Meirihluti Svía vill ekki evruna

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun í Svíþjóð fyrir sænska bankann SEB heldur stuðningur við upptöku evrunnar áfram að minnka þar í landi eftir að hafa aukist stuttlega fyrir um ári síðan. Nú segjast 55% andvíg því að skipta sænsku krónunni út fyrir evru en 37% segjast því hlynnt. Sænskir kjósendur greiddu atkvæði um það í þjóðaratkvæði í september 2003 hvort þeir vildu taka evruna upp og var því hafnað með 56% atkvæða. Meirihluti hefur haldist gegn evrunni nær óslitið síðan.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 31. mars til 7. apríl og var úrtakið rúmlega eitt þúsund manns.

Heimild:
Svenskar säger nej till euron (Europaportalen.se 09/04/10)

 

Samfylkingin þríklofin í Evrópumálum

Forystumenn Samfylkingarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, hafa vísað á bug þeim ummælum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að best væri að fresta umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Ummæli Ingibjargar, sem er fulltrúi fyrir ákveðinn arm innan flokksins, fela það annars öðru fremur í sér að hann sé a.m.k. þríklofin í afstöðunni til umsóknarinnar.

Fyrir það fyrsta hafa skoðanakannanir sýnt að um 20-30% kjósenda Samfylkingarinnar vilja ekki ganga í ESB. En nú er ljóst að fylgismenn inngöngu í sambandið innan flokksins eru orðnir klofnir í afstöðu sinni til hennar. Þá sem þrjóskast við og neita að horfast í augu við raunveruleikann og hina sem gera sér grein fyrir því að umsóknin nýtur ekki stuðnings þjóðarinnar og að glapræði sé að halda henni til streitu eins og málin hafa þróast.

 

Ingibjörg Sólrún: Betra að fresta ESB-umsókninni

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við þýska blaðamanninn Clemens Bomdorf í gær að enginn væri að berjast fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið og að ólíklegt sé að innganga yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri því jafnvel betra að slá umsókninni á frest frekar en að halda áfram í óvissu um það hvert væri stefnt.

Ingibjörg Sólrún bætist með þessu í vaxandi hóp Evrópusambandssinna, bæði innanlands og erlendis, sem hafa miklar áhyggjur af umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í ESB og telja að inngöngu yrði hafnað af þjóðinni. Skilaboðin til Samfylkingarinnar eru skýr: Hættið að berja höfðinu við steininn, þetta er tapað spil.

Heimildir:
Betra að fresta ESB-viðræðum en halda þeim áfram í óvissu (Mbl.is 09/04/10)
Stolz und Vorurteil (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir 3) (Highnorth.wordpress.com 08/04/10)

 

Segir Grikkland verða gjaldþrota á næsta ári

Wolfgang Münchau, aðstoðarritstjóri breska viðskiptablaðsins Financial Times, segir í pistli á heimasíðu blaðsins í gær að hann spái því að Grikkland verði ekki gjaldþrota á þessu ári en verði það hins vegar á næsta ári. Hann segir að efnahagsvandinn sem landið glími við sé hliðstæður og sá sem norræn ríki glímdu við á 9. og 10. áratug síðustu aldar en að þau hafi staðið betur að vígi en Grikkir að tvennu leyti. Í fyrsta lagi hafi aðstæður í heiminum verið aðrar en það sem skipti meiru máli sé að norrænu ríkin gátu, a.m.k. upp að vissu marki, fellt gengi gjaldmiðla sinna og aukið þannig samkeppnishæfni hagkerfa sinna. Það geti Grikkir hins vegar ekki sem aðilar að evrusvæðinu.

Münchau segir að fimm leiðir séu mögulegar út úr efnahagsvanda Grikkja. Í fyrsta lagi að gengi evrunnar falli umtalsvert og samhliða því nái efnahagslíf evrusvæðisins sér verulega á strik. Í annan stað að Grikkir fái aðgang að lánsfé á lágum vöxtum hjá ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í þriðja lagi endurskipulagning skulda einkageirans. Í fjórða lagi að Grikkland yfirgefi evrusvæðið. Í fimmta lagi gjaldþrot. Münchau segir fyrsta möguleikann ólíklegan, annan hafi ESB í raun afskrifað, sá þriðji kallaði á enn frekari björgun evrópskra banka sem væri ólíkleg, sá fjórði hentaði Þjóðverjum best en Grikkir væru ólíklegir til þess og þá væri sá fimmti eftir.

Ef Grikkland yrði gjaldþrota hefði það verulega slæmar afleiðingar fyrir evrusvæðið að mati Münchaus sem aftur gætu leitt til endaloka þess. Hann minnir á að Grikkir séu ekki eina evruríkið sem glími við alvarlegan efnahagsvanda og nefnir til sögunnar Spán og Portúgal. Vandi þessara ríkja sé ekki nákvæmlega sá sami og Grikkir eigi við að etja en af hliðstæðri stærðargráðu. Münchau segir að án gengisfellingar eða möguleikans á viðvarandi efnahagsuppsveiflu gæti efnahagskreppan á Spáni varað um alla framtíð, eða a.m.k. á meðan Spánverjar eru aðilar að evrusvæðinu.

