Segir að Svíþjóð sé ekki lengur sjálfstætt ríki

Með því að taka þátt í kosningum til þings Evrópusambandsins, sem hefur mikil og vaxandi völd yfir sænskum málum, eru Svíar að leggja blessun sína yfir það að Svíþjóð sé ekki lengur sjálfstætt ríki heldur aðeins kjördæmi innan sambandsins. Þetta segir Johan Hakelius, dálkahöfundur hjá sænska dagblaðinu Aftonbladet, í blaðinu í dag, en kosningar til Evrópusambandsþingsins fara fram í Svíþjóð þann 7. júní nk.

Hakelius bendir á að eftir kosningarnar muni 736 fulltrúar sitja á þinginu og þar af verði aðeins 18 kosnir af Svíum eða 2,4% þeirra. Hinum 718 fulltrúunum, eða 97,6%, hafi sænskir kjósendur ekkert vald yfir. Hann segir þetta hliðstætt og ef Svíar kysu aðeins 9 af þeim 349 fulltrúum sem sitja á sænska þinginu en afganginn kysu einhverjir aðrir.

 
Hann tekur sem dæmi að sænska kjördæmið Kalmar hafi 8 fulltrúa á sænska þinginu og geti ekki haft nein áhrif á það hverja önnur kjördæmi velja á þingið. Svíþjóð sé í nákvæmlega sömu stöðu gagnvart kosningunum til Evrópusambandsþingsins. Svíþjóð eigi þó að heita sjálfstætt og fullvalda ríki en vitanlega sé Kalmar það ekki.
 
Hakelius segir síðan að þetta þýði einfaldlega að það sé Evrópusambandið en ekki Svíþjóð sem sé sjálfstætt ríki. Sé Svíþjóð stjórnað af þingi þar sem 97,6% fulltrúanna eru kosin af öðrum en sænskum kjósendum þá sé landið einfaldlega alveg eins ósjálfstætt og Kalmar. Hann spyr síðan að því hvenær Svíar hafi samþykkt þetta.
 
Einhverjir kunna að vera þeirrar skoðunar að Svíþjóð eigi aðeins að vera fylki innan Evrópusambandsins segir Hakelius ennfremur. En Svíar geti hins vegar ekki látið áfram eins og þeir búi í sjálfstæðu ríki á sama tíma og þeir færa sífellt meira vald yfir eigin málum til þings þar sem þeir hafa aðeins 2,4% fulltrúanna.
 
Sjálfur segist Hakelius vera hlynntur Evrópusambandi sem byggi á samstarfi sjálfstæðra Evrópuríkja en til þess þurfi ekkert Evrópusambandsþing. Slíkt þing sé aðeins ávísun á það að Svíar glati yfirráðum yfir eigin málum. Stefnumótunin sé ákveðin af öðrum en Svíum sem hafi aðeins 2,4% vægi í því sambandi.
 
Hakelius segir að mikil þátttaka í kosningunum til Evrópusambandsþingsins verði notuð sem réttlæting fyrir því að færa enn meiri völd til þess frá ríkjum Evrópusambandsins. Lítil þátttaka muni hins vegar veikja þingið. En það sé sjálfsagt að þeir Svíar taki þátt í kosningunum sem eru reiðubúnir að leggja blessun sína yfir það að Svíþjóð sé eins ósjálfstætt og Kalmar.

Heimild:
Segir að Svíar ættu ekki að kjósa til ESB-þingsins (Efrettir.is 29/05/09)

ESB er klúbbur þar sem menn beygja sig undir reglurnar

Egill Helgason, Evrópusambandssinni með meiru, hefur að undanförnu setið fundi úti í Frakklandi um Evrópumál og áttað sig á því að lítill áhugi sé af hálfu Evrópusambandsins að veita Íslendingum einhverjar undanþágur frá stefnum sambandsins ef íslensk stjórnvöld sækja um inngöngu í það.

Á bloggi sínu segir Egill í dag:

„Í gærmorgun sat ég langan fund, kannski ekki þann skemmtilegasta, um landbúnaðarkerfi Evrópusambandsins og stöðu Frakklands innan þess, sá sem talaði var fulltrúi frönsku bændasamtakanna. Á morgun er það fiskveiðipólitíkin – seinna í dag orkumál.

Af embættismönnum sem ég hef talað við og sérfræðingum er ekki að heyra að sé sérstaklega mikilla undanþága að vænta. Að það sé frekar eins og þetta sé að ganga inn í klúbb þar sem maður verður að beygja sig undir reglurnar. Sé frekar prèt-à-porter en klæðskerasaumað.

