Sjávarútvegsstefna ESB afgreidd sem handónýt

Fréttavefurinn Amx.is fjallaði í gær um nýbirta Grænbók Evrópusambandsins um sjávarútvegsmál sem leiðir í ljós að sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins hefur gengið sér til húðar. Hún hafi alls ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Kristján Vigfússon, sérfræðingur í Evrópumálum við Háskólann í Reykjavík, rakti meginniðurstöður skýrslunnar í þættinum Auðlindin á Morgunvakt Rásar 1 í gær.

Kristján sagði, að 88% fiskstofna innan lögsögu ESB væru ofveiddir, 30% væru í útrýmingarhættu, 2% árleg úrelding fiskiskipa væri langt innan við markmið stefnunnar. Niðurgreiðslur væru úr hófi og sjóðir að tæmast. Fiskverð væri einnig úr hófi, neytendur greiddu 1000 kr. fyrir kíló af fiski úr búð eftir að hafa greitt 1000 kr. í sköttum, svo að unnt hefði verið að veiða þetta sama kíló. Sjávarútvegurinn væri langt frá því sjálfbær. Ákvarðanir um aflamagn væru teknar of hátt innan stjórnkerfisins, það er í ráðherraráðinu, þar sem pólitísk sjónarmið réðu á kostnað veiðiráðgjafar með vísan til veiðiþols fiskstofna.

Í skýrslunni væru vissulega nefndar hugmyndir um leiðir til úrbóta en vandinn væri hins vegar sá að Evrópusambandið ætlaði að ná svo mörgum markmiðum í einu með stefnu sinni að þau væru ekki að fullu samrýmanleg og þess vegna yrði stefnan sjálf óhjákvæmilega ómarkviss. Þrjár meginhugmyndir um úrbætur væru nefndar. Í fyrsta lagi að fiskveiðiréttindi yrðu á einhvern hátt framseljanlegt. Í öðru lagi að strandveiðar yrðu verndaðar með 12 mílna reglu. Í þriðja lagi að dregið yrði úr miðstýringu án þess að ákvarðanir um heildarafla yrðu teknar frá ráðherraráðinu.

Þegar rætt er um skýrsluna er nauðsynlegt að því sé haldið til haga að í henni er að finna vangaveltur um að reglan um hlutfallslegan stöðugleika það er forréttindi ríkis til fisksveiða á „eigin“ miðum, hafi gengið sér til húðar og hverfa beri frá henni.

Heimild:
Grænbókin lýsir ónýtri sjávar­útvegs­stefnu ESB (Amx.is 29/0/09)

Össur Skarphéðinsson segir ESB gallaða stofnun

Evrópusambandið er gölluð stofnun. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í viðtali við breska sjónvarpsmanninn David Frost þann 9. febrúar sl. Hér er óneitanlega um merkilega yfirlýsingu að ræða af hálfu Össurar sem um árabil hefur verið mikill hvatamaður þess að koma Íslandi undir yfirráð þessa gallaða fyrirbæris. 

Heimild:
Össur segir Evrópusambandið gallaða stofnun! (Islandsfengur.blog.is 29/04/09)

Ný ríki Evrópusambandsins segja lítið hlustað á sig

Morgunblaðið segir frá því í dag að ríkin tíu, sem gengu í Evrópusambandið árið 2004, telji ekki að rödd þeirra heyrist vel í höfuðstöðvum sambandsins í Brussel. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem birt var í dag. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem birt var í dag sem byggir á skýrslum sérfræðinga um Búlgaríu, Tékkland, Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Ungverjaland og Rúmeníu. Niðurstaðan er sú, að hefðbundin viðbrögð þessara ríkja sé að fylgja meirihlutaniðurstöðu innan ESB eða fallast á niðurstöður sem kynntar eru fyrir þeim. 

Heimild:
Ný ESB-ríki segja lítið á sig hlustað (Mbl.is 28/04/09)

Töfralausn Evrópusambandssinna virkar ekki á Spáni

Ríkisútvarpið greindi frá því í dag að atvinnuleysi færi hratt vaxandi á Spáni og nú væru í fyrsta sinn yfir fjórar milljónir manna án vinnu. Atvinnuleysi var 17,36% á fyrsta ársfjórðungi og hefur aldrei verið meira. Helmingur þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá misstu vinnuna í fyrra. Um áramót var atvinnuleysið komið upp í 13,9% og var þá það mesta í Evrópusambandinu.

