunum?
En hvað hefur síðan gerst? Samfylkingin kom sér að vísu út úr fráfarandi ríkisstjórn en þau skilyrði flokksins sem á steytti snerust ekki um Evrópusambandsaðild. Þar virtist á endasprettinum mestu máli skipta að Samfylkingin fengi forsætisráðuneytið í margboðaðri uppstokkun á ríkisstjórninni.

Og ekki setti flokkurinn Evrópumálin í forgang þegar kom að stjórnarmyndunarviðræðum við Vinstri græna. Þar virtust samningamenn flokksins ekki gera neinar kröfur til þess að skref yrðu stigin í átt til ESB-aðildar, hvað þá að aðildarviðræður yrðu hafnar strax í febrúar eins og áður hafði verið krafist í samstarfinu við sjálfstæðismenn. Þetta var allt í einu ekki lengur „lykilatriði í endurreisninni“ eins og formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði í Morgunblaðsgrein þann 15. Janúar eða „órjúfanlegur þátturí endurreisn og uppbyggingu íslensks efnahagslífs“ eins og þáverandi viðskiptaráðherra sagði í grein í sama blaði þann 20. janúar. Samfylkingin var greinilega ekki lengur á þeirri skoðun sem birtist í samtali Morgunblaðsins við iðnaðarráðherra þann 17. janúar, en þá kom fram að Samfylkingin vildi að vísu aðildarviðræður „þegar í stað“ en væri þó af þolinmæði sinni og mildi tilbúin að bíða fram yfir landsfund Sjálfstæðisflokksins í lok janúar.

Og hvað segir nú í verkefnaskránni?
Hafi Samfylkingarmenn gert einhverja minnstu tilraun til að þoka ESB-aðild áfram í viðræðunum við Vinstri græna er augljóst að þeim hefur ekkert orðið ágengt. Í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar er reyndar nokkrum línum varið í umfjöllun um Evrópumál og segir þar:

„Evrópunefnd verður falið að ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins. Nefndin skili skýrslu 15. apríl 2009 sem hafi að geyma mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Svo mörg voru þau orð. Sem sagt, ekki neitt nýtt. Ekkert skref í átt að ESB-aðild. Það eina sem þarna kemur fram er að Evrópunefnd verði falið að halda áfram því starfi, sem hún þegar vinnur að og áréttað var af fyrri ríkisstjórn um miðjan desember, og að stjórnarflokkarnir séu sammála um að aðild að ESB verði ekki ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu, en það hefur verið yfirlýst stefna allra stjórnmálaflokka í landinu – hvers eins og einasta – í 15 ár.

Kom Steingrímur vitinu fyrir Samfylkinguna?
Nú fer því fjarri að ég harmi þessa umpólun Samfylkingarinnar. Ég hlýt að fagna því ef flokkurinn áttar sig nú allt í einu á því eins og aðrir að aðild að ESB og upptaka evrunnar eftir mörg ár leysir ekki þann efnahagsvanda sem við Íslendingar eigum við að stríða í dag. Maður hlýtur að spyrja hvort Steingrímur J. Sigfússon sé sá kraftaverkamaður, að hafa komið vitinu fyrir Samfylkinguna í þessum efnum á örfáum dögum. Kannski er það raunin. Spyr sá sem ekki veit.

En að manni læðist hins vegar sá grunur, að eitthvað annað skýri þetta. Hugsanlegt er að sú ofuráhersla sem Samfylkingarmenn hafa lagt á Evrópusambandsmálin á undanförnum mánuðum hafi átt sér einhverjar aðrar rætur en hugsjónir og sannfæringu. Lögðu þeir þessa áherslu á þessi mál til að skapa sér fjarlægð frá þáverandi samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn? Voru þeir hugsanlega að reyna að búa til málefnaleg ágreiningsefni til þess að undirbúa stjórnarslit? Voru þeir strax farnir að setja fram skilyrði sem þeir töldu víst að sjálfstæðismenn gætu ekki gengið að, eins og síðan gerðist hvað eftir annað á síðustu sólarhringum fyrri ríkisstjórnar? Eða er jafnvel hugsanlegt að talsmenn Samfylkingarinnar hafi talað svona mikið um Evrópumálin í sambandi við kreppuna, einfaldlega vegna þess að þeir höfðu ekkert vitrænt fram að færa í efnahagsmálaumræðunni?

