Lissabon sáttmálinn: Stórminnkuð áhrif smáríkja

picture_38.png

Því hefur verið haldið á lofti sem kosti að smáríki hafi hlutfallslega meiri áhrif innan ESB en ef eingöngu væri miðað við íbúafjölda. Þegar Lissabon sáttmálinn, hin nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins, tók gildi 1. desember árið 2009 varð ljóst að áhrif fámennari aðildarríkja Evrópusambandsins myndu skerðast verulega.
Neitunarvald fellt niður á fjölmörgum sviðum
Neitunarvald er eitt sterkasta tækið sem smáþjóð getur beitt til að fá sitt fram eða standa gegn ákvörðunum sem varða hagsmuni þess. Tilvist neitunarvalds knýr aðila til að komast að samkomulagi. Með gildistöku Lissabon sáttmálans féll neitunarvald niður á 68 sviðum. Í stað þess að allir þurfi að vera samþykkir mun meirihluti duga til ákvörðunar og þar ræðst atkvæðamagn af fjölda íbúa. Þegar neitunarvald er fellt niður bitnar það fyrst og fremst á áhrifum fámennra aðildarríkja ESB.

Atkvæðamagn í ráðherraráðinu skal framvegis miðast við mannfjölda
Með Lissabon breytist atkvæðavægi við ákvarðanatöku stórveldum í hag. Sem dæmi: áður  hafði Írland 7 atkvæði í ráðherraráðinu (2,0%) en Þýskaland 29 atkvæði (8,4%). Frá og með 1. nóvember 2014 verður atkvæðamagn hins vegar miðað við mannfjölda og þá fær Írland 0,89% atkvæða en Þýskaland 16,41% atkvæða – Þetta þýðir að áhrif Þýskalands tvöfaldast en áhrif Írlands minnka um 60%.  Malta hafði áður 0,9% atkvæða en missir rúm 90% þeirra og fer í 0.08%

Hvernig gátu smáríkin fallist á Lissabon sáttmálann?
Niðurfelling neitunarvalds og breytt atkvæðamagn felur í sér stórkostlega rýrnun á áhrifum smáríkja innan ESB. Það er með algerum ólíkindum að smáríkin skyldu samþykkja sáttmála sem skerti áhrif þeirra svona gríðarlega. Hvað voru þau eiginlega að hugsa? Hvers vegna fór Lissabon sáttmálinn ekki í þjóðaratkvæði neins staðar nema á Írlandi fyrst hann breytti svona miklu?

Frekari skerðing í kortunum
Því miður er full ástæða til að óttast að áhrif smáríkja skerðist enn frekar í framtíðinni án þess að til þjóðaratkvæðagreiðslna komi. Ennþá hafa smáríkin 1 fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB, eins og stóru ríkin.  Það stóð reyndar til að fækka fulltrúum úr 27 í 20 með Lissabon sáttmálanum en Írar felldu hann í þjóðaratkvæði og þá var hætt við að fækka fulltrúum. Hins vegar varð sú breyting að í stað þess að hvert land geti tilnefnt einn fulltrúa í framkvæmdastjórnina munu þau aðeins gert “tillögu” að fulltrúa en framkvæmdastjórnin sjálf mun eiga lokaorðið um hverjir veljast í hana. Þannig er nú það.

Ísland yrði áhrifaminnsta aðildarríkið
Hvað sem minnkandi vægi smáríkja líður þá yrði Ísland lang-áhrifaminnsta aðildarríkið. Íbúafjöldi gefur Íslandi aðeins 0.062% atkvæðamagns í ESB.  Íbúar ESB eru líka 1.607 sinnum fleiri en Íslendingar og einnig má nefna að meðalríki í ESB er 60 sinnum fjölmennari en Ísland. Ísland yrði sannkallað dverg-aðildarríki og með áhrif í samræmi við það.

