Ábati af ESB-aðild – kannski árið 2040

Nýbakaður doktor í Evrópufræðum, Magnús Bjarnason, segir að það taki allt að 20 ár að innganga í Evrópusambandið skili sér í aukinni þjóðarframleiðslu. Magnús segir að Ísland ætti að flýta sér hægt inn í Evrópusambandið.

Doktorsritgerð Magnúsar fjallar um kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Hann hefur staðfest að Íslendingar munu greiða með sér í Evrópusambandið, það er greiða meira í sjóði Evrópusambandsins en nemur fjárhæðum sem Ísland fær í styrki frá sambandinu.

Umfjöllun Evrópuvaktarinnar um sjónarmið Magnúsar.

Kastljósviðtal við Magnús Bjarnason.

 

Steingrímur J: Engin umsókn án þess að ætla inn

,,Varðandi samningsmarkmið og slíka hluti þá vil ég leggja áherslu á tvennt í því efni. Það fyrra er að samningssvigrúmið er svo lítið. Ég tel að það sé svolítið villandi að gera svona mikið úr því — eins og framsóknarmenn og samfylkingarmenn gera að mínu mati aðallega út úr vandræðum sínum því þeir verða eitthvað að gera mennirnir í þessu Evrópumáli. Það er bara eitthvað á sálinni — að það sé svo gríðarleg vinna að skilgreina samningsmarkmiðin af því að samningssvigrúmið er svo lítið. Þetta snýst um að ganga eða ganga ekki inn.

Hið síðara er að það er mikill misskilningur að menn geti farið í aðildarviðræður og samningaviðræður við Evrópusambandið bara í einhverju gríni án þess að hugur fylgi máli. Halda menn að Evrópusambandið taki vel á móti mönnum sem koma og segja í Brussel: „Við ætlum að fá ykkur til að semja við okkur um mögulega aðild okkar. Svo ætlum við að sjá hvað það er, hvort það er nógu gott.“ (Forseti hringir.) Nei, menn fara ekki í samningaviðræður við Evrópusambandið nema þeir ætli að ganga þar inn, að því auðvitað tilskildu að niðurstaðan verði þolanleg.”

– Steingrímur J. Sigfússon á alþingi árið 2005, sjá nánar hér. 

 

Aðildarviðræður Svíþjóðar og ESB voru ekki á jafnréttisgrundvelli

Göran von Sydow, sem starfar við sænska Evrópufræðasetrið, sagði á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem haldin var í síðustu viku um ,,Þjóðir Evrópusambandsins – Fullveldi, sjálfsmynd, stjórnmál og almenningsálit”, og greint er frá í Fréttablaðinu í dag, að aðildarviðræður Svíþjóðar og Evrópusambandsins hafi ekki beinlínis verið á jafnréttisgrundvelli. ,,Slíkar viðræður snúist um að utanaðkomandi ríki lagi sig á einhvern hátt að reglum sambandsins.” Þetta er áhugavert í ljósi fullyrðinga aðildarsinna um að Evrópusambandið muni aðlaga sig að íslensku sjávarútvegsstefnunni. /JBL

Getur þú bætt hag heimilisins með því að betla styrk frá sjálfum þér?

Hinn skeleggi bloggari Haraldur Hansson, og stjórnarmaður í Heimssýn, skrifar áhugaverðan pistil á vefsíðu sína í dag sem hefst á þeim orðum sem koma fram í fyrirsögn fréttarinnar. Þar fjallar Haraldur um gulrótina sem aðildarsinnar eru óþreyttir að veifa; styrkjunum sem Íslendingar geti fengið frá Evrópusambandinu ef Ísland gerist aðili. Hann skrifar m.a.:

Anna Margrét Guðjónsdóttir heitir varaþingmaður krata. Síðustu vikuna áður en hún vék af þingi fyrir hinum seinheppna Björgvini G, var hún á útopnu við að dásama brusselska styrki. 

Í Speglinum á RÚV mælti Anna Margrét með ylrækt á Reykjanesi, að sjálfsögðu með tómatastyrkjum frá Brussel. Nema hvað? Enginn er krati nema hann kunni að betla, eins og segir í alkunnu máltæki.

Á opnum fundi á Kaffi Sólon útskýrði hún hvað það er miklu betra að fá evrópska styrki afgreidda af 344 manna héraðanefnd ESB, heldur en íslensk framlög gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

En Haraldur bendir á mótsögnina í þessum áróðri.

Á Útvarpi Sögu, í þættinum “ESB, nei eða já”, upplýsti hún að framlög Íslands til Evrópusambandsins yrðu alltaf hærri en það sem við fengjum þaðan (nema kannski fyrsta kortérið). Enda er það reynsla hinna Norðurlandanna. Við borgum sem sagt “styrkina” sjálf.  

