Þingmenn þriggja flokka: drögum umsóknina tilbaka

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, sem alþingi samþykkti 16. júlí 2009, byggði á þrem forsendum. Ein var aldrei fyrir hendi og hinar tvær eru brostnar. Þess vegna á að draga umsóknina tilbaka, líkt og þingsályktunartillaga frá þingmönnum úr Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingunni grænu framboði kveður á um.  Flutningsmennirnir eru Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Ásmundur Einar Daðason, Vinstri grænum og Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki.

Fyrsta forsendan fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu er að breið samstaða sé um hana meðal umsóknarþjóðar. Engu slíku var til að dreifa hér á landi. Samfylkingin var eini stjórnmálaflokkurinn sem var með fyrirvaralausa umsókn á stefnuskrá sinni og hlaut 29 prósent atkvæða. Grunnatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, eru á móti aðild og Samtök iðnaðarins sem áður voru fylgjandi hreyfa hvorki legg né liði til að styðja umsóknina.

Önnur forsendan fyrir umsókn Íslands var að hægt væri að ganga til óskuldbindandi viðræðna um aðildarsamning líkt og Norðmenn fengu fyrir 15 árum. Þessi leið er lokuð vegna þess að Evrópusambandið breytti reglum sínum um upptöku nýrra ríkja þegar stækkun til Austur-Evrópu stóð fyrir dyrum í upphafi aldar. Evrópusambandið krefst aðlögunar nýrra ríkja að sambandinu sem felur í sér að umsóknarríki taka jafnt og þétt upp lög og reglur sambandsins á meðan viðræður um aðild standa yfir. Evrópusambandið hefur hert kröfur um aðlögun. Alþingin hefur aldrei samþykkt að Ísland verði aðlagað Evrópusambandinu.

Þriðja forsendan fyrir umsókn Íslands var að aðild að Evrópusambandinu ætti að tryggja efnahagslegan stöðugleika hér á landi. Á því eina og hálfa ári sem liðið er frá því að umsóknin var send hefur reynsla jaðarríkja Evrópu, s.s. Grikklands og Írlands, sýnt ótvírætt að aðild að ESB og myntsamstarfi er engin trygging fyrir stöðugleika. Vegna fjármálakreppunnar verða gerðar róttækar breytingar á stofnsáttmála Evrópusambandsins. Evrópusambandið krefst þess að Ísland sem umsóknarríki samþykki fyrirfram þær breytingar sem verða á grunnstoð sambandsins. Umsóknin er að því leytinu óútfylltur víxlill.

Niðurstaðan getur ekki orðið önnur en sú að Ísland dragi tilbaka umsóknina um aðild að Evrópusambandinu.

Aukin miðstýring í Evrópusambandinu

Angela Merkel með Evrópu í greipum sér.Angela Merkel kanslari Þýskalands boðar víðtækar breytingar á efnahagsstjórn evru-svæðisins, þar sem 17 af 27 ríkjum Evrópusambandsins eiga með sér myntsamstarf. Efnahagsstjórnunin felur í sér samræmd laun opinberra starfsmanna, lífeyrisaldur verði hækkaður og skatta- og félagsmálalöggjöf verði sameiginleg.

Der Spiegel segir frá tillögum Merkel sem formlega verða kynntar í næstu viku. Haft er eftir þýskum stjórnvöldum að öðrum þjóðum Evrópusambandsins verði boðið að taka þátt í nýrri efnahagsstjórn evru-ríkjanna. Tilboðið mun ekki vekja áhuga þjóða sem staðfastlega hafa neitað að taka upp evru, s.s. Breta, Svía og Dana.

Veik staða jaðarríkja evru-svæðisins, Grikkja, Íra, Spánverja og Portúgala er helsta ástæðan fyrir tillögum þýsku ríkisstjórnarinnar um nýskipan efnahagsmála álfunnar. Síðast þegar jafn víðtækt sameiginlegt efnahagskerfi var reynt í Evrópu var á dögum seinni heimsstyrjaldar þegar Þjóðverjar lögðu undir sig nær alla álfuna.

Tekið héðan.