Byggingariðnaðurinn á Spáni hefur tekið mikla dýfu í alþjóða fjármálakreppunni. Síðustu skýrslur stjórnvalda sýna þó að flestir hafa missta atvinnu í þjónustugreinum eins og ferðamannaþjónustu sem eru meðal meginstoða í efnahagslífi Spánar. Atvinna dregst saman í öllum starfsgreinum ekki síst í borgunum Madrid, Barcelona og Valencia.

Spánverjar eru ekki einir innan Evrópusambandsins um að vera í miklum erfiðleikum efnahagslega. Flest ríki sambandsins eiga við gríðarlega erfiðleika að stríða og það jafnvel öflugustu hagkerfi þess eins og Þýskaland. Engu að síður eru þessi ríki ekki aðeins innan Evrópusambandsins heldur ennfremur með evru sem gjaldmiðil.

Heimild:
Yfir 4 milljónir án atvinnu á Spáni (Rúv.is 28/04/09)

Fjölmiðlar misnotaðir í umfjöllun um Evrópumál

Ragnar Arnalds, formaður Heimssýnar hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, segir að fjölmiðlar hafi miskunnarlaust verið misnotaðir í umfjöllun um Evrópumál að undanförnu með það fyrir augum að stuðla að auknu fylgi við inngöngu í Evrópusambandið. Þar á meðal Ríkisútvarpið. Þetta kom í síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær.

Ragnar segir fráleitt að túlka niðurstöður kosninganna á laugardaginn á þá vegu að meirihluti sé fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Jafnframt segir Ragnar að skoðanakannanir hafi sýnt að almenningur sé á móti inngöngu Íslands í sambandið.

Heimild:
Fjölmiðlar miskunnarlaust misnotaðir í umfjöllun um ESB (Vísir.is 27/04/09)

Einar Már verðlaunaður fyrir ESB-andstöðu

Einar Már Guðmundsson rithöfundur var verðlaunaður á landsfundi Þjóðarhreyfingarinnar gegn ESB í Gladsaxe í Danmörku og fékk „Tréskóinn – eða klossann“ fyrir að stuðla að andstöðu íslenskra kjósenda gegn ESB, að því er fram kemur á heimasíðu hreyfingarinnar.

Þar er greint frá rithöfundarferli Einars Más og tilgreint að bækur hans hafi verið þýddar á fjölmörg tungumál. Þá hafi hann hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og viðurkenningu Stofnunar Karenar Blixen.

Einar Már fær hin alþjóðlegu klossaverðlaun þjóðarhreyfingarinnar (Folkebevægelsens Internationale Træskopris) sem eru nokkur klossapör, fyrir staðfestu í andstöðu gegn aðild Íslendinga að Evrópusambandinu sem m.a. hafi leitt til þess að 54,4% Íslendinga hafi sagt nei við aðild en 45,6% já, miðað við skoðanakönnun Fréttablaðsins 11. apríl síðastliðinn.

„Í kjölfar fjármálakreppunnar og alvarlegra afleiðinga hennar á Íslandi hefur Einar Már Guðmundsson tekið af krafti þátt í baráttunni um ESB og beitt sér gegn þeirri trú Evrópusambandssinna að Evrópusambandið og evran séu það kraftaverk sem leitt geti Ísland út úr kreppunni,“ segir á vefsíðu þjóðarhreyfingarinnar.

Einar gat ekki tekið við verðlaununum sem afhent voru á laugardaginn. Erik Skyum-Nielsen, þýðandi Einars í Danmörku, á móti þeim fyrir hans hönd.

Heimild:
Einar Már verðlaunaður fyrir ESB-andstöðu (Amx.is 27/04/09)

Úrslit kosninganna enginn sigur fyrir Evrópusambandssinna

Ljóst er að niðurstöður kosninganna sem fram fóru í gær eru enginn sigur fyrir málstað Evrópusambandssinna eins og sumir hafa viljað meina og þ.m.t. ýmsir fjölmiðlamenn. Eini flokkurinn sem gerði út á inngöngu í Evrópusambandið og helgaði henni að auki nánast alla sína kosningabaráttu, Samfylkingin, fékk aðeins 29,8% fylgi sem er minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2003. Það er ennfremur minna en Samfylkingin fékk í kosningunum fyrir tveimur árum ef tekið er inn í myndina fylgi við Íslandshreyfingarinnar þá, en hún varð sem kunnugt er hluti af Samfylkingunni fyrr á þessu ári.