Evrópusambandið hefur verið í sífelldri þróun frá upphafi og líklegast er að hún haldi áfram. Eitt af meginmarkmiðum ESB er sífellt nánari samruni aðildarríkja. Lissabon sáttmálinn fól í sér nánari samruna á fleiri sviðum en líka stórfellda rýrnun á áhrifum smærri aðildarríkja . Það er vissara að reikna með að næstu sáttmálar gangi lengra í sömu átt.

Niðurstaðan er sú að sem aðili að ESB myndi Ísland ekki hafa nein teljandi áhrif og erfitt að ímynda sér að afstaða Íslands myndi skipta úrslitum í nokkru máli.  Önnur aðildarríki munu því varla sjá sér mikinn ávinning í því að tryggja sér stuðning okkar og við getum því ekki vænst sérstaks stuðnings frá þeim. Hagsmunir hinna stóru munu ráða för.

Ef við göngum í ESB verðum við að trúa því að okkar hagsmunir muni alltaf fara saman við hagsmuni hinna stóru því innan ESB munum við ekki hafa áhrif, hvorki til að stöðva ákvarðanir sem eru okkur í óhag né koma í gegn ákvörðunum sem verja hagsmuni Íslands sérstaklega. Er það óhætt?

Verður lýðræðið í pakkanum?

Þrátt fyrir að ESB sé samband lýðræðisríkja má sambandið þola vaxandi gagnrýni fyrir að vera sjálft ekki nógu lýðræðislegt. Talað er um að sambandið þjáist af verulegum lýðræðishalla og almennir kjósendur hafi sáralítil áhrif á stefnu þess.

Kjarni lýðræðisins er sá að kjósendur hafi síðasta orðið um stjórnun og lög ríkisins. Kjósendur taki þátt í kosningum, kjósi nýjan meirihluta sem myndar nýja ríkisstjórn og semur ný lög. Þennan kjarna lýðræðisins virðist vanta í stjórnun og lagasetningu Evrópusambandsins.

 

 

Þótt Evrópubúar kjósi til Evrópuþings á fimm ára fresti, þá er það ekki þingið sem setur lögin. Það er framkvæmdastjórn ESB sem hefur frumkvæðisrétt að lagasetningu og semur öll lög sambandsins en sú framkvæmdastjórn er ekki lýðræðislega kjörin. Evrópuþingið sem er kosið í almennum kosningum hefur ekki vald til að semja lög þótt það geti gert athugasemdir við löggjöf framkvæmdastjórnarinnar eða neitað að samþykkja þau.

Framkvæmdastjórnin hefur í raun öll tögl og haldir í rekstri og mótun Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin er skipuð 27 fulltrúum og tilnefnir hvert aðildarríki einn þeirra. Fulltrúarnir skipta með sér málaflokkum líkt og ráðherrar í ríkisstjórn. Forseti framkvæmdastjórnar er síðan valinn af leiðtogaráðinu en í því sitja forsætisráðherrar aðildarríkjanna. Forseti framkvæmdastjórnarinnar er í raun leiðtogi Evrópusambandsins. Núverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar er José Barroso en hann tók fyrst við því hlutverki árið 2004.

Það er ljóst að almennir kjósendur hafa ekki neitt um það að segja hverjir eru valdir í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Kjósendur geta því ekki veitt framkvæmdastjórninni það aðhald sem þykir sjálfsagt í lýðræðisríkjum. Kannski er þessi staðreynd ástæðan fyrir síminnkandi þátttöku almennings í kosningum til Evrópuþingsins. Í fyrstu kosningunum árið 1979 tóku 63% þátt en árið 2009 var þátttaka komin niður í 43%.

Þar sem lýðræðislegt aðhald skortir er talsverð hætta á að framkvæmdavaldið fari sínar eigin leiðir og missi jarðsamband við kjósendur. Þetta gæti verið að gerast í Evrópusambandinu. Skoðanakannanir benda til þess að almenningur í aðildarríkjum vilji ekki færa frekari völd til Brussel. Á sama tíma vinnur ESB að sífellt meiri samruna og miðstýringu.  Gjá milli fólksins og leiðtoganna?

