Heimssýn á norðanverðum Vestfjörðum

Aðalfundur Heimssýnar á Vestfjörðum í vikunni breytti nafni félagsins í Heimssýn á norðanverðum Vestfjörðum. Var það gert til að búa í haginn fyrir fleiri félög Heimssýnar í fjórðungnum.

Á aðalfundinum sem haldinn var í Einarshúsi í Bolungarvík hélt Stefán Jóhann Stefánsson hagfræðingur erindi um stöðu evrunnar. Í erindi sínu færði hann rök fyrir því að Evrópa væri ekki sérstaklega hagkvæmt gjaldmiðilsbandalag og benti á að aðstæður á Írlandi, Spáni og Ítalíu sem og í Portúgal og Grikklandi væru erfiðari í dag en þær annars væru ef ríkin hefðu hvert um sig verið með sjálfstæða mynt. Töluverðar umræður sköpuðust um erindi Stefáns Jóhanns og veltu fundarmenn því m.a. upp hvort aðrir gjaldmiðlar en króna og evra kæmu til greina fyrir Ísland.

Ný stjórn Heimssýnar á norðanverðum Vestfjörðum var kjörin á aðalfundinum. Hana skipa nú Björn Birkisson, formaður, Víðir Benediktsson og Birna Lárusdóttir. Varamenn eru Ragnheiður Hákonardóttir, Ingólfur Þorleifsson og Halla Signý Kristjánsdóttir.

Sjá frétt á BB.

Spægipylsuleiðin inn í ESB

Aðlögunarferlið inn í Evrópusambandið er varðað yfirlýsingum um góðan gagnkvæman vilja umsóknarríkis og Evrópusambandsins ljúka ferlinu. Þingmannanefndin frá Evrópusambandinu sem kom hingað á þriðjudag og fer í dag ætlaði að fá íslenska þingnefnd til að skrifa upp á yfirlýsingu um að viðræðurnar gangi vel, aðilar séu sammála um næstu skref og svo framvegis.

Yfirlýsingar af þessu tagi mynda smátt og smátt pólitískan veruleika sem stjórnsýslan fyllir út í með breytingar á íslenskum lögum og reglugerðum til samræmis við regluverk Evrópusambandsins.

Deilan um Icesave dregur fram að á bakvið hannaðan pólitískan veruleika eru grjótharðir hagsmunir Evrópuríkja sem munu bryðja íslenska hagsmuni mélinu smærra ef helför Jóhönnustjórnarinnar með lýðveldið til Brussel verður ekki stöðvuð í tíma.

Ef ekki hefði verið fyrir árvekni Evrópuvaktarinnar hefðu drög að yfirlýsingu fundar íslensku þingmannanna og þeirra frá Brussel verið samþykkt.

Spægipylsuleiðin inn í Evrópusambandið er heldur áfram uns umsóknin verður dregin tilbaka.

Evran er bjargarlaus

Amerískir hagfræðingar sem fjalla um evruna eru þeim kostum búnir að sjá hagkerfi Evrópusambandsins úr fjarlægð og eiga ekki hlut að máli, líkt og margir evrópskir starfsbræður þeirra. Grein Tyler Cowen í New York Times um evruna dregur upp þá möguleika sem eru í stöðunni fyrir myntsamstarfið. Cowen kennir við George Mason-háskólann.

Cowen segir að björgunarsjóður ESB muni ekki koma löndum eins og Írlandi, Portúgal og Grikklandi á beinu brautina. Bankarnir í þessum ríkjum glíma við þann vanda að innistæður eru metnar ótryggar af almenningi. Evru-innistæða í Þýskalandi er betri en evru-innistæða í Grikklandi, Írlandi og Portúgal – og líklega einnig Spáni.

Bankar sem búa við jafnt og stöðugt útflæði innstæðna geta ekki þjónað atvinnulífinu. Það dregur úr vexti sem aftur gerir skuldastöðum viðkomandi ríkissjóða ósjálfbæra. Vítahringnum er lokað með hárri ávöxtunarkröfu á skuldabréf ósjálfbæru ríkjanna.

Cowen bendir á að sökum þess að evru-samstarfið er ekki sterkara en veikasti hlekkurinn getur óreiðuríki eins og Grikkland stundað fjárkúgun gagnvart öðrum ríkjum og hótað að draga sig úr samstarfinu. Óttinn við keðjuverkun í fjármálakerfi álfunnar veldur því að Grikkir geta stillt Þýskalandi upp við vegg.

