Stiglitz: Er evrunni viðbjargandi?

Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Joseph Stiglitz, veltir fyrir sér framtíð evrunnar í grein í Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar hann um þá miklu efnahagserfiðleika sem eru til staðar innan evrusvæðisins og sem stofnað hafa framtíð þess í hættu. Stiglizt bendir á að svæðið hafi í raun verið gallað frá byrjun og að margir hafi lýst áhyggjum sínum í upphafi af því hversu lengi evran myndi endast. Þannig hafi því t.a.m. verið ósvarað hvernig brugðist yrði við ef áfall dyndi á evrusvæðinu. En á meðan allt lék í lyndi hafi þessar áhyggjur gleymst.

Stiglitz segir að með því að taka upp evruna hafi evruríkin verið svipt tveimur helstu leiðunum til þess að örva hagvöxt og afstýra kreppu en ekkert hafi komið í staðinn. Hann rifjar upp að evrusvæðið hafi aldrei uppfyllt skilyrði Roberts Mundell, annars nóbelsverðalaunahafa í hagfræði, um hið hagkvæma myntsvæði og geri ekki enn. Frjálst flæði vinnuafls hafi verið innleitt að nafninu til en ólík tungumál og menningarmunur hafi komið í veg fyrir að til yrði einn sameiginlegur vinnumarkaður að bandarískri fyrirmynd.

Þá gagnrýnir Stiglitz hvernig Evrópusambandið hefur kosið að standa að björgun Grikklands í alvarlegum efnahagsvanda landsins. Skilaboðin til minni ríkja sambandsins séu skýr, ef þau vinna ekki bug á fjárlagahalla sínum sé lítil von um nauðsynlega aðstoð frá nágrannaríkjum, a.m.k. ekki án strangra skilyrða m.a. um stórfelldan niðurskurð sem séu fremur til þess fallin að auka á vandann, auka atvinnuleysi og draga úr efnahagsbatanum. Ekki ætti að neyða ríki með gríðarlegan viðskiptahalla í slíkan vítahring.

Stiglitz bendir á tvær færar leiðir fyrir evrusvæðið sem fleiri hafa raunar bent á. Annað hvort liðaðist evrusvæðið í sundur með einum eða öðrum hætti eða komið yrði á sameiginlegri efnahagsstjórn innan svæðisins sem hefði átt að gera strax í byrjun þegar grunnurinn var lagður að evrunni. Því má bæta við að öllum var ljóst þegar evran var sett á laggirnar að einni miðstýrðri peningamálastefnu þyrfti að fylgja ein miðstýrð efnahagsstefna en á þeim tíma var hins vegar ekki vilji fyrir því að fara alla leið í þeim efnum.

 

Evruríki talin í verulegri hættu

Matsfyrirtækið Moodys segir að bankakerfi evruríkjanna séu í verulegri hættu efist menn um getu þeirra til þess að greiða skuldir sínar, en óttast er að efnahagserfiðleikar Grikkja kunni að breiðast út innan Evrópusambandsins. Sérstaklega eigi þetta við um Írland, Ítalíu, Portúgal og Spán en einnig Bretland sem ekki er með evru sem gjaldmiðil. Hins vegar er fjárlagahallinn í Bretlandi yfir 11% af vergri landsframleiðslu sem er svipuð staða og í Grikklandi.

Vaxandi áhyggjur af ástandi mála innan evrusvæðisins hafa aukið þrýsting á að Seðlabanki Evrópusambandsins upplýsi hvernig hann hafi í hyggju að styrkja evruna, en gengi hennar hefur lækkað talsvert að undanförnu. Þá hafa efnahagsvandræði Grikklands gert það að verkum að stjórnvöld í Póllandi hafa frestað upptöku evru þar í landi um óákveðinn tíma. Síðast var stefnt að því að taka upp evru 2015 en nú þykir alls óvíst hvenær af því kann að verða ef það verður einhvern tímann.

Heimildir:
Óttast að kreppan breiðist út (Rúv.is 06/05/10)
Pólverjar taka ekki upp evru strax (Rúv.is 06/05/10)

 

Slóvenar þurfa að skera niður til að hjálpa Grikkjum

Stjórnvöld í Slóveníu greindu frá því í dag að þau neyðist til þess að skera niður í ríkisfjármálum landsins og taka sérstakt lán svo landið geti tekið þátt í neyðaraðstoð Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við Grikkland. Fjármálaráðherra Slóveníu lýsti af því tilefni óánægju sinni með að slóvenska þjóðin þyrfti að taka á sig verulegan kostnað vegna aðstoðarinnar.