Fjölmiðlar leiti svara
En hverjar sem skýringarnar kunna að vera er mikilvægt að fjölmiðlamenn leiti alvöru svara hjá forystumönnum Samfylkingarinnar um þessi mál. Spyrji þá hvers vegna mál, sem var stórmál í stjórnarsamstarfinu við sjálfstæðismenn sé það ekki lengur. Spyrji hvort flokkurinn hafi breytt um stefnu eða hvort ekkert hafi verið að marka ofuráherslu þeirra á mikilvægi ESB-aðildar í sambandi við efnahagsuppbygginguna. Hvort það hafi raunverulega ekki verið sannfæring þeirra að nauðsynlegt væri að hefja aðildarviðræður þegar í stað – jafnvel nú í febrúar. Það er mikilvægt að fjölmiðlar spyrji þessara spurninga, því stjórnmálamenn eiga ekki að komast upp með hafa uppi stóryrði og digrar yfirlýsingar, nema einhver meining búi þar að baki.

Það væri tilvalið fyrir gagnrýna blaða- og fréttamenn, sem taka starf sitt alvarlega, að beina spurningum af þessu tagi til formanns og varaformanns Samfylkingarinnar. Ekki væri síður ástæða til að leita til þingflokksformannsins eða utanríkis- og iðnaðarráðherrans. Jafnvel mætti fá fram álit óbreyttra þingmanna á borð við Árna Pál Árnason, Björgvin G. Sigurðsson og Helga Hjörvar. Allir hafa þessir stjórnmálamenn verið óþreytandi á undanförnum mánuðum við að útlista fyrir þjóðinni hve nauðsynlegt væri að hefja aðildarviðræður þegar í stað og hve ESB og evran væru mikilvægir þættir í efnahagsuppbyggingu landsins. Hafa þeir skipt um skoðun eða meintu þeir aldrei neitt með þessum yfirlýsingum sínum?

Birgir Ármannsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins

(Birtist áður á fréttavefnum Amx.is)

„Viðvörunarljósin gegn aðild Íslands að ESB loga skært“

„Viðvörunarljósin gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu loga skært. Ímyndið ykkur stöðu ykkar innan ESB ef sambandið ákvæði einn daginn að nýta fiskistofnana ykkar í þágu aðildarríkjanna allra. Hugmyndir ykkar um fullveldisrétt myndu þá reynast léttvægar. Þar er reynsla Íra frá því í síðustu viku gott dæmi,“ segir Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, í samtali við Útveginn.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi fyrir helgina út rökstudda álitsgerð þar sem Írum er skipað að breyta löggjöf sinni þannig að hægt sé að nýta  olíuauðlindir þeirra í þágu aðildarríkjanna ef nauðsyn krefur til. Írsk stjórnvöld hafa tvo mánuði til að bregðast við, að öðrum kosti verður þeim stefnt fyrir dómstól Evrópusambandsins. Stjórn sambandsins er mikið í mun að tryggja öryggi þess í orkumálum, ekki síst í ljósi þess hve óþægilega háð það er orðið Rússlandi, sem sér því fyrir fjórðungi af gasþörf aðildarríkjanna.

Daily Express birti fyrir nokkrum vikum frétt um það sem blaðið kallaði „leynilega valdheimild“ í Lissabonsáttmálanum til að komast yfir olíu- og gaslindir Breta og Hollendinga. Fréttinni, sem m.a.  birtist m.a. á Stöð 2 og visir.is, var harðlega mótmælt sem rangri af Percy Westerlund, sendiherra og yfirmanni fastanefndar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Noregi og Íslandi.

Daniel Hannan segir það fullkomlega ljóst í sínum huga, að samkvæmt Lissabonsáttmálanum hafi Evrópusambandið lagasetningarvald sem geri því kleift að yfirtaka orkuauðlindir einstakra aðildarríkja til að tryggja heildarhagsmuni.  Í sáttmálanum er ákvæði 176a, (194. gr. TFEU) sem kveður á um að hlutverk sambandsins sé m.a. að tryggja framboð orku (e. „ensure security of energy supply in the Union.“)

„Evrópusambandið hefur þennan rétt og lög þess eru æðri lögum einstakra aðildarríkja eins og dæmið frá Írlandi sýnir vel. Íslendingar, sem eiga svo mikið undir fiskveiðiauðlindum sínum, ættu að hugleiða þetta alvarlega. Ef þið gerist aðilar að ESB er valdið úr ykkar höndum,“ segir Hannan.

Heimild:
„Viðvörunarljósin gegn aðild Íslands að ESB loga skært“ (Líú.is 04/02/09)