Spánverjar ætla sér að komast í íslensk fiskimið

Spænska dagblaðið El Pais greindi frá því í vikunni að í augum spænska fiskveiðiflotans væri íslenska fiskveiðilögsagan fjársjóður og ennfremur að ráðherra Evrópumála í ríkisstjórn Spánar, Diego López Garrido, hefði í hyggju að tryggja hagsmuni spænsks sjávarútvegar í umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu. Haft var eftir ráðherranum að Spánverjar myndu hafa mikið að segja um umsóknarferlið og að ekki mætti undir neinum kringumstæðum semja um inngöngu Íslands í sambandið nema spænskir fiskveiðihagsmunir yrðu tryggðir.

Ummæli Garrido koma ekki á óvart enda alla tíð verið vitað að ef Ísland gengi í Evrópusambandið yrði ekki hægt að tryggja yfirráð Íslendinga yfir auðlindum Íslandsmiða. Þau yfirráð færu til stofnana sambandsins. Að sama skapi gætu Íslendingar ekki gert sér vonir um að sitja einir að aflaheimildum við landið ef af inngöngu í Evrópusambandið yrði enda grunnregla sambandsins jafn aðgangur að sameiginlegum auðlindum og undir það flokkast fiskistofnar innan sameiginlegrar lögsögu ríkja þess.

Heimild:
Spánverjar telja íslensk fiskimið “fjársjóð” – Munu tryggja sinn veiðirétt, segir ESB-ráðherra (Eyjan.is 28/07/09)
Islandia enfila la vía express para su integración en la UE (Elpais.com 27/07/09)

Tengt efni:
Viðurkennir að yfirráðin yfir fiskimiðunum töpuðust
Íslenskar auðlindir mikilvægar fyrir ESB
Trúa Íslendingar á jólasveininn?!?
„Ekki gera sömu mistök og við gerðum!“
Evrópusambandið hefur lokaorðið

 

Viðurkennir að yfirráðin yfir fiskimiðunum töpuðust

Hjörtur J. Guðmundsson vakti athygli á því á bloggsíðu sinni í gær að Össur Skarphéðinsson hefði séð sérstaka ástæðu til þess að taka það skýrt fram í Stokkhólmi þegar hann afhenti umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið að Íslendingar væru ekki tilbúnir að deila fiskistofnum ef af inngöngu í sambandið yrði. Sömuleiðis að hann teldi það verða erfiðast að ræða um sjávarútvegsmálin í viðræðum við ráðamenn í Brussel.

Síðan segir Hjörtur: „En hvers vegna þurfti Össur eiginlega að taka þetta sérstaklega fram? Hann hefur verið talsmaður þess um árabil ásamt öðrum Evrópusambandssinnum að við þyrftum engar áhyggjur að hafa af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, hún hentaði okkur vel og við héldum öllum aflaheimildum við Ísland vegna svokallaðrar sögulegrar reynslu. Þetta væri alveg kristaltært.“

Hjörtur bendir því næst á að raunveruleikinn sé auðvitað allt annar og það hafi Össur og félagar alltaf vitað. En það hafi hins vegar ekki hentað þeim að viðurkenna það fyrr af pólitískum ástæðum.

Heimildir:
Össur viðurkennir að innganga í ESB þýddi að yfirráðin yfir fiskimiðunum töpuðust (Sveiflan.blog.is 28/07/09)
Iceland ‘unwilling to share fishing resources’ in EU (Euobserver.com 23/07/09)

 

Össur viðurkennir að Íslendingar þurfi ekki á ESB að halda

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, viðurkenndi í viðtali við þýska fréttamiðilinn Deutsche Welle í gær að við Íslendingar hefðum enga þörf fyrir inngöngu í Evrópusambandið og gætum auðveldlega komið efnahagsmálum okkar í lag á ný utan þess.

„Sumir telja kannski að staða okkar sé veik því við höfum lent illa í fjármálakreppunni. En jafnvel án aðildar að Evrópusambandinu myndum við koma okkur út úr kreppunni fljótlega. Strax árið 2011 munum við sjá hagvöxt aukast hér á landi. Þannig ég hef ekki miklar áhyggjur, við förum ekki í viðræðurnar með það fyrir augum að við munum ekki komast af án Evrópu[sambandsins]. Það getum við,“ sagði Össur í viðtalinu. 

Það er ánægjulegt að Össur sé farinn að viðurkenna staðreyndir sem þessa, enda litlar líkur á öðru en að hann hafi alltaf gert sér grein fyrir þeim þó það hafi hentað honum pólitískt til þessa að halda öðru fram.

Heimildir:
„Getum lifað án Evrópu“ (Mbl.is 27/07/09)
Iceland confident about EU membership talks (Dw-world.de 27/07/09)

 

Mat á ESB-umsókn Íslands gæti tekið meira en ár

Ráðherraráð Evrópusambandið samþykkti í dag að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið færi til framkvæmdastjórnar þess sem metur hvort forsendur séu til þess að hefja viðræður um inngöngu landsins. Litlar líkur voru á því að ráðherraráðið veitti ekki samþykki sitt enda felst ekki annað í því en að umsóknin fari í umrætt matsferli. Viðræður geta ekki hafist fyrr en skýrsla framkvæmdastjórnarinnar liggur fyrir en greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að meira en ár geti tekið að vinna hana.