Münchau lýkur pistlinum á því að segja að það hafi aðeins komið fram tvö heiðarleg sjónarmið varðandi myntbandalag ESB. Hið fyrra sé að það ætti ekki eftir að virka og leiddi að lokum til ástands þar sem hagsmunir einstakra ríkja þess ættu ekki samleið með hagsmunum bandalagsins í heild. Hið síðara sé að það gæti virkað en þá aðeins með samræmdri efnahagsstefnu til skamms tíma og þróun í átt til nægilega miðstýrðrar efnahagsstefnu til lengri tíma. Skilaboðin frá ESB, og þá sérstaklega Þýskalandi, væru nú þau að síðari möguleikinn hefði verið afskrifaður.

Heimild:
Greece will default, but not this year (Ft.com 04/04/10)

 

Styrkir Evrópusambandsins notaðir til þess að auka ofveiði

Fjallað er um það í Fréttablaðinu í dag að styrkir Evrópusambandsins í sjávarútvegi hafi verið nýttir til þess að auka á ofveiði í fiskveiðilögsögu sambandsins í stað þess að draga úr henni. Þetta kemur fram í skýrslu frá rannsóknarstofnuninni Pew Environment Group. Nú þegar eru um 80% fiskistofna innan lögsögu Evrópusambandsins ofveiddir, en sambandið hefur stjórnað sjávarútvegsmálum ríkja þess í áratugi.

Evrópusambandið hefur reynt að draga úr ofveiði með því að greiða sjávarútvegsfyrirtækjum innan sambandsins fyrir að leggja einhverjum af skipum sínum, en sambandið hefur hins vegar greitt meira fé til þess að styrkja smíði nýrra skipa og endurnýjunar á eldri skipum, ekki síst á Spáni. ESB hefur þannig ýtt undir frekari ofveiði.

„Fé úr opinberum sjóðum hefur verið notað til að styrkja ofveiði með skelfilegum afleiðingum fyrir lífið í hafinu,” er haft eftir Markus Knigge, framkvæmdastjóri hjá Pew Environment Group.

Heimild:
Enn meiri ofveiði í krafti ESB-styrkjanna (Vísir.is 03/04/10)

 

Vill að ESB taki yfir efnahagsstjórn ríkja sinna

Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble, kallaði eftir því sl. þriðjudag í viðtali við þýska vikublaðið Die Zeit að Evrópusambandið tæki yfir stjórn efnahagsmála í ríkjum þess og að sambandið yrði þróað í átt að sambandsríki. Tilefni þessara ummæla eru alvarleg efnahagsvandræði Grikklands sem Evrópusambandinu hefur gengið erfiðlega að finna lausn á.

Schäuble sagði sameiginlega efnahagsstjórn innan ESB nauðsynlega jafnvel þó það hugnaðist ekki öllum. Slíkt kallaði á meiri samruna innan sambandsins. Þess má geta að þýski fjármálaráðherrann er ekki fyrstur í hópi forystumanna innan ESB til þess að kalla eftir því á undanförnum dögum og vikum að slíkt skref verði tekið.

Heimild:
Germany wants ‘European economic government’: minister (Eubusiness.com 30/03/10)

 

Ísland er ríkisstjórnin og þingið en ekki þjóðin

Stækkunarkommissar Evrópusambandsins, Štefan Füle, lét þess getið í viðtali við vefsíðuna Euractiv.com í vikunni að hann efaðist ekki um að Ísland vildi ganga í sambandið enda hefði ríkisstjórn landsins ákveðið það með stuðningi þingsins. Hann hefði þó áhyggjur af skorti á stuðningi íslensks almennings við inngöngu í Evrópusambandið. Ekki er hægt að skilja orð Füle öðruvísi en svo að hann telji ríkisstjórnina og þingið vera Ísland en ekki íslensku þjóðina. Stuðningur íslensks almennings er greinilega algert aukaatriði.

Ummæli Füle eru í fullu samræmi við eðli ESB sem er byggt upp þannig að valdið komi ofan frá en ekki frá fólkinu. Í samræmi við það eru valdamestu menn sambandsins flestir embættismenn sem enginn kýs og sem almennir borgarar hafa ekkert yfir að segja – eins og t.d. títtnefndur Füle. Færibandaframleiðsla ESB á endalausum smásmugulegum reglum fyrir almenning er einnig í þessum anda.

Þá er framganga ESB einnig í samræmi við þetta eðli þess eins og t.d. þegar sambandið hefur forðast það eins og heitan eldinn að bera samrunaskref innan þess undir almenna kjósendur í þjóðaratkvæði. Í þau fáu skipti sem það er gert er allt reynt til þess að fara í kringum niðurstöðuna, m.a. með því að láta kjósa aftur og aftur um sömu hlutina þar til þeir fást samþykktir og þá er aldrei kosið aftur um þá.

Heimild:
Füle: ‘I’m enjoying every minute of my work as commissioner’ (Euractiv.com 30/03/10)