Tilburðir ESB til að innleiða nýja stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið geta vart talist lýðræðislegir. Stjórnarskránni var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi árið 2005 og var þá dregin til baka. Tveimur árum síðar var Lissabon sáttmálinn tilbúinn en hann fól í sér 95% af efni stjórnarskrárinnar. Í þetta sinn ákvað ESB að hafa ekki þjóðaratkvæðagreiðslur og þess í stað myndu þjóðþingin fjalla um hann. Á sama tíma sýndu skoðanakannanir að kjósendur vildu fá sáttmálann í þjóðaratkvæði.

Aðeins á Írlandi var Lissabon sáttmálinn settur í þjóðaratkvæði og var honum hafnað.  ESB lét það ekki á sig fá og boðaði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu rúmu ári síðar um lítið breyttan sáttmála. Þá var Írska þjóðin í áfalli eftir efnahagshrun og var ekki í aðstöðu til að standa gegn vilja ESB.

Nú hefur Ísland sótt um aðild að ESB og margir bíða spenntir eftir því að kíkja í pakkann og sjá hvaða undanþágur Ísland fái frá reglum sambandsins. Það má vel vera að Ísland fái allar þær undanþágur sem talsmenn aðildar hafa gert sér vonir um.

En eitt mun pakkinn ekki innihalda og það er lýðræðislegt Evrópusamband.

Hvernig getur umræða um aðild að Evrópusambandinu orðið hreinskilin og opinská?

Atli Harðarson

Hér á landi snýst umræða um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu fyrst og fremst um efnahagsmál. Sem dæmi um algeng stef í þessari umræðu má nefna að talsmenn aðildar láta oft og einatt að því liggja að með inngöngu í Sambandið megi losna við vandamál sem fylgja hagsveiflum og smáum gjaldmiðli og andstæðingar aðildar segja að þegar inn sé komið geti reynst erfitt að verja fiskimiðin gegn ásælni erlendra fyrirtækja.

Vel má vera að hvorir tveggju hafi nokkuð til síns máls. En mig grunar samt að stór hluti af því sem sagt er um áhrif aðildar á efnahaginn sé ýkjur og tel að sá grunur minn styðjist við þokkaleg rök því hingað til hefur hagur ríkja sem stóðu vestan við Járntjaldið, meðan það var og hét, yfirleitt ekki breyst að ráði við inngöngu í Sambandið.

Á vef OECD (www.oecd.org) eru töflur um hagvöxt í aðildarríkjum frá og með árinu 1971 til og með 2008. Þessi gögn benda ekki til að þau níu OECD ríki sem gengu í Evrópusambandið frá stofnun þess og fram að lokum síðustu aldar hafi að jafnaði haft af því mikinn efnahagslegan ávinning.

 

Tafla 1

 

Innganga í Sambandið (þ.e. EB fyrir 1992 eða ES eftir 1992).[1]

Árlegur hagvöxtur að meðaltali frá og með 1971 fram að inngönguári.

Árlegur hagvöxtur að meðaltali frá og með inngönguári til og með 2008.

Bretland

1973

2,9%

2,4%

Danmörk

1973

3,6%

2,0%

Írland

1973

5,0%

5,0%

Grikkland

1981

4,7%

2,2%

Portúgal

1986

3,5%

2,8%

Spánn

1986

2,9%

3,3%

Austurríki

1995

2,8%

2,5%

Finnland

1995

2,5%

3,6%

Svíþjóð

1995

1,7%

2,9%

Meðaltal

 

3,3%

3,0%

 

Af þessum níu ríkum bjuggu fimm við meiri hagvöxt frá 1971 fram að inngöngu en eftir inngöngu. Að vísu má efast um að tölur fyrir Bretland, Danmörku og Írland séu mikið að marka því í tilvikum þeirra eru aðeins skoðuð tvö ár fyrir inngöngu.

Í hinum ríkjunum sex (Grikklandi, Portúgal, Spáni, Austurríki, Finnlandi og Svíþjóð) var hagvöxtur meiri eftir inngöngu í þremur en minni í þremur.

