Framtíðin er ekki að snapa styrki hjá ESB

„Innganga í Evrópusambandið mun breyta talsverðu fyrir sveitarfélögin í landinu en ekki er hægt að segja með vissu hvort um einhvern ávinning verður að ræða. Það er þó ljóst að þörf verður á auknum mannafla og dýrari stjórnsýslu til að fullnægja kröfum um skrifræði og og til að eiga möguleika á að komast inn í styrkjakerfið,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Þetta kom fram á fundi borgarstjórnar í gærkvöldi. Þar var rætt um skýrslu um stöðu sveitarstjórnarstigsins gagnvart hugsanlegri aðild Íslands að ESB. Var málið sett á dagskrá að beiðni Samfylkingar og var Dagur B Eggertsson málshefjandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Júlíusi, sem fór yfir þá fjölmörgu sjóði sem aðildarlönd Evrópusambandsins geta sótt í.

„Hvort sem niðurstaðan verður sú að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu eða ekki liggur framtíð sveitarfélaga ekki í því að snapa styrki í Brussel. Rekstur sem byggist á styrkjum hefur lítið frumkvæði og lítinn lífsvilja. Styrkir einfaldlega drepa í dróma. Áherslur sveitarfélaga eiga að vera skýrar. Þær snúast um að vernda hag fjölskyldna í landinu og skapa fyrirtækjum aðstæður til þess að vaxa og dafna,“ segir Júlíus Vífill.

Heimild:
„Styrkir drepa í dróma“ (Mbl.is 04/02/09)

Evran er hluti af efnahagsvandræðum Spánverja

Fram kom í breska dagblaðinu Daily Telegraph í gær að næstum 200 þúsund Spánverjar hefðu misst vinnuna einungis það sem af er janúar og að önnur eins aukning á atvinnuleysi hefði ekki áður átt sé stað á Spáni á jafn skömmum tíma síðan farið var að halda saman tölum yfir það. Atvinnuleysi á Spáni er nú rúm 14% og eykst hratt. Þar af er næstum þriðjungur ungs fólks á aldrinum 15-24 ára án atvinnu þar í landi eða 29,5% samkvæmt nýjustu tölum. Atvinnuleysi fer vaxandi víðast hvar innan Evrópusambandsins og ekki síður á evrusvæðinu og bætist við meðalatvinnuleysi undanfarinna ára sem hefur verið á bilinu 7-10% að staðaldri.  Meðalatvinnuleysi innan evrusvæðisins í dag er um 8% en nokkru lægra sé litið til Evrópusambandsins í heild eða 7,4%.

Haft er eftir Pedro Solbes, fjármálaráðherra Spánar, að það sé nánast ekkert sem spænsk stjórnvöld geti gert til þess að takast á við efnahagskrísuna þar í landi. Fram kemur að Solbes hafi lagt sig fram við að tengja aðild Spánar að evrusvæðinu ekki við stöðu mála en engu að síður sé deginum ljósara að erfiðleikar Spánverja við að aðlaga sig að aðstæðum innan evrusvæðisins séu ein af meginástæðunum fyrir því hvernig komið sé. Standard & Poor hafi ítrekað varað við því að evran væri orðinn hluti af vandræðum Spámverja þar sem hún hefði komið í veg fyrir að þeir gætu gripið til róttækra aðgerða í peningamálum til að bregðast við hruni á fasteignamarkaði og fellt gengi gjaldmiðilsins til þess að auka samkeppnishæfni spænska hagkerfisins.

Heimildir:
Spain’s downward spiral spooks bond investors (Telegraph.co.uk 03/02/09)
Atvinnuleysi innan Evrópusambandsins (Eurostat, hagstofa ESB)
Atvinnuleysi ungs fólks innan Evrópusambandsins (Eurostat, hagstofa ESB)

Engin hraðferð í boði inn í Evrópusambandið

Það er engin hraðferð í boði inn í Evrópusambandið fyrir Íslendinga segir talsmaður sambandsins í stækkunarmálumm, Krisztina Nagy, í samtali við fréttavefinn European Voice um helgina. Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu gæti vissulega flýtt fyrir inngöngu í sambandið umfram ýmis ríki í Austur-Evrópu að sögn Nagy en einhvers konar hraðferð sé ekki í boði, hvorki fyrir Íslendinga né aðra.

