Aðlögun skapar ólgu í Króatíu

Stefan FüleKróatía er í aðlögunarferli að Evrópusambandinu og ráðgert er að landið verði ríki númer 28 í ESB á næsta ári. Kannanir benda þó ekki til víðtæks stuðnings meðal þjóðarinnar, ein könnun segir 38 prósent þjóðarinnar fylgjandi en önnur 26 prósent. Krafa Evrópusambandsins um aðlögun að lögum og reglum sambandsins veldur megnri óánægju.

Samkvæmt frétt BBC verða margir bændur að bregða búi þar sem þeir standa ekki undir þeim kröfum sem Evrópusambandið gerir til búskaparhátta. Við inngöngu ganga landbúnaðarmál aðildarríkja undir framkvæmdastjórnina í Brussel.

Nýverið kynnti stækkunarstjóri Evrópusambandsins, Stefan Füle, stífari aðlögunarreglur að Evrópusambandinu. Viðræðum við umsóknarríki er skipt í 35 kafla og áður en köflum er lokað gerir Evrópusambandið kröfur um aðlögun umsóknarríkis að lögum og regluverki sambandsins.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra neitar því að Ísland sé í aðlögunarferli að Evrópusambandinu.

Aðeins 7,6% stuðningur við ESB-umsókn

Samkvæmt könnun sem Miðlun gerði fyrir Eyjuna telja aðeins 7,6% aðspurðra að umsókn um aðild að Evrópusambandinu sé brýnt verkefni stjórnvalda. Um 45% nefndu atvinnumál sem brýnt verkefni og rúm 33% skuldavanda heimilanna. Minnstur stuðningur við aðildarumsóknina mældist hjá yngsta aldurshópnum, 18 – 34 ára. Landsbyggðin er jafnframt afgerandi á móti umsókninni.

Spurning Miðlunar var eftirfarandi: Á næsta ári bíða stjórnvalda mörg áríðandi verkefni. Hvaða verkefni finnst þér mikilvægast að stjórnvöld beini kröftum sínum að?

Hér er hlekkur á könnun Miðlunar.

Þjóðaratkvæði um aðlögun að ESB

Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins hefur lagt fram tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um aðlögunarferlið sem Ísland er komið í gagnvart Evrópusambandinu í kjölfar umsóknar Íslands sem samþykkt var naumlega á alþingi sumarið 2009.

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan fari ekki síðar fram en 28. maí í vor.  ,,Ísland er lýðræðisríki þar sem allar skoðanir eru leyfðar,” skriifar Vigdís,  ,,og því á fólkið í landinu að segja sitt álit áður en lengra er haldið. Segi þjóðin já í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort halda eigi aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu áfram fær ríkisstjórnin skýrt umboð – en hafni þjóðin aðlögunarferlinu þá verður ekki lengra haldið – kröftum og fjármagni verður þá beitt innanlands.  Þetta er lýðræðisleg sáttaleið sem ríkisstjórnin getur ekki hafnað. “

Sjá grein á heimasíðu Vigdísar.