Sé meðaltal tekið af hagvexti ríkjanna er útkoman heldur betri fyrir inngöngu en eftir (hvort sem Bretland, Danmörk og Írland eru talin með eða ekki). Ef innganga í sambandið væri slík allsherjarlausn á efnahagslegum vandmálum, sem Sambandssinnar láta oft í veðri vaka, hlyti það þá ekki að birtast í auknum hagvexti eftir inngöngu?

Þessar tölur sanna svo sem ekkert um efnahagslegan ávinning eða tap Íslendinga af inngöngu í Evrópusambandið. En þær gefa tilefni til að efast um réttmæti fullyrðinga um að innganga í það hafi almennt og yfirleitt mjög afgerandi áhrif á efnahag þjóða. Þar sem var fátækt fyrir inngöngu er víða sama baslið og þar sem var ríkidæmi fyrir eru menn enn að mata krókinn. Fullyrðingar um að allt það besta sem finnst í löndum Sambandsins verið sjálfkrafa hlutskipti okkar við inngöngu eru í besta falli barnaskapur.

Frá því evran var tekin upp árið 2002 hefur Evrusvæðið raunar búið við fremur lítinn hagvöxt miðað við önnur OECD ríki, og minni en árin fyrir upptöku evru, eins og tafla 2 sýnir. (Tölurnar í henni eru, eins og tölurnar í töflu 1, sóttar af vef OECD, www.oecd.org.) Hugmyndir um að sameiginlegur gjaldmiðill sé til mikilla hagsbóta eru því ósennilegar.

 

Tafla 2

 

Árlegur hagvöxtur að meðaltali frá og með 1996 til og með 2001.

Árlegur hagvöxtur að meðaltali frá upptöku evru árið 2002 til og með 2008.

Evrusvæðið

2,6%

1,7%

Bandaríkin

3,8%

2,3%

Meðaltal allra ríkja í OECD

3,1%

2,3%

Ísland

4,7%

4,0%

 

Ef til vill þarf ekki að grafa upp tölur um hagvöxt og leggjast í útreikninga til að sjá og skilja að umræða um efnahagsleg áhrif af inngöngu í Evrópusambandið einkennist af innihaldslitlum stóryrðum. Málflutningurinn dæmir sig stundum sjálfur eins og til dæmis þegar því er haldið fram að verðbætur sem íslenskir lántakendur greiða séu tap sem þeir mundu algerlega sleppa við ef landið gengi í Sambandið.

Til að átta okkur á hvað þetta er hæpin hugsun skulum við einfalda málið og ímynda okkur að hér á landi rýrni krónan þannig að það sem kostar 100 krónur í dag kosti 110 krónur að ári liðnu. Íslendingur, sem fær lánað seðlabúnt með 100 seðlum og skilar ári seinna búnti með 110 eins seðlum, skilar jafnmiklu fé og hann fékk. Seðlarnir 10 sem bættust við eru ekki tjón fyrir lántakandann. Hafi kjör hans ekki rýrnað á árinu er hann jafn lengi að vinna fyrir 110 seðlum og hann var að vinna fyrir 100 seðlum þegar hann fékk lánið.

Þeir sem nú fá sömu upphæði í laun og þeir fengu áður en krónan snarlækkaði eiga auðvitað erfitt með að borga af háum lánum. En það er vegna þess að laun þeirra hafa í raun lækkað (miðað við fast gengi) og ef gengið hefði staðið í stað hefði launaupphæð þeirra vísast lækkað að meðaltali um svipað hlutfall og nemur rýrnun gjaldmiðilsins (a.m.k. ef þessi kreppa er raunveruleg kreppa en ekki tóm lygi). Í báðum tilvikum hefðu afborganir af lánum verið jafn erfiðar.

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um ýkjur í umræðunni um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Annað dæmi þessu skylt er þegar gert er ráð fyrir því að aðild að Sambandinu fylgi aðild að Myntbandalaginu. Samt liggur fyrir að þótt Íslendingar séu að öllum líkindum velkomnir í Evrópusambandið eru hverfandi líkur á að þeim takist að uppfylla skilyrði þess að taka upp evru í náinni framtíð. Valið stendur því ekki milli þess að vera fyrir utan og nota krónu eða vera fyrir innan og nota evru. Evrópusambandsaðild töfrar ekki fram hallalausan ríkisrekstur, lága verðbólgu og aðrar forsendur þess að komast inn í Myntbandalagið. Óbreytt staða gagnvart Sambandinu útilokar heldur ekki að tekinn sé upp annar gjaldmiðill en króna.