En það kemur væntanlega í ljós.“

Batnandi mönnum er best að lifa segir máltækið víst. Þetta hefur lengi legið fyrir og það þarf engar viðræður við Evrópusambandið til þess að komast að raun um það.

Heimild:
Prèt-à-porter (Eyjan.is/silfuregils 28/05/09)

Brottkast í Norðursjó jafn mikið og landaður afli

Dönsk stjórnvöld hafa upplýst að sjómenn innan Evrópusambandsins eru taldir hafa hent jafnmiklum afla úr Norðursjó aftur í sjóinn á síðasta ári og þeir lönduðu eða 24 þúsund tonnum. Forystumenn Evrópusambandsins hafa sem kunnugt er loksins gengist við því að sameiginleg sjávarútvegsstefna sambandsins sé handónýt. Það hefur hún þó verið í fjölda ára og margoft verið bent á það og rannsóknir gerðar sem leitt hafa það í ljós. Það hefur þó ekkert verið gert í málinu af hálfu ráðamanna í Brussel. Hins vegar hefur aldrei skort á hástemmdar yfirlýsingar um að til stæði að koma hlutunum í betra horf. Sama er uppi á teningnum nú.

Heimild:
Storm threatens as Brussels trawls for answer (Ft.com 20/05/09)

Ráðum við ekki við að reka sjálfstætt þjóðríki?

Bjarni Harðarson velti fyrir sér því sjónarmiði á bloggsíðu sinni á dögunum sem stundum heyrist úr röðum Evrópusambandsinna að Íslendingar geti ekki stjórnað sér sjálfir og haldið úti sjálfstæðu þjóðríki. Vafalaust eru mun fleiri Evrópusambandssinnar þeirrar skoðunar og enn fleiri eru það vafalítið án þess þó að gera sér almennilega grein fyrir því. En sú afstaða að vilja að Ísland verði hluti af Evrópusambandinu og færist undir stjórn þess felur sjálfkrafa í sér þá afstöðu að Íslendingar séu einhvern veginn ófærir um að stjórna sér sjálfir og þvi þurfi að fá aðra til þess verks.

Bloggfærslu Bjarna má nálgast hér.

 

Heimssýn stofnar Suðurlandsdeild

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hefur stofnað sérstakt svæðisfélag á Suðurlandi. Tekin var ákvörðun um það á opnum fundi sem samtökin héldu í Þingborg síðastliðið þriðjudagskvöld. Þar kom fram áhugi á að leggja lið baráttunni fyrir áframhaldandi fullveldi Íslands sem og áhyggjur fundarmanna af stöðu mála undir núverandi ríkisstjórn.
Frummælendur á fundinum voru fulltrúar frá samtökunum Nei til EU í Noregi og fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka, Sigurður Ingi Jóhannsson alþingismaður frá Framsóknarflokki, Atli Gíslason alþingismaður frá VG og Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi frá Sjálfstæðisflokki. Fram kom í máli Dag Seierstad sem er norskur sérfræðingur í málefnum Evrópusambandsins að í samningaviðræðum við ESB fengu Norðmenn engar varanlegar undanþágur frá regluverki ESB. Það hafi heldur ekki verið niðurstaðan við inntöku annarra landa og engar líkur geti talist á að Ísland breyti meginreglum ESB.
 
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna töluðu gegn aðild og fram kom í máli Sigurðar Inga að nýlega framkomin þingsályktunartillaga gengi gegn flokkssamþykkt Framsóknar og fengi því ekki stuðning þingamanna flokksins.
 
Í lok fundarins í Þingborg var skipuð bráðabirgðastjórn fyrir aðildarfélag Heimssýnar á Suðurlandi. Hana skipa eftirtaldir; Eyþór Arnalds bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri í Árborg, Guðni Ágústsson fv. ráðherra, Selfossi, Þór Hagalín framkvæmdastjóri Eyrarbakka, Sigurlaug B. Gröndal skrifstofumaður Þorlákshöfn og Axel Þór Kolbeinsson tölvumaður Hveragerði.
 
Heimssýn er þverpólitískt félag þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga betur borgið utan ESB. Formaður félagsins er Ragnar Arnalds og varaformaður Sigurður Kári Kristjánsson.

Mun tiltrú vaxa?