Íslensk blekking í Brussel

Aðalsamningamaður Íslands í viðræðum við Evrópusambandið, Stefán Haukur Jóhannesson, ber fyrir sig meingallaða könnun Fréttablaðsins þegar hann segir á fundi með þingmönnum Evrópusambandsins að Íslendingar hafi enn áhuga á aðild að ESB.

Evrópusambandið sér í gegnum blekkingu starfsmanns Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Evrópusambandið hefur látið Capacent-Gallup gera þrjár kannanir um afstöðu Íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu. Fyrsta könnunin var gerð síðast liðið sumar, næsta í október og sú þriðja fyrir tveim vikum.

Utanríkisþjónustuna setur niður þegar hún leggur fram þvætting úr Fréttablaðinu um afstöðu þjóðarinnar til aðildar að Evrópusambandinu.

Tekið héðan.

Stjórnlagaþingið og ESB-umsóknin

Össur SkarphéðinssonStjórnlagaþingið átti að greiða götu stjórnarskrárbreytinga sem eru nauðsynlegar áður en Ísland verður aðili að Evrópusambandinu, eins og Samfylkingin stefnir að. Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar frá í haust kemur fram að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lofar Evrópusambandinu að stjórnlagaþing muni auðvelda stjórnarskrárbreytingar. Orðrétt segir í skýrslunni

Legislation to elect an advisory constitutional assembly was adopted in June. The task of the assembly is to prepare a proposal to parliament for a new constitution. Among the issues to be addressed is delegation of powers by the State to international organisations.

Össur verður líklega að gera sér ferð til Brussel að útskýra stjórnmálaástaðið á Íslandi og hver staðan er í Evrópumálum.

90 prósent af ESB er utan EES

Aðildarsinnar reyna að telja fólki trú um að í gegnum EES-samninginn séum við með annan fótinn inn í Evrópusambandinu. Að ganga inn í ESB sé þess vegna ekki ýkja stórt skref. Einnig segja aðildarsinnar að við séum í stöðugri aðlögun að Evrópusambandinu á grunni EES-samningsins og því sé ekkert tiltökumál að aðlagast sambandinu enn frekar í aðildarviðræðum.

Sannleikurinn er allt annar. EES samningurinn er innan við tíu prósent af Evrópusambandsaðild. Verulega stórir málaflokkar standa utan EES-samningsins, svo sem landbúnaður, sjávarútvegur, tollamál, viðskiptasamningar við önnur ríki og peningamál.

A árabilinu 2000 til 2009 tóku gildi í Evrópusambandinu samtals 34 733 tilskipanir, reglur og aðrir löggjörningar. Aðeins rúmlega þrjú þúsund (3 119) af þessum löggjörningum fengu gildi í EES-samningnum, eða 8,9 prósent.

Þessar upplýsingar koma fram í grein sem Heming Olaussen formaður Nei til EU í Noregi skrifar og byggir á ítarlegri greiningu á löggjörningum í ESB og áhrif á EES-samninginn.

Umsóknin er óútfylltur víxill

Evrópusambandið stendur frammi fyrir því að gera breytingar á stofnsáttmálum sinum vegna lánsfjárkreppunnar. Markmiðið er að styrkja miðstjórnarvaldið í Brussel og veita heimildir til að samræma fjárlög aðildarríkja. Ein leið til að gera slíkar breytingar er að smeygja þeim inn í aðildarsamninga við ný ríki sambandsins. Næsta ríkið til að fara inn er Króatía og til umræðu er að gera breytingar á stofnsáttmálum í tengslum við aðildarsamninginn.

Gangi það eftir að breytingar verði gerðar á stofnsáttmálum Evrópusambandsins verður Ísland að samþykkja þær breytingar, samkvæmt skilmálum aðlögunarviðræðnanna við ESB. Í 20. grein skilmálanna, sem stundum er kallaður viðræðurammi, segir

Iceland must accept the results of any other accession negotiations as they stand at the moment of its accession.

Af þessu leiðir að umsókn Íslands er eins og óútfylltur víxill. Evrópusambandið gerir kröfu um að Ísland sætti sig hverjar þær breytingar á stofnsáttmálum sambandsins sem sambandið telur nauðsynlegt að gera. Þegar alþingi samþykkti umsóknina, 16. júlí 2009, voru engin slík skilyrði nefnd. Alþingi hefur ekki veitt ríkisstjórninni heimild til að semja við Evrópusambandið á þessum forsendum.

