Heimssýn á Vestfjörðum stofnað

Stofnfundur Heimssýnar á Vestfjörðum var haldinn á Hótel Ísafirði 26. september sl. þar sem rætt var um Ísland og Evrópusambandið. Illugi Gunnarsson, alþingismaður, hélt framsögu rakti sýn sína á aðildarumsókn ríkisstjórnarinnar að sambandinu og var ennfremur farið yfir aðdraganda umsóknarinnar. Fjörugar umræður sköpuðust og fjöldi fundarmanna tók til máls eftir framsögu Illuga. Fundarstjóri var Birna Lárusdóttir, bæjarfulltrúi á Ísafirði.

Eftirtaldir voru kjörnir í fyrstu stjórn Heimssýnar á Vestfjörðum: Ragna Magnúsdóttir, Bolungarvík, Lýður Árnason, Bolungarvík, Björn Birkisson, Botni Súgandafirði og varamenn: Hildur Halldórsdóttir, Ísafirði, Svava Rán Valgeirsdóttir, Suðureyri, Gísli Jón Kristjánsson, Ísafirði. 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða á stofnfundinum og send fjölmiðlum:

“Heimssýn á Vestfjörðum, félag sjálfstæðissinna í Evrópumálum, skorar á Alþingi Íslendinga að láta nú þegar vinna að þýðingu á spurningalista Evrópusambandsins vegna aðildarumsóknar að ESB. Það er óforsvaranlegt að gera ekki öllum landsmönnum kleift að kynna sér á íslensku svo áhrifamikil málsatriði sem í spurningalistanum felast og snerta atvinnulíf og byggðamál um land allt. Tryggja verður að allir landsmenn hafi sömu möguleika til að afla sér upplýsinga og taka þátt í umræðu um þessi mál, óháð tungumálakunnátttu.”

Heimssýn hefur á undanförnum mánuðum stofnað svæðisfélög víða á landinu.

 

Segir Ísland ekki ganga í ESB í fyrirsjáanlegri framtíð

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur og fyrrum stjórnarmaður í Evrópusamtökunum, sagðist spá því að Ísland gengi ekki í Evrópusambandið í fyrirsjáanlegri framtíð á morgunverðarfundi sem Háskólinn í Bifröst hélt í Norræna húsinu 24. september sl. Eiríkur sagði að það gæti helst gerst ef efnahagsástandið versnaði. „Þá gætu Íslendingar í augnabliks geðveiki átt það til að segja já, en á venjulegum degi munu þeir segja nei, sagði hann.

Eiríkur hefur um árabil verið einhver helsti talsmaður Evrópusambandssinna á Íslandi og því þykja ummæli hans sérstaklega athyglisverð í því ljósi.

Heimild:
Eiríkur Bergmann: Ísland gengur ekki í ESB í fyrirsjáanlegri framtíð (Amx.is 25/09/09)

 

Írar hafna Lissabon-sáttmálanum samkvæmt nýrri könnun

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun á Írlandi sem gerð var af fyrirtækinu Gael Polls hafna írskir kjósendur Lissabon-sáttmálanum (fyrirhugaðri Stjórnarskrá Evrópusambandsins) með góðum mun þegar kosið verður um hann í þjóðaratkvæðagreiðslu 2. október nk. Sé aðeins tekið við af þeim sem tóku afstöðu með eða á móti sögðust 59% ætla að hafna sáttmálanum en 41% að samþykkja hann. Kannanir undanfarið hafa verið mjög mivísandi og sumar bent til þess að Írar samþykki sáttmálann.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um Lissabon-sáttmálann 2. október verður í annað sinn sem Írar kjósa um sáttmálann en þeir höfnuðu honum sem kunnugt er fyrir rúmu ári síðan. En þar sem niðurstaðan var ráðamönnum Evrópusambandsins ekki að skapi var ákveðið að hún yrði hunsuð og kosið aftur í samræmi við þá vinnureglu innan sambandsins að kosið sé aftur og aftur um samrunaskref þess þar til þau eru samþykkt og þá sé aldrei kosið aftur. Þ.e. ef fólki er þá gefinn kostur á að segja álit sitt á slíkum skrefum sem Evrópusambandið reynir að komast hjá í lengstu löð.