Sumir vilja halda því fram að aðild eða jafnvel umsókn um aðild að ESB muni sýna umheiminum hvert Ísland stefnir í efnahagsmálum og bæta tiltrú á landinu en þessu fylgja sjaldnast nánari útskýringar.

Nú liggur það fyrir að vandi Íslands er ekki ímyndarvandi. Stærsti hluti vandans er skuldabaggi sem landið ber á öxlunum. Landið stríðir við bæði skammtímaskuldavanda sem kenndur er við jöklabréf og skapa hættu á miklu gengisfalli verið gjaldeyrishöftunum aflétt og langtímavanda sem mun sliga heimili, fyrirtæki og ríkið til áratuga.

Umsókn um aðild að ESB gefur vissulega til kynna að yfirvöld séu staðföst í að fara “IMF og ESB leiðina”, þ.e að borga allt sem mögulega er hægt að borga. Aðildin segir hinsvegar ekkert um það hvernig farið verði að því að eiga við skuldavandann.

Einhverjum kann að sýnast sem svo að innganga í ESB setji einhverskonar gæðastimpil á landið, að með því að taka inn alla löggjöf Evrópusambandsins muni landið verða talið tryggari fjárfestingakostur.

Þetta væri trúverðugra ef lönd eins og Lettland, Írland, Spánn, Grikkland, Ungverjaland og Pólland hefðu ekki getað komið sér í jafn mikið klandur og raun ber vitni þrátt fyrir aðild að sambandinu. ESB kann að vera mikill gæðastimpill í augum íslenskra júrófíla en það er ekki sjálfgefið að erlendir fjárfestar séu sömu skoðunar.

Evruna undursamlegu kunna menn að hafa í huga og þá sem leið út úr gjaldeyrishöftunum en það liggur fyrir að evra verður ekki tekin upp í nálægri framtíð, hvort sem það líða nú tíu ár eða þrjátíu,  og það sem meira er þá verður hún ekki tekin upp án þess að menn vinni bug á mesta efnahagsvandanum, þ.m.t gjaldeyriskreppunni.

Sumir hafa a vísu nefnt aðlögunarferlið ERM II í þessu samhengi en slíkur málflutningur byggir á misskilningi á því, hvort sem hann er viljandi- eða óviljandi. Fastgengi sem viðhaldið er með inngripum á kostað umsóknarríkissins er ekki fýsilegt fyrr en fljótandi gengi er orðið verulega stöðugt og vitaskuld er ekki hægt að hafa það hærra en eðlilegt markaðsgengi.

Er ekki löngu kominn tími á að fjölmiðlamenn gangi eftir því að stjórnmálamenn sem segja tiltrú á íslenskt hagkerfi munu aukast í kjölfar umsóknar útskýri hvernig það á að gerast? Ég leyfir mér að fullyrða að tiltrú á íslenska fjölmiðla myndi batna ef fjölmiðlamenn gerðu það.

Hans Haraldsson

(Birtist áður á bloggsíðu höfundar)

Að yfirlögðu ráði og í sátt

Sumar ákvarðanir eru svo mikilsháttar og afgerandi að þær skyldi aðeins taka að undangenginni vandlegri yfirvegun og í samráði við alla sem hlut eiga að máli. Ákvörðunin um hvort sækja skuli um aðild að ESB er einmitt slík ákvörðun.

Hávær minnihluti þjóðarinnar hefur fyrir löngu tekið afstöðu til ESB og virðist telja óþarft að gefa samlöndum sínum ráðrúm til að mynda sér skoðun á málinu. Fyrst skuli sótt um aðild að ESB og svo athugað hvort nokkur sé á móti. Minnihlutinn vill stytta sér leið fram hjá lýðræðinu.

Það er hinsvegar ekkert sjálfsagt að ganga til samninga við stórveldi um framsal sjálfstæðis þjóðarinnar til þess eins að kanna hvað “okkur bjóðist” í staðinn. Svo illa stödd erum við ekki.

Það er ekkert sjálfsagt að leggja í 500-800 milljóna kostnað við samninga sem þjóðin hefur ekki áhuga á. Hver sem endanleg tala verður eru þetta gríðarmiklir fjármunir sem mætti nota í miklu þarfari hluti. ESB sinnar telja sanngjarnt að deila þessum kostnaði með þjóðinni. Hvaða réttlæti er í því?

