Evran hefði ekki hjálpað Dönum í efnahagskreppunni

Það hefði ekki hjálpað Dönum að vera með evrur í veskinu í stað danskra króna í yfirstandandi efnahagskreppu. Það er álit meirihluta 60 helstu hagfræðinga Danmerkur að því er danska viðskiptablaðið Börsen greinir frá. Börsen og fréttastofan Ritzau fengu svör 52 hagfræðinga við spurningunni. Um 60% voru þeirrar skoðunar að evran hefði ekki breytt ástandinu til batnaðar en 37% voru þeirrar skoðunar að evran hefði gagnast betur en krónar.

Heimild:
Evran hefði ekki hjálpað Dönum gegnum kreppuna (Amx.is 29/06/09)

 

Ísland fær enga sérmeðferð

Ísland má búast við jákvæðu viðhorfi sænskra stjórnvalda sæki landið um inngöngu í Evrópusambandið, en engri sérmeðferð. Svíar verða í forsæti sambandsins síðari helming þessaárs. „Við viljum gjarnan koma til hjálpar, en við verðum að fylgja reglunum”, segir Cecilia Malmström, Evrópuráðherra Svíþjóðar í samtali við þýska dagblaðið Frankfurter Rundschau. Hún segir jafnframt að þótt Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu á næstunni og þrátt fyrfir þá staðreynd að Íslendingar hafi þegar leitt í lög nokkurn hluta af löggjöf sambandsins geti formlegar viðræður um inngöngu ekki hafist fyrr en í fyrsta lagi eftir hálft ár.

Dagblaðið hefur ennfremur eftir Frederik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, að ef Íslendingar settu fram þá kröfu að fá undanþágur vegna sjávarútvegsins yrði það vandamál.

Heimild:
Ísland fær enga sérmeðferð (Rúv.is 01/07/09)

 

Ragnar Sær til starfa hjá Heimssýn

Ragnar Sær Ragnarsson hefur verið ráðinn til Heimssýnar til að hafa umsjón með daglegum rekstri samtakanna. Ragnar Sær var þar til nýlega framkvæmdastjóri hjá THG arkitektum en var þar áður framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Bláskógabyggðar. Ragnar Sær er varaborgarfulltrúi í Reykjavík þar sem hann er búsettur og stundar meistaranám í opinberri stjórnsýslu og stjórnun við Háskóla Íslands. Ragnar er kvæntur Unni Ágústu Sigurjónsdóttur hjúkrunarfræðingi og eiga þau tvö börn. Heimssýn býður Ragnar velkominn til starfa.

 

Lissabon-sáttmálanum hefði verið hafnað í flestum ríkjum ESB

Charlie McCreevy, ráðherra innrimarkaðsmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, viðurkenndi í ræðu sem hann hélt í Dublin 25. júní sl. að Lissabon-sáttmálanum (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) hefði verið hafnað í flestum ríkjum sambandsins ef íbúar þeirra hefðu fengið að greiða atkvæði um hann. Eins og kunnugt er höfnuðu Írar sáttmálanum í þjóðaratkvæði sumarið 2008.

Írskum kjósendum hefur nú verið gert að kjósa aftur um Lissabon-sáttmálann næsta haust en þeir eru eina þjóðin innan Evrópusambandsins sem fengu að kjósa um málið í það skiptið en áður höfðu Frakkar og Hollendingar hafnað sáttmálanum árið 2005.

McCreevy bætti því við í ræðu sinni í Dublin að forystumenn margra ríkja Evrópusambandsins væru afskaplega ánægðir með að hafa ekki þurft lögum samkvæmt að leyfa kjósendum sínum að segja álit sitt á Lissabon-sáttmálanum.

Heimild:
McCreevy admits most EU voters would reject Lisbon (Belfasttelegraph.co.uk 26/06/09)

 

Brian Cowen er búinn að lesa Lissabon-sáttmálann!

Forsætisráðherra Írlands, Brian Cowen, barðist af krafti fyrir því að Írar samþykktu Lissabon-sáttmálann svonefndan (þ.e. Stjórnarskrá Evrópusambandsins) í þjóðaratkvæði sem fram fór sumarið 2008. Stuttu fyrir atkvæðagreiðsluna var hann spurður að því hvort hann hefði sjálfur lesið þennan sáttmála sem hann vildi svo mjög fá samþykktan. Spurningin kom flatt upp á hann og neyddist hann til þess að viðurkenna að það hefði hann alls ekki gert.

