Engin evra fyrir Ísland næstu áratugina

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem birt var í gær munu heildarskuldir ríkissjóðs Íslands ekki verða komnar niður í 60% af vergri landsframleiðslu fyrr en eftir 30 ár, en það er eitt af þeim skilyrðum sem Evrópusambandið setur fyrir því að ríki þess geti tekið upp evru. Í þeim útreikningum er þó ekki gert ráð fyrir skuldum vegna Icesave-reikninga Landsbankans, lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum né lánum frá hinum Norðurlöndunum. Ef þær skuldir væru teknar inn í myndina má gera ráð fyrir að mun lengri tíma tæki að ná skuldum ríkisins niður í viðundandi hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Ef marka má spá ráðuneytisins er ljóst að engan veginn er tímabært að velta fyrir sér hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki ef markmiðið er að geta tekið upp evru. Ljóst er að hún verður ekki tekin upp hér á landi næstu áratugina jafnvel þótt gengið yrði í sambandið innan ekki svo langs tíma. Þess utan er rétt að hafa í huga að fleiri ströng skilyrði eru sett fyrir upptöku evru. Skilyrðin í heild eru þessi:

 • Verðbólga má ekki vera meira en 1,5% yfir meðaltalsverðbólgu hjá þeim þremur ríkjum Evrópusambandsins þar sem verðbólgan er lægst.
 • Langtíma stýrivextir mega ekki vera meira en 2% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum þar sem verðlag er stöðugast.
 • Halli á rekstri ríkissjóðs má ekki vera meiri en 3% af vergri landsframleiðslu og heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera yfir 60% af vergri landsframleiðslu.
 • Aðili að gengissamstarfi Evrópusambandsins (Exchange Rate Mechanism, ERM II) í a.m.k. tvö ár án gengisfellingar og gengi gjaldmiðils innan ákveðinna vikmarka.

Þessi skilyrði þarf öll að uppfylla í einu en þess má geta að Ísland hefur aldrei gert það, ekki einu sinni í góðærinu. Og nú liggur fyrir samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins að það muni líða áratugir áður en Íslendingar geti tekið upp evru jafnvel þó þeir gengju í Evrópusambandið á næstu árum. Eðlilega má spyrja sig að því hvort evrusvæðið verði yfir höfuð til þegar að því kæmi. Ekki síst í ljósi vaxandi efasemda málsmetandi aðila um allan heim um að svæðið eigi framtíð fyrir sér.

Heimild:
30 ár að uppfylla skuldaskilyrði (Rúv.is 12/05/09)

Össur segir regluverk ESB hafa aukið á erfiðleika Íslendinga

Í bréfi sem utanríkisráðuneytið sendi á alla breska þingmenn á dögunum með það að markmiði að útskýra stöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart Icesave-málinu svokallaða kemur m.a. fram að ljóst sé að regluverk Evrópusambandins um fjármálastarfsemi, sem innleitt var á Íslandi í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), hafi gert vonda stöðu Íslendinga verri.

Bréf þetta var sent að beiðni utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, en orðrétt segir í því: “Ljóst er að það, hversu flókið núgildandi regluverk [Evrópusambandsins um fjármálastarfsemi] er, hefur magnað upp erfiðleika Íslands.” (Clearly, the complexity of the current regulatory framework exacerbated the Icelandic situation.) 

Rifja má upp að í febrúar sl. sagði Össur í viðtali við breska sjónvarpsmanninn David Frost að Evrópusambandið væri gölluð stofnun. Þau ummæli voru einmitt að sama skapi sett fram í umræðum um Icesave-reikningana og stöðu efnahagsmála á Íslandi.

Og undir yfirráð þessa gallaða Evrópusambands sem magnaði upp erfiðleika Íslendinga vill utanríkisráðherra koma þjóðinni.

Heimildir:
Össur kennir ESB um (Sonurhafsins.blog.is 13/05/09)
Bréf utanríkisráðuneytisins til breskra þingmanna (Utanrikisraduneyti.is 12/05/09)

Evrópusambandinu er ókunnugt um ástand meirihluta fiskistofna í lögsögu sinni

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins viðurkenndi í fyrradag að vísindamenn hefðu ekki hugmynd um ástand næstum 2/3 hluta fiskistofna í lögsögu sambandsins. Fiskistofnar í lögsögu Evrópusambandsins eru á meðal ofveiddustu fiskistofna í heiminum. Á meðan heimsmeðaltalið er um 20% eru rúmlega 80% fiskistofna innan lögsögu sambandsins ofveiddir og þar af eru 30% að hruni komnir. Það kemur kannski ekki á óvart þegar vitneskja Evrópusambandsins um fiskistofnana er vægast sagt takmörkuð.

