,,Stofnanir okkar verða styrktar með fjárhagslegum stuðningi ESB”

Með fjárhagslegum og tæknilegum stuðningi og samvinnu á grundvelli stuðningsáætlunar ESB við umsóknarríki munu stofnanir okkar verða styrktar enn frekar (16. liður að hluta).

Ríkisstjórn Íslands fellst á að regluverk ESB, eins og það er við aðild, myndi grundvöll aðildarviðræðnanna (17. liður að hluta).

Helstu markmið sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB eru í fullu samræmi við okkar markmið. Ísland hefur skilning á þörfinni fyrir sameiginlega sjávarútvegsstefnu í Evrópu og ekki þarf að líta nema einu sinni á Evrópukortið til að sjá að slík stefna er nauðsynleg. (28. liður).

Ofangreint er hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands til ESB sem lögð var fram á ríkjaráðstefnu ESB 27. júlí 2010. Þessi yfirlýsing hljómar sem hljómfögur sinfónía í eyrum kommissaranna í Brussel.

Hér játast Ísland undir regluverk ESB, tekur við fjárhagslegum stuðningi ESB til að styrkja stjórnsýsluna hér á landi enn frekar og samþykkir að sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB (sem vel að merkja er hluti af regluverki ESB) sé í ,,fullu samræmi við markmið” ríkisstjórnar Íslands.

Vissulega er að finna í yfirlýsingunni einnig marklaust orðagjálfur sem hljómar sem óþægilegt suð í eyrum kommissaranna í Brussel. Engan samhljóm er þar að finna við hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB (CFP). Íslensku samninganefndinni verður þess vegna fljótt bent á það í fullri vinsemd að hætta þeim söng enda slegin þar feilnóta í samrunaferli Íslands við ESB. Þá hlýtur slíkur söngur að vera falskur enda hefur ríkisstjórnin samþykkt regluverk ESB í grundvallaratriðum í orði. Með aðildarsamningi mun Ísland að gera það líka á borði.

Allt tal um að ESB ríkin 27 muni aðlaga sjávarútvegsstefnu sambandsins að þeirri íslensku minnir óþægilega á aðferðafræði aðildarsinna í Bretlandi til að fá hagsmunaaðila í sjávarútvegi til að fallast á aðild Bretlands að ESB á sínum tíma. Í hvítbók þáverandi ríkisstjórnar, sem dreift var inn á hvert heimili á Bretlandseyjum, kom m.a. fram: ,,ESB (Community) hefur gert sér grein fyrir þörfinni að breyta sjávarútvegsstefnu sinni”. Hlljómar þetta eitthvað kunnuglega? Þegar Bretland hafði síðan gerst aðili þá náðist að sjálfsögðu ekkert samkomulag um neinar grundvallarbreytingar. Rétt er að minna á að þetta var fyrir um 40 árum síðan. Afleiðingarnar fyrir sjávarútveg í Skotlandi voru hrikalegar (sjá tengda grein hér að neðan). 

Samtakamátturinn er okkar styrkur

Félagar í Heimssýn eru nú að nálgast 4000 og fer ört fjölgandi. Á sama tíma og Evrópu­sambandið sjálft og stjórnvöld leggja stórar upphæðir í kynningu og áróður fyrir ESB aðild Íslands er okkar styrkur samtakamáttur almennings.

Heimssýn eru þverpólitísk samtök og í stjórn þeirra hafa frá upphafi setið fulltrúar allra stjórnmálaflokka auk manna sem eru utan flokka. Samtökin voru stofnuð 2002 og hafa frá þeim tíma haldið tugi opinna funda á hverju ári, haldið úti heimasíðum og fengið til landsins erlenda gesti.

Samtökin hafa byggt fjárhag sinn á framlögum frá einstaklingum og öðrum lögaðilum. Starf samtakanna er að stærstum rekið í sjálf­boðavinnu og gætt er fyllsta aðhalds í rekstri.

Í fjáröflun okkar munar um hverja krónu sem félagar geta látið af hendi rakna. Tekið er við fjárframlögum á reikning félagsins:

Kt. 680602­5810, banki: 0101, höfuðbók 26, reikningur 5810

Þeir sem óska eftir að fá sendan reikning eða að setja fast framlag inn á greiðslukort geta haft
samband við gjaldkera í síma 897 3374.

Við trúum ekki ríkisstjórninni

Ríkisstjórnin hyggst aðeins efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um væntanlegan aðildarsamning.

Í skýringu ríkisstjórnarmeirihlutans í utanríksmálanefndi segir ,,Meiri hlutinn telur rétt að benda á að þó að þjóðaratkvæðagreiðsla af þessu tagi væri eingöngu leiðbeinandi er vandséð að farið yrði á móti skýrum vilja þjóðarinnar.”