Gael Polls spáði rétt fyrir um úrslit þjóðaratkvæðisins sumarið 2008 rétt áður en það fór fram og forsvarsmenn fyrirtækisins eru bjartsýnir á að það sama verði uppi á teningnum nú. “Skoðanakönnun okkar var framkvæmd á sex dögum og við notuðum nákvæmlega sömu aðferðafræði og á síðasta ári. Reynsla okkar er sú að afstaða fólks sé ekki nærri því á eins mikilli hreyfingu og margir halda. Fólk hefur yfirleitt mjög ákveðnar hugmyndir um það hvernig það ætlar að greiða atkvæði og þeir sem segjast ekki vera vissir hafa tilhneigingu til þess að kjósa alls ekki,” er haft eftir starfsmanni Gael Polls, Paul Murphy.

Þess má geta að samþykkt Lissabon-sáttmálans er forsenda frekari stækkunar Evrópusambandsins þar sem núverandi sáttmálar sambandsins gera ekki ráð fyrir því að fleiri ríki séu innan þess en þau 27 sem þegar eru þar.

Heimild:
Gael Poll answers on Lisbon2: 59% NO vs. 41% YES (Teameurope.info 21/09/09)

 

Vildu Íslendingar að sótt yrði um inngöngu í ESB?

Í Morgunblaðinu í gær 19. september birtist aðsend grein eftir Hjört J. Guðmundsson, stjórnarmann í Heimssýn, þar sem hann færir rök fyrir því að meirihluti Íslendinga hafi aldrei viljað að sótt væri um inngöngu í Evrópusambandið eins og núverandi ríkisstjórn gerði sl. sumar. Byggir hann það m.a. á niðurstöðum nýjustu skoðanakönnunar um afstöðuna til sambandsins en þar kemur m.a. fram að meirihluti landsmanna sé óánægður með umsóknina. Grein Hjartar fer hér á eftir.

“Ef marka má síðustu skoðanakannanir um afstöðu Íslendinga til inngöngu í Evrópusambandið er ljóst að stuðningur við að gengið verði í sambandið hefur farið óðum minnkandi frá því í byrjun þessa árs eftir að hafa aukist umtalsvert fyrst eftir bankahrunið í október síðastliðnum.

Mikill meirihluti Íslendinga vill nú ekki ganga í Evrópusambandið. Samkvæmt nýjustu könnuninni sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins og birt var 15. september sl. myndu yfir 60% greiða atkvæði gegn inngöngu ef gengið yrði til þjóðaratkvæðis um málið nú.

Það sem hins vegar vekur kannski hvað mesta athygli við þessa könnun Capacent Gallup er sú niðurstaða að meirihluti skuli vera óánægður með að sótt hafi verið um inngöngu í Evrópusambandið í sumar. „Var ekki meirihluti fyrir því?“ hafa vafalaust einhverjir spurt sig.

Staðreyndin er sú að svo var alls ekki. Skoðanakannanir sem spurt hafa á liðnum árum um svokallaðar aðildarviðræður hafa vissulega yfirleitt sýnt meirihluta fyrir þeim en kannanir sem spurt hafa um afstöðuna til umsóknar um aðild hafa hins vegar allajafna sýnt meirihluta andvígan.

Á þetta hefur ítrekað verið bent af okkur sjálfstæðissinnum og að eina skýringin á þessu geti verið sú að fólk hafi viljað einhvers konar óformlegar könnunarviðræður við Evrópusambandið en ekki formlega umsókn um inngöngu í það.

Niðurstöður skoðanakönnunar Capacent Gallup nú síðast renna enn frekari stoðum undir þá skýringu. Umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í Evrópusambandið hefur einfaldlega ekki stuðning meirihluta landsmanna á bak við sig og hefur aldrei haft.”

 

Aldrei meiri andstaða við inngöngu í ESB

Ný skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins og birt var í gær sýnir meiri anstöðu við inngöngu í Evrópusambandið en nokkurn tímann áður. Samkvæmt könnuninni eru 43,2% Íslendinga óánægð með umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í sambandið en 39,6% eru ánægð með hana. Meira en helmingur Íslendinga, eða 50,2%, eru andvíg inngöngu í Evrópusambandið en 32,7% hlynnt.

Ennfremur sögðust 61,5% greiða atkvæði gegn inngöngu í Evrópusambandið ef kosið yrði um málið í þjóðaratkvæði nú en 38,5% að þau myndu styðja hana. Af þeim sögðust 38,6% að þau myndu örugglega kjósa gegn inngöngu en aðeins 16,1% að þau myndu örugglega greiða atkvæði með henni. Skoðanakönnunin var gerð dagana 25. ágúst til 10. september, úrtakið var 1649 manns og svarhlutfallið 52,3%.