Neyðaraðstoðin við Grikkland hljóðar upp á samtals 110 milljarða evra á næstu þremur árum og koma 80 milljarðar frá þeim fimmtán ríkjum ESB sem nota evru sem gjaldmiðil en afgangurinn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Slóvenar þurfa að útvega Grikkjum samtals 384 milljónir evra og þar af 144 milljónir evra á þessu ári.

Heimild:
Slóvenar þurfa lán til að hjálpa Grikkjum (Mbl.is 04/05/10)

 

Framseljanlegir kvótar á milli landa innan ESB?

Tillögur um breytingar á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem komið hafa fram gætu gengið að sjávarbyggðum í Skotlandi dauðum nái þær fram að ganga. Þetta segir Struan Stevenson skoskur þingmaður á Evrópusambandsþinginu. Framkvæmdastjórn sambandsins hefur lagt til að sjávarútvegsstefnu þess verði m.a. breytt þannig að innleiða megi reglur um sölu veiðiheimilda á milli landa.

Stevenson segir ESB þegar næstum hafa murkað lífið úr skoskum sjávarútvegi. Hann telur að það myndi þýða dauðadóm yfir skoskum sjávarútvegi ef t.d. voldug útgerðarfélög á Spáni gætu sölsað undir sig botnfiskkvóta Skota. Skoskir fiskimenn misstu þá ekki aðeins vinnuna heldur töpuðust þúsundir starfa í höfnum og landvinnslu því ljóst væri að erlendu skipin myndu ekki landa afla sínum í Skotlandi.

Heimild:
“Dauðadómur yfir skoskum sjávarútvegi” (Vb.is 02/05/10)

 

Evran eykur á efnahagsvanda Grikkja

Leif Pagrotsky, einn af efnahagsráðgjöfum grísku ríkisstjórnarinnar, segir að það hafi aukið á efnahagsvanda Grikklands að vera með evru sem gjaldmiðil. Hefðu Grikkir haldið í sinn gamla gjaldmiðil hefði verið hægt að grípa fyrr í taumana. Pagrotsky, sem er fyrrum iðnaðar-, viðskipta-, og menntamálaráðherra Svía, sagðist í viðtali við sænska ríkisútvarpið ekki vera í vafa um að aðild Grikkja að evrusamstarfinu hafi verið íþyngjandi fyrir efnahagslíf þeirra.

Pagrotsky sagði að viðvörunarbjöllur hefðu farið að hringja mun fyrr en ella ef Grikkir hefðu ekki skipt drökmunni út fyrir evru í upphafi áratugarins. Kerfið sé afar svifaseint eins og sæist vel á því að ríki ESB hefðu ekki getað komið sér saman um leiðir til bjarga Grikkjum í þrjá mánuði. Með hverri viku sem sú ákvörðun hefði dregist hafi efnahagsvandamálin orðið alvarlegri. Með eigin gjaldmiðil hefðu grísk stjórnvöld getað gripið hratt til eigin ráðstafana.

Vaxandi ótti er við að vandamál Grikkja eigi eftir að breiðast út til annarra ríkja evrusvæðisins og hafa áhyggjur einkum aukist af Spáni og Portúgal en einnig Ítalíu og Írlandi og nú síðast Belgíu. Málinu hefur verið líkt við vírus sem breiðist hratt út og enginn ræður við. Danskir hagfræðingar hafa reiknað út að björgun fleiri evruríkjum með sama hætti og Grikklandi gæti kostað hundruðir milljarða evra. Það gæti hæglega orðið evrusvæðinu ofviða.

Gert er ráð fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfi að hafa eftirlit með efnahagsmálum Grikklands a.m.k. næsta áratuginn eða til ársins 2020 þegar búist er við að fyrirhugaðar efnahagsaðgerðir verði farnar að skila tilætluðum árangri, en þær felast fyrir utan háar lánafyrirgreiðslur frá öðrum evruríkjum m.a. í gríðarlegum niðurskurði í Grikklandi og lækkun launa um 20-25% en þegar hefur verið ráðist í mikinn niðurskurð sem kallað hefur á fjölmenn mótmæli í landinu.

Heimildir:
Evran veldur Grikkjum vanda (Rúv.is 30/04/10)
Telja aðstoðina við evruna dýrkeypta (Vísir.is 01/05/10)
Grikkir undir eftirliti AGS í tíu ár (Mbl.is 01/05/10)
Óttinn við gjaldþrot Grikklands, Portúgals og Spánar í hámarki (Vísir.is 28/04/10)