Enn eitt atriði sem vert er að nefna er að ansi margir sem ræða um gjaldmiðilsmál í tengslum við hugsanlega aðild að Evrópusambandinu tíunda annað hvort bara kosti þess að hafa eigin gjaldmiðil eða einungis galla þess að hafa sérstaka mynt fyrir svo lítið hagkerfi sem Ísland er. Fáir hirða um að stilla upp bæði kostunum og göllunum.

Ríki Evrópusambandsins glíma við hagstjórnarvanda rétt eins og ríkin utan þess og upptöku evru fylgja ekki bara kostir heldur líka gallar sem Grikkir og fleiri þjóðir fá nú að kenna á. Aðild að Sambandinu auðveldar lausn sumra mála sem varða hagstjórn en gerir torveldara að takast á við önnur. En þótt þetta liggi fyrir heldur umræðan hér áfram að vera ýkjukennd og einkennast af fullyrðingum um að efnahagsleg áhrif inngöngu séu mjög mikil og öll á einn veg.

Hver ætli sé megin ástæðan fyrir þessum ýkjukennda málflutningi? Af hverju hafa svo margir uppi stóryrði um þetta efni?

Ég held að ýkjurnar séu meðal annars vegna þess að það er búið að koma því inn í hausinn á fólki að rökræður um stjórnmál eigi að snúast um auðsæld og arðsemi. Það hefur um árbil þótt nánast hallærislegt að tala um pólitískar hugsjónir sem ekki er hægt að rökstyðja með því að þær auki hagvöxt eða stuðli að bættum efnahag. En þrátt fyrir þetta hafa raunverulegar ástæður flestra þeirra sem vilja annað hvort ganga í Sambandið eða standa utan þess trúlega ósköp lítil tengsl við efnahagsmál.

Trúin á samruna Evrópu er tilbrigði við gamalkunnugt stef sem hljómaði bæði á tímum Rómaveldis og miðaldakirkjunnar og svo aftur hjá róttæklingum og byltingarmönnum á nítjándu öld og fram eftir þeirri tuttugustu. Á ýmsum tímum hafa menn bundið vonir við skipulag, reglu og vald sem þeim hefur virst nógu öflugt og mikið til að jafna misfellur mannlífsins. En þessi trú er sjaldan orðuð með opinskáum hætti á okkar tímum því nú er í tísku að hafa asklok fyrir himin. Það þykir fínna að tala um peninga en pólitík. Þess vegna reyna þeir sem vilja ganga í Sambandið að verja málstað sinn með því að halda fram efnahagslegum ávinningi af inngöngu. Úr verður harla undarleg umræða þar sem raunverulegu ástæð­urnar eru ósagðar en reynt að skáka andmælendum með stórorðum, og oft mjög ósennilegum, yfirlýsingum um áhrif aðildar á afkomu landsmanna.

Ég held að umræða um Evrópusambandsmál haldi áfram að vera óttalegur vaðall meðan deilt er um hvort aðild töfri burt hagstjórnarvanda. Það þarf að ræða önnur rök með og á móti heldur en þau efnahagslegu. Ef vel á að vera þarf sú rökræða að horfa til miklu lengri tíma en líklegt er að núverandi kreppa standi og þeir sem taka þátt í henni að skýra vafningalaust frá raunverulegum ástæðum sínum.

Andstæðingar aðildar ættu að vera ófeimnari við að tala um fleira en yfirráð yfir náttúruauðlindum í hafinu. Þeir ættu að segja með opinskárri hætti hvað þeim býr í brjósti hvort sem það er tortryggni í garð stórra valdastofnana og gamalla stórvelda, ættjarðarást eða andúð á skrifræði. Eins ættu þeir sem vilja ganga í Sambandið að tala af meiri hreinskilni um löngun sína til aðildar að þessari stóru heild og hvernig hún tengist vonum þeirra um betri heim.