Heimildir:
Fleiri andvígir en hlynntir ESB-aðild (Morgunblaðið 15/09/09)
Andstaðan við aðild að ESB er í hámarki (Vísir.is 15/09/09)
Andstaða við Evrópu­sambandsaðild í hámarki (Amx.is 15/09/09)

Olli Rehn: Spil ESB liggja nú þegar á borðinu

Olli Rehn, stækkunarkommissar Evrópusambandsins, var m.a. spurður að því í viðtali við Morgunblaðið í gær 10 september hvort sambandið myndi ekki sýna á spilin sín og gefa upp hvað væri í boði af hálfu þess þegar viðræður um inngöngu Íslands hæfust. Svar Rehn var einfaldlega á þá leið að Evrópusambandið hefði þegar sýnt á spilin. Það lægi fyrir hvað sambandið hefði upp á að bjóða enda væri regluverk þess og meginreglur öllum aðgengilegar.

Skemmst er frá því að segja að þetta hafa sjálfstæðissinnar alltaf bent á. Það væri í besta falli blekking að halda því fram að sækja þyrfti um inngöngu í Evrópusambandið til þess að komast að því hvað slík innganga hefði í för með sér fyrir Íslendinga. Það lægi að langstærstu leyti eða jafnvel að öllu leyti fyrir og mikið meira en nóg til þess að hægt sé að taka afstöðu til þess hvort fýsilegt væri fyrir Ísland að verða hluti sambandsins.

Heimild:
Olli tekur ESB-Mogga í kennslustund (Amx.is 10/09/09)

Tengt efni:
Hefur Ísland tekið yfir meirihluta löggjafar ESB?
Norðmenn sækja ekki um inngöngu í ESB
Íslendingar varaðir við ESB-aðild
Meirihluti Íslendinga andvígur inngöngu í Evrópusambandið
Össur viðurkennir að Íslendingar þurfi ekki á ESB að halda
Mat á ESB-umsókn Íslands gæti tekið meira en ár
Kostar umsóknarferlið að ESB yfir 10 milljarða króna?

 

Hefur Ísland tekið yfir meirihluta löggjafar ESB?

Hjörtur J. Guðmundsson, stjórnarmaður í Heimssýn, ritaði grein á fréttavefinn Amx.is 8. september sl. þar sem hann segir að Ísland hafi alls ekki tekið yfir meirihluta lagasetningar Evrópusambandsins í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) eins og t.a.m. kommissar stækkunarmála sambandsins, Olli Rehn, hefur haldið fram í samtölum við erlenda fjölmiðla. Hjörtur bendir á að slíkar fullyrðingar gangi einfaldlega ekki upp sé málið skoðað nánar. Þannig hlaupi heildar löggjöf Evrópusambandsins á tugum þúsunda lagagerða á sama tíma og heildar löggjöf Íslands, lög og reglugerðir, eru aðeins um 5.000 talsins.

Orðrétt segir í grein Hjartar: 

“Heildar lagasetning Evrópusambandsins er talin vera í kringum 30 þúsund gerðir. Heildarfjöldi íslenzkra lagagerða er hins vegar aðeins í kringum 5 þúsund. Þar af eru um eitt þúsund lög en afgangurinn er reglugerðir. Þetta þýðir einfaldlega að jafnvel þó öll íslenzk löggjöf kæmi frá sambandinu væri hún minna en 20% af heildar lagasetningu þess. Hvernig er þá hægt að komast að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi þegar tekið upp a.m.k. 2/3 hluta lagasetningar Evrópusambandsins?”

Heimild:
Hefur Ísland tekið upp meirihluta lagasetningar ESB? (Amx.is 08/09/09)

 

Norðmenn sækja ekki um inngöngu í ESB

Ný ríkisstjórn í Noregi mun ekki sækja um inngöngu í Evrópusambandið nema norska þjóðin láti ótvírætt í ljós vilja til að sækja um. Þetta sagði Siv Jensen, leiðtogi norska Framfaraflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins, í samtali við Ríkisútvarpið í dag. Skoðanakannanir undanfarin ár hafa jafnan sýnt meirihluta Norðmanna andvíga inngöngu í sambandið.  Við þær aðstæður segir Jensen að tilgangslaust sé að sækja um inngöngu í það.