Ríkisstjórnin heldur umboðslaus áfram að semja um aðlögun Íslands að ESB og ætlast til að við trúum því að hún muni fara aftir niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Umsóknin afturkölluð eða þjóðaratkvæði um framhaldið

Fyrir alþingi liggur þingsálytunartillaga um að draga strax til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Tilagan er borin fram af þingmönnum úr öllum flokkum utan Samfylkingar. Þau Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Gunnar Bragi Sveinsson og Birgitta Jónsdóttir bera fram tillöguna og benda þar á forsendubrest miðað við þá umsókn sem lögð var fram í fyrrasumar.

Þá hafa Framsóknarþingmennirnir Höskuldur Þórhallsson og Vigdís Hauksdóttir boðað að þau muni á næstunni flytja tillögu um að áframhald viðræðna verði háð samþykki þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu sem yrði samhliða kjöri til stjórnlagaþings.

Steingrímur J. þvær hendur sínar af umsókninni

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG sagði skýrt og skorinort á blaðamannafundi 24. ágúst að umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu væri ekki á vegum ríkisstjórnarinnar. „Það er ekki þannig að það sé stefna þessarar ríkisstjórnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þaðan af síður að ganga í Evrópusambandið.“

Af orðum formmanns annars stjórnar­flokksins má ráða að aðeins hluti af ríkisvaldinu, þ.e. sá hluti sem er á forræði Samfylkingar, standi að baki umsóknarinnar um aðild. Ætli þeir í Brussel viti af þessu?

Aðlögun leiðir til innlimunar

Aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að kröfum Evrópusambandsins mun leiða til innlimunar Íslands án þess að þjóðin fá rönd við reist. Ráð­gefandi þjóðaratkvæðagreiðsla í lok aðlögunar, eftir 3 til ­5 ár, er markleysa þar sem Ísland væri í reynd orðið hluti af Evrópusambandinu. Aðeins ein leið er inn Evrópusambandið og það er leið aðlögunar.

Í útgáfu Evrópusambandsins stendur skýr­um stöfum:

,,Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika að orðið ,,samningaviðræður” getur verið villandi. Aðlögunarviðræður eru með áherslu á skilyrði ESB og tímasetningar á þvi að umsóknarríki taki upp, innleiði og framkvæmi ESB­reglur, um 90 þúsund blaðsiður. Þessar reglur (kallaðar ,,acquis” sem er franska og þýðir það sem hefur verið samþykkt) eru ekki umsemjanlegar. Hvað umsóknarríki varðar er kjarni málsins hvernig og hvenær það aðlagar sig reglum og ferlum ESB. Hvað ESB varðar er mikilvægt að fá tryggingar fyrir tímasettri og skilvirkri aðlögun umsóknarríkis.”

(Enlargement, The European Union’s enlargement policy /European Commission, Directorate
General for Enlargement, 2007, bls. 9)

Alþingi gaf ríkisstjórninni ekki umboð til að fara í aðlögunarviðræður. Þingsályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu var eftirfarandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.”

Hvergi í greinargerð er getið um að aðlögun að regluverki ESB sé hluti af viðræðuferlinu. Þar af leiðir að ríkisstjórnin er umboðslaus.

“alveg hægt” að ganga úr ESB

Í Fréttablaðinu 28. september er fréttaviðtal við Dr. Magnús Bjarnason sem nýlega gaf út bók um kosti íslands á 21. öld. Fréttablaðið hefur það meðal annars eftir Dr. Magnúsi að það sé alveg hægt að ganga úr sambandinu og hann bætir við “það var neglt í Lissabon sáttmálanum skýrar en áður. Þar er gert ráð fyrir því að ef ríki fari úr því verði gerðir vinveittir samningar við það, ríkið fari ekki á kaldann klaka. Hins vegar sé ekki ljóst hvort hægt yrði að taka aftur upp óbreyttan EES saminginn”.
 
