Hætta á að ESB verði annars flokks markaðssvæði

Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, varaði við því í ræðu sem hann flutti í Rúmeníu í vikunni að Evrópusambandið ætti á hættu að verða annars flokks markaðssvæði ef ekki yrði gripið til tafarlausra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að sambandið drægist aftur úr Bandaríkjunum og Asíu. Raunveruleg hætta væri á því að Evrópusambandið færðist út á jaðarinn á næstu 10-20 árum og sæti eftir á meðan baráttan um forystu í efnahagsmálum heimsins yrði á milli Bandaríkjanna og Asíu.

Þess má geta að því hefur um árabil verið spáð að ESB væri hnignandi markaðssvæði og að hlutdeild sambandsins í heimsviðskiptunum ætti eftir að dragast verulega saman á næstu áratugum á meðan Bandaríkin og Asía sæktu fram. Ef marka má orð Strauss-Kahn hafa áhyggjur af þessu aukist mjög í kjölfar alþjóðlegu efnahagskrísunnar en greina má aukinn þunga í ummælum hans miðað við fyrri yfirlýsingar.

Heimildir:
AGS: Evrópa forðist aðra deild (Mbl.is 30/03/10)
Strauss-Kahn appelle l’UE à agir pour éviter la “deuxième division” (Afp.com 30/03/10)

 

Ungir framsóknarmenn vilja að ESB-umsóknin verði dregin til baka

Tvö félög ungra framsóknarmanna, Eysteinn félag ungra framsóknarmanna á Austurlandi og Félag ungra framsóknarmanna í Skagafirði, sendu nýverið frá sér ályktanir þar sem skorað er á ríkisstjórn Íslands að draga þegar til baka umsókn hennar um inngöngu í Evrópusambandið. Þá eru þingmenn og aðrir forystumenn Framsóknarflokksins hvattir til þess að berjast af einurð gegn inngöngu í sambandið. Ályktanirnar fara hér á eftir.

Stjórn Eysteins – Félags ungra framsóknarmanna á Austurlandi skorar á ríkisstjórn Íslands að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og draga umsókn Íslands jafnframt tilbaka.

Greinagerð:
Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið eru ótímabærar og engar forsendur fyrir viðræðunum. Aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi hafa gífurleg áhrif á sjávarútveg og landbúnað og þar af leiðandi landsbyggðina alla í heild sinni. Einnig má benda á að vægi Íslands innan Evrópusambandsins yrði mjög lítið vegna smæðar Íslands gagnvart stærri þjóðum innan Evrópusambandsins. Eins og fram hefur komið eru ekki miklar líkur á að einhverskonar sérsamningar náist fyrir Íslendinga frekar en fyrir aðrar þjóðir og þar af leiðandi eru allar forsendur er komu fram í ályktun Framsóknarflokksins um Evrópusambandsaðild á síðasta flokksþingi brostnar. Hvetur því Eysteinn þingmenn flokksins til að sýna samstöðu og einurð í andstöðu sinni við aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Eysteinn hvetur en fremur unga framsóknarmenn til að einbeita sér að þeim brýnu verkefnum sem krefjast úrlausnar á Íslandi í dag.

Stjórn félags ungra framsóknarmanna í skagafirði skorar á ríkistjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna að draga umsókn Íslands um aðild að ESB til baka strax og lágmarka með því þann mikla kostnað og tíma sem samningaferlið fer. Það er öllum ljóst að þær undanþágur sem ESB myndi veita Íslandi eru eingöngu tímabundnar. Við hvetjum því ríkistjórnina til þess að nota þessa miklu fjármuni  til að standa vörð um mennta- og heilbrigðismál. Ríkistjórnin ætti að einbeita sér að skuldavanda heimila  og fyrirtækja á Íslandi frekar en að einblína á þessar viðræður sem munu engu skila Íslenskri þjóð.

 

Grikkir fá fyrst lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum

Þær aðgerðir sem Evrópusambandið hefur ákveðið að grípa til í því skyni að aðstoða Grikkland í efnahagsvandræðum landsins kveða á um að Grikkir fái fyrst lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og aðeins komi til lánveitinga frá öðrum ríkjum sambandsins ef þau lán duga ekki. Lánveitingarnar verða hins vegar undir sameiginlegu eftirliti AGS og stofnana Evrópusambandsins. Frá þessu var greint í breska viðskiptablaðinu Financial Times í gær.

Rétt er í þessu sambandi að rifja það upp að talsmenn inngöngu Íslands í ESB hafa m.a. fullyrt að ekki hefði komið til þess að Ísland hefði leitað á náðir AGS ef landið hefði verið í sambandinu. Þá hefði ESB einfaldlega komið Íslandi til hjálpar. Nú er hins vegar komið á daginn að slík björgun af hálfu sambandsins er ekki í boði og ennfremur að því fer fjarri að vera innan þess bjargi ríkjum frá því að þurfa að leita til AGS.