Stærsti sigurvegari kosninganna er tvímælalaust Vinstrihreyfingin – grænt framboð eins og búast mátti við. Sá flokkur er eins og þekkt er andvígur inngöngu í Evrópusambandið. Sjálfstæðisflokkurinn, sem einnig hafnar inngöngu, tapaði hins vegar miklu fylgi en ljóst er að ástæður þess eru síst stefna flokksins í Evrópumálum. Það er því ljóst að mikinn vilja og ímyndunarafl þarf til þess að túlka úrslit kosninganna sem sigur fyrir þá sem vilja Ísland inn í Evrópusambandið sem allra fyrst. Miklu nær væri að túlka þau sem sigur andstæðinga inngöngu í sambandið ef eitthvað.

Mikill efnahagssamdráttur í öflugasta hagkerfi ESB

Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að búist væri við 6% samdrætti í Þýskalandi, öflugasta hagkerfi Evrópusambandsins, í ár og að atvinnulausir Þjóðverjar verði orðnir 4,7 milljónir á næsta ári. Fram kom að bæði stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar óttuðust ólgu og uppþot í efnahagssamdrætti sem helst minnti á kreppuna í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar.

Haft var eftir Michael Sommer, forseta Alþýðusambands Þýskalands DGB, að svo mörgum verkamönnum væri nú sagt upp störfum að líta mætti á það sem stríðsyfirlýsingu. Ekki væri hægt að útiloka róstur og óspektir. Gesine Schwan, forsetaefni jafnaðarmanna, sagði spennu í loftinu, allra veðra væri von nema stjórnvöld gripu til varrúðarráðstafana á næstunni.

Þess má geta að Þjóðverjar eru ekki aðeins í Evrópusambandinu heldur einnig með evru sem gjaldmiðil.

Heimild:
Þjóðverjar óttast ólgu og uppþot (Rúv.is 24/04/09)

Engin trygging í reglunni um hlutfallslega stöðugar veiðar

Ekki er tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá einstökum ríkjum Evrópusambandsins samkvæmt reglu sambandsins um svokallaðar hlutfallslega stöðugar veiðar. Þetta eru niðurstöður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem reifaðar eru í svokallaðri Grænbók um sjávarútvegsstefnu sambandsins. Skýrslan var kynnt fyrr í vikunni.

Bendir framkvæmdastjórnin á að þess hafi orðið vart að ríki innan Evrópusambandsins stæðu í viðskiptum sín í milli með veiðiheimildir. Mikið ósamræmi væri orðið milli þess hve miklar veiðiheimildir ríkin hefðu og raunverulega veiðigetu skipaflota þeirra. Framkvæmdastjórnin telur því mikilvægt að endurskoða regluna um hlutfallslega stöðugar veiðar.

Bendir framkvæmdastjórnin á þrenns konar lausnir í stað reglunnar. Í fyrsta lagi væri mögulegt að taka upp framseljanlegar veiðiheimildir. Önnur leið væri að halda reglunni í meginatriðum, en taka upp sérstaka þjóðarkvóta sem yrði í samræmi við þarfir skipaflota hverrar þjóðar. Þriðja leiðin væri að taka upp 12 mílna landhelgisreglu sem tryggði aðildarríkjum einkarétt á veiði innan þeirra landhelgi.

Evrópusambandssinnar hafa haldið því fram að reglan um hlutfallslega stöðugar veiðar tryggði að aflaheimildum við Ísland yrði aðeins úthlutað til Íslendinga og annarra ekki. Sjálfstæðissinnar hafa hins vegar bent á að engin trygging væri í reglunni enda væri hún ekki aðeins breytingum háð heldur stæði til að breyta henni og til þess þyrfti ekki samþykki Íslendinga jafnvel þó Ísland væri innan Evrópusambandsins.

Heimildir:
Ekki tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB (Vísir.is 24/04/09)
Grænbók ESB: Ekkert hald í hlutfallslega stöðugleikanum (Vb.is 24/04/09)

Gætum breyst í kvótalaust sjávarþorp innan ESB

Fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, Jóhann Ársælsson, varaði við því í viðtali við DV í gær að Ísland gangi í Evrópusambandið með tilliti til sjávarútvegshagsmuna Íslendinga. Ef til inngöngu í sambandið kæmi gætu landsmenn hæglega lent í hliðstæðri stöðu og kvótalaust sjávarþorp. Orðrétt er haft eftir Jóhanni í viðtalinu:

„Ef við göngum í ESB verðum við að viðurkenna strax að erlendir atvinnurekendur gætu komið inn í greinina hér, erlent fjármagn gæti komið inn í útgerðina og ekki væri loku fyrir það skotið að þeir eignuðust kvóta þar sem hann gengur kaupum og sölum. Með ríkjandi fyrirkomulagi gætum við breyst í kvótalaust sjávarþorp.“