Heimild:
EU admits it’s unsure of fish stock levels (Independent.ie 13/05/09)

Sérfræðingur Danske Bank varar við hugsanlegu hruni evrunnar

Hætta getur verið á því að evran veikist mikið og jafnvel að hún hrynji. Þetta er haft eftir John Hydeskov, gengis- gjaldeyrissérfræðingi hjá Danske Bank, á fréttavef danska viðskiptablaðsins Børsen í dag. Stöðu evrunnar sé m.a. ógnað vegna efnahagshruns í Austur- og Mið-Evrópu, mikillar birgðasöfnunar og erfiðleika evruríkja við að uppfylla þau skilyrði sem sett voru um myntsamstarfið. Þá bendir Hydeskov á að evran sé ofmetnust allra stærri gjaldmiðla í heiminum.

Heimildir:
Hugsanlegt hrun evrunnar (Mbl.is 12/05/09)
Hrunið í austri ógnar evrunni (Amx.is 12/05/09)

Umræða um Evrópumál á Íslandi hefur lítil áhrif í Noregi

Norskir stjórnmálamenn virðast almennt telja að það muni ekki hafa merkjanleg áhrif á stjórnmálaumræðuna í Noregi í sumar og haust jafnvel þó svo færi að Ísland sækti um inngöngu í Evrópusambandið. Kosið verður til norska Stórþingsins í haust en ekki er gert ráð fyrir að umræður um sambandið verði fyrirferðarmikilar í kosningabaráttunni.  Mbl.is greinir frá þessu í dag.

Þar segir ennfremur að fram komi í norska blaðinu Dagsavisen í dag að talsmenn þeirra flokka og hreyfinga, sem helst eru fylgjandi því að Noregur gangi í Evrópusambandið, reikni ekki með því að umræða um Evrópusambandið verði fyrirferðarmikil í kosningabaráttunni.

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra, lýsti sömu skoðun í umræðum í norska þinginu í gær. Þá sagðist hann einnig telja að EES-samningurinn myndi haldast áfram jafnvel þótt Ísland gengi í Evrópusambandið. 

Blaðið hefur eftir Anders Todal Jensen, prófessor í stjórnmálafræði, að Norðmenn hafi lítinn áhuga á nýrri atkvæðagreiðslu um inngöngu í Evrópusambandið en síðast var henni hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1994.  Norðmönnum hafi gengið ágætlega utan Evrópusambandsins. 

Heimild:
Norðmenn leiða íslensk ESB-mál hjá sér (Mbl.is 08/05/09)

Norðmenn sækja ekki um inngöngu í Evrópusambandið

Norðmenn ætla ekki að breyta afstöðu sinni til Evrópusambandsins þótt Íslendingar sæki um aðild. Jonas Gahr Störe, utanríkisríkisráðherra, lýsti þessu yfir í fyrirspurnartíma í Stórþinginu í gær. Markmið norsku ríkisstjórnarinnar sé að halda fast við samninginn um Evrópska efnahagsvæðið. Allir flokkar utan einn eru sammála um að halda Evrópumálunum utan við kosningabaráttuna fyrir Stórþingskosningarnar í haust.

Norski utanríkisráðherrann sagðist ekki sjá ástæðu til að norska ríkisstjórnin breytti um stefnu í Evrópumálum þótt umsókn um aðild komi frá Íslandi. Í fyrirspurnartíma um Evrópumál í Stórþinginu kom fram að allir flokkar utan einn eru sammála ríkistjórninni um að hafa Evrópumálin ekki á dagskrá fyrir Stórþingskosningarnar 12. september nk.  Aðeins Hægri flokkurinn vill berjast fyrir aðild en nýtur nú aðeins fylgis 12% kjósenda samkvæmt nýjustu skoðanakönnun.

Þá er vitað að helstu áhrifamenn innan Verkamannaflokksins, þar á meðal utanríkisráðherrann Störe og Jens Stoltenberg forsætisráðherra, eru fylgjandi aðild en hafa gert sátt við samstarfsflokka sína í ríkisstjórn um að láta kyrrt liggja.  Búist er við að svo verði áfram nema stjórinn falli í kosningunum.