Mánuðina áður en umsókn um inngöngu í Evrópusambandið var samþykkt á Alþingi var því sífellt haldið fram af Evrópusambandsinnum að bráðnauðsynlegt væri að skila inn slíkri umsókn á meðan Svíar gegndu forsæti innan sambandsins þar sem það myndi hafa í för með sér einhvers konar sérmeðferð af þeirra hálfu. Nú hefur hins vegar komið á daginn, sem þó var vitað fyrir, að slíkt er engan veginn í boði. Umsóknin fer einfaldlega í hefðbundið ferli innan stofnana Evrópusambandsins.

Heimildir:
Mat á aðildarhæfni Íslands talið taka meira en ár (Amx.is 27/07/09)
Bildt: Ísland fær enga flýtimeðferð (DV.is 27/07/09)

 

Ráðherra vill fresta umsókn um inngöngu í ESB

„Ég hef þungar áhyggjur af samningsstöðu Íslands,“ sagði Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við Ríkisútvarpið í dag. Hann sagðist af þeim sökum vilja fresta viðræðum um inngöngu í Evrópusambandið. Í ljósi beinna og óbeinna hótana stjórnvalda í Bretlandi, Hollandi og fleiri ríkjum sambandsins verði að leysa milliríkjadeilur áður en sest verður að samningum um inngöngu.

Jón nefndi hryðjuverkalög Breta á Íslendinga í kjölfar bankahrunsins, yfirlýsingar hollenskra ráðherra um bein tengsl milli Icesave-deilunnar og inngöngu í Evrópusambandið auk þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti stöðugt fleiri og nýjar kröfur á þjóðina sem óvíst væri hvernig hún stæði undir.

„Þannig að mér finnst það verulegt áhyggjuefni að vera að fara í samningaviðræður við ríkjasamband í þeirri stöðu sem íslenska þjóðin er núna,“ sagði Jón í samtali við Ríkisútvarpið.

Heimild:
Vill fresta umsóknarferli ESB (Mbl.is 26/07/09)

 

Segir efnahagsleg rök fyrir inngöngu í ESB ekki halda vatni

Páll Vilhjálmsson fjallar á bloggsíðu sinni um gagnrýni Stein Reegård, aðalhagfræðings norska alþýðusambandsins LO, á rök Alþýðusambands Íslands fyrir aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag segir Reegård að efnahagsleg rök fyrir aðild að sambandinu séu byggð á veikum grunni. Hann segir kreppuna á Íslandi heimatilbúna og innganga í Evrópusambandið engu breyta um þær ráðstafanir sem stjórnvöld þurfi að grípa til.

Reedgård segir að ef Ísland hefði verið með evru væri ástandið enn verra en það er nú. Háir vextir hafi þrátt fyrir allt verið hemill á þensluna og verðfall krónunnar geri atvinnulífið samkeppnisfært á ný.

Í umfjöllun norska ríkisútvarpsins er haft eftir Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, að upptaka evru sé nauðsynleg til að endurreisa atvinnulífið. Reedgård dregur dár að Gylfa og bendir á að Ísland muni ekki geta tekið upp evru á næstu árum, landið uppfylli ekki skilyrði Evrópusambandsins fyrir því.

Norska alþýðusambandið hefur verið hlynnt inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Þar á bæ vita menn hins vegar að efnahagsleg rök fyrir inngöngu halda ekki vatni.

Heimildir:
ESB-rök ASÍ gagnrýnd frá Noregi (Pallvil.blog.is 24/07/09)
EU ikke løsning for Island (Nrk.no 24/07/09)

 

Kostar umsóknarferlið að ESB yfir 10 milljarða króna?

Fjallað var um það á fréttavefnum AMX í gær að umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í Evrópusambandið hafi í för með sér að fjölga þurfi starfsmönnum í sendiráði Íslands í Brussel um 70-80 sem aftur muni hafa árlegan kostnað í för með sér upp á 30-40 milljónir á hvern starfsmann. Þessi kostnaður einn gæti því hlaupið á 2-3 milljörðum króna á ári en umsóknarferlið kann að taka 2-3 ár. Þar við bætist ýmis annar kostnaður og vegur þýðingarkostnaður mjög þungt í þeim efnum.

Ljóst er að ef þær forsendur sem nefndar eru hér eiga við rök að styðjast gæti heildarkostnaður vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið hæglega farið vel yfir tíu milljarða króna sem er allavega tíu sinnum hærri tala en sá tæpi milljarður sem utanríkisráðuneytið áætlaði að umsóknarferlið kostnaði. Að vísu var þar gengið út frá þeirri forsendu að lítið sem ekkert yrði haft fyrir viðræðum við sambandið. Gera má ráð fyrir að þessi kostnaður verði að stóru leyti í erlendum gjaldeyri.

