Efnahagsvandræði evrusvæðisins aukast enn

Lánshæfismat Grikklands hefur verið sett niður í svokallaðan ruslflokk af matsfyrirtækinu Standard & Poor við lítinn fögnuð grískra stjórnvalda og ráðamanna Evrópusambandsins. Samtímis lækkaði fyrirtækið lánshæfismat Spánar og Portúgals. Óttast er að efnahagsvandræði Grikkja eigi eftir að breiðast út um evrusvæðið og sér í lagi til annarra evruríkja sem standa höllum fæti og að sú þróun mála sé jafnvel þegar hafin.

Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), Dominique Strauss-Kahn, varaði við því í samtölum við þýska þingmenn í Berlín að ef ekki tækist að bjarga Grikklandi hefði það mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ESB, en hann er staddur þar ásamt forseta bankastjórnar Seðlabanka ESB, Jean-Claude Trichet, í þeim tilgangi að sannfæra ráðamenn í Þýskalandi um að koma Grikkjum til hjálpar en Þjóðverjar hafa verið mjög tregir til þess.

Þýski hagfræðingurinn Hans-Werner Sinn, forstöðumaður þýsku stofunarinnar Ifo, sagði í viðtali við útvarpsstöðina MDR í Þýskalandi að ólíklegt væri að Grikkir gætu greitt Þjóðverjum til baka þá fjármuni sem rætt hefur verið um að þýska ríkið lánaði Grikklandi, en talað hefur verið um að í heildina gætu Grikkir þurft um 120 milljarða evra að láni. Þá varaði Sinn við að björgun Grikklands gæti orðið fordæmi innan evrusvæðisins fyrir önnur illa stödd evruríki.

Heimildir:
Spain downgraded as eurozone turmoil spreads (Euobserver.com 29/04/10)
Ástandið á Grikklandi gæti breiðst um Evrópu (Mbl.is 28/04/10)
„Grikkir munu ekki borga okkur til baka” (Mbl.is 28/04/10)
S&P lækkar einkunn Spánar (Mbl.is 28/04/10)
Skuldabréf Grikklands í ruslflokk (Mbl.is 27/04/10)

 

Krafa um að Grikkjum verði vísað af evrusvæðinu

George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, sagði sl. laugardag að áætlun um aðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) sé ekki ánægjuleg en lífsnauðsynleg. Papandreou óskaði í gær eftir aðstoð upp á 45 milljarða evra, en Grikkir eru fyrsta þjóðin á evrusvæðinu sem óskar eftir slíkri aðstoð. Grikkir óskuðu eftir skjótum viðbrögðum frá sambandinu og AGS við hjálparbeiðninni.

Mikillar andstöðu hefur gætt í Þýskalandi við að koma Grikkjum til aðstoðar. Þjóðverjar hafa sagt að einungis eigi að grípa til björgunaraðgerða ef stöðugleika evrunnar sé ógnað. Þær raddir verða sífellt háværari í Þýskalandi, bæði á meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðu, að Grikkir eigi að hugleiða það að segja sig úr evrópska myntsamstarfinu og þar með segja skilið við evruna.

Heimild:
Vilja Grikki af evrusvæðinu (Mbl.is 24/04/10)

 

Evruríkið Grikkland óskar eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Samkvæmt fréttum fjölmiðla hafa stjórnvöld í Grikklandi nú óskað eftir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komi landinu til aðstoðar í alvarlegum efnahagshremmingum þess. Grikkir verða þar með fyrsta ríki Evrópusambandsins sem notar evru sem gjaldmiðil sem leitar á náðir AGS en búist er við því að þeir verði ekki það eina. Áður höfðu þrjú ríki sambandsins í Austur-Evrópu leitað til sjóðsins.

Í öllum þessum tilfellum hefur AGS verið kallaður til að frumkvæði ESB og er ástæðan einfaldlega sú að sambandið hefur ekki treyst sér til þess að hjálpa þeim í efnahagserfiðleikum þeirra eitt síns liðs. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga þann áróður stuðningsmanna inngöngu Íslands í ESB að ef Ísland hefði verið í sambandinu hefði ekki þurft að leita til AGS.

Heimildir:
Greece formally requests EU-IMF aid (Euobserver.com 23/04/10)
Greek EU-IMF aid available in a few days: minister (Eubusiness.com 23/04/10)

 

Segir evruna dauðadæmda án Bandaríkja Evrópu

Eitt stærsta fjármálafyrirtæki heimsins, Citigroup, hefur varað viðskiptavini sína við því að evran sé dauðadæmd, jafnvel þó það takist að leysa úr efnahagsvanda Grikklands, verði Evrópusambandinu ekki endanlega breytt í eitt ríki, Bandaríki Evrópu, m.a. með sameiginlegan ríkissjóð. “Án vilja hjá stærri ríkjunum – einkum Þýskalandi – til þess að stefna í þessa átt óttumst við óhjákvæmileg endalok evrunnar,” segir m.a. í minnisblaði frá fyrirtækinu.