Störe sagðist í umræðunum ekki sjá annað en að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið stæði óhaggaður þótt Ísland gengi í ESB.  Þá stendur norskur efnahagur betur í kreppunni en í nokkru öðru Evrópuríki eftir gegndarlaust aðhald í fjármálum allt góðærið á öldinni.

Heimild:
Norðmenn sækja ekki um ESB-aðild (Rúv.is 08/05/09)

Viðræður um inngöngu í ESB og umsókn sitt hvort

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir Ríkisútvarpið voru birtar í kvöld og sýna þær meirihluta landsmanna hlynntan því að farið verði í svokallaðar aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í sömu könnun voru hins vegar jafnmargir hlynntir inngöngu sem slíkri og á móti henni. Talsverð umræða hefur skapast um það misræmi sem hefur verið í einstökum skoðanakönnunum um Evrópumál og virðist skipta öllu máli hvernig spurt er.

„Það er svo merkilegt með þessar skoðanakannanir um Evrópumálin, ef spurt er um það hvort fólk vilji aðildarviðræður við Evrópusambandið er gjarnan meirihluti fyrir því en ef spurt er að því hvort fólk vilji sækja um aðild að sambandinu, sem þarf að gera fyrst áður en einhvers konar viðræður geta farið fram, þá hafa kannanir sýnt meirihluta gegn því,“ segir Hjörtur J. Guðmundsson, stjórnarmaður í Heimssýn, á bloggsíðu sinni í dag.

Heimild:
Mikill meirihluti vill viðræður (Rúv.is 06/05/09)
Aðildarviðræður og umsókn sitt hvort (Sveiflan.blog.is 06/05/09)

Hugnast ekki sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, hefur áhyggjur af því að farið verði að blanda sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins við íslenskan sjávarútveg. Arthur er jafnframt annar formanna Alþjóðasamtaka strandveiðimanna og er því í nánu sambandi við kollega sína á norðurhveli jarðar og þar með innan Evrópusambandsins. Frá þessu er greint á fréttavef Ríkisútvarpsins í dag.
 
Ástæðan sé sú að Evrópusambandinu hafi mistekist að stýra fiskveiðum og það sýni ástandið hjá þeim. Allt sé vaðandi í styrkjum auk þess sem augljóst sé að fiskveiðiflotinn sé of stór. Brottkastsskyldan sé versti gallinn við sjávarútvegsstefnu sambandsins. Ekki megi koma með fisk í land sem ekki sé kvóti fyrir og því þurfi menn að henda honum. Arthuri hugnast því ekki að blanda íslenskum sjávarútvegi við sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Arthur segir það liggja í augum uppi að Íslendingar héldu ekki sömu yfirráðum yfir auðlindinni ef gengið yrði í Evrópusambandið. Það sé fullkominn barnaskapur að ímynda sér að hægt sé að fara í samningaviðræður við sambandið og halda ólöskuðu fullveldi yfir fiskveiðiauðlindinni. EES-samningurinn hafi haft það í för með sér að samningar séu í gildi við Evrópusambandið um ákveðnar veiðiheimidlir innan lögsögunnar. Ólíklegt sé að dregið yrði úr þeim heimildum í viðræðum um inngöngu í sambandið.

Heimild:
Hugnast ekki sjávarútvegsstefna ESB (Rúv.is 07/05/09)

Botninn er suður í Borgarfirði

Háskólaprófessor í Eyjafirði, Ingi Rúnar Eðvarðsson, skrifar grein í Morgunblaðið sem birtist 5. maí sl. undir fyrirsögninni „Atvinnuleysi og ESB“. Leitun er að öllu kynlegri samsuðu. Greinin á að færa lesendum heim sanninn um að engin hætta sé á auknu atvinnuleysi hérlendis við inngöngu í ESB heldur hið gagnstæða. „Atvinnuleysi hefur minnkað innan ESB“ er sérstaklega undirstrikað í greininni og að minni ríkin komi ekki verr út en hin stærri nema síður sé.

Til stuðnings þeirri staðhæfingu birtir prófessorinn töflu þar sem hann skiptir ESB-ríkjum í þrjá hópa: Norðurlönd, minni ríki og stærri ríki. Telur hann sig sýna fram á „með óyggjandi hætti“ að ótti við aukið atvinnuleysi samfara ESB-aðild sé ástæðulaus.

