Krónan eða evran?

 Sænski hagfræðingurinn Stefan de Vylder ræðir stöðu krónunnar og framtíð evrunnar á opnum fundi Heimssýnar og Ísafoldar
föstudaginn 20. ágúst kl. 17:00 í stofu N – 132 í Öskju, nátturufræðihúsi Háskóla Íslands í Vatnsmýri.

Stefan de Vylder lauk doktorsprófi í hagfræði frá Viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi  og hefur starfað við kennslu,  rannsóknir og ráðgjöf.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangurinn er ókeypis.

Áskorun Ísafoldar; dragið umsóknina tilbaka

Forsendubrestur er á umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Alþingi ber að draga umsóknina tilbaka, segir í bréfi Ísaforldar, félags ungs fólks gegn ESB-aðild, til alþingismanna. Í bréfinu er vísað til fyrirliggjandi þingsályktunar um að alþingi dragi umsóknina tilbaka. Þingmenn úr öllum flokkum utan Samfylkingar eru flutningsmenn tillögunnar.

Reykjavík, 05. ágúst 2010.
Hæstvirtur forseti Alþingis og háttvirtir Alþingismenn,
Þann 14. júní síðastliðinn lögðu þingmenn úr öllum þingflokkum, nema þingflokki Samfylkingarinnar, fram þingsályktunartillögu þess efnis að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði afturkölluð. Við í Ísafold styðjum þingflokkstillöguna af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna sívaxandi óánægju í samfélaginu með aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og hinsvegar vegna gjörbreyttra aðstæðna í sambandinu sjálfu, en efnahagur fjölmargra ríkja þar innan riðar til falls og margir af helstu fjármálasérfræðingum heimsins telja að gjaldmiðill sambandsins eigi stutt eftir lifað. Ein af forsendunum sem leiddu til að aðildarumsóknar Íslands að ESB fékk nauman meirihluta á þingi,var sú að Evrópusambandsaðild og upptaka evrunnar myndu flýta fyrir efnahagsbata hins íslenska hagkerfis. Líkt og að ofan greinir eru þessar forsendur meirihlutans brostnar.
Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að um 60% íslenskra kjósenda vilji séu andvígir inngöngu Íslands inn í Evrópusambandinu. Þessar niðurstöður endurspegla vaxandi ónægju íslensku þjóðarinnar með aðildarumsóknina. Má þá helst nefna landsfund Sjálfstæðisflokksins sem nýlega var haldinn, en þar var samþykkt, með yfirgnæfandi meirihluta, skýr ályktun þess efnis að aðildarumsókn Íslands að ESB skuli dregin til baka án tafar. Ofan á þessa óánægju með aðildarumsóknina bætist sú háværa krafa sem heyrst hefur í íslensku samfélagi, á síðustu misserum, um að beint lýðræði verði aukið til muna og lykilmál er varða veigamikla þjóðarhagsmuni séu sett í þjóðaratkvæðagreiðslur.
Upp á síðkastið hafa öll ráðuneyti landsins og allar undirstofnanir þeirra, leynt og ljóst unnið að því að straumlínulaga stjórnsýslu landsins til þess að undirbúa hana fyrir Evrópusambandsaðild. Þetta ferli, sem gjarnan er kallað aðlögunarferli, fór hér áður fyrr fram einungis eftir að aðildarviðræðum var lokið og umsóknarríkið hafði undirritað aðildarsamning sinn að Evrópusambandinu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, en í dag fer þetta ferli fram samhliða hinum eiginlegu aðildarviðræðum Hvað varanlegar undanþágur frá grunnstoðum Evrópusambandsins varðar, þá eru engar slíkar undanþágur í boði. Vissulega hafa sum aðildarríki Evrópusambandsins fengið tímabundnar undanþágur í vissum málaflokkum, en slíkar undanþágur myndu aldrei fullkomlega tryggja yfirráð Íslands yfir náttúruauðlindum á borð fiskimið, jarðvarma og olíu.
Í ljósi þeirra ástæðna sem greint er frá að ofan, hvetjum við ykkur til þess að samþykkja fyrrgreinda þingsályktunartillögu, draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka og endurnýja lýðræðislegt umboð ykkar til þess að sækja um aðild að fyrrnefndu sambandi með því að gefa þjóðinni tækifæri til þess að kjósa, í þjóðaratkvæðagreiðslu, um hvort réttast sé að sækja á ný um aðild að Evrópusambandinu.
Virðingarfyllst,
Stjórn Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB aðild