Því má svo bæta við að Evrópusambandið getur ekki tekið við fleiri ríkjum í sínar raðir nema fyrirhuguð Stjórnarskrá sambandsins (einnig kölluð Lissabon-sáttmálinn) nái fyrst fram að ganga. Í núgildandi sáttmálum Evrópusambandsins er aðeins gert ráð fyrir þeim 27 ríkjum sem eru hluti af sambandinu í dag. Enginn veit fyrir víst hvort eða þá hvenær Stjórnarskráin tekur gildi og því er ljóst að allt er á huldu hversu langan tíma það tæki fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið jafnvel þó áhugi yrði fyrir því sem ekki er raunin í dag frekar en áður.

Heimild:
Iceland not on ‘fast track’ to membership (Europeanvoice.com 30/01/09)

Ný ríkisstjórn beitir sér ekki fyrir inngöngu í ESB

Stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar kveður ekki á um að nein verði tekin í átt til inngöngu í Evrópusambandið og ekki er ráðgert að settar verði fram tillögur að stjórnarskrárbreytingum sem gera slíka inngöngu mögulega. Þetta kom fram á opnum fundi sem Heimssýn boðaði til síðastliðinn sunnudag þar sem rætt var um Evrópusambandið og stefnu nýrrar ríkisstjórnar gagnvart því. Auglýstir framsögumenn voru ungliðarnir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, og Brynja Björg Halldórsdóttir, formaður Ungra vinstri-grænna á höfuðborgarsvæðinu og stjórnarmaður í Heimssýn. Þá mætti Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður vinstri-grænna, á fundinn og svaraði spurningum fundargesta.

Á fundinum á var meðal annars rætt um stöðu ESB-mála á komandi kjörtímabili. Anna Pála Sverrisdóttir gerði grein fyrir því baráttumáli Samfylkingarinnar að kosið yrði um inngöngu í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili. Aðspurð útilokaði Anna Pála þó að málið gæti haft áhrif á það hvaða flokkar veljist til samstarfs að loknum kosningum.

Fram kom á fundinum að tvíhöfðanefndinni svokölluðu, sem skipuð var um ESB-mál fyrir ári, verður gert að skila af sér í valdatíð núverandi stjórnar.

Fundurinn var haldinn á Kaffi Rót í Hafnarstræti og var hann hluti af fundaröð Heimssýnar. Næsti fundur verður á sama stað klukkan 16 á sunnudaginn kemur á þá gerir Björn Bjarnason grein fyrir nýútkominni bók sinni um Ísland og Evrópusambandið sem inniheldur valin skrif hans um Evrópumálin og alþjóðasamstarf.

Skoskir sjómenn vilja komast í íslensku fiskveiðilögsöguna

Fáir hafa gagnrýnt sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins harðar í gegnum tíðina en skoskir sjómenn. Í frétt á Mbl.is í gær er hins vegar sagt frá því að fulltrúar skoskra sjómanna vilji gjarnan fá Íslendinga inn í sambandið. Þeir vonist til þess að innganga Íslands geti haft jákvæð áhrif á sjávarútvegsstefnuna. Erfitt er þó að átta sig á því hvernig það ætti að gerast. Bretar hafa t.a.m. verið í Evrópusambandinu og forvera þess í að verða 40 ár og hafa allan þann tíma reynt að fá sjávarútvegsstefnu sambandsins breytt en ekkert orðið ágengt. Engu að síður er Bretland eitt stærsta ríki Evrópusambandsins og með vægi innan þess í samræmi við það. Vægi Íslendinga innan sambandsins yrði hins vegar lítið sem ekkert vegna fámennis hér á landi.

En það sem er merkilegast við frétt Mbl.is er hreinskilni Skotanna að með inngöngu Íslands í Evrópusambandið sjái þeir fram á að geta komist í íslensku fiskveiðilögsöguna til veiða. Þeir hafi verið hraktir héðan eftir þorskastríðin og ef Íslendingar gangi í sambandið sjái þeir fram á að komast aftur í lögsöguna.

Heimildir:
Skoskir sjómenn vilja að Ísland gangi í ESB (Mbl.is 31/01/09)
Scots fishermen welcome bid by Iceland to join EU (Pressandjournal.co.uk 31/01/09)