Sá galli er m.a. á framsetningu greinarhöfundar að hann stöðvar klukku sína við árið 2007. Þannig verður ljóst að tilgangurinn helgar meðalið. Lítum aðeins á stöðuna í fámennari ríkjum ESB þar sem prófessorinn endar sína töflu (tölur hans 2007 í sviga) og á núverandi atvinnuleysi í apríl 2009 (heimild: Eurostat á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB).

Norðurlönd í ESB: Danmörk nú 5,7% (3,4 árið 2007); Finnland 7,6% (6,6); Svíþjóð 8,0% (3,5).

Minni ríki: Eistland 11,1% (4,7); Írland 10,6% (4,8); Kýpur 4,9% (3,7); Lettland 16,1% (4,9); Litháen 15,5% (5,4); Malta 6,7% (4,1).

Samkvæmt málflutningi áróðursmanna fyrir aðild Íslands að ESB snýst Evrópusambandið öðru fremur um vinnu og velferð. Atvinnuleysi í þessu fyrirmyndarsamfélagi mælist nú að meðaltali 8,9% yfir allt svæðið, jafnhátt á evrusvæðinu og utan þess. Framkvæmdastjórn ESB áætlar þessa dagana að atvinnuleysið fari í 11,5% að meðaltali um mitt næsta ár. – Bakkabræður komust eitt sinn að því að „botninn er suður í Borgarfirði“. Mér sýnist Eyfirðingurinn enn hafa verk að vinna.

Hjörleifur Guttormsson,
náttúrufræðingur

Traustur sess Íslands í hópi Evrópuþjóða

— Full aðild að ESB ekki hagkvæm en samstarf um evru áhugavert 

Sjálfstæðisflokkurinn telur eftir vandlega skoðun að aðild að Evrópusambandinu (ESB) þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar.  Skortir mjög á að fram hafi komið rök er sýni að heildarhagsmunir þjóðarinnar væru tryggðir, ef hún ætti að búa við ákvörðunarvald ESB í öllum þeim málum sem færðust til sambandsins við aðild.  Mikilvægt er hins vegar að fylgjast áfram vel með því hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja sem er í sífelldri þróun.

Þetta er skýr og ábyrg afstaða nýafstaðins landsfundar Sjálfstæðisflokksins, eftir meira en fjögurra mánaða alhliða könnun málsins á vegum sérstakrar Evrópunefndar, sem miðstjórn Sjálfstæðisflokksins setti á fót um miðjan nóvember.  Fólk um allt land tók virkan þátt í meðferð málsins og hvílir þessi afstaða því á traustum grunni.

EES samningurinn tryggir vel hagsmuni Íslands
Ísland hefur allt frá aðild sinni að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) 1970 og tímamótasamningi um fríverslun við Efnahagsbandalag Evrópu (EBE síðar ESB) 1972 komið ár sinni hyggilega fyrir borð í viðskipta- og efnahagssamstarfi Evrópuríkja.  Nýtur Ísland aðgengis að sameiginlegum markaði Evrópuríkjanna og margskonar öðru samstarfi þeirra.  Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) er nú helsti grundvöllur þessara nánu tengsla, en hann var gerður án þess að fórna forræði yfir málum sem mikilsvert er að þjóðin geti ráðið sjálf, þ. á m. sjávarútveginum, sem er áfram ein af þýðingarmestu undirstöðum þjóðarbúsins.  Það fer því víðsfjarri að nokkur einangrun fylgi afstöðunni gegn fullri ESB aðild, eins og hörðustu baráttumenn hennar hafa reynt að halda fram.  EES samningurinn hefur reyndar oft verið umtalaður sem einskonar aukaaðild að ESB.  Traust staða Íslands í hópi Evrópuþjóða er því tryggð.  Og það langt seilst af þeim sem lengra vilja ganga – og ekki þjóðholl afstaða –  þegar reynt er að rýra gildi EES samningsins.

Í ítarlegri og vandaðri skýrslu Evrópunefndar allra stjórnmálaflokka (“Tengsl Íslands og Evrópusambandsins”, forsætisráðuneytið, mars 2007) undir forystu Björns Bjarnasonar kemur fram að Ísland hafi ekki ennþá notfært sér nema að takmörkuðu leyti þá margvíslegu möguleika sem EES samningnum fylgja til að vinna að framgangi hagsmuna landsins á vettvangi ESB meðan stefnumál sambandsins eru í mótun.  Leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að þessi tækifæri, sem snúa að ríkisstjórn, Alþingi, ráðuneytum og opinberum stofnunum, svo og hagsmunasamtökum, verði nýtt í vaxandi mæli.  Þannig er flokkurinn eindregið hlynntur nánara samstarfi við ESB og aðildarríki þess á grundvelli EES samningsins.  Mun hann beita sér fyrir því, eftir því sem aðstaða leyfir.