Talið er að ríkisstjórn vinstriflokkanna undir forystu Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra, falli í þingkosningunum sem fram fara um næstu helgi. Þó er mjótt á mununum og kannanir sýna að ekki vanti mikið upp á að stjórnin halda velli. Stjórn Stoltenbergs hefur þá stefnu að umsókn um inngöngu í Evrópusambandið sé ekki á dagskrá. Það er því ekkert sem bendir til þess að Norðmenn sæki um inngöngu í Evrópusambandið sama hvaða stjórnarform verður ofan á.

Heimild:
Ný stjórn styddi ekki ESB-aðild (Rúv.is 08/09/09)

 

Stiglitz: Evran slæm hugmynd fyrir Íslendinga

Evran hentaði Íslendingum ekki að mati Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði og prófessors við Columbia háskóla í Bandaríkjunum. Þetta er á meðal þess sem kom fram í máli hans í viðtali í Silfri Egils í dag. Hann sagði það hafa komið sér vel fyrir Íslendinga að hafa krónuna á þessum erfiðu tímum. Lítil hagkerfi þyrftu svigrúm og að geta aðlagast hratt breyttum aðstæðum, sérstaklega þegar stór áföll yrðu. Íslenska krónan væri tæki sem gerði slíkt mögulegt. Ef gengi hennar hefði ekki gefið eftir hefði atvinnuleysi t.a.m. að öllum líkindum orðið mun meira en raunin hefur orðið auk þess sem það hefði komið sér illa fyrir ferðamannaiðnaðinn.

Stiglitz sagði að Svíar hefðu hafnað evrunni á sínum tíma vegna þess að þeir gerðu sér grein fyrir því að sænska krónan veitti þeim meiri stöðugleika en evran. Það yrði að hafa í huga að gengisstöðugleiki væri ekki allt. Stöðugleiki á einu sviði skapaði óstöðugleika á öðru. Stöðugleiki í gengismálum væri t.a.m. ávísun á óstöðugleika á atvinnumarkaði og leiddi til aukins atvinnuleysis. Þetta snerist um kosti og galla. Mikilvægt væri að hámarka verðmæti auðlinda og það gilti ekki síst um vinnumarkaðinn, að tryggja að sem flestir hefðu vinnu.

Heimildir:
Stiglitz: Hræðsluáróður AGS tóm vitleysa (Dv.is 06/09/09)
Stiglitz fundar með ráðherrum í dag
(Vísir.is 07/09/09)

 

Ungir jafnaðarmenn í Svíþjóð andsnúnir Lissabon-sáttmálanum

Ungliðahreyfing sænska jafnaðarmannaflokksins hefur tekið afstöðu gegn Lissabon-sáttmálanum (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) og þannig ákveðið að fara gegn stefnu flokksins. Í grein sem birtist 1. september sl. á sænska fréttavefnum Europaportalen segir formaður ungliðahreyfingarinnar, Jytte Guteland, að þrátt fyrir að hreyfingin hafi í grundvallaratriðum jákvæða afstöðu til Evrópusambandsins þá hafi hún ákveðið að leggjast gegn Lissabon-sáttmálanum, þá einkum þar sem hreyfingin telji Lissabon-sáttmálann ekki nægjanlega lýðræðislegan.

Ef Ísland gengur í Evrópusambandið verður Lissabon-sáttmálinn að grundvallarlöggjöf Íslands og sem slíkur æðri ekki aðeins almennri íslenskri lagasetningu heldur sömuleiðis íslensku stjórnarskránni. Sáttmálinn hefur ekki enn verið endanlega staðfestur þar sem honum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi á síðasta ári. Írar þurfa nú að greiða aftur atkvæði um hann í október í samræmi við þá vinnureglu innan Evrópusambandsins að kjósa þurfi aftur og aftur um samrunaskref innan sambandsins þar til þau eru samþykkt. Þ.e. ef á annað borð er kosið um þau.

En hvort sem Lissabon-sáttmálinn verður að lokum samþykktur eða ekki þá er ljóst að núverandi sáttmálar Evrópusambandsins gera ekki ráð fyrir fleiri ríkjum innan sambandsins en þeim 27 sem þegar eru þar. Það er því ljóst að umræðan um það hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki verður að byggjast að miklu leyti á Lissabon-sáttmálanum og þeim breytingum sem hann mun hafa í för með sér fyrir sambandið. Í skemmstu máli sagt mun sáttmálinn í raun breyta Evrópusambandinu endanlega í eitt ríki.

Heimild:
(SSU): Nej till Lissabonfördraget (Europaportalen.se 01/09/09)