Spánverjar telja að þeir væru betur settir án evrunnar

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem gerð var á vegum Evrópusambandsins telja 54% Spánverja að þeir hefðu verið betur í stakk búnir að sigrast á þeim alvarlegu efnahagserfiðleikum sem geysa á Spáni með gamla sjálfstæða gjaldmiðilinn sinn, pesetann, að vopni en evruna. Talsmaður sambandsins sagði af því tilefni að þetta sýndi það eitt að spænskur almenningur hefði “ekki skilið kosti evrunnar.”

Víða í ESB hafa skoðanakannanir sýnt á undanförnum árum að meirihluti almennings vill ekki evruna og vill fá gömlu gjaldmiðlana sína aftur. En fæstar þjóðirnar innan sambandsins voru spurðar álits á því hvort taka ætti evruna upp og þær sem voru spurðar hafa afþakkað hana pent.

Heimild:
Spánverjar sakna pesetans (Evrópuvaktin.is 30/07/10)

 

Evrópusambandið mun reyna að blekkja Íslendinga

Daniel Hannan, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, var staddur hér á landi á dögunum og flutti m.a. erindi á fjölmennum fundi sem Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna, hélt sl. föstudag 16. júlí. Þar færði hann rök fyrir því hvers vegna Íslendingar ættu ekki að ganga í Evrópusambandið og að hagsmunum Íslands væri best borgið utan sambandsins.

Það sem einna helst þótti standa upp úr boðskap Hannans var að hann varaði við því að ESB ætti eftir að reyna að blekkja Íslendinga og telja þeim trú um að tekist hefði að tryggja yfirráð þeirra yfir auðlindum Íslandsmiða ef Ísland gengi í sambandið. Ekki verður þó kveðið á um það í hugsanlegum aðildarsamningi heldur í lögfræðilegri viðbót við hann.

Hannan sagði að nokkru eftir að Íslendingar hefðu gengið í ESB, yrði af því, myndi t.d. einhver útgerð á Spáni láta reyna á þessa viðbót fyrir dómstóli sambandsins sem myndi dæma hana ógilda á þeim forsendum að hún stangaðist á við sáttmála ESB sem kveða á um að sjávarfang sé sameiginleg auðlind sem ríki sambandsins eigi jafnan aðgang að.

Hannan sagði að hliðstætt hefði oft gerst, flest ríki ESB hefðu einhverja slíka reynslu. T.d. hefðu Bretar talið sig hafa fengið undanþágu frá reglum sambandsins um 48 stunda vinnuviku sem kveðið var á um í Maastricht-sáttmála ESB. Dómstóll sambandsins hefði hins vegar um tveimur árum síðar dæmt hana ógilda þar sem hún stangaðist á við sáttmálann.

Hannan sagðist ennfremur telja að halda ætti áfram með umsóknina um inngöngu í ESB, það væri eina leiðin til þess að ljúka málinu. Honum var hins vegar bent m.a. á að ekki væri um einfaldar samningaviðræður við sambandið að ræða heldur aðlögunarviðræður og að engar líkur væru á að málinu lyki þó umsóknin færi alla leið. Aðeins þyrfti að horfa til Noregs í því sambandi.

Hannan bar ekki á móti þeim röksemdum. Hafa verður í huga í þessu sambandi að hann er mikill og þekktur talsmaður þjóðaratkvæðagreiðsla í Evrópu. Á fundinum hjá Heimdalli tók hins vegar aðspurður skýrt fram að það væri alls ekkert ólýðræðislegt við það ef meirihluti Alþingis, sem samþykkt hefði umsóknina um inngöngu í ESB, ákveddi að taka þessa sömu umsókn til baka.

 

Evrópusambandið fær stöðu á við ríki innan SÞ

Ríki Evrópusambandsins hafa samþykkt að farið verði fram á það við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að sambandið fái hliðstæða stöðu á samkomum þeirra og ríki. Þannig getir t.a.m. forseti sambandsins ávarpað þær með sama hætti og t.d. forseti Bandaríkjanna eða hver annar þjóðarleiðtogi. Eins og fyrirkomulagið er í dag hefur sambandið sömu stöðu gagnvart SÞ og t.a.m. Atlantshafsbandalagið (NATO) og Arababandalagið.

