ESB krefst aðlögunar Íslands

Í áfangaskýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um stöðu Íslands eru undirstrikaðar kröfur um aðlögun að lögum og reglum ESB. Íslendingar eiga að banna hvalveiðar enda flokkar ESB nytjar á hval undir náttúruvernd. Í skýrslunni eru settar fram kröfur um að alþingi breyti lögum um fjárfestingar útlendinga í útgerð og leyfi fyrirtækjum í ESB-ríkjum að kaupa sig inn í íslenskan sjávarútveg.

Víðtækar kröfur eru gerðar til breytinga á íslenskum landbúnaði, meðla annars að sett verði upp ný stofnun til greiðslumiðlunar.

Í skýrslunni er þess getið að væntanlegt stjórnlagaþing muni auðvelda framsal fullveldis Íslands til alþjóðlegra stofnana.

Hér er hlekkur á skýrsluna.

Þýskur prófessor: evran dauð eftir 4-6 ár

Þýski prófessorinn Max Otte var einn örfárra sem sá fyrir efnahagskreppuna. Hann er virtur fjárfestir ásamt því að eftirspurn er eftir viðhorfum hans þróun efnahagsmála. Gunnar Rögnvaldsson, sem einatt birtir skelegga pistla um Evrópusambandið, vakti athygli á nýlegu viðtali við þýska prófessorinn þar sem hann spáir dauða evrunnar sem gjaldmiðils innan 4 – 6 ára. Rökin eru einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi þolir evru-svæðið ekki þær sveiflurnar sem eru í hagkerfum jaðarríkja, Grikklands og Írlands til dæmis, og í öðru lagi næst ekki að mynda sambandsríki Evrópu í tíma til að réttlæta megi tilvist myntarinnar.

Hér er viðtalið við Otte á síðu Gunnars

Stjórnlagaþingið og frambjóðendur

Heimssýn auglýsir eftir sjónarmiðum frambjóðenda til stjórnlagaþings. Upplýsingar um afstöðu frambjóðenda til fullveldisins og hvort þeir styðji að hömlur verði settar á framsal fullveldis mun ráða því hvort Heimssýn lýsi yfir stuðningi við viðkomandi.

Heimssýn hyggst um miðjan nóvember birta lista yfir frambjóðendur sem styðja fullveldið. Óskað er eftir að sjónarmið frambjóðenda verði send á tölvupóstfangið heimssyn@heimssyn.is

 

Strandríkjaráðstefna Heimssýnar

Strandríkjaráðstefna Heimssýnar verður haldin á Grand hótel föstudaginn 5. nóvember kl. 9:00 til 12:00

Grænland, Ísland, Færeyjar og Noregur mynda samfellda landfræðilegri keðju á N-Atlantshafi. Ríkin eru virk í alþjóðlegu samstarfi og standa utan Evrópusambandsins, þótt blikur séu á lofti vegna umsóknar Íslands. Á ráðstefnunni verða ræddar áskoranir sem ríkin fjögur standa frammi fyrir á 21. öld.

Dagskrá

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður og formaður Heimssýnar – setningarávarp

Högni Höydal, þingmaður og formaður Þjóðarflokksins í Færeyjum
Norður-Atlantshafssamband sem valkostur við ESB

Heming Olaussen formaður Nei til EU í Noregi
Norsk andspyrna gegn ESB, norðurslóðir og vestnorrænt samstarf utan ESB

Josef Motzfeldt, formaður Inatsisartut og forseti grænlenska þingsins
Hagsmunir strandríkja í Norður-Atlantshafi og Evrópusambandsins eru andstæðir
(Skriflegt erindi)

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra
Er eitt strandríkið, Ísland, að hverfa?

Pallborðsumræður undir stjórn Páls Vilhjálmssonar.

Ráðstefnustjóri er Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins

Ráðstefnan eru öllum opin og aðgangur er ókeypis.

Þingmaður hótar Bændasamtökum Íslands vegna stuðnings við Heimssýn

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hótar Bændasamtökum Íslands vegna stuðnings samtakanna við Heimssýn. Hún telur tímabært að ,,endurskoða hin opinber framlög til Bændasamtakanna, á grundvelli úttektar á fjárreiðum samtakanna”, eins og segir orðrétt á bloggsíðu þingmannsins. Minnir þessi aðferðafræði þingmannsins óneitanlega á málflutning og aðferðir í einræðisríkjum þar sem ráðandi öfl ráðast gegn frjálsum félagasamtökum vegna skoðanna þeirra.

Bændasamtökin hljóta að skoða hvort rétt sé að krefjast afsökunar af hendi þingsmannsins vegna hótana og dylgja um fjárreiður samtakanna. Jafnframt er það alvarlegt að þingmaður á Alþingi komi þannig upp um þekkingarleysi sitt á fjárlögum og eftirlits með þeim sem Ríkisendurskoðun sér um. Í þessu sambandi má benda á að í gildi er svokallaður búnaðarlagasamningur sem stjórnvöld hafa gert við Bændasamtök Íslands um tiltekin verkefni sem ríkisvaldið hefur falið Bændasamtökunum og búnaðarsamböndunum á landsbyggðinni. Þá má benda á að ríkið hyggst skerða búnaðarlagasamninginn um 40% á næsta ári, samkvæmt nýlegu samkomulagi stjórnvalda við Bændasamtökin. Sjá nánar frétt á heimasíðu Bændasamtakanna. Í ár hafði hann verið lækkaður um 20%. Það er ljóst á orðum Ólínu Þorvarðardóttur að hún vill ganga enn harðar gegn samtökum bænda.