Dr. Magnús er ekki einn um að telja “alveg hægt” að ganga úr ESB. Á vef Samfylkingingarinnar er möguleikinn á úrsögn úr ESB afgreiddur með þessum skýringum:
“Engin ESB-þjóð hefur óskað eftir að segja sig úr ESB – nema Grænlendingar sem gengu úr ESB árið 1985. Þeir njóta þó óbeinna ávinninga af aðild – þar með af tengingu við evruna – með ríkjasambandi sínu við Danmörku. Úrsögn Grænlendinga var vandalaus á sínum tíma. Ekkert formlegt úrsagnarákvæði er þó í samningum ESB, en slíkt ákvæði er að finna í Lissabonsamningnum frá 2007 sem enn bíður staðfestingar.
Ljóst er að úrsögn er engum pólitískum vandkvæðum háð – en það er athyglisvert að slíkur kostur er ekki ræddur í alvöru í neinu ESB-ríki, jafnvel ekki Bretlandi þar sem aðildin hefur verið hvað umdeildust.”
Jú það er rétt að Grænlendingar gengu úr ESB árið 1985. En samt skrýtið og í raun villandi að taka Grænland sem fordæmi um úrsögn Íslands þar sem Grænland er hluti af Danaveldi en ekki sjálfstætt og fullvalda ríki eins og Ísland. Grænlendingar eru ennþá ESB borgarar því þeir eru þegnar Danmörku. Í lögum ESB er gert ráð fyrir því að nýlendur eins og Grænland séu með nokkurs konar óbeina aðild gegnum nýlenduveldið sem annast megnið af viðskiptum nýlendunnar við ESB og umheiminn. Stærstur hluti inn- og útflutnings Grænlands er einmitt við Danmörku. 
Samfylkingin lýsir ekki úrsagnarferlinu nánar og hefur ekki áhyggjur af “pólitískum vandkvæðum” við úrsögn. En hvað þá með augljós efnahagsleg og lagaleg vandkvæði? Þau eru fjölmörg og sem dæmi væri ekki hægt að afturkalla breytt eignarhald á útvegsfyrirtækjum, jörðum og fleira í þeim dúr. Úrsögn myndi breyta viðskiptaumhverfi útfluningsfyrirtækja og kalla á kostnaðarsama aðlögun að breyttum aðstæðum.
Það að “úrsögn sé ekki á dagskrá hjá neinu ESB ríki” telst varla rök með því að úrsögn úr ESB sé auðveld. Það gæti miklu frekar verið vísbending um að úrsögn úr ESB sé í raun svo erfið að aðildarríki kjósi frekar að bera harm sinn í hljóði og þrauka.
 
Í 50. grein Lissabon sáttmálanans er vissulega fjallað um úrsögn úr sambandinu en ekkert sagt um hvernig samning ríkið fær í staðinn. Aðildarríki geta sagt sig úr ESB með tveggja ára fyrirvara. Þá taka við samningar við úrsagnarríkið og vísað í grein 218(3) en þar er bara fjallað almennt um samngingagerð ESB við ríki utan sambandsins. Dr. Magnús kýs að kalla þetta “vinveitta samninga” en í grein 218(3) er bara fjallað um að gæta skuli hagsmuni ESB við gerð milliríkjasamninga. 
 
Í samningum við úrsagnarríki felast hagsmunir ESB meðal annars í því að hagur úrsagnarríkisins batni ekki frá því sem var. Ef hagur þess yrði áberandi betri við úrsögn myndi aðildarríkjum ESB væntanlega fækka með undraskjótum hætti. Þetta hlýtur að vera augljóst.
 
Einnig er rétt að minna á að við inngöngu í ESB falla milliríkjasamningar Íslands úr gildi enda yrðum við þá aðilar að þeim milliríkjasamningum sem ESB hefur gert. Þegar milliríkjasamningar eru einu sinni felldir úr gildi verða þeir ekki endurvaktir við það eitt að ganga aftur úr ESB. 
 
Það getur tekið áratugi að byggja upp sambærilega milliríkjasamninga og á meðan myndi Ísland fara á mis við þann ávinning sem núverandi samningar hafa fært okkur. Aðild að EES samningnum er ekki sjálfkrafa í boði ef við göngum úr ESB.
Svo má líka benda á að við úrsögn úr ESB gæti Ísland ekki lengur verið fullgildur aðili að myntsamstarfi ESB. Ísland myndi þurfa að gefa út eigin gjaldmiðil sem væri þó mikið hættuspil nema efnahagur landsins væri talinn gríðarlega traustur á því augnabliki. Ef minnsti grunur væri á gengisfellingu nýja miðilsins myndi úrsögn leiða til stórfellds fjármagnsflótta frá landinu.
 
Af þessari upptalningu má vera ljóst að það er miklu auðveldara að ganga í ESB en að ganga úr því og eftir að evra hefur verið tekin upp sem gjaldmiðill myndi úrsögn úr ESB verða gríðarlegt hættuspil. Aðildarríki gera sér líklega grein fyrir þessum staðreyndum og láta sig því ekki dreyma um úrsögn hversu illa sem þeim kann að líka vistin í sambandinu.
 
Innganga í ESB verður vart aftur tekin. 
 

Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram viðræðuferlinu við ESB?