Samningar við ESB eru ákaflega mannfrekt verkefni og stendur í langan tíma. Fjöldi manns úr ráðuneytum, ýmsir sérfræðingar og hagsmunasamtök verða kölluð að verkinu. Á sama tíma er gerð sú krafa að margir þessir sömu aðilar leggi nótt við dag við meira aðkallandi verkefni.  Björgun heimila og fyrirtækja landsins þolir enga bið. Það er ekkert sjálfsagt að lama getu okkar til að sinna brýnustu verkefnum með ótímabærri aðildarumsókn.

Það er vel hægt að kanna hvað “okkur býðst” án þess að sækja um aðild. Allir sáttmálar og lög ESB liggja fyrir. Vilji menn vita hvert ESB stefnir á næstunni má lesa það í Lissabon sáttmálanum. Hvað varðar varanlegar undanþágur fyrir Ísland hafa fulltrúar ESB margsinnis sagt að Ísland fái engar meiriháttar undanþágur.

Það er ekki víst að þjóðin vilji ganga í ESB jafn vel þótt varanlegar undanþágur fáist. Í hugum margra snýst þetta ekki um hagsmuni heldur sjálfstæði og sjálfstæði er ekki söluvara.

ESB hlýtur að geta boðið upp á könnunarviðræður án aðildarumsóknar. Í öllum viðskiptum er venja að menn kanni fyrst óformlega hvort það sé nokkur samningsgrundvöllur áður en gengið er til samninga.

Það vekur reyndar furðu mína og efasemdir um góðan ásetning að ESB skuli taka það í mál að hefja aðildarviðræður við þjóð sem hefur augljóslega ekki tekið málefnalega afstöðu til umsóknar. Þjóð sem er ósammála en knúin í viðræður af háværum minnihluta. Hvað segir þetta okkur um ESB?

Fyrir þá sem eru á móti ESB en treysta algerlega á það að samningur verði felldur í þjóðaratkvæði  þá vil ég benda á að ESB er vel trúandi til að samþykkja þær undanþágur sem þarf til að tryggja rétta útkomu og skjóta innlimun Íslands í sambandið. Eftir innlimum vinnur tíminn með ESB. Í framtíðinni munu án efa koma upp “óheppilegar” aðstæður þar sem hagsmunir Íslendinga felast í því að gefa eftir undanþágur sínar í skiptum fyrir eitthvað sem þá þykir brýnna. Undanþágur eru til trafala fyrir ESB til lengdar. Munum að útganga úr ESB verður ekki í boði hversu illa sem okkur, eða afkomendum okkar líkar.

Það að ganga til samninga er miklu stærra skref en ESB sinnar vilja viðurkenna. Þegar samningar eru hafnir er lestin komin af stað og skriðþunginn er mikill. Allir sem að samningum koma munu keppast við að sannfæra sjálfa sig og aðra að þetta séu bestu mögulegu samningar. Að hafna samningi sem búið er að fjárfesta hundruði milljóna í að undirbúa er ekkert annað en neyðaraðgerð.

Aðeins ein þjóð, Norðmenn, hefur staðist prófið og hafnað aðildarsamningi í þjóðaratkvæði.

Meirihluti Dana vill ekki evru í stað dönsku krónunnar

Meirihluti Dana er andvígur því að skipta út dönsku krónunni fyrir evru samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrir danska dagblaðið Jyllands-Posten og birtar voru í gær. 45,2% sögðust vilja halda í krónuna á meðan 43,6% sögðust vilja taka upp evru í hennar stað. 11,1% sögðust ekki hafa myndað sér skoðun á málinu. Þetta er í samræmi við fyrri kannanir á þessu ári.

Danir höfnuðu evrunni í þjóðaratkvæði árið 1999 og hefur núverandi ríkisstjórn Danmerkur lýst yfir vilja til þess að láta kjósa aftur um málið. Nýr forsætisráðherra landsins hefur þó lýst því yfir að ekki verði farið út í það nema öruggt væri að upptaka evrunnar yrði samþykkt.

Heimild:
Majority of Danes oppose joining euro: new poll (Eubusiness.com 14/05/09)

Samskipti Noregs og Liechtenstein við ESB áfram byggð á EES-samningnum

Stjórnvöld Noregs og Leichtenstein eru sammála um að halda áfram með samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) jafnvel þó til þess kæmi að Ísland gengi í Evrópusambandið. Þetta var niðurstaða fundar Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, og Aurelia Frick, utanríkisráðherra Leichtenstein, á fundi þeirra tveggja í Madrid á Spáni í vikunni.

