Baráttunni er ekki lokið

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, ritaði áhugaverðan pistil á fréttavefinn Amx.is í gær um landsfund Sjálfstæðisflokksins og umræður á honum um Evrópumál. Sagði hann að ljóst væri að niðurstaða landsfundarins í þeim efnum fæli í sér fullan sigur andstæðinga inngöngu í Evrópusambandið en um leið fulla reisn Evrópusambandssinna innan flokksins. Lagði hann áherslu á að þó tekist hefði að hrinda þeirri sókn Evrópusambandssinna sem hófst sl. haust þegar bankarnir fóru á hliðina þá væri baráttunni engan veginn lokið. Það yrði að búa sig undir nýjar sóknir þeirra sem vilja koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Pistil Styrmis í heild má nálgast hér.

Hverju gætu viðræður við ESB mögulega breytt?

Umræðan um Evrópumál hér á landi á undanförnum vikum og mánuðum hefur verið nokkuð sérstök á köflum. Einhverjir hafa þannig lýst þeirri skoðun sinni að hefja beri viðræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið til þess að fá einhvern botn í málið eins og það hefur verið kallað. Það er eins og þessir aðilar ímyndi sér að ef slíkar viðræður færu fram og þjóðaratkvæði yrði haldið um málið yrði það afgreitt um aldur og ævi. Þar með fengist einhvers konar lokapunktur í það og í framhaldinu væri hægt að taka það hreinlega af dagskra. Það væri einfaldlega afgreitt. Fátt er þó fjarri lagi.

Frændur okkar Norðmenn hafa tvisvar afþakkað inngöngu í Evrópusambandið og forvera þess sem ekki hefur breytt því að enn er tekizt á um málið þar í landi rétt eins og áður. Umræðan um Evrópumálin hófst aftur strax daginn eftir að þjóðaratkvæðin fóru fram eins og ekkert hefði í skorizt. Sama á við um þjóðir sem hafa gengið í Evrópusambandið eins og t.d. Dani og Svía. Þar hefur umræðan ekki hætt nema síður sé. Hins vegar er það svo að þjóðum sem hafna inngöngu er gert að kjósa aftur og aftur um hana þar til hún fæst samþykkt en sé innganga samþykkt er aldrei kosið um hana aftur.

Þegar er vitað í langflestum tilfellum hvað innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér fyrir okkar Íslendinga. Innganga þýddi endalok íslenzks lýðræðis og fullveldis þar sem ákvarðanir um flest íslenzk mál yrðu ekki lengur teknar af fulltrúum íslenzkra kjósenda heldur stjórnmálamönnum annarra þjóða og þó fyrst og fremst embættismönnum Evrópusambandsins sem enginn kýs og sem hafa því ekkert lýðræðislegt umboð frá neinum. Yfir þessum aðilum hefðum við Íslendingar ekkert að segja og enga möguleika á að hafa áhrif á. Örlög okkar sem þjóðar væru ekki lengur í okkar eigin höndum heldur annarra.

Yfirráðin yfir auðlindinni í hafinu í kringum landið okkar færðust til Evrópusambandsins sem eftirleiðis tæki ákvarðanir um flest sem viðkæmi sjávarútvegi hér á landi. Engin trygging væri fyrir því að aflaheimildum við Ísland yrði eftirleiðis einungis úthlutað til Íslendinga og ekkert gæti komið í veg fyrir að þær færðust í hendur erlendum aðilum. Íslenzkur landbúnaður yrði fyrir miklum áföllum og liði að miklu leyti undir lok sem aftur setti fæðuöryggu landsmanna í algert uppnám. Við yrðum svipt frelsi okkar til þess að semja með sjálfstæðum hætti um t.a.m. viðskipti og fiskveiðar við ríki utan Evrópusambandsins en þar er um gríðarlega hagsmuni að ræða. Og svona mætti lengi halda áfram.

Hvað gæti mögulega komið út úr viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið sem gæti skákað því sem nefnt er hér að ofan? Það að vilja fara í slíkar viðræður er í raun eins og að ætla að semja um viðskipti við aðila sem vitað er að mun fara illa með mann þó að einhverju leyti sé kannski vafi á því nákvæmlega hversu illa. Það fer einfaldlega bezt á því að við Íslendingar höldum áfram að vera sjálfstæð þjóð og standa vörð um okkar eigin hagsmuni. Það gera það ekki aðrir fyrir okkur.

