Ungt fólk gegn ESB-aðild stofnar félag

Laugardaginn 6. febrúar verður stofnuð hreyfing ungs fólks sem stendur gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Stofnfundurinn verður haldinn í sal Þjóðminjasafnsins kl. 13.00-16.00 og er hann opinn öllum.

Fundarstjóri verður Árni Árnason, landsforseti JCI.  

Félagið er opið öllum á aldrinum 16-36 ára og nauðsynlegt er að skrá sig sem stofnfélaga í gegnum heimasíðuna http://centrum.is/gk/.

 

Framboð til stjórnar og lagabreytingatillögur verða að berast Páli Vilhjálmssyni í kjörstjórn pallvilh@gmail.com viku fyrir fundinn.

Skemmtun verður um kvöldið. Vonumst til að sjá sem flesta,

Undirbúningsnefnd

Dagskrá fundarins verður: 

1. Formaður undirbúningsnefndar setur fundinn

2. Tillaga undirbúningsnefndar að nafni félagsins lögð fram.

3. Tillaga undirbúningsnefndar að lögum lögð fram.

4. Kosning stjórnar félagsins.

5. Ávarp heiðursgesta

6. Önnur mál

 

Matvælaverð hagstætt á Íslandi

Ódýrasta matarkarfan er í Berlínarborg en neytandinn þarf að greiða mest fyrir vörurnar í Osló, samkvæmt könnun í Bændablaðinu. Ísland  kemur vel út úr samanburðinum og er næstódýrast í samanburði verði á gúrkum, nýmjólk, hreinu smjöri, kjúklingabringum  og eggjum. Verð var kannað í sjö löndum. Nýmjólkin er áberandi dýrust í Osló þar sem líterinn kostar 304  krónur. Í Óðinsvéum í Danmörkukostar hann 193 krónur og 177  krónur í London. Hérlendis kostar líterinn 103 krónur. Ódýrasti  mjólkurlíterinn er hins vegar í Berlín í Þýskalandi þar sem hann  kostar einungis 98 krónur, 5% lægri en í Reykjavík.

Smjörverð er afar misjafnt á milli landa. Þannig er smjörið  ódýrast á Íslandi þar sem kílóverðið var 530 krónur en dýrast á Spáni  þar sem kílóið kostar 1.657. Þarna munar 212%.  Gúrkurnar reyndust ódýrastar á Spáni en dýrastar í Lúxemborg þar sem stykkjaverð var 226 krónur. Það er rúmlega helmingi hærra  verð en í Krónunni í Reykjavík.

Mikill verðmunur reynist vera  á kjúklingabringum milli landa. Hér er um að ræða ferskar bringur  en ekki frosnar. Dýrastar eru bringurnar í Noregi þar sem kílóið
kostar 3.551 krónu en ódýrastar í Þýskalandi þar sem kílóverðið  er 982 krónur. Athygli vekur að íslensku bringurnar lenda í miðjunni  í verðsamanburði. Þær reynast dýrari í Noregi, Danmörku og  Lúxemborg en ódýrari á Spáni, í Þýskalandi og á Englandi. 

Eggjaverðið er lægst á Spáni þar sem hægt er að kaupa 6 egg í pakka á 152 krónur. Í Noregi er verðið hæst eða 553 krónur. Á Íslandi er  eggjapakkinn á 245 krónur. Þegar á heildina er litið og skoðað hvað þessi tiltekna búvörukarfa kostar er verðmunurinn 150% á milli þeirrar dýrustu og ódýrustu.

Sjá nánar í Bændablaðinu.

Afgerandi ESB-ályktun Vg

Flokksráð Vinstri grænna tók afgerandi afstöðu gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu á flokksráðsfundi á Akureyri um miðjan janúar.

Eftirfarandi segir í ályktun Vg um Evrópumál

,,Flokksráðið ítrekar andstöðu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir að nú hafi verið sótt um aðild að sambandinu, er það eindreginn vilji flokksráðs að Ísland haldi áfram að vera sjálfstætt ríki utan Evrópusambandsins.

Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hvetur ráðherra, þingmenn og félagsmenn Vinstri grænna um allt land til að halda stefnu flokksins um andstöðu við aðild Íslands að ESB á lofti og berjast einarðlega fyrir henni. 