Í umfjölluninni á AMX er ennfremur rætt um að það sé ekki að furða að svokallaðir “sérfræðingar í Evrópumálum” vilji ólmir í Evrópusambandið enda ljóst að aðeins með umsókn um inngöngu í það hafa atvinnutækifæri þeirra batnað stórkostlega.

Heimild:
ESB-umsókn kallar á 70-80 manns í Brussel (Amx.is 23/07/09)

 

Þýskir hægrimenn andsnúnir frekari stækkun ESB

Þýski stjórnmálaflokkurinn CSU, sem er stærsti stjórnmálaflokkur Bæjaralands sem aftur er stærsta fylki Þýskalands, hefur lýst yfir andstöðu við umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Þá einkum á þeim forsendum að frekari stækkun sambandsins sé ótímabær auk þess sem flokkurinn segir að Evrópusambandið geti ekki bjargað Íslandi frá efnahagskreppunni. Þetta er haft eftir Markus Ferber, leiðtoga CSU á þingi Evrópusambandsins, í þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeitung í dag.

CSU býður aðeins fram í Bæjaralandi en er í kosningabandalagi við Kristilegademókrata (CDU), flokk Angelu Merkel kanslara Þýskalands, sem bjóða fram í öðrum fylkjum landsins. CDU lýsti hliðstæðum áherslum í mars á þessu ári í sérstakri skýrslu þar sem fram kom andstaða við frekari stækkun Evrópusambandsins. Ennfremur er það sameiginleg stefna CSU og CDU að berjast gegn frekari stækkun sambandsins á bak við tjöldin fyrir þingkosningarnar sem fram fara í Þýskalandi í haust samkvæmt því sem fram kom á fréttavef Ríkisútvarpsins í dag.

Heimildir:
Andsnúnir inngöngu Íslands (Mbl.is 18/07/09)
CSU vill Íslendinga ekki í ESB (Rúv.is 18/07/09)
Vilja hægja á stækkun ESB (Mbl.is 17/03/09)

 

Umboðslaus ríkisstjórn sækir um inngöngu í ESB

Ríkisstjórn Íslands sótti um inngöngu í Evrópusambandið í morgun í kjölfar þess að Alþingi samþykkti í gær með naumum meirihluta að heimila slíka umsókn. Ljóst er að stjórnarflokkarnir standa ekki heilir á bak við málið eins og fyrirfram var vitað og þurfti að leita til stjórnarandstöðunnar til þess að koma því í gegnum þingið. Ennfremur er fyrirliggjandi að flestir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem kusu með umsókninni eru sem fyrr andvígir inngöngu í sambandið en létu undan hótunum um stjórnarslit ef málið yrði fellt.

Ljóst er að ríkisstjórnin er umboðslaus í málinu. Ólíkt forystu Samfylkingarinnar hafa forystumenn vinstri-grænna enga heimild frá kjósendum flokksins eða úr stefnu hans til þess að beita sér fyrir umsókn um inngöngu í Evrópusambandið. Stjórnin hefði getað öðlast umboð til þeirrar vegferðar ef hún hefði verið reiðubúin að styðja þingsályktunartillögu um að þjóðin fengi að kjósa um það hvort sótt yrði um inngöngu í sambandið. Þ.e. ef umsókn hefði hlotið samþykki. Ríkisstjórnin kaus þvert á móti að berjast af krafti gegn tillögunni.

Ríkisstjórnin kaus einnig að beita sér gegn tillögu þess efnis að þjóðaratkvæði um hugsanlegan samning um inngöngu í Evrópusambandið yrði bindandi. Þ.e. að þjóðin ætti síðasta orðið í málinu og þingið og ríkisstjórnin væru bundin af niðurstöðu hennar. Niðurstaðan er sú að aðeins verður haldið svokallað ráðgefandi þjóðaratkvæði ef til þess kemur sem í raun er ekki annað en skoðanakönnun. Þingið og ríkisstjórnin munu hafa síðasta orðið um það hvort gengið verður í sambandið eða ekki en ekki þjóðin. 

 

Úrslit atkvæðagreiðslunnar á Alþingi um ESB-umsóknina

Hér að neðan fer listi yfir þá alþingismenn sem samþykktu umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í Evrópusambandið, þá alþingismenn sem höfnuðu henni og þá sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. 

Þessir alþingismenn samþykktu umsókn um inngöngu í Evrópusambandið:

Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birkir Jón Jónsson, Bjarkey Gunnarsdóttir (sem varamaður fyrir Björn Val Gíslason), Björgvin G. Sigurðsson, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Skúli Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þráinn Bertelsson, Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson.

Þessir alþingismenn höfnuðu umsókn um inngöngu í Evrópusambandið:

Atli Gíslason, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Eygló Harðardóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Illugi Gunnarsson, Jón Bjarnason, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þór Saari og Þuríður Backman.

Þessir alþingismenn sátu hjá í atkvæðagreiðslunni:

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.