Vigdís Hauksdóttir og Höskuldur Þórhallsson, þingmenn Framsóknarflokksins, ætla ásamt fleiri þingmönnum að leggja fram tillögu til þingsályktunar í upphafi haustþings um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda eigi áfram viðræðuferli Íslands við Evrópusambandið. Atkvæðagreiðslan yrði þá haldin samhliða kosningum til stjórnlagaþings þann 27. nóvember 2010.

Þetta kemur fram að grein Vigdísar og Höskuldar í Morgunblaðinu í dag – ,,Þjóðarvilji og Evrópusambandið”. Þingmennirnir segja að þingsályktunartillagan sé sáttatilraun og að hún sé lögð fram á grunni sanngirnissjónarmiða. Þar vísa þau m.a. til annars vegar að kostnaðurinn við aðlögunarferlið að ESB hlaupi á hundruðum milljóna og hins vegar að fyrir Alþingi liggi þingsályktunartillaga Unnar Brá Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og fleiri um að draga umsóknina að Evrópusambandinu til baka. /JBL

Rétt innleiðing ræður hraða samningaviðræðna

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og sá ráðherra sem fer með samningamál við ESB, heldur því fram að engin aðlögun, öðru orði innleiðing, að regluverki ESB eigi að hefjast fyrr en samningaviðræðum sé lokið og þjóðin hefur samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að Ísland verði hluti af Evrópusambandinu. Í ljósi þessa er merkilegt að lesa eftirfarandi í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem lögð var fyrir ríkjaráðstefnu ESB ríkjanna 27. júlí í sumar (undirstrikanir greinarhöfundar):

33. liður: Farið verður fram á það við Ísland að það tilgreini afstöðu sína með tilliti til regluverksins (regluverks ESB, innskot mitt) og geri grein fyrir því hve vel miði áfram við að uppfylla viðmiðanirnar. Rétt innleiðing Íslands á regluverkinu og framkvæmd þess, þ.m.t. árangursrík og skilvirk beiting af hálfu viðeigandi stofnana á sviði stjórnsýslu og dómsmála, mun ákvarða hversu hratt samningaviðræður ganga fyrir sig.

Miðað við yfirlýsingu Össurar þá mun hraði samningaviðræðnanna við ESB ganga ansi hægt fyrir sig, sennilega vera í kyrrstöðu þar sem engin aðlögun verður í gangi á samningstímanum. Það er þetta með eggið og hænuna. Þetta sýnir svart á hvítu nauðsyn þess að best er að draga umsóknina um aðild til baka án tafar. Svona handabakavinnubrögð eru landi og þjóð til skammar.

Eða getur það virkilega verið að Össur sé svona illa lesinn að hann hafi ekki lesið skýrsluna sem framkvæmdastjórn ESB lagði fyrir ríkjaráðstefnuna? Alla vega er ljóst að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lesið vel heima – því hann veit að aðlögun að regluverki ESB þarf að standa yfir á samningstímanum.

Annað er svo hvort við teljum slíka aðlögun eðlilega fyrr en þjóðin hefur fengið að kveða upp sinn dóm. En vandinn er bara sá að ESB býður ekki upp á annan kost þar sem sambandið gerir ráð fyrir að þeir sem sæki um aðild ætli og vilji ganga sambandinu á hönd. Og í þessu liggur hundurinn grafinn.

Sjá vefsíðu Jóns Baldurs.

Afstaða utanríkisráðherra á skjön við veruleikann

Aðildarviðræður við Evrópusambandið eru orðnar aðlögunarferli og bændur krefjast þess að staða landbúnaðar í aðildarviðræðum verði skýrð. Þetta kemur fram á forsíðu Bændablaðsins sem kom út í dag. Í fréttinni kemur fram að Bændasamtök Íslands hafi sent utanríkisráðherra og utanríkismálanefnd Alþingis bréf ,,þar sem þess er krafist að staða landbúnaðar í samningaferlinu við ESB verði skýrð”. Þar segir einnig: ,,Ef fram fer sem horfir verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild marklaus enda verði búið að innleiða regluverk Evrópusambandsins hér á landi áður en til hennar kemur”.

Haft er eftir Haraldi Benediktssyni, formanni Bændasamtakanna, að samningsferlið feli í sér aðlögun að reglum ESB og að aðlögun að stjórnkerfi ESB sé þegar hafin í ýmsum málaflokkum. Slíkt sé í fullri andstöðu við það sem sagt var þegar umsókn Íslands um aðild var send. Formaður Bændasamtakanna segir að ,,við bændur krefjumst þess því að tekin verði af öll tvímæli um þessi mál.”