Í ljósi afstöðu flokksins telur flokksráðið brýnt að til verði fastur farvegur skoðanaskipta um Evrópumál á vettvangi flokksins og hvetur til ítarlegrar umfjöllunar um þau, m.a. með málþingum og málefnastarfi.  Flokksráðið felur stjórn flokksins að skipa sérstakan starfshóp til að fylgjast grannt með því ferli sem nú er í gangi og tryggja upplýsingaöflun innan flokksins og til að starfa með þingflokki og fulltrúum flokksins í utanríkismálanefnd að Evrópumálum.  Flokksráðið leggur sérstaka áherslu á gegnsæi í umsóknarferlinu og hvetur til opinna umræðu- og fræðslufunda um ESB þar sem öll sjónarmið, kostir og gallar, eru dregin fram.”

 

Útvarpsþáttur um ESB og Ísland

Nýr útvarpsþáttur um ESB hóf göngu sína á Útvarpi Sögu um síðustu helgi. Þeir Frosti Sigurjónsson og Egill Jóhannsson eru höfundar og stjórnendur. Í fyrsta þætti komu gestirnir Andrés Jónsson og Hans Haraldsson og ræddu hvor frá sínum sjónarhóli kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Í þættinum ESB – Nei eða Já? verður aðskiljanleg álitamál umræðunnar brotin til mergjar.

Gestir í næsta þætti verða þeir Andrés Pétusson formaður Evrópusamtakanna og Heiðrún Lind Marteinsdóttir varaformaður Heimssýnar.

ESB – NEI eða JÁ? er á dagskrá Útvarps Sögu FM 99.4 á laugardögum frá kl. 12:45-14:00

Stofnfundur ungliðahreyfingar 6. febrúar

Stofnfundur ungliðahreyfingar andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu verður haldinn í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu 6. febrúar næstkomandi. Tíu manna undirbúningshópur hefur lagt drög að stofnun félagsins. Á næstu vikum eru væntanlegar tvær sendinefndir frá Noregi þar sem ungt fólk rekur öflug félög sem andsúin eru aðild Noregs að Evrópusambandinu. Skoðanakannanir sýna að meirihluti ungs fólks í Noregi er andvígur inngöngu.

Evran og Grikkir

Grikkland er skuldum vafið og getur ekki bætt stöðu sína með gengislækkun vegna þess að evran er lögeyrir þar í landi. Grískir stjórnmálamenn standa frammi fyrir tvíþættu verkefni. Í fyrsta lagi að lækka kostnað heimafyrir með því að skera niður ríkisútgjöld og í öðru lagi að semja við Evrópska seðalbankann og Evrópusambandið um aðstoð.

Grikkir töldu sig hafa vilyrði fyrir aðstoð frá ESB og hafa ekki gengið jafn rösklega til verks við að lækka ríkisútgjöld og efni standa til. ESB hefur á hinn bóginn hert afstöðu sína til Grikkja og sagt þá verða að leysa eigin vanda.

Fjárlagahalli gríska ríkisins er 12,7 prósent. Erlendar skuldir nema 168 prósent af þjóðaframleiðslu. Verkefnið er risavaxið og mun reyna verulega á myntsamstarfið. Grikkland dregur fram veikleika fjölþjóðasamstarfs um gjaldmiðil. Evrópski seðlabankinn í Frankfurt ákveður vexti en þjóðríki fara með eigin  ríkisfjármál. Þótt samevrópskar reglur mæli fyrir um leyfðan fjárlagahalla, 3 prósent, hafa þjóðríki komist upp með mun meiri halla, eins og sést hjá Grikkjum.

Evrópusambandið gæti staðið frammi fyrir tveim slæmum kostum. Í einn staði að fórna grískum efnahag með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði og í annan stað að taka á sig skuldir Grikklands og þar með grafa undan trúverðugleika evrunnar.

Hér er umfjöllun um Grikkland og evruna og töluvert ítarlegri hér.

Ungliðahreyfing Heimssýnar

Ungt fólk í Heimssýn mun hittast fimmtudaginn 7. janúar kl. 20 á skrifstofu
Heimssýnar, Hafnarstræti 18 til að ræða stofnun ungliðahreyfingar fyrir Heimssýn og stöðuna í Evrópumálum. Allir hjartanlega velkomnir.