Heimssýn á Hornafirði stofnað

Heimssýn á Hornafirði - stofnfundurStofnfundur Heimssýnar á Hornafirði var haldinn á Kaffi Horni, sunnudaginn 25. október. Framsögur fluttu Atli Gíslason og Unnur Brá Konráðsdóttir þingmenn Suðurkjördæmis. Fundarstjóri var Guðlaug Úlfarsdóttir. Um 20 manns sóttu fundinn og voru umræður líflegar að loknum framsöguræðum.

Á stofnfundinum var stjórn kjörin og lög samþykkt. Í fyrstu stjórn félagsins sitja eftirtaldir: Steinarr Bjarni Guðmundsson formaður, Hugrún Steinunn Guðmundsdóttir, Ásmundur Gíslason, Hjalti Egilsson og Ásgrímur Ingólfsson.

 

Mikill meirihluti vill ekki evru og Evrópusamband

Ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Miðlun gerði fyrir vefritið Pressan.is vilja 55% Íslendinga að í peningamálum þjóðarinnar verði mörkuð stefna til framtíðar utan Evrópusambandsins með einum eða öðrum hætti. Þar af vill rúmur fjórðungur, eða 26%, að stefnan verði óbreytt og haldið í íslensku krónuna. 29% vilja taka upp erlendan gjaldmiðil einhliða, en þar af aðeins 9% evru. Einungis 24% vilja hins vegar taka upp evru með inngöngu í Evrópusambandið. 21% taka ekki afstöðu.

Sé aðeins miðað við þá sem taka afstöðu í könnuninni vilja þannig tæp 70% landsmanna fara leið sem felur það ekki í sér að gengið verði í Evrópusambandið. Aðeins tæpur þriðjungur vill evru með inngöngu í sambandið. Þetta kemur heim og saman við niðurstöður skoðanakönnunar Capacent fyrir Samtök iðnaðarins sem birtar voru um miðjan september, en þar kom m.a. fram að 61,5% aðspurðra myndu hafna inngöngu í Evrópusambandið færi þjóðaratkvæði fram um það.

Skoðanakönnun Miðlunar nú kann því að benda til þess að andstaða við inngöngu í Evrópusambandið hafi aukist enn frá því um miðjan september.

Heimild:
Mjög skiptar skoðanir um gengisfyrirkomulag – fjórðungur vill halda krónunni (Pressan.is 24/10/09)

 

Heimssýn Vestmannaeyjum stofnað

Stofnfundur Heimssýnar Vestmannaeyjum var haldinn í dag 18. október í kjölfar fundar um Evrópumál í Eyjum þar sem Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, flutti framsögu. Á stofnfundinum var stjórn kjörin og lög samþykkt. Í fyrstu stjórn félagsins sitja eftirtaldir: Páley Borgþórsdóttir formaður, Sólveig Adólfsdóttir varaformaður, Jórunn Einarsdóttir, Sigurður E. Vilhelmsson og Borgþór Ásgeirsson.

Stofnfundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:

“Heimssýn Vestmannaeyjum skorar á ríkisstjórn Íslands að draga umsókn um aðildarviðræður við Evrópusambandið til baka. Í þeim efnahagslegu þrengingum sem Ísland á nú í þykir óhæft að standa í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Staða Íslands meðal annarra þjóða hefur boðið hnekki í efnahagshruninu og Íslendingar þar af leiðandi ekki í stakk búnir fyrir aðildarviðræður. Ennfremur telur hreyfingin að viðbrögð Evrópulanda við erfiðum aðstæðum á Íslandi sýni svo ekki verður um villst þá stöðu sem Ísland kemur ætíð til með að eiga í gagnvart Evrópusambandinu. Íslendingar verða ávallt fámenn þjóð andspænis stórum Evrópulöndum sem hika ekki við að beita sér gegn minni ríkjum í krafti stærðarinnar.”

 

Óttast að danskur sjávarútvegur drukkni í skrifræði ESB

Formaður hagsmunasamtaka danskra útvegsmanna og sjómanna, Svein-Erik Andersen hjá Danmarks Fiskeriforening, óttast að endanlega sé verið að drekkja dönskum sjávarútvegi í reglugerðarfargani Evrópusambandsins. „Framkvæmdastjórnin undir forystu Svía ætlar að leiða yfir okkur óframkvæmanlega löggjöf,” segir Andersen í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í dag.

Andersen segir Dani vera með virkasta fiskveiðieftirlit allra landa innan ESB. Eftirlit annarra landa í sambandinu standist engan samjöfnuð. Á þessu hyggist Evrópusambandið ráða bót með því að koma á nýjum reglugerðum um fiskveiðieftirlit, þar sem eitt skuli yfir alla ganga.