Í umfjöllun fréttavefsins Euobserver.com um málið eru rifjuð upp ummæli fjárfestisins George Soros frá því í febrúar sl. þar sem hann sagði að þó hugsanlega væri hægt að koma Grikklandi til bjargar í efnahagshremmingum þeirra þá væru Spánn, Portúgal, Ítalía og Írland eftir og þeim yrði ekki bjargað með sama hætti. Jafnvel þó vandi Grikkja yrði leystur væri framtíð evrunnar áfram óljós.

Soros sagði ennfremur að evran væri gölluð, gjaldmiðill þurfi bæði á seðlabanka að halda og ríkissjóði. Þetta væri vel þekkt staðreynd og hefði átt að vera öllum ljóst sem komu að því að skapa evruna.

Heimildir:
Citigroup says only ‘United States of Europe’ will save euro (Euobserver.com 21/04/10)
Euro ‘Doomed’ Without Fiscal, Political Unity, Citigroup Says (Businessweek.com 20/04/10)

 

Ein sameiginleg lofthelgi undir stjórn ESB?

Talsmenn Evrópusambandsins hafa lýst því yfir í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli og öskufallsins yfir Evrópu í kjölfar þess að nauðsynlegt sé að koma á einni sameiginlegri lofthelgi ríkja sambandsins undir stjórn þess. Það þýddi að fullveldi ríkjanna yfir eigin lofthelgi heyrði sögunni til. Haft er eftir Helen Kearns, talsmanni Evrópusambandsins í samgöngumálum að hún telji að pólitískur vilji sé fyrir málinu núna en hugmyndin um eina lofthelgi sambandsins hefur legið frammi um árabil.

Matthias Ruete, sem fer fyrir samgöngumálum hjá ráðherraráði ESB, segir ringulreiðina í kjölfar eldgossins sýna að full þörf sé einni stjórn yfir lofthelgi ríkja sambandsins. „Komum loksins hugmyndinni um eina lofthelgi í gagnið,“ sagði hann. Ef af verður er ljóst að þetta yrði ekki í fyrsta skiptið sem ESB nýtti sér krísur til þess að koma á auknum samruna innan sambandsins og færa aukin völd frá ríkjunum og til stofnana þess.

Heimild:
Sýnir þörfina fyrir sameinaða lofthelgi (Mbl.is 20/04/10)

 

Mikill meirihluti Breta vill ekki evruna

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun í Bretlandi eru 65% kjósenda þar í landi andsnúnir því aðleggja niður breska pundið og taka upp evru í staðinn, 21% er því fylgjandi og 27% eru ekki viss. Sé aðeins miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti eru rúmlega 75% andvíg upptöku evrunnar í Bretlandi en tæpur fjórðungur hlynntur. Þess má geta að Bretar hafa aldrei viljað evruna samkvæmt skoðanakönnunum.

Í sömu könnun var spurt um stuðning við það að færa völd yfir fleiri málaflokkum til ESB, s.s. í innflytjendamálum, dómsmálum, varnarmálum, umhverfismálum og bankamálum, og sögðust 65% andvíg því, 18% hlynnt og 17% tóku ekki afstöðu með eða ámóti.

Heimild:
Warning as Libs lead poll race (Thesun.co.uk 19/04/10)

 

Fjárlög evruríkja þurfi fyrst samþykki Evrópusambandsins

Nái fyrirhuguð áform framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fram að ganga verða evruríki að bera fjárlög sín undir sambandið til samþykkis áður en þau eru lögð fyrir þjóðþing þeirra. Áformin eru ein afleiðing efnahagserfiðleikanna sem Grikkland hefur átt við að stríða á undanförnum mánuðum og stendur til að þau verði kynnt nánar í maímánuði. Búist er við að áformin verði mjög umdeild enda snerta þau mjög viðkvæm málefni.

Olli Rehn, kommissar efnahagsmála í framkvæmdastjórninni, sagði sl. fimmtudag að fyrstu mánuðir hvers árs ættu að fara í það að fá uppkast að fjárlögum hvers ríkis sem framkvæmdastjórnin og fjármálaráðherrar evrusvæðisins færu yfir og segðu álit sitt á áður en þau væru borin undir þjóðþing ríkjanna. Hugmyndin er að fyrst í stað ætti þetta fyrirkomulag eingöngu við um evruríkin en síðar meir öll ríki ESB.