Ef kostnaður okkar yrði sá sami og hinna Norðurlandanna er árgjaldið/tapið um 7.400 milljónir nettó, fyrir að fá að vera með í klúbbnum. Samt eru “styrkirnir” æðislegir, af því að við sendum peningana til útlanda fyrst.

Styrkirnir sem koma frá Brussel en við borgum sjálf.

Haraldur Hansson lýkur síðan pistli sínum með því að víkja að þingflokki Vinstri grænna í tilefni af áskorun 100 stuðningsmanna VG um að fylgja stefnu hreyfingarinnar og láta af kosningasvikum.

Það er hins vegar reisn yfir félögum og stuðningsmönnum VG sem skora á þingflokkinn að fylgja stefnunni og láta af kosningasvikum. Stöðva aðlögunina sem kostuð er með milljarða fjáraustri frá Brussel.

Sérstaklega tek ég undir þessa setningu: “Slíkar greiðslur frá Evrópusambandinu gera að engu þær vonir að hér fari fram lýðræðisleg og hlutlæg umræða um kosti og galla aðildar.” Þetta er einmitt málið. Evrurnar frá Brussel munu gera leikinn ójafnan, eins og raunin varð í Svíþjóð, skekkja umfjöllunina og skaða lýðræðislega afgreiðslu.

/JBL

Tillaga um þjóðaratkvæði rædd eftir þinghlé

Tillaga sjö þingmanna, sem koma úr öllum flokkum utan Samfylkingar, um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögun Íslands að Evrópusambandinu verður rædd á alþingi þegar það kemur aftur saman í nóvember eftir þinghlé.

Upphaflega gerði tillagan ráð fyrir því að þjóðaratkvæðið yrði samhliða kosningum til stjórnlagaþings. Ekki gat orðið af því þar sem nýsamþykkt lög um þjóðaratkvæði gera ráð fyrir þriggja mánaða fresti frá samþykkt þings um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu og framkvæmd hennar.

Líkur eru á því að tillagan taki þeim breytingum að kosið verði um aðlögunarferlið í febrúar eða mars á næsta ári. 

Pundið sigrar evruna í Bretlandi

Þeir örfáu bresku stjórnmálamenn sem töldu fyrir nokkrum árum að evran væri gjaldmiðill er hentaði Bretum eru flestir búinir að snúa við blaðinu í góðum anda Ragnars Reykáss. Bloggarinn Haraldur Hansson dregur upp bráðskemmtilega mynd af breskri evru-umræðu.

 

Lord Mandelson

Lávarðurinn Peter Mandelson er fyrrverandi viðskiptaráðherra Evrópuríkisins (EU commissioner for trade). Hann var ákafur talsmaður þess að Bretar hættu að nota pundið og tækju upp evruna. En núna í kreppunni hefur hann tekið Reykás-snúning og er þakklátur fyrir að hafa breska sterlingspundið, réttilega. Þetta sagði hann þá og nú:   

Að standa utan evrusamstarfsins þýðir einangrun fyrir Bretland og torveldar efnahagslegar framfarir. Það þýðir að færri erlend fyrirtæki fjárfesta í landinu, færri góð störf skapast og viðskipti verða minni við evrópska samherja okkar.
Meðan við notum aðra mynt en hin Evrópuríkin er það eins og að stunda viðskipti með aðra höndina bundna fyrir aftan bak. 
          Lord Peter Mandelson, 18. maí 2003.

Samkeppnishæfni pundsins hjálpar útflutningsgreinum okkar og bætir samkeppnismöguleika innlendrar framleiðslu í Bretlandi.
          Lord Peter Mandelson, janúar 2010.

Nick Clegg

Annar breskur Reykás er Nick Clegg, leiðtogi frjálslyndra demókrata, sem eiga hluta að nýju samsteypustjórninni í Bretlandi. Hann gerði á sínum tíma grín að þeim sem vildu halda í pundið “af tilfinningalegum ástæðum”. En núna þegar öllum er ljóst að evran er þýsk/frönsk mynt, sem er sem myllusteinn um háls annarra ríkja tekur hann eigin mynt framyfir evruna. Þetta sagði hann þá og nú:
 

Ef við stöndum utan evrunnar munum við einfaldlega færast í átt til fátæktar og óskilvirkni í samanburði við evrópska nágranna sem búa við meiri hagsæld. Samt haldið þið að slíkt hlutskipti sé ásættanlegt í skiptum fyrir tilfinningaleg rök um að halda tilgangslausri stjórn á okkar eigin stýrivöxtum. 
          Nick Clegg, 2001.