ESB óttast að Íslendingar fari að dæmi Norðmanna

Fréttavefur Morgunblaðsins fjallar um það í dag að ráðamenn Evrópusambandsins hafi af því vaxandi áhyggjur að Íslendingar fari að dæmi Norðmanna og hafni því að ganga í sambandið. Smám saman hafa þeir verið að átta sig á því að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur teymt þá á asnaeyrunum og sagt þeim ósatt um afstöðu þjóðarinnar og stuðning ríkisstjórnarinnar við málið. Þeir kunna honum vafalaust litlar þakkir fyrir.

Norðmenn hafa tvisvar hafnað inngöngu í ESB í þjóðaratkvæði, fyrst árið 1972 og síðan 1994. Norðmenn fóru hins vegar í raunverulegar aðildarviðræður við sambandið. Þeir sendu inn umsókn og einfaldar viðræður um inngöngu í ESB hófust. Ekki var hins vegar gert ráð fyrir aðlögun að stofnanakerfi og regluverki sambandsins fyrr en Norðmenn hefðu formlega samþykkt að ganga þar inn.

Reglunum var hins vegar breytt af ESB árið 1995. Þá var gert ráð fyrir því að aðlögunin færi fram samhliða viðræðunum. Íslendingar eru í þessu ferli núna. M.ö.o. er ekki um að ræða sama ferli og Norðmenn fóru í á sínum tíma.

Heimild:
Gætu „tekið Noreg á þetta” (Mbl.is 10/08/10)

 

ESB skiptir sér af veiðum Íslendinga í eigin lögsögu

Evrópusambandið hefur hótað Íslendingum og Færeyingum að sambandið muni íhuga allar leiðir til þess að koma í veg fyrir að þjóðirnar tvær haldi áfram að veiða makríl í eigin lögsögum. ESB telur sig eiga makrílinn og viðurkennir ekki að hann finnist í íslenskri eða færeyskri lögsögu en þangað hefur hann leitað í miklum mæli að undanförnu vegna að hafið hefur hlýnað á þeim slóðum.

Íslendingar hafa óskað eftir því ítrekað á liðnum árum að semja um makrílveiðar við ESB og Norðmenn en verið neitað. Nú sjá þessir aðilar vafalaust eftir því að hafa ekki samið um veiðarnar við Íslendinga. Ef Ísland hefði verið innan sambandsins er ljóst að við hefðum ekki getað nálgast þetta mál með sjálfstæðum hætti með okkar eigin hagsmuni að leiðarljósi. Þá hefði ESB einfaldlega ákveðið hvernig haldið yrði á þessum málum enda valdið þar með hjá sambandinu til þess.

Fyrir utan makrílinn hefur ESB eins og þekkt er fett fingur út í hvalveiðar Íslendinga. Ísland er ekki enn gengið í sambandið, og mun vafalaust aldrei gera það, en það telur sér engu að síður þegar umkomið að reyna að ráðskast með fiskveiðar Íslendinga í eigin lögsögu.

 

Engin breyting á stefnu LÍÚ í Evrópumálum

Formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), Adolf Guðmundsson, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann áréttar að engin stefnubreyting hafi orðið á afstöðu LÍÚ eða hans sjálfs til inngöngu í Evrópusambandið. Hann sé á móti inngöngu, telur engar líkur á að hægt yrði að ná viðunandi samningum um inngöngu í sambandið og að best væri ef umsóknin um inngöngu yrði dregin til baka.

Evrópusambandssinnar töldu aldeilis hafa hlaupið á snærið hjá þeim þegar Ríkisútvarpið matreiddi frétt á dögunum þar sem því var haldið fram að Adolf vildi ekki draga umsókina um inngöngu í ESB til baka og vildi þess í stað klára aðlögunarferlið og reyna að ná sem bestum samningum við sambandið. Adolf sagði hins vegar að ef umsóknin yrði ekki dregin til baka yrði að reyna að ná sem bestum samningum. 

Heimild:
Formaður LÍÚ: Ummæli slitin úr samheng (Mbl.is 06/08/10)