Verður evran dauð eftir fimm ár?

Samkvæmt könnun sem breska dagblaðið Sunday Telegraph lét gera á meðal 25 virtustu hagfræðinga Bretlands verður evran dauð innan fimm ára. Einn hagfræðinganna er svo svartsýnn að hann telur óvíst hvort evran lifir af næstu vikuna. Af þessum 25 töldu tólf að evran ætti alls ekki eftir að lifa af á meðan átta töldu að hún myndi gera það. Rest treysti sér ekki til þess að úttala sig um málið.

Af þeim sem töldu mögulegt að evran lifði af voru tveir þeirrar skoðunar að það gæti aðeins gerst að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, m.a. að eitthvert evruríki lýsti yfir greiðslufalli, þ.e. að það gæti ekki greitt af lánum sínum og væri þar með í raun gjaldþrota. T.a.m. Grikkland. Þá kom einnig fram að sú staða gæti einnig komið upp að Þýskaland gæfist upp á evrusvæðinu og yfirgæfi það.

Heimildir:
Euro ‘will be dead in five years’ (Telegraph.co.uk 05/06/10)
Evran dauð innan fimm ára? (Mbl.is 06/06/10)
Telja evruna vera í dauðateygjunum (Vísir.is 06/06/10)
Evran í andarslitrum (Evrópuvaktin.is 06/06/10)
Könnun í Telegraph: Evran verður dauð innan fimm ára (Eyjan.is 06/06/10)
Telja evruna dauðadæmda: Samstarfið mun liðast í sundur á innan við fimm árum (Pressan.is 06/06/10)

 

Svíar vilja ekki evruna

Mikill meirihluti Svía vill ekki evruna samkvæmt nýrri skoðanakönnun í Svíþjóð sem gerð var fyrir dagblaðið Dagens Industri. Samkvæmt könnuninni eru 61% andvíg því að sænsku krónunni verði skipt út fyrir evruna á meðan aðeins 25% eru því hlynnt. 14% tóku ekki afstöðu. Séu óákveðnir ekki teknir með vilja um 71% Svía ekki taka upp evruna samkvæmt þessari könnun. Í sambærilegri könnun frá því á síðasta ári voru 49% hlynnt upptöku evrunnar en 44% á móti því.

Svíar höfnuðu því að taka upp evru í þjóðaratkvæðagreiðslu í september 2003.

Heimild:
Andstaða við evruna eykst í Svíþjóð (Mbl.is 03/06/10)

 

Forseti ESB vill sameiginlega efnahagsstjórn

Forseti Evrópusambandsins, Herman van Rompuy, styður þá hugmynd að komið verði á einni efnahagsstjórn fyrir evrusvæðið eins og frönsk stjórnvöld hafa m.a. lagt áherslu á. Frakkar hafa lengi kallað eftir því að slíkt skref yrði tekið en það hefur til þessa mætt tortryggni hjá sumum af ríkjum sambandsins, einkum Þýskalandi stærsta efnahagsveldi þess.

Fram kemur í franska dagblaðinu Le Monde að Nikolas Sarkozy, Frakklandsforseti, hafi þrýst á að komið verði á kerfi þar sem leiðtogar ríkja evrusvæðisins færu með efnahagsstjórn evrusvæðisins og nytu til þess stuðnings sérstaks embættismannakerfis.

Heimild:
Forseti ESB vill eina efnahagsstjórn (Mbl.is 02/06/10)