Ég held að evran sé ekki málið núna. Ég geng jafnvel lengra og segi að vextir á evrusvæðinu undanfarin ár hefðu ekki verið góðir fyrir breskan efnahag. Ég játa það að evruvextir undanfarin ár hefðu verið rangir fyrir Bretland.
          Nick Clegg, 7. apríl 2010.

 

Hlutlaus rannsókn sérfræðinga í Bretlandi (think tank) gaf þá niðurstöðu að ef Bretar hefðu gert þau mistök að taka upp evuna á sínum tíma væri fjöldi atvinnulausra í landinu allt að 40% hærri en hann er og þykir mönnum þó atvinnuleysið nóg. Ekki að furða að menn vilji ekki gangast við þýsk/frönsku myntinni í dag, þessari sömu og Össur boðar sem allra meina bót.

Vinstri græn ræða ESB-umsóknina

Vinstri hreyfingin grænt framboð heldur um komandi helgi málefnaþing um ESB og önnur utanríkismál. Málþingið er opið félagsmönnum í VG en þátttakendur eru beðnir um skrá komu sína á netfangið vg@vg.is.

Á málþinginu munu talsmenn samninganefndar Íslands kynna umsóknarferlið, Ragnar Arnalds fyrrverandi formaður Heimssýnar og Brynja B. Halldórsdóttir formaður Ísafoldar flytja erindi og síðan fer fram hópastarf þar sem hver hópur tekur fyrir eina spurningu.

Meðal þeirra úrlausnarefna sem lögð verða fyrir hópana s.s. hversu vel núverandi ferli samrýmist stefnu VG og hvernig andstæðingar aðildar nái best fram markmiðum sínum. Formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, mun ásamt fleirum sitja fyrir svörum í pallborði.

Kemst ESB-umsóknin í þjóðaratkvæði?

Þingmenn úr öllum flokkum nema Samfylkingunni standa að þingsályktunartillögu sem lögð er fram í dag um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um það hvort draga eigi tilbaka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Tillagan er svohljóðandi

Alþingi ályktar að fela dómsmála- og mannréttindaráðherra að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins. Atkvæðagreiðslan fari fram samhliða kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins. Með henni eru Ásmundur Daði Einarsson og Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir úr Vg; Pétur H. Blöndal og Árni Johnsen úr Sjálfstæðisflokki; Birgir Þórarinsson Framsóknarflokki og Birgitta Jónsdóttir Hreyfingunni.

Bandaríki Norðurlanda

Bandaríki Norðurlandanna fimm myndi vera 11ta stærsta efnahagsveldi heimsins með meiri þjóðarframleiðsu en Indland, Rússland og Suður-Kóre. Norðurlöndin þurfa að sameina kraftana tiil að gera sig gildandi á heimsvísu. Á þessa leið rökstyður sænski sagnfræðingurinn Gunnar Wetterberg niðurstöður bókar sem Norðurlandaráð gerir að árbók sinni og verður kynnt í næsta mánuði.

Wetterberg bendir á að hvert um sig eru Norðurlandaþjóðirnar háðar tiltölulega einhæfu efnahagslífi; Norðmenn olíunni, Finnar Nokia, Svíar bílaiðnaðinum og Íslendingar sjávarútvegi. Saman yrðu Norðurlöndin aftur fjölhæft efnahagslíf sem hvorttveggja væri nægilega sveigjanlegt til að mæta niðursveiflum í einstöku greinum en jafnframt nógu öflugt til að vera í fremstu röð á alþjóðavísu.

Rannsóknir og þróun er sá vettvangur sem Wetterberg telur að verði vaxtarbroddur framtíðarinnar og þar gæti ríki 25 milljónir íbúar Bandaríkja Norðurlanda verið í fremstu röð.

Wetterberg leggur áherslu á að Bandaríki Norðurlandanna verði ekki sambandsríki í ætt við Evrópusambandið heldur taki fyrirkomulagið fremur miið af Sviss þar sem kantónur, eða fylki, eru sjálf sín ráðandi en eiga sameiginlega hlutdeild í landsstjórninni samkvæmt skýrum reglum.

Hér er umfjöllun um væntanlega bók Wetterberg.

Evrópuvæðing orkuauðlinda

Evrópusambandið leitar fyrir sér eftir auknum valdheimildum til að stýra orkuauðlindum aðildarþjóða í þágu heildarhagsmuna sambandsins. Evrópusambandið sér fram á orkuskort ef ekki tekst að skipuleggja orkuauðlindanýtingu aðildarþjóða. Á næstu vikum mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggja fram áætlanir um nýjar áherslur í orkustefnu sambandsins.

Samkvæmt The Parliment.com eru vaxandi áhyggjur í Brussel af hækkandi orkuverði og liltum orkuforða í Evrópusambandinu helstu ástæður þess að orkuauðlindamál verða sett í forgang.