 

Stóru ríkin innan ESB taka ákvarðanirnar

Forystumenn Þýskalands og Frakklands komust að samkomulagi nýverið um það hvernig staðið yrði að því af hálfu Evrópusambandsins að aðstoða Grikki í efnahagsvanda þeirra. Sú aðstoð þykir þó ekki upp á marga fiska og felst í því að ríki sambandsins komi aðeins til aðstoðar í ítrustu neyð. Grikkjum verði þá veitt lán ef þeir fá hvergi lán annars staðar. Þau lán verði að hluta til veitt af ríkjunum og að hluta til af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en aðkoma AGS að málum evrusvæðisins þykir mikill álitshnekkir fyrir það.

Þegar samkomulagið á milli þýskra og franskra stjórnvalda lá fyrir var fjallað um það, bæði af ESB sjálfu og fjölmiðlum, eins og málið væri frágengið þrátt fyrir að það hefði ekki verið tekið fyrir á vettvangi sambandsins með þátttöku allra ríkja þess. Þetta kemur ekki á óvart í ljósi þess að forystumenn stærstu ríkjanna standa iðulega að ákvarðanatöku innan ESB með þessum hætti og geta það í krafti stærðar sinnar.

Þjóðverjar, stærsta efnahagsveldi ESB, hefur verið mjög andsnúið því að veita Grikkjum aðstoð og lögðu áherslu á að AGS kæmi að málum. Þýsk stjórnvöld settu það m.a. sem skilyrði fyrir þátttöku í evrusvæðinu á sínum tíma að þeir þyrftu ekki að axla ábyrgð á skuldum annarra evruríkja. Þá óttast þau að Grikkir séu aðeins forsmekkurinn, fleiri evruríki og stærri eigi eftir að lenda í hliðstæðum vandræðum eins og Ítalía og Spánn.

 

Viðræður um inngöngu í ESB hefjast ekki fyrr en í júní

Haft var eftir ráðherra stækkunarmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Štefan Füle, á vefsíðu Ríkisútvarpsins í gær að hann gerði ráð fyrir því að viðræður um inngöngu Íslands í sambandið (sem eru hluti yfirstandandi aðlögunarferlis að því) hæfust í fyrsta lagi í júní í sumar. Vonir ríkisstjórnarinnar voru að viðræðurnar gætu hafist í þessum mánuði á fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins en ekki verður af því þar sem þýska þingið þarf lengri tíma til þess að fara yfir umsókn íslenskra stjórnvalda.

Miklar áhyggjur eru til staðar hjá ráðamönnum innan ESB af andstöðu Íslendinga við inngöngu í sambandið og botna ýmsir ekkert í því hvers vegna íslensk stjórnvöld voru að sækja um inngöngu þegar stuðningur við hana er ekki til staðar. Skiljanlega er sambandið sett í erfiða stöðu í þessum efnum enda lítur það ekki vel út á alþjóðavettvangi að hefja viðræður um inngöngu ríkis sem öllum má vera ljóst a hefur ekki áhuga á henni.

Heimildir:
Gerir ráð fyrir aðildarviðræðum (Rúv.is 25/03/10)

 

Fundaherferð Heimssýnar fer vel af stað

Fundaherferð Heimssýnar “Áfram Ísland – ekkert ESB” hófst í gærkvöld 24. mars með opnum fundum sem fram fóru samtímis á fjórum stöðum á landinu; í Vík í Mýrdal, á Eskifirði, í Brautarholti á Skeiðum og í Búðardal. Fundirnir voru allir vel sóttir. Tveir frummælendur voru á hverjum stað og sköpuðust líflegar umræður um Evrópumál að þeim loknum.

Í kvöld, fimmtudag, fara fram fundir að sama skapi á fjórum stöðum á landinu; á Akureyri, Bolungarvík, Ísafirði og á Húsavík og hefjast þeir allir kl. 20:00. Sjá nánar hér.

 

Vaxandi andstaða í Noregi við inngöngu í ESB

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun fyrir norsku sjónvarpsstöðina TV2 hefur andstaða við inngöngu Noregs í Evrópusambandið aukist mjög síðan í febrúar. Samkvæmt könnuninni nú eru 55,8% andvíg inngöngu í sambandið og hefur andstaðan aukist um 6,5% síðan í síðasta mánuði. Stuðningur við inngöngu er nú 30,6% en var 39,1% í febrúar.

“Þetta snýst ekki um það hvað við græðum eða töpum á inngöngu Noregs í Evrópusambandið. Fólk sér að sambandið býr við gríðarlegan lýðræðishalla og að litlu ríkin verða þar undir. Elítustýrt Evrópusamband er hreint ekki lausnin á þeim vandamálum sem venjulegt fólk í Evrópu glímir við – varðandi atvinnumál, efnahagsmál og framtíðarsýn fyrir sig og börnin sín,” er haft eftir Heming Olausen, leiðtoga norsku hreyfingarinnar Nei til EU.