Könnun á upptöku evru í samstarfi við ESB og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn
Ekki er deilt um það, að kostir á afmörkuðum sviðum gætu fylgt aðild að ESB, þótt hún þjóni ekki heildarhagsmunum þjóðarinnar. Einkum er bent á, að það gæti stuðlað að meiri stöðugleika í efnahagslífinu að taka upp evru í gegnum aðild að ESB, en fyrir liggur að slíkt ferli tæki mörg ár.  Önnur leið hefur verið talin sú að útvíkka EES samstarfið með því að láta það í framtíðinni einnig ná til gjaldmiðilsmála, þ.e. taka hér upp evru með þeim hætti.  Enda þótt ESB hafi þegar fallist á að nokkur af smæstu ríkjum Evrópu tækju upp evru utan við venjulegt ferli, hafa ráðamenn i sambandinu gefið til kynna pólitíska andstöðu við einhliða upptöku evru hér á landi án ESB aðildar.  Mikil gagnkvæm viðskipti með vörur og þjónustu mæla þó með upptöku evru hér.
Nú hefur það hins vegar gerst, að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur í viðleitni sinni til að vinna gegn víðtækum áhrifum yfirstandandi kreppu hvatt ESB til að slaka á ströngum kröfum sínum og samþykkja að nokkrar Evrópuþjóðir sem ekki eru fullgildir aðilar að sambandinu fái heimild til upptöku evru.  Í þessu ljósi telur Sjálfstæðisflokkurinn að leita eigi eftir samstarfi við AGS um að stefna að því að íslensk stjórnvöld og sjóðurinn vinni saman að því að í lok áætlunar um endurreisn efnahagslífsins geti Íslendingar tekið upp evru sem gjaldmiðil.  Ekki er þá átt við einhliða upptöku heldur verði það gert í samstarfi við ESB.

Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur skynsamlegar, ef skoða á breytingar á stöðu Íslands
Lítið hefur í ESB umræðunni farið fyrir þeirri staðreynd, að kunnáttumenn um stofnsamning ESB (Rómarsamninginn) og aðra samninga sem starfsemi sambandsins hvílir á, telja ákvæði samninganna útiloka að ESB geti fallist á þær kröfur og skilyrði af Íslands hálfu, sem víðtæk samstaða hefur verið um að hljóti að vera algjör forsenda ef til inngöngu kæmi, t.d. óskert yfirráð Íslendinga yfir auðlindum sínum.  Vandséð er því hve langt málið gæti náð eftir að umsókn með slíkum skilyrðum hefði verið kynnt ESB.

En ef Alþingi eða ríkisstjórn ákveddi að leggja fram aðildarumsókn undir þeim formerkjum að kanna til hlítar hvaða kjör gætu verið í boði, telur Sjálfstæðisflokkurinn rétt að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um slíka ákvörðun áður en til aðgerða kemur.  Það telst í alla staði eðlilegt og skynsamlegt í svo mikilvægu máli sem varðar réttarstöðu landsins í framtíðinni og framsal á hluta af fullveldi þess.

Gildi slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu í upphafi felst ekki hvað síst í því tækifæri sem skapast myndi í aðdraganda hennar til að þjóðin geti áttað sig til fulls á kostum og göllum aðildar, hvað er í húfi, og hún lýst yfir vilja sínum.  Skýrt þarf að liggja fyrir frá upphafi af hálfu íslenskra stjórnvalda á hvaða forsendum ætlunin væri að sækja um aðild. En niðurstöður viðræðna, ef til þeirra kæmi, bæri síðan að leggja undir þjóðaratkvæði til endanlegrar ákvörðunar.