Kjarninn í evru-vandanum, segir Cowen, er að Evrópusambandið reyndi með pólitískri ákvörðun að verðleggja ólík verðmæti jafnt. Í markaðssamfélagi gengur það einfaldlega ekki  upp.

Jón Sigurðsson: ESB-umsókn búin að vera

Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins skrifar grein í Fréttablaðið  í kjölfar Icesave-atkvæðagreiðslunnar. Jón er aðildarsinni og hefur verið talsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í greininni segir Jón

Umsókn um aðild að ESB er gjörtapað mál. Trúlega er farsælast að stöðva ferlið með vinsamlegum hætti þegar á næstu vikum.

Jón hefur þetta að segja um ríkisstjórnina.

Þreyta og vonbrigði forystumanna ríkisstjórnarinnar eru beinlínis átakanleg. Stjórnin er bæði helsærð og helsjúk. Hún getur ekki skilað starfi en hefur ekki burði til að hrökklast frá heldur. 

Guðbergur Egill nýr formaður í Eyjafirði

Aðalfundur Heimssýnar í Eyjafirði var haldinn í Sontahúsinu á Akureyri 5. apríl. Var fundurinn vel sóttur og umræður líflegar. Nýir félagar mættu til leiks enda umræðan undanfarin misseri kveikt í mönnum.

Ásmundur Einar Daðason formaður Heimssýnar ávarpaði fundinn og tók þátt í umræðum.

Ný stjórn var kjörin, en hana skipa Guðbergur Egill Eyjólfsson, formaður, Ólafur Þ. Jónsson, Guðmundur Beck, Baldvin Sigurðsson og Þorkell Ásgeir Jóhannsson.

Rök Péturs H. Blöndal fyrir nei við Icesave

Eftirfarandi eru rök Péturs H. Blöndal þingmanns Sjálfstæðisflokksins fyrir þeirri afstöðu að segja nei við Icesave-samningunum sem verða bornir undir þjóðaratkvæði laugardaginn 9. apríl

Rök 1. Hvers vegna greiddu Bretar og Hollendingar út Icesave án samráðs við Íslendinga. Þeir þurftu þess ekki. Jú, þeir óttuðust áhlaup á banka í löndum sínum (sem hefði getað farið um alla álfuna) ef það hefði frést að innistæðueigendur væru að tapa innistæðum sínum. Þeir gerðu það til að halda uppi trausti á bankakerfið. Og senda svo íslenskum skattgreiðendum reikninginn.

Við eigum að borga fyrir traust á erlendum bönkum!!

Rök 2: Hvers vegna fóru Bretar og Hollendingar ekki í mál við Íslendinga strax í byrjun í stað þess að kúga okkur með hryðjuverkalögum, AGS og svo lánveitingum til okkar.

Jú, sérfræðingar þeirra hafa fyrir löngu komist að því að þeir stæðu þar mjög höllum fæti.

2.a. Svona málaferli mega ekki eiga sér stað vegna þess að:
Ef við vinnum (sem ég tel mjög líklegt (meira en 70%??)) þá er dugar innistæðutryggingakerfi Evrópu ekki neitt. Innistæður eru ekki tryggðar. Afleiðing gæti verið áhlaup á banka.
Ef við töpum (litlar líkur) þá er ríkisábyrgð á innistæðum og bankar geta farið að vísa í það og hegða sér óábyrgt. Það má ekki segja beint út.

2. b. Ef við vinnum (meira en 70% líkur) þá borgum við ekki krónu (eða pund eða evru), endurheimtum heiður okkar um allar jarðir og getum sagt að við höfðum aldrei átt að borga og að þetta sé dæmi um kúgun og ofbeldi.

2. c. Ef við töpum (sem alltaf er bent á sem eina kost af „JÁ” mönnum en er ólíklegt) þá verða liðin það mörg ár að öll óvissa er farin úr dæminu. Landbankinn mun mjög líklega geta greitt allar forgangskröfur og krafa Breta og Hollendinga verður bara um vexti. Það verður mjög sérstök skaðabótakrafa og sennilega verður henni vísað frá. Ef við verðum þrátt fyrir þetta (mjög litlar líkur) dæmd til að greiða þá verður það í íslenskum krónum sem þeir verða að skipta í pund og evrur. Ef engin eru gjaldeyrishöftin á þeim tíma og þeir skipta of hratt fellur gengið og þeir fá færri evrur og pund. Svo það er þeirra hagur að gengi krónunnar haldi.