Hjörtur J. Guðmundsson,
stjórnarmaður í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum

Að fara í viðræður við Evrópusambandið

Um þessar mundir reyna þeir sem eru æstir í að koma Íslandi inn í Evrópusambandið að fá sitt fram með því að tala um einhvers konar könnunarviðræður. Þeir segja gjarna eitthvað á þá leið að rétt sé að fara í viðræður við Sambandið, sjá hvað út úr þeim kemur og leggja niðurstöðuna svo í dóm kjósenda. Gjarna er látið að því liggja að ef kjósendur segja nei verði allt eins og áður var.

Þessi tillaga kann að hljóma vel. Hver getur verið á móti því að ræða málin og leyfa almennum kjósendum svo að hafa síðasta orðið? Er þetta ekki allt ósköp lýðræðislegt, sætt og krúttlegt og í anda samræðustjórnmála?

Eða er kannski ekki allt sem sýnist?

Viðræður um „sérkjör“ við inngöngu í Evrópusambandið fara ekki fram fyrr en eftir að ríki hefur sótt um aðild. Umsókn um aðild þýðir að stjórn ríkisins óskar eftir henni. Þessar umtöluðu „könnunarviðræður“ munu því ekki fara fram nema ríkisstjórn Íslands óski formlega eftir að landið gangi í Sambandið. Sú hugmynd að ríkisstjórnin geti verið hlutlaus þar til niðurstaða viðræðna liggur fyrir er ekki raunhæf.

Ef Ísland sækir um aðild og umsókn er samþykkt af Sambandinu og aðildarríkjum þess þá verður sjálfsagt rætt um alls konar mál eins og 200 mílna lögsöguna. Vel er líklegt að í þeim viðræðum verði reynt að velta við hverjum steini í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hjá stofnunum þess. Hvað út úr því kemur veit enginn en það er barnaskapur að halda að allt geti lagst aftur í sama far ef aðild að Sambandinu verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar flókin mál eru skoðuð upp á nýtt kemur jafnan eitthvað á daginn sem menn skilja á ólíkan veg og þykir rétt að endurskoða. Við „samningaborðið“ verður Ísland með afleita stöðu ef gagnaðilinn reynir að nota tækifærið og færa eitthvað til okkur í óhag. Þá er raunar eins víst að „könnunarviðræðurnar“ endi með að valið standi milli þess að ganga í Sambandið eða enda með verri stöðu en áður.

Þetta hygg ég að þeir sem virðast hvað blíðmálastir þegar þeir tala um viðræður og þjóðaratkvæði viti vel. Mér heyrist vera falskur tónn í málflutningi þeirra þegar þeir reyna telja fólki trú um að tillaga sín sé hlutlaus í þeim skilningi að ef eftir henni verði farið þá eigi kjósendur á endanum val milli inngöngu í Sambandið og óbreyttrar stöðu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hvernig væri að láta af þessum óheilindum og koma hreint fram? Sambandssinnar ættu að sjá sóma sinn í að leggja einfaldlega til að sótt verði um aðild og hætta að fela sig á bak við barnalegar hugmyndir um „könnunarviðræður.“

Atli Harðarson,
heimspekingur

Segja Evrópusambandið hafa of mikil völd yfir ríkjum sambandsins

Niðurstöður skoðanakönnunar sem birtar voru í austurríska blaðinu Kleine Zeitung benda til þess að meirihluti Austurríkismanna telji Evrópusambandið hafa of mikil völd yfir innanríkismálum Austurríkis. 54% sögðust telja að sambandið skipti sér of mikið af innanríkismálum Austurríkismanna. Þar af töldu 20% að Evrópusambandið ætti alls ekki að skipta sér af innanríkismálum Austurríkis.

Niðurstöður annarrar könnunar birtust í þýska dagblaðinu Welt þar sem spurt var hvað fólki fyndist um Evrópusambandið. 74% af rúmlega þrjú þúsund manna úrtaki sögðust telja sambandið skerða fullveldi Þýskalands of mikið.

Heimildir:
Für Österreicher mischt sich EU zu viel in Innenpolitik ein (Kleinezeitung.at 27/03/09)

Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrr andvígur inngöngu í ESB

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í dag óbreytta stefnu í Evrópumálum. Flokkurinn telur sem fyrr að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Ennfremur lagði landsfundurinn áherslu á að ef einhvern tímann yrði sótt um inngöngu í sambandið yrði sú ákvörðun lögð í þjóðaratkvæði og ennfremur niðurstöður hugsanlegra viðræðna. Mikil andstaða við inngöngu í Evrópusambandið kom fram á fundinum og stigu fáir í ræðustól til þess að kalla eftir slíkri inngöngu en hins vegar fjöldi manns til þess að tala gegn því að slíkt skref yrði tekið. Orðrétt var ályktun landsfundarins svohljóðandi:

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja.

Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Kostir aðildar tengjast helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verða aðeins skýrð í viðræðum, hvort sem þær snúast um gjaldmiðilinn eða aðild. Sterk lýðræðisleg rök mæla engu að síður með því að þjóðin fái að skera úr um svo stórt og umdeilt mál og að það sé ekki eingöngu á forræði stjórnmálaflokkanna.

Landsfundurinn undirstrikar þá eindregnu stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða samtaka þeirra yfirráð yfir auðlindum Íslands og að standa beri vörð um innlenda matvælaframleiðslu.

Landsfundur telur að setja skuli ákvæði í almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu.

Komist Alþingi eða ríkisstjórn að þeirri niðurstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er það skoðun Sjálfstæðisflokksins að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá ákvörðun á grundvelli skilgreindra markmiða og samningskrafna.

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar þá afstöðu sina að hugsanleg niðurstaða úr samningsviðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði ávallt borin undir þjóðaratkvæði.“

Heimild:
Ályktun um Evrópumál samþykkt (Xd.is 27/03/09)

Tengt efni:
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar inngöngu í ESB sem fyrr

Hvað með yfirráðin yfir örlögum okkar?

myndÍ umræðum um Evrópumál hafa margir sagt að innganga í Evrópusambandið komi ekki til greina nema yfirráð okkar Íslendinga yfir náttúruauðlindum landsins verði tryggð og þá sér í lagi í sjávarútvegi. Það markmið er að sjálfsögðu gott og gilt þó engar líkur geti talizt á því að það næðist í viðræðum við sambandið og allar vangaveltur í þá veru hafi verið æði langsóttar svo vægt sé til orða tekið. En hvað með yfirráðin yfir örlögum okkar? Frelsið til að stjórna okkur sjálf í samræmi við það sem við teljum okkur fyrir beztu? Hvaða gagn yrði að því, jafnvel þó við héldum yfirráðunum yfir auðlindum landsins, ef við glötuðum yfirráðunum yfir okkur sjálfum?

Sjálfstæði og fullveldi okkar Íslendinga er svo miklu meira en einungis yfirráðin yfir þeim auðlindum sem okkar góða land hefur upp á að bjóða þó þau yfirráð séu okkur svo sannarlega gríðarlega mikilvæg. Sjálfstæðið og fullveldið snýst einmitt fyrst og fremst um yfirráð okkar yfir eigin örlögum. Yfir okkur sjálfum. Að VIÐ tökum ákvarðanir um okkar mál, þá annað hvort með beinum hætti eða í gegnum kjörna fulltrúa okkar, en ekki aðilar sem hafa engar ástæður eða þá hvata til þess að taka eitthvert tillit til íslenzkra hagsmuna.

Ef Ísland yrði hluti af Evrópusambandinu þýddi það að íslenzkt lýðræði heyrði sögunni til. Ákvaðanir um okkar mál yrðu þá ekki lengur teknar af einstaklingum sem við kysum til þeirra starfa heldur stjórnmálamönnum annarra ríkja sem aðrir kysu en þó fyrst og fremst embættismönnum sambandsins sem enginn kýs og hafa því hvorki lýðræðislegt umboð frá neinum né búa við nokkuð lýðræðislegt aðhald. Yfir þessum aðilum hefðu íslenzkir kjósendur ekkert að segja og litla sem enga möguleika á að hafa nokkur áhrif á.

Það má svo sannarlega ýmislegt betur fara í okkar lýðræðiskerfi og það er m.a. verkefnið framundan að færa þau mál til betri vegar. En það er eins ljóst að innganga í Evrópusambandið yrði sízt skref fram á við í lýðræðisátt. Ofan á allt annað, sem fórna yrði á altari Evrópusambandsins kæmi einhvern tímann til þess að Ísland yrði hluti af því, þýddi innganga í sambandið einfaldlega endalok íslenzks lýðræðis.

Hjörtur J. Guðmundsson,
stjórnarmaður í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum

Norðmenn sem fyrr andvígir inngöngu í Evrópusambandið

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar í Noregi eru 55% Norðmanna andvíg inngöngu í Evrópusambandið en einungis 33% hlynnt henni. The Wall Street Journal hefur eftir Heming Olausen, formanni Nei-hreyfingarinnar í Noregi, að hvorki hinir alþjóðlegu efnahagserfiðleikar né meintur áhugi Íslendinga á inngöngu í sambandið virðast hafa aukið fylgi þarlendra Evrópusambandssinna.