Í frétt um málið á norsku fréttasíðunni E24.no er vitnað í viðtal við Störe sem segir að ráðherrarnir hafi rætt ítarlega um þá stöðu sem kynni að koma upp ef Ísland sækti um inngöngu í Evrópusambandið. „Bæði löndin eru sammála um að EES-samningurinn verði áfram tenging þeirra við Evrópusambandið,” sagði Störe.

Báðir utanríkisráðherrarnir vildu einnig undirstrika að þótt Ísland færi í viðræður um inngöngu í Evrópusambandið væri landið áfram aðili að EES-samningnum þar til niðurstaða um hvort af inngöngu yrði eða ekki lægi fyrir.

Heimild:
Noregur og Leichtenstein verða áfram í EES (Vísir.is 14/05/09)

Hagfræðingar gegn hagfræði

Í útleggingu hagfræðinnar á kostum myntbandalags og göllum við ýmsar ástæður segir, að því aðeins sé myntbandalag heppilegt, að gangur efnahags sé samstiga í einstökum hlutum bandalagsins. Þetta er stutt dæmum. Merkasta dæmið mundi nú vera evrusvæði Evrópusambandsins. Til þess var stofnað án tillits til þessa skilnings, og nú er þar mikill kyrkingur í sumum hlutum þess, en ekki alls staðar, og kyrkingurinn helst og magnast, þar sem gengi evrunnar er ekki lækkað í þágu atvinnulífs kreppulandanna. Hér verður rakið, hvernig áhrifaöfl hér á landi, sem mælt hafa með myntbandalagi af ýmsu tagi eða öðrum gjaldmiðli, hafa hunsað þessa meginforsendu kenningarinnar um myntbandalag.

Í haust hélt sá, sem nú er fjármálaráðherra, því fram, að ráð gæti verið að gera norsku krónuna að gjaldmiðli hér á landi. Ekki hefur verið sýnt, að efnahagur Íslands og Noregs hafi verið samstiga. Hins vegar eru fjármálaráðherrar landanna samstiga eins og er, að minnsta kosti á góðri stund.

Samband ungra sjálfstæðismanna leggur nú til, að Ísland hafi mynt Bandaríkja Ameríku (BA). Ekki hefur verið sýnt, að efnahagur Íslands og BA hafi verið samstiga. Hins vegar hafa ungir sjálfstæðismenn oft verið samstiga stjórn BA.

Alþýðusambandið vill hafa evru gjaldmiðil á Íslandi. Ekki hefur verið sýnt, að efnahagur Íslands og evrusvæðisins hafi verið samstiga. Þá mætti það að vera sérstakt athugunarefni Alþýðusambandsins, hvernig atvinnuástand verður, þegar efnahagur lítils hluta evrusvæðisins er ekki samstiga voldugri hlutum þess.

Það knýr vafalaust mest á, að slíkar hugmyndir eru settar fram, að Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð vilja annan gjaldmiðil. Félagsmenn þar búa við stöðug óþægindi af sveiflum, sem ýmist varða viðskiptasvæði landsins eða eru af innlendum toga.

Nú síðast (3. apríl) hefur Viðskiptaráð ákallað stjórnvöld að taka upp annan gjaldmiðil. Þar er bent á þau vandræði, sem fylgja gjaldeyrishöftum, sem voru hert í örþrifum. Lausnin má þá ekki vera sú að leiða efnahagslífið í aðra fjötra, þá fjötra, sem leiða af gjaldmiðli, sem sveigist að efnahagslífi, sem ekki er samstiga efnahag Íslands.

Merkilegt við þá afstöðu, sem hér hefur verið sagt frá, er, að þar eru samtök, sem haft hafa hagfræðinga í miklum metum, en nú snúast þau gegn hagfræðinni. Ég kalla á háskólahagfræðinga að láta það ekki ganga yfir hagfræðina, að hagfræðileg rök í örlagamáli séu hunsuð, eins og reyndin er hér. Það er skylda háskólahagfræðinga að halda fram hagfræðilegum rökum, þótt það geti verið óþægilegt að viðurkenna þau í hversdagsbasli fyrirtækja, eins og nú er. Hér hafa háskólahagfræðingar brugðist og tekið sjálfir þátt í umræðu um myntbandalag án þess að brýna fyrir mönnum meginforsendu slíks bandalags, að efnahagur einstakra hluta þess sé samstiga.

Björn S. Stefánsson