Cowen er nú aftur að berjast fyrir samþykkt Lissabon-sáttmálans eftir að Írar höfnuðu honum á síðasta ári. Írum er ætlað að kjósa um sáttmálann upp á nýtt, nákvæmlega sama doðrantinn, vegna þess að þeir komust að rangri niðurstöðu í fyrra skiptið að mati ráðamanna í Brussel. Nú nýverið lýsti Cowen því yfir af því tilefni að hann hefði loksins komið sér að því að lesa sáttmálann sem hann er svo ákafur í að fá landa sína til þess að gangast undir.

Heimild:
Cowen says he has now read the full text of Treaty (Independent.ie 23/06/09)

Vera í Evrópusambandinu hefði ekki bjargað Íslendingum

Geir Haarde, fyrrum forsætisráðherra, hélt fyrirlestur í Dublin 18. júní sl. á vegum Institute of European Affairs þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að það hefði ekki bjargað Íslendingum frá því efnahagslega fárvirðri sem leiddi til efnahagshrunsins hér á landi sl. haust og falls þriggja stærstu bankanna ef Ísland hefði verið í Evrópusambandinu. Hann benti í því sambandi m.a. á að vera í sambandinu hefði ekki bjargað lettneska hagkerfinu frá því að dragast saman um 18% á þessu ári.

Geir minnti einnig á að gert er ráð fyrir að hagkerfi Írlands muni dragast saman um 10,75 til 12% á þessu ári. Á sama tíma væri gert ráð fyrir að samdrátturinn á Íslandi yrði 10%. Þess má þó geta að nýjustu spár kveða á um 7% samdrátt hér á landi.

Heimildir:
Irish GDP will shrink faster than Iceland’s, says ex-PM (Independent.ie 19/06/09)
OECD spáir 7% samdrætti á þessu ári (Vb.is 25/06/09)

 

Seðlabanki ESB óttast nýja bankakrísu á næsta ári

Breska dagblaðið Daily Telegraph fjallaði um það nýverið að Seðlabanki Evrópusambandsins fylgdist náið með vaxandi erfiðleikum 25 banka á evrusvæðinu sem taldir eru skipta sköpum fyrir efnahagsleg afdrif svæðisins. Bankinn óttist aðra bankakrísu á svæðinu á næsta árið dragist efnahagskreppan á langinn. Dejan Krusec, sérfræðingur bankans í efnahagslegum stöðugleika, sagði bankana nógu sterka til þess að lifa af núverandi niðursveiflu en ekki ef það tekur lengri tíma að koma efnahagslífinu aftur í gang.

„Vandamálið er ekki 2009, bankar á evrusvæðinu eru vel fjármagnaðir til þess takast á við tap. Vandamálið er 2010. Við höfum áhyggjur af lengd [enahagskreppunnar],“ sagði Krusec.

Seðlabanki Evrópusambandsins gerir ekki ráð fyrir að efnahagslíf evrusvæðisins fari að rétta úr kútnum fyrr en um mitt ár 2010. Bankinn er því að undirbúa sig fyrir aukin vandamál á næsta ári. Piroska Nagy, ráðgjafi hjá Evrópska þróunarbankanum, segir að hætta sé á því að vestur-evrópskir bankar flýji frá Austur-Evrópu sem gæti leitt til hruns bankageirans þar.

Daily Telegraph segir að það sé engin töfralausn fyrir Austur-Evrópu. „Það verður erfiðara fyrir þá að komast út úr þessum vandamálum með auknum útflutningi en fyrir Austur-Asíu í krísunni árið 1998,“ er haft eftir Edward Parker hjá matsfyrirtækinu Fitch. Í þetta sinn sé allur heimurinn í niðursveiflu. Því til viðbótar séu Lettland, Eistland og Búlgaría föst í gjaldmiðilssambandi við evruna sem sé allof hátt skráð fyrir þessi ríki. Afleiðingin yrði mjög hörð lending.