Heimild:
Norwegian Opposition To Joining EU At 54.9% – Poll (Wsj.com 23/03/09)

Engin neyðaráætlun til fyrir gjaldþrota evruríki

Viðbrögð Evrópusambandsins við alþjóðlegu fjármálakrísunni hafa sætt mikilli og vaxandi gagnrýni undanfarna mánuði. Hafa þau þótt máttlítil, ruglingsleg og ómarkviss. Nú síðast gagnrýndi fyrrum forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jacques Delors, forystumenn sambandsins harðlega fyrir framgöngu þeirra í viðtali við þýska fjármálaritið Capital. Sagði hann viðbrögð þeirra við efnahagserfiðleikunum léleg og hægvirk. Lýsti hann ennfremur áhyggjum af framtíð evrusvæðisins einkum vegna þess að mikið skorti á samstarfsvilja evruríkjanna. Og vandræðagangurinn heldur áfram.

Í byrjun marsmánaðar lýsti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, með Joaquin Almunia ráðherra peningamála í broddi fylkingar, því yfir að til væri sérstök neyðaráætlun um hvernig komið yrði evruríkjum til bjargar ef þau gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar. Hins vegar væri ekki skynsamlegt að segja frá því út á hvað hún gengi. Í lok síðustu viku viðurkenndu leiðtogar Evrópusambandsins hins vegar að engin slík áætlun væri til þar sem evruríkin hefðu einfaldlega ekki getað komið sér saman um slíkt fyrirkomulag. Þetta hefur þótt afar vandræðalegt og um leið gott dæmi um þá ringulreið sem ríkt hefur í röðum forystumanna Evrópusambandsins vegna fjármálakrísunnar.

Heimildir:
No euro zone bailout plan exists-euro zone leaders (Forbes.com 20/03/09)
EU pledges eurozone rescue (Telegraph.co.uk 04/03/09)

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafnar inngöngu í ESB sem fyrr

Vinstrihreyfingin – grænt framboð áréttaði andstöðu sína við inngöngu í Evrópusambandið á landsfundi flokksins sem fram fór um helgina. Miklar umræður fóru fram um Evrópumálin á fundinum en sjálfstæðissinnar höfðu þar mikla yfirburði. Orðrétt segir í ályktun landsfundarins:

“Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrábreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.”

Heimild:
Landsfundur: Ályktun um utanríkismál samþykkt (Vg.is 22/03/09)

Jacques Delors segist svartsýnn á framtíð evrunnar

Í viðtali við þýska fjármálatímaritið Capital fyrr í vikunni lýsti fyrrum forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jacques Delors, áhyggjum sínum af því að svo kynni að fara að evrusvæðið lifði ekki yfirstandandi efnahagskrísu af. Delors, sem var forseti framkvæmdastjórnarinnar 1985-1995, sagði að hann gæti séð fyrir sér aukinn þrýsting sterkari evruríkja á þau sem veikari eru að fylgja betri efnahagsstefnu eða yfirgefa evrusvæðið að öðrum kosti.

Delors gagnrýndi evruríkin harðlega fyrir skort á nauðsynlegum samstarfsvilja og samráði og þá sérstaklega stærsta hagkerfi evrusvæðisins, Þýskaland. „Ef sú grunnforsenda, að nauðsynlegt sé að hafa meira samráð áður en gripið er til aðgerða, er ekki samþykkt þá er ég svartsýnn á framtíð evrunnar,“ sagði forsetinn fyrrverandi. Hann gagnrýndi ráðamenn Evrópusambandsins ennfremur fyrir viðbrögð þeirra við efnahagskrísunni og sagði þau „léleg“ og „hægvirk“.

Delors bætist þar með í hóp vaxandi fjölda stjórnmálamanna, fræðimanna og fjármálastofnana sem lýst hafa áhyggjum af framtíð evrusvæðisins og evrunnar á undanförnum árum en þó einkum undanfarnar vikur og mánuði. Skemmst er t.a.m. að minnast þess að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, lýsti miklum áhyggjum sínum af framtíðarmöguleikum evrusvæðisins í janúar síðastliðnum.

Heimild:
Delors pessimistic about eurozone future (Euobesrver.com 18/03/09)