(Tekið héðan)

Þegar Bjarni Ben. hafnaði ESB

Fyrir réttum 50 árum fór fram umræða í íslensku stjórnsýslunni hvort við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sem þá hét Efnahagsbandalag Evrópu. Tveir menn voru sérstaklega áhugasamir um aðild Íslands, þeir Jónas Haralz hagfræðingur og Einar Benediktsson síðar sendiherra. Samkvæmt Birni S. Stefánssyni tók Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og síðar forsætisráðherra af öll tvímæli og sagði Ísland ekki eiga heima sambandi meginlandsríkjanna. Umræðan um aðild Íslands að ESB er eldri en margir ætla.

Björn skrifaði nýlega grein í Bændablaðið um reynslu sína og endurbirtir á heimasíðu sinni.

AGS afskrifar evru fyrir Ísland

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn tekur undir óopinbera stefnu Seðlabanka Íslands um verðbólgumarmið plús, þ.e. verðbólgumarkmið með  viðbótum sem gætu tengst m.a. svokölluðum þjóðhagsvarúðartækjum, inngripum á gjaldeyrismarkaði og auknu samspili peningamála og opinberra fjármála. Á þann máta mætti stuðla að meiri stöðugleika í verðlagi og fjármálum almennt.

Ekki verður betur séð en stjórnvöld taki undir greiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þar með er evruvæðing úr sögunni.

 

The authorities and staff agreed that preparation of the post-program monetary framework will be a key topic for future reviews. Over the past two years, monetary policy successfully achieved both a stabilization of the exchange rate and a sharp reduction in inflation back to its target, while at the same time securing low domestic interest rates. But it was aided considerably by capital controls, and their eventual liberalization will create considerable challenges for the implementation of monetary policy: the strong pass through of exchange-rate fluctuations to inflation, the still-impaired monetary transmission mechanism, and the potentially destabilizing impact of large capital flows will all have to be taken into account when determining the appropriate monetary policy framework for Iceland. Due consideration will also have to be paid to financial stability and macro-financial linkages. In this regard, macro-prudential tools and policies will be essential to supporting monetary policy going forward

Sjá skýrsluna hér.

Kerfislæg spilling í Brussel

Hollenskur endurskoðandi sem um árabil starfaði hjá Evrópusambandinu líkir yfirhylmingaráttu framkvæmdastjórnarinnar í Brussel við stjórnarhætti Sovétríkjanna gömlu. Spillingin í Brussel er kerfislæg og verður ekki upprætt fyrr en ESB tileinkar sér gagnsæja stjórnarhætti, segir Maarten Engwirda sem hætti í starfi fyrir tíu dögum.

Engwirda er ekki sá fyrsti sem vekur athygli á fjármálasódómunni í hjarta Evrópusambandsins. Fyrir nokkrum árum var Marta Andreasen aðalbókari rekinn úr starfi fyrir að vekja athygli á óreiðunni á bókhaldi sambandsins.

Dagblaðið Telegraph fjallar um spillinguna í Brussel þar sem æðstu embættismenn leggja sig fram um að kæfa umræðu um óreiðuna.

Ísland fær norskan stuðning í makríldeilu við ESB

Norsk stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að standa með Evrópusambandinu gegn Íslandi í deilunni um veiðar á makríl. Lisbeth Berg-Hansen sjávarútvegsráðherra bregst illa við gagnrýninni í viðtali við tvö norsk dagblöð, Nationen og Verdens gang. Samtökin Nei til EU gáfu Berg-Hansen falleinkunn og rökstuddu það m.a. með því að hún hafi gengið í lið með Evrópusambandinu í deilunni um makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga.

Berg-Hansen játar að vera aðildarsinni en segir það ekki ástæðuna fyrir samstöðunni með Evrópusambandinu heldur séu það hagsmunir norskra sjómanna. Peter Örebech sérfræðingur í alþjóðarétti tekur undir gagnrýnina á norska sjávarútvegsráðherrann. Hann segir óviðeigandi að norsk stjórnvöld leggist flöt fyrir kröfum Evrópusambandsins. Aðeins séu óverulegir norskir hagsmunir í húfi, segir Örebech.