Heimild:
ECB fears bank crisis in 2010 as recession drags on (Telegraph.co.uk 10/06/09)

Umsókn um inngöngu í ESB ástæðulaus

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsir andstöðu við að Ísland sæki um inngöngu í Evrópusambandið en eins og kunnugt er liggur þingsályktunartillaga frá ríkisstjórninni þess efnis fyrir Alþingi. Jón Bjarnason er andvígur inngöngu og vill ekki sækja um hana. Hann segir menn ekki eiga að banka á hurð sem þeir vilji ekki að sé opnuð því þeir ætli sér aldrei þangað inn, því telji hann það algerlega ástæðulaust að sækja um inngöngu. Það megi kalla slíkt athæfi bjölluat.

Jón segir ennfremur að sérstaklega við núverandi efnahagsaðstæður megi ekki gleyma því að vinna við umsókn um inngöngu í Evrópusambandið kosti gríðarlegar upphæðir og spurning hvort vilji sé til þess að eyða hundruðum milljóna í slíkt umsóknarferli þegar nóg annað er við fjármunina að gera og verið er að skera niður í velferðarkerfinu.

Heimild:
Aðildarumsókn að ESB ástæðulaus (Rúv.is 23/06/09)

Tengt efni:
„Látum ekki hvarfla að okkur að ganga í ESB“

Engin evra í Svíþjóð í fyrirsjáanlegri framtíð

Núverandi ríkisstjórn hægrimanna í Svíþjóð mun ekki boða til nýs þjóðaratkvæðis um evruna en kjörtímabili hennar lýkur í september á næsta ári. Hægriflokkarnir hafa ennfremur lýst því yfir að verði þeir áfram við völd á næsta kjörtímabili verði það sama uppi á teningnum. Nýverið lýstu vinstriflokkarnir í landinu því sömuleiðis yfir að ef þeir kæmust í ríkisstjórn eftir kosningarnar á næsta ári yrði ekki boðað til þjóðaratkvæðis á kjörtímabilinu. Því kjörtímabili lýkur árið 2014 þannig að ljóst þykir að þjóðaratkvæði um evruna í Svíþjóð verði ekki aftur á dagskrá fyrr en eftir það – ef einhvern tímann.

Heimild:
Why Sweden won’t join the euro (Swedishwire.com 04/06/09)

 

Írar þurfa að kjósa aftur um óbreyttan Lissabon-sáttmála

Forystumenn Evrópusambandsins hafa ákveðið að Írar skuli greiða aftur atkvæði um Lissabon-sáttmálann (Stjórnarskrá Evrópusambandsins), en þeir höfnuðu honum sem kunnugt er í þjóðaratkvæði sumarið 2008. Talið var að gerðar yrðu breytingar á sáttmálanum til þess að auka líkurnar á að írskir kjósendur samþykktu hann en horfið var frá því m.a. vegna þess að það hefði þýtt að önnur ríki sambandsins hefðu þurft að staðfesta hann aftur en 23 af 27 ríkjum þess hafa þegar gert það. Írar voru þó einir um að fá að greiða atkvæði um sáttmálann í þjóðaratkvæði en annars staðar var hann staðfestur af viðkomandi þjóðþingum.

Einungis var ákveðið að láta pólitískar yfirlýsingar fylgja Lissabon-sáttmálanum sem kveða á um ákveðnar undanþágur frá honum fyrir Íra, en slíkar yfirlýsingar hafa þó enga lagalega þýðingu sem þýðir að þær stæðust ekki fyrir dómi ef á þær reyndi. Tilgangurinn með þeim er m.ö.o. aðeins sá að blekkja írska kjósendur til þess að samþykkja sáttmálann í nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu sem búist er við að fram fari í október á þessu ári.

Þess má geta að þeirri vinnureglu hefur lengi verið fylgt innan Evrópusambandsins að í þau fáu skipti sem almenningur í ríkjum sambandsins fær að segja álit sitt á samrunaskrefum innan þess og hafnar þeir, sem yfirleitt hefur verið raunin, er honum gert að kjósa aftur og aftur um þau þar til þau eru samþykkt. Sama er uppi á teningnum núna. 

Heimildir:
Irish to vote on exactly the same text of Lisbon Treaty – EU admits that nothing has changed (Openeurope.org.uk 19/06/09)