 
Ég held að rökræða um aðild að Evrópusambandinu verði ekki almennilega opinská og hreinskilin fyrr en þátttakendur svara því hvort þeir vildu heldur ganga þar inn eða standa áfram fyrir utan ef þeir teldu ljóst að efnahagslegur ávinningur og tap vægju salt þannig að aðild breytti engu um efnalega afkomu landsmanna.


[1] Efnahagsbandalag Evrópu (EBE) breyttist í Evrópusambandið (ES) með Maastricht sáttmálanum 1992.

Timamótafyrirlestur um evruna

Sænski hagfræðingurinn Stefan de Vylder ræddi framtíð evrunnar á opnum fundi Heimssýnar og Ísafoldar föstudaginn 20. ágúst í Öskju, nátturufræðihúsi Háskóla Íslands í Vatnsmýri. Fyrirlesturinn bókstaflega jarðaði röksemdir þeirra sem telja hag Íslands best borgið með evru sem gjaldmiðil.

Stefan de Vylder lauk doktorsprófi í hagfræði frá Viðskiptaháskólanum í Stokkhólmi  og hefur starfað við kennslu,  rannsóknir og ráðgjöf.

Hér eru slóðir á fyrirlesturinn annars vegar og umræður hins vegar.

http://vimeo.com/14385925

http://vimeo.com/14404787

 

Athugasemd frá Heimssýn vegna skoðanakönnunar fyrir samtökin Sterkara Ísland

Ljóst er að stuðningur við aðildarviðræður við Evrópusambandið hefur dregist verulega saman samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent gerði fyrir samtökin Sterkara Ísland og birt er í Fréttablaðinu í dag. Samkvæmt könnuninni er meirihluti andvígur aðildarviðræðum eða 45,5% á móti 38,8% sem eru þeim hlynnt.

Stuðningur við aðildarviðræður var síðast kannaður í nóvember 2009 af Háskólanum á Bifröst fyrir Stöð 2. Þá var stuðningur við þær um 50% en andstaðan 43%. Samkvæmt því er ljóst að stuðningurinn hefur dregist saman um rúm 11% frá því í nóvember á síðasta ári.

Skoðanakannanir undanfarinna ára hafa sýnt að gjörólíkar niðurstöður hafa fengist eftir því hvort spurt hefur verið um „aðildarviðræður“ eða „umsókn um aðild“. Stuðningur við það fyrrnefnda hefur ávallt mælst mun meiri þó hann hafi dregist saman með árunum.

Skýringin á þessum ólíku niðurstöðum er að öllum líkindum sú að margir hafi lagt þann skilning í hugtakið „aðildarviðræður“ að um könnunarviðræður væri að ræða án allra skuldbindinga með það að markmiði að „kíkja í pakkann“ eins og gjarnan var haldið fram að væri í boði.

Greinilegt er þó að fólk hefur smám saman áttað sig á því að slíkt sé ekki í boði og fyrir vikið hefur stuðningur við aðildarviðræður dregist saman. Nú er orðið ljóst að Ísland er í aðlögunarferli að ESB og því kemur ekki á óvart að meirihluti sé nú andvígur þeim.

Samtökin Sterkara Ísland kjósa hins vegar að bera skoðanakönnun sína nú saman við könnun sem MMR birti í byrjun júní s.l. þar sem spurt var hvort draga ætti „umsóknina“ um aðild að ESB til baka og segja að um sambærilega könnun sé að ræða.

Út úr þessu fá Sterkara Ísland að stuðningur við aðildarviðræður hafi aukist þó ljóst sé að engan veginn sé hægt að segja að um sambærilegar skoðanakannanir sé að ræða.

Það er miður að samtökin kjósi að varpa málinu fram með þessum hætti fyrst raunveruleikinn hentar þeim ekki. Slíkt er hvorki þeim né öðrum til framdráttar.