Þetta samkomulag ríkja ESB er byggt á ákvæðum í Stjórnarskrá Evrópusambandsins (Lissabon-sáttmálanum). Bresk stjórnvöld gátu ekki lagst gegn samkomulaginu né önnur stjórnvöld innan sambandsins vegna þess að öll ríkin hafa þegar samþykkt stjórnarskrána. Í henni er m.a. kveðið á um að ESB sé sjálfstæð lögpersóna og geti sem slík gert samkomulag við ríki utan þess í eigin nafni.

Haft er eftir ónafngreindum embættismanni hjá ESB á fréttasíðunni Euobserver.com að tilgangurinn með samkomulaginu sé að auka vægi sambandsins á alþjóðavettvangi sem sjálfstæðrar einingar. Þess má geta að það er einmitt eitt einkenni ríkja samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum að þau geta átt í samskiptum og samningum í eigin nafni við önnur ríki og ríkjasambönd.

Heimild:
ESB fái stöðu á við ríki innan SÞ (Mbl.is 15/07/10)
EU to be given prominent UN role (Telegraph.co.uk 15/07/10)

Tékkar lítt spenntir fyrir evrunni

Nýr seðlabankastjóri Tékklands, Miroslav Singer, segir að óvissan í kringum evrusvæðið sé svo mikil í kjölfar skuldavalda Grikklands að ekkert vit sé í að velta fyrir sér upptöku evrunnar. “Ég hef enga hugmynd um það hversu langan tíma það tekur að leysa úr vandamálum evrusvæðisins,” sagði hann samkvæmt Wall Street Journal og bætti við að þar til að því kæmi væri einfaldlega of margt óljóst til þess að hann gæti sagt til um það hvort það yrði tékknesku efnahagslífi til framdráttar að taka upp evru.

“Það er mjög erfitt eins og sakir standa að taka upp hanskann fyrir evrusvæðið og leggja áherslu á upptöku evrunnar,” er haft eftir Radomir Jac, aðalhagfræðingi tékkneska fjármálafyrirtækisins PPF General Asset Management. “Þetta er versta krísa sem evrusvæðið hefur upplifað á rúmlega tíu ára tilveru sinni.”

Skoðankönnun í maí sl. fyrir Viðskiptaráð Tékklands sýndi að aðeins 20% forsvarsmanna meðalstórra og smárra tékkneskra fyrirtækja vilja taka upp evru.

Heimild:
Czechs Wary of Joining Troubled Euro (Wsj.com 09/07/10)

Traust á samtökum gegn ESB-aðild

Samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent gerði á dögunum um Evrópumál eru hagsmunasamtök gegn aðild að Evrópusambandinu í fjórða sæti af 13 yfir þá aðila sem fólk treystir til þess að upplýsa og fræða sig um kosti og galla slíkrar aðildar. Athygli vekur að hagsmunasamtök með aðild að ESB eru hins vegar í áttunda sæti á listanum.

Ofar á listanum en hagsmunasamtök gegn aðild að ESB eru fræðimenn, hagsmunasamtök launþega og innlendir fjölmiðlar. Neðar á listanum eru hins vegar erlendir fjölmiðlar, hagsmunasamtök atvinnurekenda, íslenskir embættismenn, hagsmunasamtök með aðild, stofnanir ESB, áhugafólk um Evrópumál, stjórnmálamenn, listamenn og svo aðrir.

Ef aðeins er miðað við þá sem fólk treystir best til þess að upplýsa sig um Evrópumálin þá eru samtök gegn aðild að ESB í öðru sæti á eftir fræðimönnum og hagsmunasamtök með aðild í þriðja sæti ásamt hagsmunasamtökum atvinnurekenda.

Þess má geta að í umræddri skoðanakönnun var sérstaklega minnst á Heimssýn innan sviga á eftir valmöguleikanum hagsmunasamtök gegn aðild að sambandinu.

Heimild:
Þekking og upplýsingagjöf um kosti og galla Evrópusambandsaðildar (Capacent.is 06/07/09)

 

Vill alla olíuvinnslu undir yfirstjórn ESB

Gunther Öttinger, ráðherra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hefur kallað eftir því að sambandinu verði falið að hafa yfirstjórn með allri olíuvinnslu í ríkjum þess í kjölfar olíuslyssins á Mexíkóflóa. Evrópusambandið sæi þar með m.a. um að gefa út leyfi til olíuvinnslu í stað ríkjanna og eftirlit með allri slíkri starfsemi innan sambandsins.

