VG ætlar að endurskoða ESB-umsóknina

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs samþykki um helgina að umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í Evrópusambandið yrði tekin til gagngerrar endurskoðunar og að tillaga um að umsóknin yrði dregin til baka yrði vísað til málefnaþings sem til stendur að halda næsta haust. Að lokum var anstaða VG við inngöngu í ESB ítrekuð.

Orðrétt segir í samþykkt flokksráðsfundarins:

 

Flokksráðsfundur VG samþykkir að vísa tillögu um að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka, til málefnaþings sem haldið verður á haustmánuðum.

Forsendur ESB umsóknar eru breyttar og í því ljósi er mikilvægt að málið verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Jafnframt felur flokksráð stjórn flokksins að skipa hið fyrsta undirbúningshóp til að halda utan um meðferð málsins fram að málefnaþinginu vegna fyrirhugaðs málefnaþings.

Flokksráð ítrekar andstöðu VG við aðild að Evrópusambandinu og vísar til fyrri samþykkta í þeim efnum.

Heimild:
Samþykktar tillögur af flokksráðsfundi Vinstri grænna (Vg.is 26/06/10)

 

Sjálfstæðisflokkurinn krefst þess að ESB-umsóknin verði dregin til baka

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í dag stjórnmálaályktun þar sem m.a. kemur fram að flokkurinn krefjist þess að umsóknin um inngöngu Íslands í Evrópusambandið verði dregin til baka án tafar. Flutningsmaður tillögunnar var Hallgrímur Viðar Arnarsson og var hún samþykkt með afgerandi hætti. Fyrri tillögum sem ætlað var að friða minnihluta Evrópusambandssinna á landsfundinum var hins vegar hafnað.

Í stjórnmálaályktuninni segir um Evrópumál: “Sjálfstæðisflokkurinn setur fram þá skýru kröfu að umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka án tafar.” Síðar í ályktuninni segir að flokkurinn hafni vegverð ríkisstjórnarinnar inn í sambandið.

Myndband þar sem Hallgrímur flytur tillöguna má nálgast hér.

Stjórnmálaályktunina í endanlegri útgáfu má nálgast hér

 

Sífellt fleiri Danir vilja ekki evruna

Fréttavefur Morgunblaðsins greinir frá því í dag að andstaða við upptöku evru í Danmörku aukist hratt. Er þar vitnað í frétt á viðskiptavef Berlingske Tidende þar sem fjallað er um nýja skoðanakönnun sem gerð var fyrir Danske Bank. Samkvæmt henni eru 32,1% danskra kjósenda hlynnt upptöku evrunnar í stað dönsku krónunnar á meðan 47,8% eru því andvíg.

Segir í fréttinni að ekki hafi mælst meiri andstaða við evruna í Danmörku í sambærilegum könnunum síðan árið 1999.

Heimild:
Vaxandi andstaða við evruna í Danmörku (Mbl.is 24/06/10)

 

Verður evrusvæðinu skipt í tvennt?

Breska dagblaðið The Daily Telegraph hefur eftir háttsettum embættismanni hjá Evrópusambandinu í dag að frönsk og þýsk stjórnvöld íhugi nú alvarlega þann möguleika að skipta evrusvæðinu í tvennt. Í annars vegar evrusvæði sem yrði myndað af Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Austurríki og Finnlandi og hins vegar svæði sem yrði skipað veikari evruríkjum eins og t.a.m. Grikklandi, Ítalíu, Spáni, Portúgal, Írlandi.

Hugmyndin gengur út á það að losa sterkari evruríkin við ábyrgðina af þeim ríkjum sem hafa átt við alvarlega efnahagserfiðleika að etja. Í raun er þannig ætlunin að láta þessi ríki sigla sinn sjó. Ástæðan er einkum það sjónarmið að evrusvæðið þoli ekki annað áfall eins og efnahagserfiðleika Grikklands. Nú er útlit fyrir að Spánn lendi næst í alvarlegum erfiðleikum og það yrði svæðinu einfaldlega ofviða.

Ef af þessum áformum verður og evrusvæðið brotnar upp með þessum hætti vaknar sú spurning eðlilega hvaða evrusvæði Evrópusambandssinnar vilji að Ísland verði hluti af? Gera má ráð fyrir að gerðar verði jafnvel enn strangari kröfur en nú fyrir aðild að fransk-þýska evrusvæðinu.

Heimildir:
Germany and France examine ‘two-tier’ euro (Telegraph.co.uk 19/06/10)
Tvískipt mynt­svæði innan ESB til umræðu (Evrópuvaktin.is 19/06/10)
Evrusvæðinu hugsanlega skipt (Mbl.is 19/06/10)

 

Íslendingar: Til hamingju með þjóðhátíðardaginn!

Heimssýn óskar landsmönnum öllum til hamingju með þjóðhátíðardaginn. Í dag eru 66 ár liðin frá því að Ísland varð lýðveldi þann 17. júní árið 1944 og Íslendingar tóku á ný öll sín mál í eigin hendur eftir nær sjö aldir undir erlendri stjórn. En baráttunni fyrir sjálfstæði landsins lauk ekki þá, þeirri baráttu mun aldrei ljúka. Eftir að stjórn landsins var komið aftur að fullu í hendur Íslendinga hefur sjálfstæðisbaráttan snúist um að varðveita sjálfstæðið og standa vörð um það gegn ásælni þeirra sem vilja gera það að engu. Megi Ísland og íslenska þjóðin verða áfram sjálfstæð og fullvalda og hafa ástæðu til þess að halda áfram að fagna frelsi sínu á 17. júní ár hvert um ókomna framtíð.