Rehn skírskotaði til greinar 136 í Stjórnarskrá ESB (Lissabon-sáttmálans) sem heimild fyrir þessum áformum en þar segir að evruríkin geti samþykkt með auknum meirihluta (þ.e. ekki einróma samþykki allra) að grípa til aðgerða til þess að styrkja samræmingu og eftirlit með aðhaldi í fjárlagagerð. Í stuttu máli fela hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar í sér miðstýringu ESB á fjárlagagerð ríkja sinna.

Heimild:
Brussels pushes bid to police national budgets (Eubusiness.com 16/04/10)
EU to review national budgets under commission plans (Euobserver.com 15/04/10)

 

Innganga í ESB þýddi endalok svína- og kjúklingaræktar

Ef Ísland gengi í Evrópusambandið legðist svínarækt og kjúklingarækt af á Íslandi. Aðrar kjötgreinar yrðu fyrir verðskerðingu, en þó minnst í nautakjöti og lambakjöti. Þetta kom m.a. fram í máli Jóns Baldurs Lorange, hjá Bændasamtökum Íslands, á fundi um Evrópusambandið og landbúnaðinn sem Búnaðarfélag Mýramanna stóð fyrir sl. miðvikudag, en Bændasamtökin hafa viðað að sér ítarlegum upplýsingum um landbúnað í Evrópusambandinu og hugsanleg áhrif inngöngu Ísland í það.

Jón Baldur sagði að ávinningur neytenda af inngöngu í ESB væri mun minni en gefið hefði verið í skyn. Verðlag hjá þeim þjóðum sem gengið hefðu í sambandið hefði lækkað um 2% að meðaltali, en ekki 30% eins og sumir hefðu talað um. Hann kynnti einnig tölur sem sýndu að verð til bænda í ESB lækkaði stöðugt á meðan smásöluverðið hækkaði. Milliliðir væru að taka sífellt meira til sín. Þá væru stærstu búin innan sambandsins ekki hefðbundin bú eins og þekktust hér á landi heldur stórar fyrirtækjasamsteypur.

Sigurjón Helgason, formaður Búnaðarfélags Mýramanna, sagði að fundurinn hefði verið velheppnaður og málefnalegur. Bændur hefðu áhuga á að kynna sér áhrif aðildar að ESB, en lítill stuðningur væri við aðild meðal bænda.

Heimild:
ESB-aðild þýðir endalok svína- og kjúklingaræktar (Mbl.is 15/04/10)

 

Óttast að Þjóðverjar segi skilið við evruna

Bandaríski fjárfestinga-bankinn Morgan Stanley er farinn að vara viðskiptavini sína við því að tilraunir Evrópusambandsins til þess að bjarga Grikkjum í alvarlegum efnahagsvanda þeirra kunni að leiða til keðjuverkunar sem endi með því að Þýskaland yfirgefi evrusvæðið, nokkuð sem hefði gríðarlega slæmar afleiðingar fyrir alþjóðlega fjármálamarkaði. Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins The Daily Telegraph í dag.

Haft er eftir Joachim Fels, forstöðumanni greiningardeildar Morgan Stanley, að björgun Grikklands kynni að vera nauðsynleg en væri um leið líkleg til þess að skapa forsendur fyrir enn stærri vandamálum síðar. Hann sagði að illa stæð ríki ættu ekki svo auðvelt með að yfirgefa evrusvæðið en það væri annað mál með Þýskaland sem kynni að líta á það sem einu leiðina til þess að koma á innlendum gengisstöðugleika.

Fels sagði að þó ekki lægi enn fyrir hvernig málið færi að lokum væri ljóst á þróuninni undanfarið að líklegra væri en áður að Þjóðverjar gæfu evruna upp á bátinn.

Heimild:
Morgan Stanley fears German exit from EMU (Telegraph.co.uk April 15, 2010)

 

Fjárfestar farnir að forðast Evrópusambandið

Fréttavefur breska dagblaðsins The Daily Telegraph greindi frá því í gær að alþjóðlegir fjárfestar væri farnir að forðast Evrópusambandið eftir að tekin var ákvörðun um að koma Grikklandi til hjálpar í miklum efnahagserfiðleikum landsins. “Evrópusambandið er orðið að svæði sem enginn hættir sér inn á,” hefur fréttavefurinn eftir Patrik Schowitz, sérfræðingi hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu Bank of America Merrill Lynch.

Þetta kom fram í mánaðarlegri könnun fyrirtækisins á viðhorfum fjárfesta. Fram kom að í könnuninni að efnahagsvandi Grikklands hefði leitt í ljós alvarlega ágalla á uppbyggingu evrusvæðisins að mati fjárfesta og enn væri óljóst nákvæmlega hvernig til stæði að hjálpa Grikkjum.

Heimild:
Funds shun Europe as ‘no-go zone’ after Greek crisis (Telegraph.co.uk 07/04/10)