Óraunhæfar væntingar og villandi samanburður
Margt af því sem fullyrt er um hugsanlegan ávinning af ESB aðild hefur verið furðu óraunsætt og draumórakennt. T.d. er látið að því liggja, að þar sem fiskveiðistefna Íslands standi svo miklu framar reglum ESB muni Ísland eftir inngöngu nánast geta ráðið því hvaða breytingar verði gerðar við endurskoðun fiskveiðistefnu ESB.  Sannleikurinn er hins vegar sá, að – í þessu eins og öðru – mun það fara eftir því hvernig öflugri ríki sambandsins meta hagsmuni sína, hvort eða hvaða stefna verður tekin.  Máttur Íslands í krafti eigin atkvæða er innan við 1%. Gróf framganga Breta gegn Íslendingum nýverið er dæmi um hve tillitslaust og harkalega forysturíki í ESB getur rekið hagsmuni sína.

Þá er bent á að Ísland þurfi ekki að hika við að gerast fullgildur aðili að ESB af því að þjóðinni hafi vegnað vel í samtökum vestrænna ríkja eftir að lýðveldið var stofnað þ. á m. Atlantshafsbandalaginu (NATO).  Þarna er gjörólíku saman að jafna.  NATO er samtök fullvalda ríkja sem öll eru jafn rétthá og lúta ekki valdi bandalagsins.  Reyndar var NATO beinlínis stofnað til að vernda sjálfstæði og fullveldi ríkja sinna. En ESB er yfirþjóðlegt samband sem aðildarríkin hafa framselt til hluta af fullveldi sínu og eru því skuldbundin að hlýta ákvörðunum þess á sviðum sem undir sambandið heyra hvort sem þeim fellur betur eða verr.

Mikilsverður árangur – sjálfstæði til framtíðar
Sá mikilsverði árangur sem Ísland hefur náð í samskiptum við önnur ríki til þessa hefur byggst á þeirri samningsstöðu sem felst í fullveldi og sjálfstæði landsins.  Ekki verður með nokkru móti séð að þjóðin verði betur sett með því að setja þetta forræði í hendur manna í fjarlægri borg sem lítt eru kunnugir högum lands og þjóðar.      
Vert er að hafa í huga ályktun nýafstaðins landsfundar: Sjálfstæðisflokkurinn telur það meginmarkmið utanríkisstefnu Íslands að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar jafnframt því sem vinna ber með öðrum þjóðum að því að efla frið, frelsi, lýðræði, mannréttindi og velmegun. Leggja ber áherslu á að styrkja gagnkvæman velvilja og traust í samskiptum Íslands við önnur ríki. Fengin reynsla sýnir glöggt að Íslendingar þurfa ætíð að leggja sjálfstætt mat á hagsmuni sína út á við og standa saman um vernd þeirra í traustu og víðtæku samstarfi við önnur ríki.

 

Vandamál ESB aðildar
Nokkur þeirra atriða sem hindra aðild Íslands:

 • Með aðild væru færð undir vald ESB, að miklu leyti eða alveg, málaflokkar sem öllu þótti skipta að þjóðin héldi þegar EES samningurinn var gerður, m.a. sjávarútvegur, þ.m.t. samningsréttur um hlut okkar í deilistofnum, gerð fríverslunarsamninga o.fl.
 • Meginstefna ESB tekur eðlilega mið af aðstæðum þeirra á 5. hundrað milljóna fólks sem búa á meginlandi Evrópu eða rétt við það, en þær eru um margt ólíkar því sem er hjá 330 þúsund manna íslenskri þjóð úti í miðju N-Atlantshafi.
 • Ísland yrði áhrifalaust innan ESB á grundvelli eigin atkvæðamáttar sem yrði innan við 1% af heildinni, þ.e. 3 atkvæði af 348 í ráðherraráði ESB, 5-6 þingmenn á Evrópuþinginu af um 785.
 • Hagsmunir Norðurlandanna rekast of oft á til þess að hægt sé að treysta á samstöðu þeirra innan ESB, þegar Ísland þyrfti á að halda, auk þess sem samanlagt vægi þeirra er lítið.
 • Lýðræði er mjög takmarkað innan ESB m.a. mega hvorki þingmenn né ráðherrar flytja frumvörp á Evrópuþinginu, einungis framkvæmdastjórn ESB þ.e. æðstu embættismennirnir.
 • Erfitt er fyrir fámennar þjóðir að reka hagsmuni sína við tugþúsunda skrifstofubákn ESB, vegna mikils mannahalds sem slíkt krefst.
 • Í fjölda ára hafa endurskoðendur ESB ekki treyst sér til að undirskrifa reikninga sambandsins vegna óreiðu og spillingar.

Ólafur Egilsson,