Verði umræddar reglugerðir að veruleika bendir Danmarks Fiskeriforening á nokkrar afleiðingar þeirra í fréttatilkynningu sinni:

    * Reglur um meðafla verða svo strangar að veiðar leggjast af að verulegu leyti
    * Kröfur um veiðarfæri kalla á óraunhæfar breytingar
    * Útgerðir sem hafa hefðbundið veitt í Skagerrak og Kattegat munu missa stóran hluta aflahlutdeildar vegna breyttra reglna um útgerðir

Heimild:
Óttast að danskur sjávarútvegur drukkni í skrifræði ESB (Líú.is 14/10/09)

 

Segir ekki hægt að treysta samningum við ESB

Inge Halstensen, formaður stjórnar samtaka norskra útvegsmanna, Fiskebåtredernes Forbund, sendir Evrópusambandinu tóninn í frétt á vef norska ríkisútvarpsins og segir sambandið „ótraustan samningsaðila.” Halstensen vísar til makríldeilu milli Noregs og ESB og segir að þar sem ekki sé hægt að treysta gerðum samningum verði Norðmenn að grípa til þess að hindra aðgang ESB-skipa að norskum veiðisvæðum í Norðursjó og Barentshafi.

Í frétt norska ríkisútvarpsins kemur fram að þarlend stjórnvöld óttist að erfitt verði að hrinda þeirri ákvörðun Evrópusambandsins að vísa 30 norskum makrílveiðiskipum tafarlaust út af svæði undan Hjaltlandseyjum í fyrri viku, þar sem þau töldu sig stunda veiðar í trausti tvíhliða samkomulags ESB og Noregs. Halstensen segir að hefðu útvegsmenn haft minnsta grun um hvað væri í vændum hefði þeim verið í lófa lagið að veiða meira af makríl á meðan hann hélt sig í norskri lögsögu fremur en að elta hann inn í lögsögu ESB. Norskir útvegsmenn telja að þeir muni verða af aflaverðmæti sem svarar til 20 milljarða íslenskra króna standi ákvörðun ESB í málinu óhögguð.

Samkvæmt umræddum tvíhliða samningi telja Norðmenn sér heimilt að veiða 153.000 tonn af makríl innan lögsögu Evrópusambandsins en ESB telur að þeim sé aðeins heimilt að veiða 53.000 tonn.  

Heimild:
Segir ekki hægt að treysta samningum við ESB (Líú.is 12/10/09)

 

Írar láta undan hótunum Evrópusambandsins

Írar samþykktu Lissabon-sáttmálann (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) í þjóðaratkvæði sem fram fór sl. föstudag 2. október. Niðurstöðurnar lágu fyrir í gær og kaus mikill meirihluti með sáttmálanum. Írskir kjósendur höfnuðu sama sáttmála á síðasta ári en þar sem sú niðurstaða var ráðamönnum í Brussel ekki að skapi var hún höfð að engu og þjóðaratkvæðið endurtekið nú. Þetta er í samræmi við þá vinnureglu Evrópusambandsins að í þau fáu skipti sem almenningur er hafður með í ráðum varðandi samrunaskref innan sambandsins sé kosið aftur og aftur þar til niðurstaða fæst sem er ráðamönnum sambandsins þóknanleg og síðan aldrei kosið aftur.

Evrópusambandið hótaði Írum óspart efnahagslegri og pólitískri einangrun ef þeir ekki samþykktu Lissabon-sáttmálann sem og að efnahagur Írlands skaðaðist ef honum yrði hafnað. Írskt efnahagslíf hefur átt í miklum erfiðleikum og því má búast fastlega við því að hótanir sambandsins hafi haft mikil áhrif á írska kjósendur. Ekki má gleyma því að vegna veru sinnar í Evrópusambandinu eru Írar í raun undir hæl sambandsins og geta t.d. ekki átt í frjálum viðskiptum við önnur ríki og efnahagssvæði á eigin forsendum eins og t.d. Íslendingar. Vegna evrunnar geta Írar heldur ekki fellt gengi gjaldmiðils síns til þess að auka samkeppnishæfni írsks útflutnings og þannig hraðað efnahagsbata.

 

Þjóðaratkvæðagreiðsla á Írlandi í dag

Írskir kjósendur greiða aftur atkvæði um Lissabon-sáttmálann (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) í dag en þeir felldu hann sem kunnugt er í júní á síðasta ári. Eins og fjallað hefur verið um hér á Heimssýn.is hafa skoðanakannanir á Írlandi verið mjög misvísandi og sumar sýnt meirihluta gegn sáttmálanum og aðrar með. Fjölmiðlar segja frá því að mjótt gæti orðið á mununum og að mikil óvissa sé um það hver niðurstaða þjóðaratkvæðisins verði en gert er ráð fyrir að þær liggi fyrir um miðjan dag á morgun laugardag.

Heimild:
Mjótt gæti orðið á mununum (Rúv.is 01/10/09)
Low turnout fears in second Irish vote on EU Lisbon Treaty (Monstersandcritics.com 02/10/09)