Drögum ESB-umsóknina til baka

Framkvæmdastjórn Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, fagnar tillögu að þingsályktun sem  um að Ísland dragi tilbaka umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Engar haldbærar forsendur eru fyrir umsókninni, hvorki á Alþingi né meðal þjóðarinnar. Aðeins einn stjórnmálaflokkur, Samfylkingin, er með aðild að ESB á stefnuskrá sinni. Flokkar með samtals 70 prósent kjörfylgi hafa lýst andstöðu sinni við inngöngu í ESB. Skoðanakannanir sýna margítrekað að milli 60-70 prósent þjóðarinnar er andvíg inngöngu. Í gær birtist skoðanakönnun þar sem kemur fram að 70 prósent þeirra sem afstöðu tóku vilja draga umsóknina tilbaka.

Verði  umsókninni haldið til streitu eru vaxandi líkur á að samskipti Íslands og ESB bíði skaða af. Í Evrópu er spurt hvers vegna ríkisstjórn Íslands fer ekki eftir lýðræðislegum vilja þjóðarinnar. Hvorki Íslandi né Evrópusambandinu er greiði gerður með því að taka fé og fyrirhöfn í starf sem engar líkur eru á að leiði til aðildar Íslands.

 

Mikill meirihluta vill draga ESB-umsóknina til baka

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent vann fyrir hugveituna Andríki og birt var í dag vilja 57,6% landsmanna draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka en aðeins 24,3% vilja halda henni til streitu. Ef aðeins er miðað við þá sem tóku afstöðu með eða á móti eru rúm 70% á því að hætta eigi við umsóknina. Þetta er sama hlutfall og myndi hafna inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt könnun sem Capacent vann fyrir Samtök iðnaðarins í febrúar og birt var í byrjun mars.

Ljóst er á ítrekuðum skoðanakönnunum að enginn vilji er á meðal þjóðarinnar til þess að ganga í Evrópusambandið eða halda aðlögunarferlinu að sambandinu áfram.

Heimild:
Meirihluti vill draga umsókn um aðild til baka (Mbl.is 14/06/10)

 

Þjóðverjar vilja Ísland í ESB vegna auðlindanna

Einn helsti sérfræðingur Þjóðverja í málefnum Norðurlanda, Carsten Schymik, segir litlar líkur á að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ástæðan sé sú að ekki sé eining á meðal íslenskra stjórnmálamanna um inngöngu í sambandið og andstöðu almennings við slíkt skref. Hann segir að Evrópusambandið vilji gjarnan að ríki sem gangi í sambandið sýni vilja til þess að aðlagast því til lengri og skemmri tíma. Efasemdir hafi því vaknað um “getu” Íslands til þess að laga sig að Evrópusambandinu.

Schymik segir það þjóna hagsmunum Þjóðverja að Ísland gangi í ESB. Þar skipti náttúruauðlindir Íslendinga mestu máli. “Fyrir utan fiskinn eru það endurnýjanlegar orkuauðlindir. Einnig ræðst það af mikilvægri legu landsins í N-Atlantshafi, sem eins konar gátt til Norðurskautsins.”

Heimild:
Litlar líkur á aðild Íslands að ESB (Rúv.is 10/06/10)

 

Hagkerfi evruríkja eru ekki sjálfstæð lengur

Að sögn Jean-Claude Juncker, sem fer fyrir fjármálaráðherrum evruríkjanna, heyra sjálfstæð hagkerfi ríkja evrusvæðisins sögunni til. Þetta kom fram í viðtali við  Wall Street Journal. „Við höfum ekki lært nóg um sameiginlega stjórn á sameiginlegum gjaldmiðli. Of mörg hinna 16 ríkja [á evrusvæðinu] hegða sér eins og sjálfstæð hagkerfi, en sjálfstæð hagkerfi eru ekki lengur til staðar. Við tilheyrum nú hagkerfi sem er krýnt hinum sameiginlega gjaldmiðli,“ sagði Juncker.

Heimild:
Sjálfstæð evruhagkerfi ekki til (Mbl.is 07/06/10)

 

Vaxandi líkur á að evrusvæðið liðist í sundur

Framkvæmdastjóri hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu Roubini Global Economics, Gina Sanchez, segir að líkurnar á að Efnahags- og myntbandalag Evrópu liðist í sundur hafi aukist. „Við gerum ráð fyrir vaxandi möguleikum á að evrusvæðið liðist í sundur,“ sagði hún í samtali við Reuters fréttaveituna. Sanchez vildi þó ekki setja nákvæma tölu á möguleikana á að evrusvæðið liðaðist í sundur en sagði að fyrirtækið teldi minni en 1% möguleika á auðveldri lausn vandamála svæðisins.

Heimild:
Segir vaxandi líkur á að evrusvæðið liðist í sundur (Mbl.is 09/06/10)