Í umræðum á þingi ESB í gær 8. júlí lýsti Öttinger því yfir að ríki sambandsins ættu að íhugað það alvarlega að gefa eftir völd yfir olíuvinnslu til þess. Hann sagði að eftirlit af hálfu ríkjanna yrði vissulega áfram til staðar en að hann teldi það góða hugmynd að innleiða almenna staðla og yfirstjórn af hálfusambandsins.

Heimild:
EU to seek temporary ban on deep-water oil permits (Euobserver.com 08/07/10)

 

Enn ítrekað að Icesave sé forsenda ESB

Þing Evrópusambandsins samþykkti í dag ályktun þar sem því er fagnað að leiðtogaráð Evrópusambandsins skyldi leggja blessun sína yfir aðildarviðræður við Ísland þann 17. júní sl., á þjóðhátíðardag Íslands. Ennfremur var lögð áhersla á að viðræðurnar, sem eru hluti aðlögunarferlis Íslands að sambandinu sem er í fullum gangi, hæfust sem fyrst.

Þá ítrekaði Evrópusambandsþingið að Íslendingar yrðu að gangast undir öll skilyrði Evrópusambandsins fyrir inngöngu í sambandið og þ.m.t. að hætta hvalveiðum strax og greiða Hollendingum og Bretum fyrir Icesave-reikninga Landsbanka Íslands.

Heimild:
Iceland’s EU Entry Talks Urged by European Parliament Amid Bank Standoff (Bloomberg.com 07/07/10)

ESB vill fiskinn en ekki skuldirnar

Fréttavefur Morgunblaðsins fjallaði um það sl. fimmtudag að Nigel Farage, þingmaður breska stjórnmálaflokksins UK Independence Party á Evrópusambandsþinginu, hafi skrifað á heimasíðu flokksins að það þyrfti ekkert að velkjast í vafa um að það væru fiskimið Íslendinga sem Evrópusambandið hefði augastað á og væri fyrst og fremst ástæðan fyrir áhuga sambandsins á inngöngu Íslands í það. Það væru ekki skuldir landsins sem sóst væri eftir.

Farage fagnaði því í skrifum sínum að Íslendingar gerðu sér grein fyrir hættunni og vitnaði í því sambandi í skoðanakannanir hér á landi sem sýndu að um 60% landsmanna vildu ekki ganga í Evrópusambandið. Hvatti hann íslensku þjóðina til þess að hafna inngöngu í sambandið.

Heimild:
Segir ESB vilja íslensk mið en ekki skuldir (Mbl.is 02/07/10)

 

Meirihluti Eista vill ekki taka upp evruna

Fréttavefur Morgunblaðsins greinir frá því í gær að meirihluti Eista vilji ekki evruna samkvæmt nýrri skoðanakönnun og ennfremur að meirihluti vilji að þjóðaratkvæði verði haldið um það hvort evran komi í stað eistnesku krónunnar. Stjórnvöld í Eistlandi hafa hins vegar ekki í huga að halda slíkta kosningu en stefnt er að því að evran verði tekin upp í landinu á næsta ári.

Samkvæmt könnuninni eru 50% andvíg upptöku evrunnar en 39% hlynnt því. Þá vilja 57% þjóðaratkvæði um málið en 32% eru því andvíg.

Heimild:
Andstaða við evruna í Eistlandi (Mbl.is 02/07/10)

 

Mikill meirihluti Íslendinga vill sem fyrr ekki ganga í ESB

Samkvæmt nýjum þjóðarpúsli Capacent vill mikill meirihluti Íslendinga ekki ganga í Evrópusambandið, 60% vilja það ekki en 26% eru því hlynnt. Þessi skoðanakönnun er í samræmi við aðrar kannanir sem gerðar hafa verið undanfarið ár. Mikill meirihluti Íslendinga vill ekki ganga í ESB, myndi greiða atkvæði gegn inngöngu í sambandið í þjóðaratkvæði og vill að umsóknin um inngöngu verði dregin til baka.

Þá hafa kannanir sýnt að meirihlutinn hafi viljað þjóðaratkvæði um umsóknina og sé óánægður með að hún skyldi vera send til Brussel.

Heimild:
60% andvígir aðild að ESB-26% hlynntir (Evrópuvaktin.is 01/07/10)