Heimdallur segir umsókn um inngöngu í ESB ógæfuspor

Aðalfundur Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, var haldinn í gær 2. september og var m.a. samþykkt stjórnmálaályktun þar sem ítrekuð var sú afstaða félagsins að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins og að sú umsókn um inngöngu í sambandið sem ríkisstjórnin hefur sent sambandinu sé ógæfuspor. Þá er ríkisstjórnin gagnrýnd harðlega fyrir bráðræði með því að setja þjóðinni út í slíka för án fyrirheits.

Orðrétt segir í ályktun aðalfundar Heimdallar:

„Heimdallur telur að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sé ógæfuspor og að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið utan sambandsins en innan þess. Telur félagið að ríkisstjórnin hafi sýnt af sér fádæma bráðræði með því að etja þjóðinni út í slíka för án fyrirheits, í stað  þess að taka á vandanum heima fyrir. Með því tókst ríkisstjórninni með einni aðgerð að efna til illinda meðal þjóðarinnar og veikja verulega samningsstöðu Íslands í yfirstandandi milliríkjadeilum við Breta og Hollendinga.

Í ljósi þeirrar reynslu sem nú þegar liggur fyrir af samningatækni og hagsmunagæslu ríkisstjórnarinnar í samningum við erlend ríki, er ástæða til óttast verulega um hagsmuni Íslendinga í því umsóknarferli sem framundan er. Það vekur sérstaklega athygli og óhug að stjórnarmeirihlutinn skyldi hafna tillögu sjálfstæðismanna á Alþingi um að væntanlegur samningur yrði borinn undir þjóðina í bindandi atkvæðagreiðslu.“

Heimild:
Stjórnmálaályktun Heimdallar 2009 (Frelsi.is 03/09/09)

 

Grein um ESB sem Morgunblaðið vildi ekki birta

Frosti Sigurjónsson birti grein í gær á bloggsíðu sinni sem hann sendi til Morgunblaðsins á fyrri hluta júlímánaðar nokkrum dögum áður en Alþingi samþykti naumlega að heimila ríkisstjórninni að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Greinin fjallar að sjálfsögðu um Evrópumálin. Nú er liðinn meira en einn og hálfur mánuður síðan óskað var eftir birtingu á greininni og því nokkuð ljóst að ekki stendur til að birta hana.

Grein Frosta má lesa í heild sinni á bloggsíðu hans.