Heimildir:
EU-motstanderne i vekst (Tv2nyhetene.no 23/03/10)
Andstaða við ESB vex í Noregi (Mbl.is 23/03/10)
Norðmenn vilja ekki aðild að ESB (Rúv.is 23/03/10)

 

Um 70% Íslendinga myndu hafna inngöngu í ESB

Samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir Samtök iðnaðarins og birt var 5. mars sl. myndu um 70% Íslendinga hafna inngöngu í Evrópusambandið ef kosið yrði um það nú. Þar af sagðist 51% örugglega greiða atkvæði gegn inngöngu. Einungis 30,5% sögðust myndu greiða atkvæði með inngöngu í sambandinu og þar af aðeins um helmingur örugglega.

Í sömu könnun sögðust 60% vera andvíg inngöngu í Evrópusambandið, 24,4% hlynnt. Mikill meirihluti er andvígur inngöngu í sambandið í öllum þjóðfélagshópum óháð kyni, aldri, menntun, búsetu, tekjum eða stuðningi við stjórnmálaflokka með einni undantekningu. Meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar styður inngöngu.

Síðast spurði Capacent að því hvernig fólk myndi kjósa í þjóðaratkvæði um inngöngu í Evrópusambandið í september sl. Sú könnun var einnig gerð að beiðni Samtaka iðnaðarins. Þá sögðust 61,5% myndu kjósa gegn inngöngu en 38,% með. Andstaðan hefur því aukist samkvæmt því um rúmlega 8% síðan þá.

Capacent kannaði síðast afstöðu fólks til inngöngu í Evrópusambandið í febrúar fyrir Bændasamtökin. Þá voru 56% andvíg inngöngu í sambandið en 33,2% hlynnt henni.

Heimild:
Skoðanakönnun Samtaka iðnaðarins

 

Fundaherferð Heimssýnar: Áfram Ísland – ekkert ESB

Alþingi samþykkti með naumum meirihluta þann 16. júlí 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Afgerandi meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn inngöngu í ESB. Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, efnir til funda um allt land um stöðuna í aðildarferlinu. Frummælendur, sem verða tveir til þrír á hverjum fundi, ræða afleiðingar þess að ríkisstjórnin haldi áfram leiðangrinum til Brussel í óþökk þjóðarinnar. Eftirfarandi fundir verða haldnir:

Vík í Mýrdal – 24. mars kl. 20:00, Ströndin, Víkurskáli
Eskifjörður – 24. mars kl. 20:00, Valhöll
Brautarholt á Skeiðum – 24. mars kl. 20:00, Hestakráin
Búðardalur – 24. mars kl. 20:00, Dalabúð
Akureyri – 25. mars kl. 20:00, Kaffi Amor
Bolungarvík – 25. mars kl. 20:00, Einarshús
Ísafjörður – 25. mars kl. 12:00, Við Pollinn, Hótel Ísafjörður
Ýdalir/Húsavík – 25. mars kl. 20, Félagsheimilið Ýdölum
Húnavatnssýslur – 27. mars kl. 14:00, Húnaver
Selfoss – 29. mars kl. 20:00, Tryggvaskáli
Egilsstaðir – 30. mars kl.12:00, hádegisfundur Hótel Hérað
Akranes – 30. mars kl. 20:00, Gamla kaupfélagið
Hveragerði – 30. mars kl. 20:00, Hótel Örk
Skagafjörður – 30. mars. kl. 20:00, Ljósheimar
Borgarbyggð – 31. mars kl. 20:00, Landbúnaðarhs. Hvanneyri
Reykjanesbær – 31. mars kl. 20:00, Hótel Keflavík
Vestmannaeyjar – 31. mars kl. 20:00, Akoges-salurinn

Meðal frummælenda verða: Arnbjörg Sveinsdóttir fyrrv. þingmaður, Atli Gíslason þingmaður, Ásmundur Einar Daðason þingmaður, Birgitta Jónsdóttir þingmaður, Bjarni Harðarson bóksali, Björn Bjarnason fyrrv. ráðherra, Brynja Björg Halldórsdóttir laganemi, Einar K. Guðfinnsson þingmaður, Erla Rún Guðmundsdóttir búfræðinemi, Eygló Harðardóttir þingmaður, Frosti Sigurjónsson framkvæmdastjóri, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir þingmaður, Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður, Heiðrún Lind Marteinsdóttir lögfræðingur, Kristján Þór Júlíusson þingmaður, Páll Vilhjálmsson blaðamaður, Pétur H. Blöndal þingmaður, Sigurður Ingi Jóhannsson þingmaður, Styrmir Gunnarsson fyrrv. ritstjóri, Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður, og Vigdís Hauksdóttir þingmaður.

 

Forsenda inngöngu í ESB er full greiðsla vegna Icesave

Utanríkisráðherra bráðabirgðastjórnar Hollands, Maxime Verhagen, tjáði hollenska þinginu í gær að Icesave-deilan ætti ekki að koma í veg fyrir að viðræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið (sem eru hluti aðlögunarferlisins að sambandinu) hæfust. Hins vegar væri það ein af forsendum þess að Ísland gæti gengið í Evrópusambandið að Hollendingar fengju endurgreitt að fullu vegna málsins.

Heimildir:
Iceland’s EU bid must be negotiated with payback: Netherlands (Eubusiness.com 18/03/10)
Standa ekki veginum fyrir aðildarviðræðum (Mbl.is 19/03/10)