Formaður hagsmunasamtaka danskra útvegsmanna og sjómanna, Svein-Erik Andersen hjá Danmarks Fiskeriforening, óttast að endanlega sé verið að drekkja dönskum sjávarútvegi í reglugerðarfargani Evrópusambandsins. „Framkvæmdastjórnin undir forystu Svía ætlar að leiða yfir okkur óframkvæmanlega löggjöf,” segir Andersen í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í dag.
Andersen segir Dani vera með virkasta fiskveiðieftirlit allra landa innan ESB. Eftirlit annarra landa í sambandinu standist engan samjöfnuð. Á þessu hyggist Evrópusambandið ráða bót með því að koma á nýjum reglugerðum um fiskveiðieftirlit, þar sem eitt skuli yfir alla ganga.
Verði umræddar reglugerðir að veruleika bendir Danmarks Fiskeriforening á nokkrar afleiðingar þeirra í fréttatilkynningu sinni:
* Reglur um meðafla verða svo strangar að veiðar leggjast af að verulegu leyti
* Kröfur um veiðarfæri kalla á óraunhæfar breytingar
* Útgerðir sem hafa hefðbundið veitt í Skagerrak og Kattegat munu missa stóran hluta aflahlutdeildar vegna breyttra reglna um útgerðir
Heimild:
Óttast að danskur sjávarútvegur drukkni í skrifræði ESB (Líú.is 14/10/09)